Hoppa yfir valmynd
24. febrúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 35/2003

Þriðjudaginn, 24. febrúar 2004

  

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 16. maí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 16. maí 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 9. maí 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Ég hef verið á íslenskum vinnumarkaði í yfir 20 ár en aðeins unnið hjá þessu fyrirtæki í tæp tvö ár, en fyrirtækið er frá B-landi og íslenskt að hluta. Ég á lögheimili hér og er skattlagður hér, eftir á, þar sem ekki er í gildi tvísköttunarsamningur milli ríkjanna, Ég starfa alfarið á Íslandi og miðunum hér við land og við löndum öllum okkar afla hér. Ég tel hér fram til skatts en borga staðgreiðslu til B-lands, en er skattlagður eftirá hér. Ég hef engan rétt á B-landi til töku fæðingarorlofs þar sem ég á lögheimili hér og dett þar af leiðandi niður milli þessara kerfa. Ég hef engin efni á að taka þetta launalaust og kona og barn geta vart án mín verið þar sem barnið var tekið með keisara 24. apríl og hefur konan verið mikið veik síðan. Ég vil halda mig við þennan tíma sem ég setti um það er 24. apríl til 24. júní og 2. sept. til 1. okt. Er ekki stefna Norðurlandanna þar á meðal B-lands að menn detti ekki niður á milli kerfa, svona eins og í mínu tilfelli. Ég bý, lifi og starfa algerlega á Íslandi og borga hér alla óbeina skatta, tel hér fram og er skattlagður, þannig að hér hlýt ég að eiga einhvern rétt. Að lokum vil ég benda á hvort ekki er verið að mismuna mér og dóttur minni með synjun á þessum forsendum og hvort það stenst stjórnarskrá Íslands.“

  

Með bréfi, dags. 22. maí 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 21. ágúst 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 1. apríl 2003 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns 16. maí 2003. Umsóknin var ekki undirrituð af honum og með henni fylgdu engin gögn vegna vinnu hans en síðan barst önnur umsókn dags. 23. apríl 2003 ásamt launaseðlum fyrir janúar, febrúar og mars 2003 frá D og tilkynningu um fæðingarorlof þar sem sami vinnuveitandi var tilgreindur. Barn kæranda fæddist 24. apríl 2003.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 9. maí 2003 var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem hann uppfyllti ekki það skilyrði 1. mgr. 13. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) fyrir þeim greiðslum að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns). Af gögnum sem hann hafi lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK sjáist að hann uppfyllti ekki þetta skilyrði.

Á tilkynningu um fæðingarorlof er tilgreindur erlendur vinnuveitandi og engin laun eru gefin upp á kæranda í staðgreiðsluskrá RSK auk þess sem að á skattskýrslu hans kemur fram að hann sé með erlendar tekjur. Einnig liggur fyrir að kærandi viðurkennir að hann starfi hjá erlendu fyrirtæki og að greiddir séu skattar af launum hans erlendis.

Í máli þessu liggur ljóst fyrir að kærandi hefur ekki verið á innlendum vinnumarkaði og uppfyllir þannig ekki skilyrði ffl. fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Jafnframt skal á það bent að meginregla milliríkjasamninga (bæði EES-samningsins og Norðurlandasamnings sem myndi eiga hér við þar sem B-land er ekki aðili að EES-samningnum) er á þá leið að launþegi sé tryggður í því landi þar sem hann vinnur, ekki í því landi þar sem hann býr, þannig að ef kærandi á einhvers staðar rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þá er það á B-landi.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. ágúst 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. 

  

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dags. 2. september 2003, þar segir m.a.:

„Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof öðlast foreldri rétt til greiðslna úr fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum ríkjum innan evrópska efnahagssvæðisins þegar meta skal hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt þessu væri staða mín betri og réttur minn meiri ef ég hefði starfað hjá t.d. franskri, þýskri eða breskri útgerð heldur en hjá þeirri B-íslensku útgerð sem ég starfa hjá. Ég virðist því verr staddur með því að vinna innan Norðurlandanna heldur en hjá öðrum ríkjum innan evrópska efnahagssvæðisins. Samræmist það stefnu íslenskra stjórnvalda? Er ekki óeðlilegt að eiga minni rétt á hinum norræna vinnumarkaði en þeim evrópska?

Ég á engan rétt á fæðingarorlofi í B-landi þar sem öll réttindi miðast við búsetu í landinu í 3 ár.

Taka skal fram að ég er búsettur á Íslandi og starfa þar alfarið. Skipið sem ég starfa er gert út frá Íslandi og leggur allan sinn afla til vinnslu hér á landi. Skipið er að hluta til í eigu íslenskra aðila.“

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins þegar meta skal hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, enda hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á þeim tíma, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Barn kæranda er fætt 24. apríl 2003. Til þess að eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi að uppfylla skilyrði 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf frá 24. október 2002 fram að fæðingardegi barnsins, sbr. og 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000. 

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. skal útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns úr staðgreiðsluskrá. Telji foreldri upplýsingar viðkomandi skrá ekki réttar skal viðkomandi leggja fram gögn því til staðfestingar. Þegar staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra er skoðuð eru engin laun gefin upp á kæranda á framangreindu sex mánaða viðmiðunartímabili. Þá liggur fyrir að á viðmiðunartímabilinu starfaði kærandi sem stýrimaður á skipi sem skráð er á B-landi og gert út af útgerðarfyrirtæki frá B-landi. Samkvæmt því verður ekki talið að hann hafi verið á innlendum vinnumarkaði í skilningi 1. mgr. 13. gr. ffl. Veiðar skipsins hér við land breytir ekki þeirri niðurstöðu.

Með hliðsjón af framangreindu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Hann hefur því ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins er því staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum