Hoppa yfir valmynd
16. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2003

Þriðjudaginn, 16. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 10. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 7. febrúar 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 12. desember 2002, um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Þannig er mál með vexti að við vorum að flytja í B á þessu tímabili og þurfti ég að vinna við D sem sambýliskona mín rak í sumar og taldi ég nóg að skila inn launaskilagrein með skattskýrslu fyrir þetta tímabil sem spannar þennan mánuð, þannig liggur í því að ég sendi inn skilagreinina fyrir þetta tímabil fyrr, en annars hefði verið.

Ég sendi öll gögn til Tryggingastofnunar, en þau bárust til stofnunarinnar óreglulega meðal annars vegna þess að ég var fjarverandi (á sjó) var ekki hjá sama vinnuveitanda síðustu 14-16 mánuði.

Dóttir okkar var með guluna... Það var vika liðin þegar E verður veik, gulan fór ekki eins og ætlað var. Ég ætlaði bara að vera viku í landi, var ekki á leiðinni í fæðingarorlof. Við vorum ekki búin að senda inn öll gögnin þegar þetta var og áður en ég vissi þá var liðið á aðra viku í sveitarfélaginu F. Þá ræddum við, við félagsráðgjafa og hún ráðlagði okkur að drífa í að senda inn öll gögnin svo að undirritaður gæti fengið fæðingarorlof fyrir þennan tíma.

Við sendum gögnin sem við töldum þurfa og ef eitthvað hefur vantað þá er það vegna þess sem áður er rakið.

  1. Ég starfaði hjá sjálfum mér (D) varð að gera allt klárt til að taka á móti ferðamönnum. E var enn starfandi í sveitarfélaginu F á þessum tíma.
  2. 15. júní til 15. ágúst starfaði ég hjá G-hóteli. Ég og O hótelstjóri sömdum um eina upphæð og hún yrði borguð út á miðju tímabilinu.
  3. Milli þess sem ég var án vinnu þá skráði ég mig á atvinnuleysisskrá.

Ég, undirritaður, tel mig eiga rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í fæðingarorlofi og mótmæli þeim aðdróttunum sem fram koma í meðfylgjandi bréfi dags. 12. desember 2002 að ég sé að hagræða sannleikanum til að afla mér réttar til greiðslna í fæðingarorlofi.

Ég starfaði sumarið 2001 hjá H-veiðifélaginu frá maí til ágúst. Því næst starfaði ég hjá I frá september til marsloka. Á tímabilinu frá apríl til 15. maí lauk ég því sem eftir var af lögboðnu orlofi og starfaði jafnframt við D okkar að B í sveitarfélaginu J og greiddi tryggingagjald af þeim tíma sem umrætt orlof var. Hefði ég ekki verið að vinna að standsetningu húsa í B hefði ég að sjálfsögðu skráð mig atvinnulausan og þegið atvinnuleysisbætur á því tímabili. 15. maí skráði ég mig atvinnulausan þegar ég hafði lokið standsetningu á húsum í B en þar rákum við D í sumar sem ég starfaði ekki við. Ég fór síðan af atvinnuleysisskrá 15. júní þegar ég fékk vinnu á G-hóteli og starfaði þar til 15. ágúst en var þá atvinnulaus til 12. september. Frá þeim tíma hef ég starfað hjá K á skipinu L. Eins og sjá má hér að ofan hef ég verið í fullri vinnu að frátöldum þeim tíma sem ég var atvinnulaus en á þeim tíma þáði ég atvinnuleysisbætur.“

 

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dagsettri 10. október 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 2-3 mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns sama dag. Tekið var fram að ekki væri ákveðið hver skyldi vera upphafstími greiðslna og ekki fylgdi tilkynning um  fæðingarorlof heldur skattframtal 2002 vegna tekna ársins 2001.

Í staðgreiðsluskrá RSK komu ekki fram laun fyrir kæranda í apríl og ágúst og í maí, júní og júlí hafði hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur sem ekki var hægt að sjá fyrir hvaða tímabil væru greiddar nema með því að greiðsluyfirliti væri framvísað. Kæranda var því með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 25. október tilkynnt um að þegar hann hafi ákveðið hvenær hann ætli að taka fæðingarorlof þurfi afrit af launaseðlum hans fyrir ágúst, september og október 2002, yfirlit yfir greiðslur atvinnuleysisbóta, og tilkynningu um fæðingarorlof. Umsókn hans væri í biðstöðu þar til þessar upplýsingar 1ægju fyrir.

Barn kæranda fæddist 30. október 2002 þannig að til þess að hægt væri að  greiða honum úr Fæðingarorlofssjóði hefði hann þurft að vera samfellt í starfi frá 30. apríl og fram að fæðingunni.

12. nóvember barst yfirlit yfir greiðslu 55% atvinnuleysisbóta á tímabilinu 15. maí – 14. júní og 58% atvinnuleysisbóta á tímabilinu 19. ágúst -13. september.

18. nóvember barst tilkynning um fæðingarorlof og launaseðill frá K fyrir tímabilið 29. ágúst – 24. september þar sem fram kom að skráningardagar á tímabilinu voru 11.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 18. nóvember var honum tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn vegna umsóknar hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Gerð var grein fyrir því að skilyrði fyrir greiðslum væri sex mánaða samfellt starf fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns) og að skv. staðgreiðsluskrá RSK uppfylli hann ekki það skilyrði þar sem ekki hafi verið gefin upp á hann laun hér á landi frá 30. apríl – 15. maí 2002. Ef þessar upplýsingar væru ekki réttar væri nauðsynlegt að hann sendi staðfestar upplýsingar um starf hér á landi, t.d. launaseðla sem skattstjóri/sýslumaður hafi áritað um móttöku. Einnig vantaði afrit af launaseðlum hans fyrir G-hótel ehf. fyrir júlí 2002 og afrit af launaseðli hans frá K fyrir október 2002. Síðan var greint frá því að ef ekki bærust gögn frá honum yrði umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði synjað.

19. nóvember bárust launaseðlar frá G-hóteli ehf. fyrir júlí 2002 þar sem tímabilið var tilgreint sem 1. – 31. júlí 2002 og launaseðill frá K fyrir 1. október – 1. nóvember þar sem fram kom að skráningardagar voru 32.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 19. nóvember var kæranda synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að hann uppfyllti ekki skilyrði um samfellt starf í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingu barns).

21. nóvember mun kærandi hafa hringt og óskað upplýsinga um hvaða tímabil vantaði til þess að hann næði samfelldu sex mánaða starfi og fengið uppgefnar dagsetningarnar. Sama dag voru gefin upp á hann á M kr. laun sem hann væri að greiða sjálfum sér fyrir apríl 2002 og tryggingagjaldi af þeim, N kr. Kvittun fyrir greiðslu tryggingagjaldsins fylgdi með.

25. nóvember var gerð sú breyting á laununum sem hann hafði fjórum dögum áður gefið upp sem laun fyrir apríl að helmingur þeirra var færður yfir í maí og tryggingagjaldinu sem hann hafði áður greitt var skipt milli mánaðanna þannig að P kr. voru gefin upp í apríl en R kr. í maí. Sama dag barst staðfesting á því að hann hefði verið að vinna á G-hóteli 14. júní – 19. ágúst (þrátt fyrir að laun hans þaðan hefðu í staðgreiðsluskrá RSK verið gefin upp sem laun fyrir júlí og að á launaseðli kæmi fram að tímabilið væri 1. – 31. júlí 2002).

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 12. desember var kæranda tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn vegna umsóknar hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, síðan var rakin atburðarrásin um hvernig gögn hefðu borist, gerð grein fyrir því að af henni megi sjá að hann hafi fært inn leiðréttingar á tekjum sínum nákvæmlega að því marki sem þurfi til að öðlast rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, en það sé ekki í anda laga um fæðingar- og foreldraorlof að þeir sem ekki uppfylli skilyrðið um a.m.k. 25% starf í sex mánuði samfellt fyrir fæðingu barns geti búið sér til rétt til greiðslna í fæðingarorlofi með því að greiða sjálfum sér laun fyrir það/þau tímabil sem upp á vanti og loks að synjunin frá 19. nóvember standi því óbreytt.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sagði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með reglugerð nr. 186/2003 að til samfellds starfs teljist ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Barn kæranda er fætt 30. október 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 30. apríl 2002 til fæðingardags barns.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. ffl. byggir útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á upplýsingum er Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Jafnframt segir í ákvæðinu að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Upplýsingar sem aflað var úr staðgreiðsluskrá í tilefni af umsókn kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfestu ekki sex mánaða samfellt starf hans á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þann 30. október 2002. Af hálfu kæranda var skilað inn viðbótargögnum með upplýsingum um störf hans á viðmiðunartímabilinu. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála fela þau gögn eigi í sér fullnægjandi staðfestingu á því að uppfyllt sé skilyrði laganna um sex mánaða samfellt starf.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum