Hoppa yfir valmynd
6. apríl 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 82/2003

Þriðjudaginn, 6. apríl 2004

     

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

  

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. nóvember 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 4. nóvember 2003. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 3. nóvember 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni. 

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Forsaga málsins er sú að ég var búsett í B-landi undanfarin 3 1/2 ár og stundaði nám í D-fagi við E-skóla mestan hluta tímans þ.e. frá haustinu 2000 – 2003. Ég var búin að kynna mér marga skóla með aðstoð frá Lín og Háskóla Íslands og vissi nokkurn veginn hvað ég ætti að gera þegar ég kæmi til B-lands, en þangað flutti ég í byrjun árs 2000. Á meðan ég var að skoða skóla og sækja um vann ég fyrir mér í B-landi. Fljótlega bauðst mér að hefja nám í iðnskóla sem heitir „G-skóla“ á I-braut. Ég byrjaði 10. maí og var í fimm vikur og lauk vorprófinu þá önn og fékk metið heila önn því ég var búin með samskonar nám við J-iðnskólann. Um sumarið komst ég svo inn í E-skóla og lauk þaðan prófi sem D sumarið 2003. Árið 2002 hafði ég einnig komið til Íslands og verið í hálft ár hjá fyrirtækinu F í starfsþjálfun, en flutti ekki lögheimili mitt til Íslands á meðan (eftir á að hyggja virðist það hafa verið mistök því kannski hefði það skipt máli hjá Tryggingastofnun Íslands einhverra hluta vegna).

Þegar námi mínu lauk sl. sumar var ég ólétt og áætlaður fæðingartími barnsins í byrjun okt. Þar sem ekki gekk að fá vinnu fékk ég einn mánuð í atvinnuleysisbætur frá ríkinu í B-landi. Allir sem hafa nýlokið námi eiga rétt á atvinnuleysisbótum allt að einu ári á meðan leit stendur að atvinnu. Þegar ég fluttist svo heim til Íslands þann 1. september var ég komin á 8. mánuð meðgöngunnar og ólíklegt að nokkur atvinnurekandi mundi ráða mig til starfa en bretti samt upp ermar og lét skrá mig hjá á vinnumiðlun. Þá var mér gert ljóst að ég ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum á Íslandi þar sem ég hafði ekki unnið allt 10 vikum síðastliðið ár (samfellt) á Íslandi. Þar fór það, ég veit ekki hvað ég hefði gert ef ég hefði ekki átt góða að.

Um leið og ég var komin með flutningsgögn lagði ég inn umsókn um fæðingarstyrk og dagpeninga eins og lög gera ráð fyrir hjá Tryggingastofnun Íslands.

Bæði ég og móðir mín vorum síðan í sambandi við starfsfólk yðar á 2. hæð til þess að reyna að fá leiðréttingu minna mála. Þar var okkur tjáð að ég ætti ekki rétt á bótum en þar sem séð væri fram á að ég fengi ekkert í B-landi og að ég væri komin með lögheimili á Íslandi og myndi fæða barnið hér, ætti ég að sækja rétt minn hér. Mér er ómögulegt að skilja hvers vegna ég nýt ekki sömu réttinda og aðrir íslenskir námsmenn, þ.e. að fá fullan fæðingarstyrk og bætur í fæðingarorlofi, þar sem ég hef sannanlega verið í námi sem jafnast á við 100% atvinnuþátttöku?! Ég geri mér grein fyrir að þetta hefur eitthvað með nám mitt í B-landi að gera en þar sem ég hef ekki rétt til fæðingarstyrks þar þá hlýt ég að hafa hann á Íslandi. Enda er ég íslenskur ríkisborgari, sem einungis fór til útlanda til að afla mér menntunar og tel óréttlátt ef ég er látin gjalda þess umfram aðra. Einnig tel ég að með því að úthluta mér fæðingastyrk upp á 50% sé þar með búið að viðurkenna að ég á rétt á Íslandi – bara ekki rétt hlutfall.“

Með bréfi, dags. 16. janúar 2004, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

  

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 29. janúar 2004. Í greinargerðinni segir:

„Kærandi flutti lögheimili sitt til B-lands 11. janúar 2000. Samkvæmt framlögðum skólavottorðum tók hún námskeið við G-skóla frá 10. maí til 20. júní 2000 og stundaði nám í H-skóla frá 17. ágúst sama ár til 20. júní 2003 með fullnægjandi námsframvindu. Kærandi flutti aftur til Íslands 1. september 2003.

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda vann hún í B-landi vorið 2000 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur þar á tímabilinu frá 31. júlí til 31. ágúst 2003. Kærandi var sjúkratryggð í B-landi frá 11. janúar 2000 til 1. september 2003, sbr. framlagt E-104 vottorð. Barn hennar er fætt 20. október 2003.

Í 1. mgr. 19. gr. ffl. segir að foreldrar í fullu námi eigi rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig og að sameiginlega eigi þau rétt á þremur mánuðum til viðbótar. Reglur um fæðingarstyrk námsmanna eru nánar útfærðar í 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar segir í 1. mgr:

“Fullt nám í skilningi laga um fæðingar- og foreldraorlof og reglugerðar þessarar telst vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á sl. 12 mánuðum fyrir fæðingu barns ... Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. ...”

Kærandi hafði lögheimili í B-landi á námstímanum og því kemur ákvæði 13. gr. reglugerðarinnar til skoðunar. Samkvæmt ákvæðinu er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Um undanþáguákvæði er að ræða sem ber að skýra þröngt.

Umtalsverður tími leið frá flutningi kæranda til B-lands og fram til þess að nám hennar hófst. Því er ekki unnt að líta svo á að skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um flutning vegna náms sé uppfyllt. Þegar af þeirri ástæðu ber að synja um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna. Einnig koma eftirfarandi atriði til skoðunar:

Samkvæmt 34. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) ber við framkvæmd laganna að taka tillit til milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland er aðili að.

Reglugerð EBE nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja gildir m.a. um greiðslur vegna veikinda, meðgöngu og fæðingar. Í 13. gr. eru ákvæði er mæla fyrir um hvaða löggjöf skuli beita. Grundvallarreglan er sú að þeir einstaklingar sem reglugerðin nær til skuli aðeins heyra undir löggjöf eins aðildarríkis og er það ríkið sem þeir eru ráðnir til starfa eða starfa sjálfstætt í. Hætti einstaklingur að heyra undir löggjöf eins aðildarríkis án þess að löggjöf annars taki við skal hann heyra undir löggjöf búsetulandsins.

Þessar reglur hafa í för með sér að ef einstaklingur stundar atvinnu á evrópska efnahagssvæðinu telst hann tryggður í vinnulandinu, og hafi hann jafnframt flutt lögheimili sitt til vinnulandsins heldur hann áfram að lúta reglum þess lands um almannatryggingar þrátt fyrir að hann láti af störfum, svo fremi sem hann hefji ekki störf í öðru landi.

Ákvæði reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá koma til fyllingar ofangreindum meginreglum. Samkvæmt 10. gr. hennar er heimilt að ákveða að einstaklingur sem tryggður er samkvæmt almannatryggingalögum sé áfram tryggður í allt að einu ári frá brottför frá Íslandi, enda sé dvölin erlendis ekki í atvinnuskyni. Samkvæmt 11. gr. telst sá sem fer af landi brott í atvinnuskyni ekki tryggður nema annað leiði af lögum, milliríkjasamningum eða ákvæðum reglugerðarinnar.

Með vísun til ofanritaðs verður að líta svo á að kærandi hafi, með starfi sínu í B-landi, fallið af tryggingaskrá hér á landi áður en nám hófst. Þar sem kærandi heyrði undir B-lenska löggjöf fram til 1. september 2003, bæði á grundvelli búsetu sinnar og vinnu/ígildi vinnu fyrir og eftir nám, gat hún ekki áunnið sér rétt til greiðslna frá Íslandi á þeim tíma og á því ekki rétt á fæðingarstyrk námsmanna.

Er í ljós kom að kærandi átti ekki rétt á fæðingarstyrk námsmanna var athugað hvort möguleiki væri á rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar sem skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um sex mánaða samfellt starf var ekki uppfyllt var ekki réttur til greiðslna úr sjóðnum.

Samkvæmt 12. gr. rgl. 909/2000 á foreldri utan vinnumarkaðar rétt á fæðingarstyrk að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Skilyrði um lögheimili er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Til þess að heimilt sé að taka til greina búsetu í öðrum ríkjum innan EES skal foreldri afhenda Tryggingastofnun ríkisins staðfesta yfirlýsingu sem sýnir tryggingatímabil sem foreldri hefur lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það heyrði undir. Kærandi hefur lagt fram E-104 vottorð til staðfestingar á loknu tryggingatímabili í B-landi og á því rétt á fæðingarstyrk til foreldris utan vinnumarkaðar samkvæmt 18. gr. ffl.“

  

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 2. febrúar 2004, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

  

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 7. mgr. 19. gr. ffl. er ráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd ákvæðisins og í 35. gr. ffl. er félagsmálaráðherra heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem sett er samkvæmt heimild í 35. gr. ffl. er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. reglugerðarinnar.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til B-lands 11. janúar 2000. Hún tók námskeið við G-skóla frá 10. maí 2000 til 20. júní sama ár. Hún hóf síðan nám við H-skóla 17. ágúst 2000 og lauk því 20. júní 2003. Fram að þeim tíma að námið hófst starfaði hún á B-lenskum vinnumarkaði.

Kærandi ól barn 20. október 2003. Hún hafði flutt lögheimili sitt til Íslands þann 1. september 2003 og uppfyllti samkvæmt því ekki skilyrði 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um lögheimili síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barnsins. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir ekki nægjanlega staðfest að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda til B-lands hafi verið nám hennar í H-skóla. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 13. gr. reglugerðarinnar um undanþágu frá lögheimilisskilyrði 12. gr. Samkvæmt því skapaði nám við H-skóla henni eigi rétt til fæðingarstyrks sem námsmanni, sbr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Með hliðsjón af framangreindu, er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns, staðfest.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um fæðingarstyrk sem námsmanni er staðfest.

  

  

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum