Hoppa yfir valmynd
16. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 12/2003

Þriðjudaginn, 16. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 26. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A með bréfi B hrl., dags. 24. febrúar 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 15. janúar 2003, um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„A, félagsmaður í D, stéttarfélagi, hefur leitað til mín og óskað aðstoðar vegna fæðingarorlofs. A eignaðist dóttur 6. febrúar 2003, og var síðasti vinnudagur hennar 4. febrúar sl. Umbj. mínum var synjað um fæðingarorlof þar sem hún uppfyllti ekki regluna um 25% starf að lágmarki síðustu 6 mánuði fyrir fæðingu barns.

A, sem er frá E-landi, hefur verið búsett og starfað á íslandi frá árinu 1999. Hún og maður hennar, sem einnig er frá E-landi, hafa haft þann hátt á að taka langt sumarfrí og dvalið í E-landi í 2-3 mánuði á sumrin.

A var starfsmaður F hf., fram til þess að hún fór í sitt árlega sumarfrí til E-lands sl. sumar. Hún hafði ákveðið að skipta um starf áður en hún fór út, fór fyrst í launað sumarfrí í júní og hluta júlí og tók svo launalaust viðbótarfrí í ágúst. Hún hóf síðan starf hjá G hf. Þegar hún kom til baka úr fríinu og hóf störf þar 17. september sl.

Þegar umbj. minn sótti um fæðingarorlof var henni tjáð að hún ætti ekki rétt á því, þar sem hún uppfyllti ekki ofangreint skilyrði.

Með bréfi þessu er þess farið á leit að afstaða TR verði endurskoðuð með vísan til a. liðar 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, þar sem segir að til samfellds starfs teljist orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti og vísa ég til eftirfarandi raka:

  1. Umbj. minn hafði samið um það í ráðningarsamningi við atvinnurekendur sína að fá lengra orlof en kjarasamningsbundið vegna ferða hennar til E-lands. Viðbótarorlof hennar fellur því undir a. lið 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000.
  2. Umbj. mínum var ókunnugt um þær reglur sem TR hefur fylgt eftir varðandi túlkun á 13. gr. laganna um fæðingarorlof og 4. gr. reglugerðarinnar.
  3. Umbj. minn hefur verið samfellt á vinnumarkaði hér á landi allt frá árinu 1999 ef frá eru taldar nokkrar vikur í framhaldi af samningsbundnu orlofi hennar á sumrin.
  4. Hefði umbj. minn verið gengin mánuði skemur með barn sitt en var, hefði engin skerðing orðið á fæðingarorlofi hennar. Þá hefði hún uppfyllt það skilyrði að vera í 25% starfi alla sex mánuði fram að fæðingu barns.

Með vísan til jafnræðisreglu er þess farið á leit að mál þetta verði endurskoðað.

Með vísan til alls ofangreinds er óskað eftir endurskoðun á umsókn umbj. míns.“

 

Með bréfi, dags. 11. mars 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 24. mars 2003. Í greinargerðinni segir:

„Samkvæmt 1. mgr 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samfellt starf er skilgreint í 4. gr. rgl. nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Samkvæmt þeirri skilgreiningu er  átt við a.m.k. 25% starf í hverjum mánuði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, eða ígildi starfs sbr. 2. mgr. 4. gr. Komi eyður í starfstíma án þess að a.-d. liðir 2. mgr. 4. gr. eigi við telst starf ekki samfellt í skilningi ffl.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 16. febrúar 2003. Til að uppfylla skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði hún þurft að vera samfellt í sex mánuði á vinnumarkaði fyrir þann dag, eða frá 15. ágúst 2002.

Samkvæmt framlögðum gögnum með umsókn um greiðslur og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá RSK var kærandi ekki á vinnumarkaði í ágúst 2002. Í bréfi kæranda til lífeyristryggingasviðs, dags. 19. desember 2002, segir að hún hafi hætt störfum áður en hún fór í frí til E-lands þar sem hún hafi vitað að hún fengi ekki þriggja mánaða leyfi frá vinnu hjá þáverandi vinnuveitanda (F hf.). Af staðgreiðsluskrá má sjá að kærandi fékk greidd laun hjá þeim vinnuveitanda í júní, en  síðan ekkert fyrr en hún hóf störf hjá nýjum vinnuveitanda í september 2002. Samsvarandi upplýsingar er að finna á launaseðlum frá G hf. sem lagðir voru fram með umsókn um greiðslur. Þar er kærandi sagður hafa hafið störf 17. september 2002. Kæranda var því synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Viðbótargögn lögð fram hjá Úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála renna stoðum undir afgreiðslu lífeyristryggingasviðs. Síðasti launaseðill kæranda frá F hf. er dagsettur 1. júlí 2002 og er vegna júnímánaðar. Eru þar gerðar upp orlofsgreiðslur ársins og desemberuppbót. Greinilegt er því að kærandi lét af störfum í þeim mánuði.

Því er haldið fram í kæru að kærandi hafi samið um það í ráðningarsamningi við atvinnurekendur sína að fá lengra orlof en kjarasamningsbundið vegna ferða hennar til E-lands. Engin gögn hafa verið lögð fram þessu til staðfestingar Ummæli  kæranda  sjálfs sbr. bréf hennar frá 19. desember 2002, ganga þvert á þessa staðhæfingu.  Launaseðlar bera það einnig með sér að starfslok hennar hjá F hf. hafi verið í júní 2002.

Varðandi töluliði 2-4 í kæru, telur lífeyristryggingasvið að þar séu reifuð sjónarmið sem óheimilt er að taka tillit til við ákvörðun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í fyrsta lagi er ekki um túlkun lífeyristryggingasviðs á lögum að ræða heldur framkvæmd á skýru lagaákvæði. Tryggingastofnun gefur út leiðbeiningarbæklinga um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði þar sem umrætt skilyrði er útskýrt. Jafnframt verður að telja laga- og reglugerðarákvæðin skýr að þessu leyti. Í öðru lagi er óheimilt skv. 1. mgr. 13. gr.  ffl. sbr. 2. gr. rgl. nr. 909/2000 að líta til annars starfstímabils við ákvörðun réttar til greiðslna en síðustu 6 mánaða fyrir upphafsdag fæðingarorlofs/fæðingardags barns. Fyrri þátttaka á vinnumarkaði hefur ekki áhrif á greiðslurétt samkvæmt lögunum. Og í  þriðja lagi getur það vart talist brot á jafnræðisreglum að afgreiða alla umsækjendur um greiðslur með sama hætti, þ.e. með hliðsjón af því hvort þeir uppfylli skýr skilyrði laga fyrir greiðslunum.

Með vísun til ofanritaðs telur lífeyristryggingasvið að ekki hafi verið grundvöllur fyrir annarri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði en þeirri sem veitt var. “

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 27. mars 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá B hrl. f.h. kæranda með bréfi dags. 1. apríl 2003, þar segir m.a.:

„Vegna umsagnar Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. mars 2003, þar sem vísað er í bréf kæranda til lífeyristryggingasviðs dags. 19. desember 2002, vil ég einungis árétta að umbj. minn er frá E-landi, sem talar ekki íslensku og hefur mjög takmarkaðan skilning á íslensku réttarkerfi. Ég legg því áherslu á að upplýsingar sem hún kann að hafa gefið TR geta verið byggðar á misskilningi hennar og starfsmanna TR. Að öðru leyti vísa ég til erindis míns til nefndarinnar og þeirra gagna sem lögð hafa verið fram.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofs­sjóði og greiðslu fæðingarstyrks er með samfelldu starfi átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sagði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með reglugerð nr. 186/2003 að til samfellds starfs teljist ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Kærandi ól barn 6. febrúar 2003. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 6. ágúst 2002 til fæðingardags barns sem telst upphafsdagur fæðingarorlofs. Með hliðsjón af því uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið í samfelldu starfi í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, þar sem hún starfaði ekki á vinnumarkaði í ágúst og fram í september 2002, né ávann sér rétt á annan hátt, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Ekki verður fallist á að kærandi hafi verið í launalausu leyfi í skilningi a. liðar 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, frá 6. ágúst 2002 fram til 17. september 2002 er hún hóf störf hjá G hf. þar sem ráðningu hennar hjá fyrri vinnuveitanda hafði lokið í júnímánuði 2002.

Lög nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof heimila ekki að vikið sé frá skilyrði um sex mánaða samfellt starf vegna starfs kæranda utan viðmiðunartímabilsins eða annarra málsástæðna sem tilgreindar eru í kæru.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum