Hoppa yfir valmynd
11. mars 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 68/2002

Mál nr. 68/2002

Þriðjudaginn, 11. mars 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 15. október 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 11. október 2002. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 2. september 2002, um að synja kæranda um framlengingu á fæðingarorlofi. 

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Þann 13. júní síðastliðinn fór ég í keisaraskurð á Landspítalanum og átti dreng. Í aðgerðinni kom í ljós blaðra á eggjastokk sem var fjarlægð. Ræktun úr sýninu leiddi í ljós illkynja æxlismyndun sem er afskaplega sjaldgæf hjá konum á mínum aldri. Krabbameinssérfræðingar við Landspítalann ákváðu í samráði við skurðlækninn minn að best væri að fjarlægja eggjastokkinn. Eftir blóðprufur var ákveðið að það yrði gert eftir 5 vikur þegar legið væri búið að dragast saman. 5 vikum seinna fór ég í aðgerðina þar sem eggjastokkurinn var fjarlægður. Þannig að á 6 vikna tímabili fór ég í 2 skurðaðgerðir. Það tók mig töluverðan tíma að jafna mig eftir seinni aðgerðina þar sem ég var varla búin að jafna mig eftir þá fyrri. Aukaverkanirnar sem fylgdu aðgerðinni voru þær að ég fékk mikla verki í axlir og rifbein og átti því erfitt með að sinna litla drengnum mínum, gefa, klæða, skipta á og framvegis þannig að systir mín var hjá mér í 5 daga til að hjálpa mér við að annast þessi verk. Ég var lengi mjög þreytt eftir svæfinguna og skurðurinn greri ekki sem skyldi og 3 vikum seinna fór ég á heilsugæsluna í B þar sem sárið var hreinsað og fjarlægðir voru saumar sem ekki eyddust.

Mikið andlegt álag fylgdi þessum hremmingum og þar af leiðandi missti ég niður brjóstamjólkina fyrir og eftir seinni aðgerðina og þurfti pelagjöf með.

Af þessum ofangreindum ástæðum tel ég að ég og sonur minn höfum ekki getað notið þess sem skyldi að vera saman heima fyrstu 2 mánuðina og þess vegna finnst okkur að við eigum rétt á að fá framlengt fæðingarorlofið okkar.“

Með bréfi, dags. 16. október 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 27. nóvember 2002. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á að lengja framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu.

Með læknisvottorði dags. 16. ágúst 2002 var sótt um framlengingu á fæðingarorlofi kæranda vegna veikinda móður í tengslum við fæðingu. Með bréfi læknasviðs dags. 2. september var umsókninni synjað.

Í meðfylgjandi greinargerð læknasviðs dags. 23. október sem barst lífeyristryggingasviði af óþekktum ástæðum ekki fyrr en 27. nóvember er gert grein fyrir því að synjunin byggist á því að veikindi kæranda falli ekki undir ákvæði 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000.

Þar sem synjun læknasviðs byggist á því að veikindi kæranda megi ekki rekja til fæðingarinnar koma þau sjónarmið sem Tryggingastofnun ríkisins hefur fram að færa fram í þeirri greinargerð.

Í greinargerð læknasviðs segir:

„A sótti um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda eftir fæðingu. Umsókn var studd vottorði D læknis, dags. 16.08.02. Þar kemur fram að hún hafi gengist undir bráðakeisaraskurð vegna sitjandafæðingar. Í aðgerðinni kom í ljós á hægri eggjastokk stór blaðra, sem var fjarlægð. Við vefjarannsókn komu í ljós byrjandi illkynja breytingar þannig að þann 29. júlí gekkst konan undir aðgerð þar sem hægri eggjastokkurinn var fjarlægður.

Í 17. gr. laga nr. 95 frá 22. maí segir:

Heimilt er að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna „alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir um þessa grein:

„Heimilt er að framlengja fæðingarorlof allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar sjálfrar sem eru í tengslum við fæðinguna. Er við það miðað að veikindi móður sem rekja megi til fæðingar valdi því að hún geti ekki annast barn sitt.“

Undirritaður telur ekki að þetta tilvik falli undir 17. grein laganna og synjaði því erindinu.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. desember 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu á fæðingarorlofi.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 3. mgr. 17. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) er heimilt að framlengja fæðingarorlof móður um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda hennar í tengslum við fæðingu. Í 5. mgr. 17. ffl. segir að þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi skv. 1.-4. mgr. skuli rökstyðja með vottorði læknis. Ennfremur segir þar að tryggingayfirlæknir skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og að ákvörðun hans sé heimilt að kæra til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála, sbr. 5. gr.

Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til framangreindra laga er skýrt kveðið á um að komi til framlengingar fæðingarorlofs verði veikindi móður að vera rakin til fæðingarinnar og valda því að hún geti ekki annast barnið, sbr. og 11. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt gögnum málsins voru veikindi kæranda ekki þess eðlis að þau yrðu rakin til fæðingar barnsins.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki öðlast rétt til framlengingar fæðingarorlofs og er því ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á beiðni um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda eftir fæðingu staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um framlengingu fæðingarorlofs vegna veikinda eftir fæðingu er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum