Hoppa yfir valmynd
16. september 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 2/2003

Þriðjudaginn, 16. september 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 14. janúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 10. janúar 2003. Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 23. október 2002 þar sem kæranda var synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

  

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Málavextir eru þeir að á haustönn 1999 hóf ég þriggja ára nám við B-deild D-háskólans og lauk námi á vorönn 2002 með E-gráðu í B-fræði. Var ég því í samfelldu námi frá upphafi samkvæmt námsskrá D-háskólans. Samkvæmt námsframvindureglum D-háskólans er heimilt að taka umframeiningar á einni önn og færa yfir á næstu. Þetta gerði ég til þess að létta á mér álagið fyrir E- ritgerð þar sem ég er með stórt heimili og vildi því hafa góðan tíma fyrir ritgerðina. Þessi tilhögun mín var einnig gerð í samræmi við reglur LÍN en þær leyfa svigrúm í námi með því að gefa námsmanni færi á að ljúka 110% námi á einni önn og nægir honum þá að ljúka 90% námi á síðari önn til að eiga rétt á óskertu námsláni frá LÍN.

Þann 23/10/2002 synjaði Tryggingastofnun umsókn minni um fæðingastyrk námsmanna á þeim forsendum að ég uppfyllti ekki kröfur um 75-100% samfellt nám skv. ákvæði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 og sbr. 14.gr reglugerðar nr. 909/2000. Mér hefur verið bent á í samskiptum mínum við starfsmenn Tryggingastofnunar (sjá meðfylgjandi tölvupóst) að litið sé svo á að ég uppfylli ekki skilyrði 19 gr. laga nr. 95/2000 vegna þeirra tilhögunar minnar að taka umframeiningar á haustönn 2001 og færa yfir á vorönn 2002.

Ég tel að sá rökstuðningur sem Tryggingastofnun færir fram sé ekki nægur til þess að synja mér um fæðingastyrk námsmanna. Í fyrsta lagi vil ég benda á það ósamræmi sem er á milli þess að vera launamaður eða námsmaður þar sem laun eru reiknuð út hlutfallslega eftir mánuðum en nám í heilum önnum. Í þessu tel ég vera mikið ósamræmi og jafnvel brot á 65 gr. stjórnarskrár Íslands þar sem segir „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“

Í öðru lagi vil ég benda á orð lögfræðings Tryggingastofnunar, sjá fylgiskjal nr. 3, þar sem hann segir: „Við skoðun á því hvað teljist 75-100% nám verður að líta til skipulags hvers skóla fyrir sig, enda er ekki hægt að setja um það ákveðnar reglur í lögum eða reglugerð vegna þess hve margbreytilegt skólakerfið er.“ Með vísan til þessara orða vil ég benda á meðfylgjandi bréf dagsett 18/11/2002 frá F yfirmanni nemendabókhalds D-háskólans en þar kemur fram að ég var í fullu og samfelldu námi samkvæmt námsframvindureglum D-háskólans.

Þær kröfur í lögum um það að námsmenn skuli uppfylla 75-100% samfellt nám til að geta átt rétt á fæðingarstyrk hljóta að vera settar til þess að koma í veg fyrir misnotkun en ekki til þess að refsa þeim sem eru í fullu námi og standa sig vel. Að lokum vil ég benda á ósamræmi í því sem stofnanir ríkisins telja vera “fullt” nám. Þar sem augljóst er að mismunandi túlkun er á því hvað telst fullt nám fer ég fram á að ég verði látin njóta vafans og úrskurðarnefnd fæðingar og orlofsmála úrskurði mér í vil.“

 

Með bréfi, dags. 22. janúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 2. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19 laganna

Með umsókn dags. 2. október 2002 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna vegna væntanlegrar fæðingar 29. nóvember 2002. Með umsókninni fylgdi staðfesting frá B-deild D-háskólans um að hún hefði stundað þar nám skólaárið 2001-2002 og var tekið fram að hún hefði lokið 18 einingum á haustönn og 9 einingum á vorönn.

Lífeyristryggingasvið synjaði með bréfi dags. 23. október umsókn um fæðingarstyrk á þeim grundvelli að hún uppfyllti ekki skilyrðið um fullt nám þar sem nám á vorönn var 9 einingar sem nái ekki 75% námi sé miðað við að fullt nám sé 15 einingar. Þess í stað yrði greiddur lægri fæðingarstyrkur foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Foreldrar í fullu námi eiga rétt á fæðingarstyrk skv. 19. gr. ffl. Fullt nám í D-háskólanum telst vera 15 einingar. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er sett það skilyrði fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna, að um sé að ræða 75-100% samfellt nám í a.m.k. sex mánuði. Í lögunum, frumvarpi til laganna eða í reglugerðinni er ekki að finna heimild til frávika frá því að námið sé a.m.k. 75% í hverjum mánuði á sex mánaða tímabilinu. Þannig hefur t.d. ekki verið talið heimilt að reikna út meðaltal tveggja anna þegar nám á annarri þeirra hefur verið minna en 75%.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. apríl 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til greiðslu fæðingarstyrks. Í 7. mgr. sömu greinar segir að ráðherra sé heimilt að kveða í reglugerð nánar á um framkvæmd þessa ákvæðis.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Samkvæmt upplýsingum frá D-háskólanum er almennt miðað við að fullt nám á önn sé 15 einingar. Það skilyrði er sett í 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar að um sé að ræða 75-100% samfellt nám í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Kærandi elur barn 4. desember 2002. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá 4. desember 2001 til og með 4. desember 2002. Nám hennar á vorönn 2002 fellur því innan tímabilsins en nám á haustönn 2001 að stærstum hluta utan þess.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráð í 18 einingar við D-háskólann á haustönn 2001. Hún var skráð í 9 eininga nám við skólann á vorönn 2002.

Samkvæmt framangreindu var kærandi í fullu námi haustönn 2001, en ekki á vorönn 2002. Uppfyllir hún því ekki það skilyrði að hafa verið í fullu námi samfellt í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur í fæðingarorlofi er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu til A í fæðingarorlofi er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum