Hoppa yfir valmynd
15. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 29/2015

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 15. október 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 29/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. janúar 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda A, að þar sem kærandi hefði fengið ráðningasamning sinn við B greiddan yrðu atvinnuleysisbætur ekki greiddar fyrir þann tíma sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þá segir að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 25. mars 2013 til 31. júlí 2013 og frá 7. mars 2014 til 15. október 2014, samtals að fjárhæð 1.829.671 kr., sem yrðu innheimtar samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 12. mars 2015. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að kærandi geti ekki talist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á því tímabili sem skaðabætur hans úr hendi B vegna tapaðra launagreiðslna nái til. Honum beri því að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun 25. mars 2013 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 31. júlí 2013. Kærandi sótti síðan um atvinnuleysisbætur á ný þann 7. mars 2014.

Þann 23. nóvember 2014 barst Vinnumálastofnun erindi frá kæranda þar sem hann greinir frá því að hann sé enn atvinnulaus og í virkri atvinnuleit en að hann hafi fengið greiddar bætur vegna ólögmætrar uppsagnar hjá B að fjárhæð 7.881.277 kr. samkvæmt dómi […]. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 11. desember 2014, var kærandi upplýstur um að sökum þess að hann hefði fengið ráðningasamning sinn við B greiddan hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilunum 25. mars 2013 til 31. júlí 2013 og 7. mars 2014 til 15. október 2014. Óskað var eftir skriflegri afstöðu kæranda í ljósi þeirra upplýsinga. Þann 23. desember 2014 barst Vinnumálastofnun erindi frá C hrl. f.h. kæranda. Þar kemur fram að kærandi hafi ekki fengið ráðningasamning sinn við B greiddan heldur einungis skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagningar B á ráðningarsamningi. Ekki væri um launatekjur að ræða enda væri fjárhæðin ekki færð í reit 2.1 á skattframtali líkt og eigi við um laun. Var því hafnað að þær skaðabætur sem kærandi fékk ættu að hafa áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta. Með bréfi, dags. 15. janúar 2015, var kæranda tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar um endurgreiðslu ofgreiddra bóta.

 Í kæru kemur fram að skaðabætur sem […] hafi dæmt kæranda þann x séu ekki launagreiðslur. Hann hafi ekki getað vitað fyrr en þá hvernig þetta mál yrði dæmt. B greiði ekki launatengd gjöld eða lífeyrissjóðsgreiðslur af þessari upphæð þar sem þetta séu ekki launagreiðslur. Málaferli þessi hafi staðið í tvö ár og kostað hann um tvær milljónir í lögfræðikostnað. Skattasérfræðingur KPMG segi að þar sem þetta séu ekki launatekjur eigi hann að færa þessar skaðabætur í kafla 2.3 á skattframtali en ekki kafla 2.1 eins og laun séu færð. Á þessu tímabili hafi hann ekki haft neinar aðrar tekjur nema atvinnuleysisbæturnar og hann eigi rétt á að fá þær þar sem hann hafi verið og sé virkur í atvinnuleit. Ekki hafi verið möguleiki fyrir hann að sjá sér farborða með öðrum hætti og kerfið bjóði ekki upp á að sótt sé um atvinnuleysisbætur aftur í tímann. Hann hafi fengið aðstoð frá sínum viðskiptabanka til að standa í þessum málaferlum því hann hefði ekki með öðrum hætti haft tök á að sækja þetta mál sem hafi getað farið á báða bóga.

Hann eigi hvorki húsnæði né bíl og sé algjörlega eignalaus. Hann sé enn atvinnulaus þó hann sé búinn að sækja um ca. 200 störf bæði hérlendis sem erlendis. Hann komist ekki einu sinni í atvinnuviðtal. Hann hafi ekki tök á að endurgreiða þessa fjárhæð til baka sem sé að hans mati hvorki sanngjörn ákvörðun né lagaleg. Hann hafi alltaf verið heiðarlegur í samskiptum við Vinnumálastofnun og geri það ekki að leik sínum að þurfa að þiggja þessar atvinnuleysisbætur. Hann hafi upplýst Vinnumálastofnun um þessa skaðabótagreiðslu til hans um leið og dómur hafi fallið í góðri trú. Hann hafi ekki átt von á því að þetta yrði niðurstaðan. Hans hugsun hafi verið sú að kanna hvort hann hefði leyfi til að sækja um atvinnuleysisbætur í nóvember 2014 þar sem hann hafi fengið skaðabæturnar greiddar í þeim mánuði. Hann hafi ekki fengið nein viðbrögð fyrr en hann hafi fengið sent stóra dómsbréfið frá Vinnumálastofnun, dags. 11. desember 2014, þar sem hann sé bæði sakaður um að hafa fengið greiddan ráðningarsamning sinn við B, sem sé ekki rétt, og einnig dæmdur til að endurgreiða fyrrgreinda fjárhæð vegna rangrar niðurstöðu Greiðslustofu þar sem þetta sé ekki greiðsla á ráðningarsamningi. Þetta séu skaðabætur vegna vanefnda á launasamningi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. maí 2015, kemur fram að málið varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilunum 25. mars 2013 til 31. júlí 2013 og 7. mars 2014 til 15. október 2014, samtals að fjárhæð 1.829.671 kr., í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Þá segir að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 25. mars 2013 í kjölfar uppsagnar sinnar hjá B. Með dómi […] hafi uppsögn kæranda verið úrskurðuð ólögmæt og honum dæmdar skaðabætur úr hendi B vegna tapaðra launagreiðslna á tímabilinu x 2013 til x 2014, að frádregnum launagreiðslum sem hann hafi haft í tekjur á umræddu tímabili, samtals að fjárhæð x kr.

Það liggi fyrir að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili sem skaðabætur hans vegna tapaðra launagreiðslna hafi náð til, að undanskildu tímabilinu 1. ágúst 2013 til 6. mars 2014 þegar kærandi hafi verið við störf hjá D. Að mati Vinnumálastofnunar geti kærandi ekki talist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili og hann fái greiddar skaðabætur vegna tapaðra launagreiðslna. Sú niðurstaða sé fengin með vísan til 13. gr., sbr. g lið 14. gr., og 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í 13. gr. laganna sé kveðið á um almenn skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Þar segi í a lið að meðal skilyrða sé að vera í virkri atvinnuleit. Þá sé útlistað nánar í 14. gr. laganna hvað felist í því að vera í virkri atvinnuleit. Þannig segi í g lið 1. mgr. 14. gr. að sá sem eigi rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði, nema ákvæði 17. eða 22. gr. laganna eigi við, geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit. Þá vísi Vinnumálastofnun ennfremur til 4. mgr. 51. gr. laganna þar sem segi að sá sem fái greiðslur vegna starfsloka teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á því tímabili sem þær greiðslur eigi við um.

Ljóst sé að kæranda hafi verið dæmdar skaðabætur úr hendi fyrrum vinnuveitanda hans, B, sem bæti honum tapaðar launagreiðslur út umsaminn ráðningartíma. Frá skaðabótagreiðslum kæranda hafi verið dregnar tekjur sem hann hafi unnið til á sama tímabili. Umræddar skaðabætur séu að mati Vinnumálastofnunar ekki samrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Líta verði á eðli skaðabótagreiðslunnar, henni sé ætlaða að bæta kæranda þann launamissi sem hann hafi orðið fyrir vegna ólögmætrar uppsagnar. Hér sé því um að ræða greiðslu sem falli undir g lið 14. gr. og 4. mgr. 51. gr. laganna. Sú niðurstaða verði enn fremur dregin af markmiðum laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. gr. laganna. Markmið laganna sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Það liggi fyrir að kærandi hafi fengið bættan launamissi vegna ólögmætrar uppsagnar hjá B út umsaminn ráðningartíma. Kærandi hafi því ekki orðið fyrir tekjutapi á tímabilinu x 2013 til x 2014.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Vinnumálastofnunar að umræddar skaðabætur séu ekki samrýmanlegar greiðslum atvinnuleysisbóta. Þá geti tilhögun skattlagningar á greiðslunni eftir lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, ekki breytt þeirri niðurstöðu. Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, vegna tímabilanna 25. mars 2013 til 31. júlí 2013 og 7. mars 2014 til 15. október 2014, samtals að fjárhæð 1.829.671. Á meðan kærandi sé á greiðsluskrá stofnunarinnar muni ofgreiddum atvinnuleysisbótum vera skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. maí 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 27. maí 2015. Þar kemur fram að skaðabæturnar sem kærandi hafi fengið greiddar vegna ólögmætrar uppsagnar hafi numið sömu fjárhæð og launaliður ráðningarsamningsins hafi kveðið á um. Ráðningarsamningur kæranda hafi kveðið á um ýmis önnur hlunnindi sem ekki hafi verið bætt með dómi […]. Til þess að ákvarða fjárhæð skaðabótanna, sem talið hafi verið að kærandi ætti rétt á vegna samningsbrota, hafi Hæstiréttur ákveðið að hafa hliðsjón af þeirri launaliðafjárhæð sem kærandi hefði fengið ef samningurinn hefði verið efndur að fullu af hálfu B. Það hafi ekki verið gert enda hafi kærandi sannarlega verið launalaus og atvinnulaus á þeim tímabilum sem Vinnumálastofnun sé nú að endurkrefja kæranda um.

Vinnumálastofnun vísi til ákvæða 13. gr, sbr. g liðar 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sem vísi til almennra skilyrða fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna og hverjir teljist vera í virkri atvinnuleit. Því sé hafnað að g liður 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi við um tilvik kæranda þar sem hann hafi sannarlega ekki átt rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann hafi verið í atvinnuleit. Dómur […] hafi verið kveðinn upp x og þá fyrst hafi kærandi átt rétt á greiðslu skaðabótanna úr hendi B, sem samkvæmt rúmri túlkun hafi verið hægt að flokka undir „aðrar greiðslur í tengslum við störf á vinnumarkaði“. Þannig að þann tíma sem hann hafi verið í virkri atvinnuleit og fengið atvinnuleysisbætur hafi hann ekki átt rétt á þessum skaðabótum og því uppfyllt fyrrnefnd skilyrði.

Kærandi telji að ákvæði 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki heldur við um hann þar sem hann hafi ekki tekið út orlof og ekki fengið greiðslur við starfslok. Starfslok kæranda hafi verið þegar samningi hans við B hafi verið sagt upp með ólögmætum hætti og þá hafi hann ekki fengið neinar greiðslur frá þeim. Fyrrnefndur dómur sé skýrasta sönnunin hvað það varði enda hefði kærandi ekki þurft að standa í kostnaðarsömum málaferlum við B ef hann hefði fengið þær greiðslur við starfslok, sem hann hafi talið sig eiga rétt á. Þær greiðslur sem kærandi hafi síðar átt rétt til vegna skaðabóta sem honum hafi verið tildæmdar þann x taki því ekki til þess tímabils sem hann hafi verið atvinnulaus og í virkri atvinnuleit. Með hliðsjón af því sé það mat kæranda að ákvæði 4. mgr. 51.gr. laganna eigi ekki við um hann.

Kærandi telji aðstæður sínar vera í samræmi við markmið laga um atvinnuleysistryggingar sem Vinnumálastofnun vísi til. Hann hafi misst starf sitt vegna ólögmætrar háttsemi vinnuveitandans og hafi orðið atvinnulaus og engar tekjur haft á þeim tímabilum.

Sú fullyrðing Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki orðið fyrir tekjutapi á tímabilinu x 2013 til x 2014 vegna dóms […] standist ekki þar sem einungis launaliður ráðningarsamningsins hafi verið bættur en ekki önnur kjör. Þá hafi heldur ekki verið tekið tillit til alls þess kostnaðar sem kærandi hafi þurft að leggja út fyrir til að sækja sér þessar skaðabætur.

Athugasemdir kæranda voru sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi, dags. 29. maí 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

2. Niðurstaða

 Í þessu máli er verið að endurskoða þá ákvörðun Vinnumálastofnun að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta að fjárhæð kr. 1.829.671 kr., sbr. bréf stofnunarinnar til kæranda, dags. 15. janúar 2015. Af þessu leiðir að þessi úrskurður beinist að því hvort grundvöllur hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við lög en ákvörðunin var reist á 13. gr., sbr. g lið 14. gr. og 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. og 3. mgr. 39. gr. sömu laga. Við úrlausn þessa máls ber til þess að líta að markmið laga um atvinnuleysistryggingar er m.a. að tryggja launamönnum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með dómi […] voru kæranda dæmdar skaðabætur úr hendi fyrrverandi vinnuveitanda síns. Fram kemur í nefndum dómi að uppsögn á ráðningarsamningi kæranda hefði verið ólögmæt og kæranda því ákvarðaðar bætur vegna tapaðra launagreiðslna á tímabilinu frá x 2013 til og með x 2014. Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi hafi átt rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á nefndum tveim tímabilum með hliðsjón af skaðabótunum sem honum voru dæmdar með tilvitnuðum dómi […]. Við úrlausn þessa verður að rýna í áðurrakin lagaákvæði, og sem hin kærða ákvörðun var reist á, þ.e. 13. gr., sbr. g. lið 14. gr. og 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. a-lið ákvæðisins, ber launamaður í skilningi laganna að uppfylla m.a. það skilyrði að vera í virkri atvinnuleit en um virka atvinnuleit er fjallað í 14. gr. laganna. Fram kemur í 1. mgr. síðastnefnda ákvæðisins að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem m.a. uppfyllir svohljóðandi skilyrði g liðar 14. gr. laganna:

á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við“ 

Í athugasemdum með 14. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ,,gert sé ráð fyrir að umsækjandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit í skilningi frumvarpsins nema reglur um minnkað starfshlutfall geti átt þar við. Hér er átt við laun fyrir hvers konar störf, þar á meðal fyrir nefndarstörf eða stjórnarsetu, enda eigi reglur um minnkað starfshlutfall ekki við. Einnig getur þetta átt við greiðslur vegna starfsloka en ekki er átt við fjármagnstekjur af hlutafé sem koma þó til frádráttar atvinnuleysisbótum.

Til viðbótar við þessi lagaákvæði er hin kærða ákvörðun reist á svohljóðandi 1. málsl. 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Hver sá sem hefur fengið greitt út ótekið orlof við starfslok eða fær greiðslur vegna starfsloka telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á því tímabili sem þær greiðslur eiga við um.“

Í athugasemdum með 51. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir að ,,atvinnuleysisbætur séu ekki greiddar fyrir sama tímabil og greiðslur vegna starfsloka eru ætlaðar fyrir. Á það við um starfslokasamninga sem ætlaðir eru að bæta atvinnuleitanda upp tekjutap sem nemur tilteknum tíma“. Einnig segir í athugasemdunum að það sama eigi við þegar „atvinnuleitandi hefur fengið greiðslur er svara til launa á kjarasamningsbundnum uppsagnarfresti án þess að gerð hafi verið krafa um vinnuframlag hans þann tíma og sá tími sé enn að líða þegar sótt er um atvinnuleysisbætur“.

Eins og komið hefur fram voru kæranda með dómi […] dæmdar skaðabætur úr hendi fyrrverandi vinnuveitanda síns. Við mat á fjárhæð skaðabótanna var litið til þeirra launa er honum bar samkvæmt ráðningarsamningnum, enda var skaðabótunum ætlað að bæta honum það tjón er hann varð fyrir vegna tapaðra launagreiðslna. Til marks um þennan tilgang bótanna var fjárhæð þeirra skert um fjárhæð tekna er hann hafði á tímabilinu, en með þeim tekjum dró hann úr tjóni sínu. Þá hafnaði dómurinn kröfu hans um skaðabætur vegna annarra hlunninda samkvæmt ráðningarsamningnum, þar sem ekki hafi verið sýnt fram á tjón hans í því samhengi.

Af framansögðu er ljóst að skaðabótagreiðslunni var ætlað að koma í stað þeirra launa er kæranda bar samkvæmt ráðningarsamningi. Greiðslan fellur því undir ákvæði 14. gr. þar sem fram kemur að þeir eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta sem eigi á sama tíma „rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði“. Orðalag 14. gr. er í raun afar rúmt hvað þetta varðar, enda eru atvinnuleysisbætur aðeins ætlaðar þeim sem eru án tekna eða annarra greiðslna er geta orðið þeim til framfærslu. Framangreind túlkun á skaðabótagreiðslu kæranda er þannig í samræmi við það markmið laganna að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.  

Það styður enn frekar framangreinda niðurstöðu að þeir sem eiga rétt til starfslokagreiðslna eiga ekki rétt til atvinnuleysisbóta á sama tíma. Þessi skilningur kemur bæði fram í athugasemdum við 14. gr. laganna og í lagatexta 4. mgr. 51. gr. Enda þótt skaðabótagreiðslan sé ekki hefðbundin starfslokagreiðsla, er ekki hjá því komist að líta á hana sem greiðslu vegna starfsloka kæranda sem taki mið af þeim launum er hann hafði samkvæmt ráðningarsaningi.

Það hefur ekki áhrif á þessa skilgreiningu greiðslunnar að hún skuli skráð í kafla 2.3 á skattframtali en ekki kafla 2.1 eins og almennt er með hefðbundnar launargreiðslur. Margar af þeim greiðslum sem falla undir flokk 2.3 í skattframtali skerða atvinnuleysisbætur. Það hefur heldur ekki áhrif að óvissa hafi ríkt um rétt kæranda til greiðslna samkvæmt ráðningarsamningi þegar hann þáði atvinnuleysisbætur. Þegar honum voru dæmdar skaðabætur brustu á hinn bóginn forsendur fyrir atvinnuleysisbótum fyrir sama tímabil. Krafa laganna um leiðréttingu ofgreiddra bóta er afar rík og skal bótaþegi ávallt endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd er, sbr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.

  

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. janúar 2015 í máli A, þess efnis að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 1.829.671 kr., er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður                               Hulda Rós Rúriksdóttir

 

3. Sératkvæði Helga Áss Grétarssonar

Ég er sammála niðurstöðukafla meirihlutans fram að þeirri málsgrein sem hefst á orðunum „[e]ins og komið hefur fram voru kæranda með dómi […]...“ en ég get hins vegar ekki fallist á þann rökstuðning sem fylgir í kjölfarið. Þessi afstaða mín byggir á því að lagafyrirmælin sem hin kærða ákvörðun er reist á séu ekki nægjanlega skýr til að svipta kæranda rétti til að fá greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilunum 25. mars 2013 til og með 31. júlí 2013 og 7. mars 2014 til og með 15. október 2014.

Niðurstaða mín í þessu máli byggir í fyrsta lagi á áðurröktum texta g liðar 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en af honum verður ekki leidd sú regla að launamaður glati fortakslaust rétti til að fá greiddar atvinnuleysistryggingar þegar aðstæður eru með þeim hætti að viðkomandi sé sagt upp og í kjölfar langvinnra málaferla sé viðurkennt að launamanninum hafi verið sagt upp með ólögmætum hætti og eigi rétt á skaðabótum sem taki mið af hinu fjárhagslega tjóni sem hann hefur orðið fyrir vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Þetta mál er af þessum toga. Þannig er ljóst að kærandi í þessu máli átti sannarlega ekki rétt á launum á margnefndum tímabilum í tengslum við starf sem hann hafði á vinnumarkaði. Einnig verður ekki fallist á að skaðabótagreiðsla sú, sem honum hlotnaðist, rúmist innan þess orðalags ákvæðisins sem vísar til annarra greiðslna „í tengslum við störf á vinnumarkaði“. Ummæli í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar styrkir þessa niðurstöðu þar eð í þeim er m.a. vísað til starfslokagreiðslna en telja verður skaðabótagreiðslu þá sem kærandi fékk verði ekki jafnað til slíkra greiðslna, sbr. rökstuðning þann sem hér fer á eftir um beitingu 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í öðru lagi ber við túlkun á fyrirmælum 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að líta til þess að skaðabótagreiðsla, sem fæst greidd, tveim árum eftir að viðurkennt er með dómi að ráðningarsambandi hafi verið slitið með ólöglegum hætti, er ekki sambærileg hefðbundinni starfslokagreiðslu. Þetta stafar m.a. af því að launþeginn er á slíku tímabili, sem rekstur dómsmáls stendur yfir, í óvissu um afdrif krafna sinna á hendur vinnuveitandanum. Við slíkar aðstæður er launþeginn því atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, nema aðstæður hans breytist, svo sem að hann fái atvinnu eða uppfylli að öðru leyti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 1. máls. 4. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á því ekki við í tilviki kæranda.

Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að kærandi hafi uppfyllt öll skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta þegar hann sótti um bætur hinn 25. mars 2013. Skaðabótagreiðslan sem hann hlaut í kjölfar margnefnds dóms breytir ekki þeirri niðurstöðu. Því er ekki fallist á ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. janúar 2015, þess efnis að kæranda beri að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann hlaut á tímabilinu frá 25. mars 2013 til 31. júlí 2013 og 7. mars 2014 til 15. október 2014.

Með þessari niðurstöðu minni er ég eingöngu að taka afstöðu til þeirra gagna og raka sem Vinnumálastofnun annars vegar, og kærandi hins vegar, hafa fært fram um gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Ég tel hins vegar með réttu lagi að Vinnumálastofnun hafi átt þess kost að endurheimta ofgreiddar atvinnuleysistryggingar til kæranda með stoð í 36. gr. og 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er hinni kærðu ákvörðun hrundið.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. janúar 2015 í máli A, þess efnis að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 1.829.671 kr., er felld úr gildi.

Helgi Áss Grétarsson

                                  

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum