Hoppa yfir valmynd
11. mars 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 64/2002

Mál nr. 64/2002

Þriðjudaginn, 11. mars 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.

Þann 2. október 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 2. október 2002. 

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 20. ágúst 2002, um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Tryggingastofnun veitti mér feðraorlof 20. ágúst 2002. Hins vegar verður mér aðeins borgað 40% af launum mínum í staðinn fyrir 80%.

Þetta er vegna reglu um reikning á orlofinu. Ég vann í fimm mánuði áður en barn mitt fæddist (frá 1. desember 2001 til fæðingar barnsins 27. apríl 2002). Febrúar, mars og apríl voru ekki teknir með í reikninginn (samkvæmt reglunni eru tveir mánuðir fyrir fæðingu barnsins ekki teknir með í reikninginn) og því voru aðeins desember 2001 og janúar 2002 notaðir. Tryggingastofnun bætti við október og nóvember 2001 af því að það þurfti lágmark 4 mánuði fyrir útreikningana. Laun mín í október og nóvember voru 0 kr. og því var 0 + 0 desember + janúar reiknað. Þessu var svo deilt með fjórum. Feðraorlof mitt skerðist því mjög mikið vegna þessa tveggja mánaða.

Um leið og ég komst að því að íslensk barnsmóðir mín var ólétt byrjaði ég strax að skipuleggja vinnu og búsetu mína á Íslandi en á þeim tíma bjó ég í B-landi. Ég fékk vinnu um leið í október 2001 í gegnum internetið og kom til landsins í lok nóvember til að hefja vinnu 1. desember 2001. Ég hef unnið fulla vinnu síðan. Vinnuveitandi minn skrifaði bréf til að staðfesta þetta þegar ég sótti um feðraorlof í fyrsta sinn í júní 2002. Upprunalegt eintak þessa bréfs fylgir hér með.

Ástæða þess að ég sótti um feðraorlofið er að styrkja barnsmóður mína í krefjandi háskólanámi sínu og geta þá varið tíma með barni mínu. Þess vegna eru dagsetningarnar á fyrri umsókn minni á sama tíma og hún er í prófum. Það er ekki mögulegt fyrir okkur að lifa af þeim 40% sem reiknuð voru. Ef orlof mitt gæti hins vegar verið reiknað út frá þeim 4 mánuðum sem ég vann (laun mín í febrúar og mars voru mjög lík þeim í desember og janúar) myndi það breyta öllu fyrir okkur.

Hefði ég ekki þurft að hjúkra móður minni á B-landi, ekki þurft að spara fyrir flugfarinu og barn mitt ekki komið fyrir tímann þá hefði ég að sjálfsögðu unnið þá 6 mánuði sem nauðsynlegt er fyrir fæðingu barnsins. Ég er ekki að reyna að nota þetta sem afsakanir, heldur bara dæmi um hvernig reiknireglan gæti tekið tillit til sérstakra aðstæðna.

Vegna alls þessa bið ég ykkur að taka félagslegar aðstæður mínar fram yfir regluna en ekki öfugt eins og gert hefur verið þar sem þessi regla mun valda miklum erfiðleikum fyrir unga fjölskyldu sem er að reyna að lifa og mennta sig. Þetta er ekki tilraun til að fá meiri peninga, heldur ósk um að fá að klára háskólagráðu með því að gera öðru foreldrinu kleift að vera heima á meðan prófunum stendur.“

Með bréfi, dags. 5. nóvember 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 9. desember 2002 . Í greinargerðinni segir:

„Kærður er útreikningur á meðaltekjum vegna greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn dagsettri 16. júní 2002 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns 27. apríl 2002. Hann flutti hingað til lands frá B-landi 29. nóvember 2001 og hóf störf 1. desember. Fyrir liggur staðfesting vinnuveitanda hans dags. 16. júní um að hann hefði átt að hefja störf í október en ekki getað vegna fjölskylduveikinda og að það ásamt því að barn hafi fæðst fyrir tímann hafi valdið því að hann hafi ekki náð þeim sex mánuðum sex séu nauðsynlegir fyrir feðraorlofið. Í faxi sem barst 20. ágúst kvað vinnuveitandi hann hafa verið ráðinn til starfa í október 2001 og að áður en hann hafi komið hingað til lands hafi hann og vinnuveitandi verið í sambandi vegna skipulagningar á E-bílum en kærandi hafi reynslu við skipulagningu hinna ýmsu verkefna.

Kærandi flutti hingað til lands og hóf störf tæpum fimm mánuðum fyrir fæðingu barns síns. Á grundvelli staðfestingar vinnuveitanda hans hér á landi um að hann hefði átt að hefja störf tveimur mánuðum fyrr og að hann og vinnuveitandi hefðu verið í sambandi vegna skipulagningar á næturræstingarbílum var við afgreiðslu umsóknarinnar litið svo á að um ráðningarsamband hefði verið að ræða frá því hann hefði átt að hefja störf og að hann uppfyllti þannig skilyrði 1. mgr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2002 um samfellt starf í sex mánuði á innlendum vinnumarkað fyrir fæðingu barns. Það að við útreikning á greiðslum til hans væri reiknað með þeim tveimur mánuðum sem liðu frá því hann hefði átt að hefja störf og þar til hann raunverulega gerði það var þannig forsenda fyrir því að hann ætti yfir höfuð rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Ekki hefur verið framvísað vottorði E-104 (sem staðfestir samfellt sjúkratryggingatímabil í EES-ríki fram að flutningi til annars EES-ríkis) fyrir kæranda og ekki liggja fyrir upplýsingar um að kærandi hafi verið í starfi á B-landi fram að flutningi sínum hingað til lands. Ef hann hefði gert það hefði verið hægt að meta þann tíma sem á vantar að hann hafi verið sex mánuði samfellt í starfi hér á landi fyrir fæðingu barns síns sem starfstíma og þar með reikna eingöngu með launum hans þann tíma sem hann var orðinn búsettur og vinnandi hér á landi.

Greiðslur til kæranda hafa nú verið settar í biðstöðu þar til fyrir liggur niðurstaða úrskurðarnefndarinnar um það hvort heimilt sé við mat á því hvort réttur til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóð sé fyrir hendi að líta svo á að upphaf ráðningarsambands starfsmanns við vinnuveitanda sé sá tími þegar ætlunin var að starfsmaður hæfi störf jafnvel þó hann hafi þá ekki tekið upp búsetu hér á landi.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 9. desember 2002, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Taka skal til greina starfstíma foreldris í öðrum ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins þegar meta skal hvort foreldri hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, enda hafi foreldri unnið hér á landi í a.m.k. einn mánuð á þeim tíma sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við 12 mánaða samfellt tímabil sem lýkur tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Í athugasemdum í greinargerð segir að hafi foreldri verið skemur en 14 mánuði á vinnumarkaði en lengur en sex mánuði skuli miða við meðalheildarlaun þess yfir það tímabil sem foreldri hefur unnið að undanskildum tveimur mánuðum fyrir upphafsdag fæðingarorlofs. Sé þá að lágmarki unnt að miða við samfellt fjögurra mánaða vinnutímabil vinni foreldri í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Kærandi hóf störf hjá D 1. desember 2001. Samkvæmt staðfestingu vinnuveitanda dags. 16. júní 2002 átti kærandi að hefja hjá honum störf í október 2001 en það frestaðist vegna fjölskylduveikinda. Kærandi mun ekki hafa verið í starfi á B-landi fram til þess að hann flutti til landsins.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var kærandi talinn eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Kærður er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum til hans. Barn kæranda er fætt 27. apríl 2002. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna er samkvæmt því frá október 2001 til og með janúar 2002, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl. og athugasemdir í greinargerð. Með hliðsjón af því er útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins staðfestur. Er þá ekki tekin afstaða til þess hvort uppfyllt voru skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. fyrir rétti til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. 

Með hliðsjón af framangreindu eru útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins staðfestir. 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Útreikningur Tryggingastofnunar ríkisins á greiðslum til A eru staðfestir. 

 

 

Guðný Björnsdóttir

Gylfi Kristinsson

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum