Hoppa yfir valmynd
16. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2003

Þriðjudaginn, 16. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 15. maí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 9. maí 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 26. febrúar 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Þann 1. september 2002 hóf ég framhaldsnám í B-fræði við D-háskólann og flutti þess vegna með fjölskylduna til E-lands í júlí sama ár. Áður en nám mitt hófst hafði ég starfað hjá sveitarfélaginu F í 4 ár, nánar tiltekið hjá G. Ég sagði starfi mínu lausu til að hefja nám um haustið 2002 en var á launum hjá G til 23. júlí 2002.

Námið hófst eins og fyrr segir þann 1. september 2002. Áætlaður námstími eru 2 ár. Þann 5. febrúar 2003 eignaðist ég son hér í E-landi og sótti því um fæðingarorlof til Tryggingastofnunar ríkisins. Þegar sonur minn fæddist hafði ég stundað 100% nám nákvæmlega í 5 mánuði og 1 viku. Mér er synjað um  fæðingarstyrk námsmanna af því að ég næ því ekki að hafa stundað nám í fulla 6 mánuði. Hér er því um 3 vikur að ræða sem ráða því að mér er synjað um  fæðingarstyrk. Hefði námið hafist í ágúst eða hefði sonur minn fæðst í mars hefði ég sem sagt átt fullan rétt á fæðingarstyrk. Mér finnst mjög óréttlátt að mér sé synjað á þessari forsendu þar sem svo litlu munar um að ég uppfylli skilyrðið um 6 mánaða nám. Einnig vil ég taka fram að ég er að hefja nám að nýju eftir að hafa verið á vinnumarkaðnum 4 ár. Lögin eru þannig að manni er gert ókleift að hefja nám að nýju eftir að hafa stundað vinnu. Þó svo að ég hafi verið í fullu starfi í 4 ár áður en námið hófst er mér líka synjað um fæðingarstyrk á þeirri forsendu að ég hafi ekki verið í samfelldu starfi í a.m.k. 6 mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Þarna myndaðist hjá mér rúmlega mánaðar glufa.

Nú spyr ég: Hvernig er hægt að ætlast til þess að fólk sem er að flytja erlendis til að hefja nám að nýju eftir að hafa verið á íslenskum vinnumarkaði, stundi vinnuna fram á síðasta dag áður en nám í öðru landi hefst? Hvernig er gert ráð fyrir að fólk geti flutt með heila fjölskyldu og búslóð á milli landa? Það tekur meira en einn dag að koma sér fyrir í nýju landi með börn, skrá sig inn í landið, finna húsnæði, leysa út gám með búslóð, sækja um leikskólapláss fyrir eldra barnið og svona gæti ég haldið lengi áfram. Það gefur augaleið að mér var ómögulegt að stunda vinnuna mína fram á síðasta dag áður en námið hér úti hófst. Það þarf varla að hafa um það fleiri orð.

Undirrituð hefur nú stundað 100% nám þá 3 mánuði sem sonur minn hefur lifað til þess eins að geta lifað af námslánum. Til þess að þetta gæti gengið þurfti maðurinn minn að minnka við sig vinnu til að vera heima með nýfædda barnið svo ég, móðirin, gæti sinnt skólanum. Það er búið að taka frá mér dýrmætan tíma með syni mínum, tíma sem ég hefði viljað eyða með honum í stað þess að þurfa að sinna skólanum. Þetta er því ekki eingöngu fjárhagslegt mál heldur einnig líka mannréttindamál.“

 

Með bréfi, dags. 16. maí 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 28. ágúst 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu barns. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar segir að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðinu um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Í 13. gr. er Tryggingastofnun ríkisins heimilað, þrátt fyrir skilyrði 12. gr. um lögheimili hér á landi við fæðingu barns og síðustu 12 mánuði á undan, að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Skilyrði fyrir greiðslum er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandinu um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum í því ríki. Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að greiða mismun sem því nemur.

Kærandi fluttist til E-lands 1. júlí 2002, hóf þar tveggja ára nám 1. september og eignaðist barn 5. febrúar 2003, þ.e. 5 mánuðum og 5 dögum eftir upphaf námsins. Áætlaður fæðingardagur var 4. febrúar 2003. Hún hafði verið í starfi hér á landi fyrir flutninginn en upplýst var að hún hefði fallið af launum 24. júlí 2002 (í bréfi frá henni dags. 16. janúar 2003 og vottorði launagreiðanda um ráðningarkjör dags. 18. desember 2002). Þar sem hún þannig uppfyllti hvorki skilyrði um að hafa verið samfellt í a.m.k. sex mánuði í námi né að hafa verið í samfelldu starfi fram til þess að námið hófst var henni synjað um greiðslu fæðingarstyrks með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 26. febrúar 2003.

Í framhaldi af kæru hefur borist starfsvottorð dags. 5. ágúst 2003 frá H, framkvæmdastjóra G um að kærandi hafi verið í launalausu leyfi frá 24. júlí til 1. september sem henni hafi verið veitt af vinnuveitanda vegna brottflutnings til E-lands. Umræddur tími hafi ekki verið tilgreindur í starfslokavottorði þar sem ekki hafi verið talin ástæða til að tilgreina annan tíma en þann sem hún var í launaðri vinnu. Lífeyristryggingasvið telur vottorð þetta, sem var gefið út meira en ári eftir að kærandi hætti störfum og er ekki í samræmi við þær upplýsingar sem áður hafði verið framvísað, ekki sýna fram á að um ráðningarsamband hafi verið að ræða á þessu tímabili og því séu ekki uppfyllt skilyrði fyrir launalausu leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli undanþáguheimildar 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar.

Á hinn bóginn hefur afgreiðslu umsóknar kæranda verið breytt til samræmis við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 59/2002 á þann veg að henni hefur verið greiddur fæðingarstyrkur foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi á grundvelli þess að þó hún uppfylli ekki skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna uppfylli hún skilyrði 13. reglugerðarinnar um að hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 1. september 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar  nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr.

Foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi eiga rétt til fæðingarstyrks á grundvelli 18. gr. ffl.

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. framangreindrar reglugerðar er réttur námsmanns til fæðingarstyrks bundinn því skilyrði að foreldri hafi átt lögheimili hér við fæðingu barns. Samkvæmt ákvæðinu gildir skilyrði um lögheimili hér við fæðingu barns einnig um rétt foreldris sem er utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Í 4. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þrátt fyrir að skilyrðum um samfellt nám í a.m.k. sex mánuði fyrir fæðingu barns sé ekki fullnægt hafi foreldri verið í samfelldu starfi í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til E-lands 1. júlí 2002. Hún hóf nám við D-háskólann þann 1. september 2002. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum þykir nægjanlega í ljós leitt að tilgangurinn með flutningi lögheimilis kæranda hafi verið fyrirhugað nám hennar. Samkvæmt því telst hún hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna námsins og uppfylla skilyrði 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði.

Kærandi ól barn 5. febrúar 2003. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki skilyrði þess að hafa verið í samfelldu námi í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða sambærilegu námi í öðrum ríkjum í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Kærandi var á vinnumarkaði á Íslandi fram til þess að hún flutti til E-lands og fékk laun frá vinnuveitanda sínum til 25. júlí 2002. Þar sem ekki var um að ræða samfellt starf fram til þess að námið hófst 1. september 2002 kemur heimild 4. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 til undanþágu frá skilyrði um sex mánaða nám eigi til álita í máli þessu.

Samkvæmt framanrituðu uppfyllir kærandi skilyrði 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Hún uppfyllir hins vegar ekki skilyrði þess að eiga rétt til fæðingarstyrks sem námsmaður þar sem hún hafði verið skemur en sex mánuði við nám fyrir fæðingu barns. Samkvæmt því ber að greiða kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar, sbr. 18. gr. ffl., enda uppfylli kærandi skilyrði 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni staðfest. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum