Hoppa yfir valmynd
3. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 20/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. september 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 20/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með greiðsluseðlum og reglulegum tilkynningum á heimasvæðinu „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun frá 29. nóvember 2013 var kæranda, A, tilkynnt um skuldamyndun sína hjá stofnuninni. Kærandi kærði ákvarðanir stofnunarinnar um skuldamyndun til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags 12. febrúar 2015. Kærandi krefst þess að skuldin verði látin niður falla og til vara að 15% álag á skuldina verði fellt niður. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að útreikningi skuldamyndunar í máli kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 2. september 2013 og reiknaðist með 100% bótarétt. Þann 13. desember 2013 barst Vinnumálastofnun tilkynning um tekjur, dags. 9. desember 2013, þar sem kærandi áætlaði sér mánaðarlegar greiðslur frá lífeyrissjóðnum B, að fjárhæð 68.500 kr. Þann 8. janúar barst stofnuninni önnur tilkynning um tekjur frá kæranda þar sem hann áætlar sér mánaðarlegan ellilífeyri frá lífeyrissjóðnum C að fjárhæð 265.000 kr. og lífeyrissjóðnum B að fjárhæð 68.000 kr. Jafnframt tilkynnti kærandi um fjármagnstekjur að fjárhæð 173.000, eingreiðslu sem innt var af hendi um áramótin 2013-2014. Engin tekjuáætlun var stofnuð á kæranda fyrr en þann 18. september 2014 þegar greiðsluseðlar bárust frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Af þeim sökum myndaðist skuld í greiðslukerfi stofnunarinnar. Kæranda var tilkynnt um skuldamyndun með greiðsluseðlum ásamt því að fá tilkynningar á heimasvæðinu „Mínar síður“ á vef Vinnumálastofnunar.

Í kæru segir að þegar Greiðslustofa hafi sett inn tekjur á kæranda hafi hún verið að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun. Áður en íþyngjandi ákvörðun sé tekin skal leita eftir umsögn þess aðila sem íþyngjandi ákvörðun beinist gegn. Kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að tjá sig um málið eins og 13. gr. stjórnsýslulaga geri ráð fyrir heldur hafi verið tekin einhliða ákvörðun af Greiðslustofu.

Kærandi hafi skilað inn greiðsluáætlun frá lífeyrissjóði og hún sé skráð inn hjá Greiðslustofu þann 20. desember 2013. Áætlunin hafi hins vegar einungis verið skráð inn sem tekjur þennan eina mánuð. Seinna hafi komið í ljós að aðeins hluti þeirra skjala sem kærandi hafi skilað inn hafi verið skráð á hann og því hafi mikil skuld myndast. Forsenda þess að Greiðslustofa geti ákvarðað um ofgreiddar bætur sé að hún sé með í höndunum upplýsingar um rauntekjur einstaklings. Mánuð eftir mánuð hafi kærandi verið með sömu tekjur frá lífeyrissjóðnum og Greiðslustofa fengið tilkynningar um það. Þrátt fyrir það hafi ekki verið gerð tilraun til þess að hafa samband við kæranda eða leiðrétta greiðsluáætlunina sem hver maður hafi séð að væri rangt reiknuð hjá Greiðslustofu miðað við þau gögn sem stofnunin hafi haft í höndunum. Þessi mistök hafi átt að koma í ljós þegar skuldin hafi verið reiknuð frá fyrsta mánuði. Mannekla eða tæknilegar takmarkanir á tölvukerfi eigi ekki að koma í veg fyrir góða stjórnsýslu.

Kærandi hafi verið í góðri trú þegar hann hafi tekið við greiðslum frá Vinnumálastofnun enda hafi hann skilað inn áætlun um tekjur. Starfsmaður Vinnumálastofnunar á Egilsstöðum hafi átt að sjá til þess að sú áætlun yrði skráð inn á réttan hátt. Starfsmaðurinn hafi því miður ekki fylgt málinu eftir og því hafi atvinnuleysisbætur verið reiknaðar á röngum grundvelli. Kærandi hafi séð að mánaðarlega hafi verið dregin af honum umtalsverð upphæð á launaseðli upp í skuld og talið að um eðlilega lækkun vegna tekna væri að ræða. Ef hann hefði fengið tækifæri til að tjá sig um málið hefði verið hægt að koma í veg fyrir skuldina.

Varðandi rökstuðning fyrir varakröfu sé bent á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þar sem öll gögn hafi verið komin frá kæranda sé ekki hægt að kenna honum einum um þá annmarka sem hafi leitt til ákvörðunar Greiðslustofu. Einnig teljist það Greiðslustofu í óhag að starfsmenn þar hafi ekki leiðrétt greiðsluáætlun í ljósi þess að ávallt hafi verið um sömu upphæð að ræða sem hafi verið grundvöllur skuldar kæranda. Í ljósi þess telji kærandi eðlilegt að fellt sé niður 15% álag sem sett hafi verið á skuldina.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. mars 2015, segir að í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greiddar lífeyrissjóðsgreiðslur og eingreiðslu vegna fjármagnstekna samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Sökum þess að ekki hafi legið fyrir tekjuáætlun strax í upphafi hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Að auki vegna mistaka Vinnumálastofnunar hafi tekjuáætlun hans ekki verið færð í greiðslukerfi stofnunarinnar. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið skertar afturvirk í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda hafi verið tilkynnt um skuldamyndum með birtingu greiðsluseðla ásamt tilkynningu á heimasvæðinu „Mínar síður“. Kæranda beri í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt framangreindu ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Vinnumálastofnun bendi á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 þessu til stuðnings. Það liggi fyrir í máli þessu að stofnuninni hafi láðst að setja tekjuáætlun kæranda í greiðslukerfi stofnunarinnar og skuld kæranda sé því tilkomin að hluta vegna mistaka stofnunarinnar. Í ljósi orðalags 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og athugasemda með ákvæðinu í frumvarpi til laganna, þá geti það ekki leitt til þess að skuld kæranda við stofnunina verði látin niður falla. Þá hafi ofgreiddum atvinnuleysisbótum verið skuldajafnað á móti síðar tilkomnum bótum kæranda í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Útistandandi skuld kæranda við Vinnumálstofnun nemi nú 376.240 kr. Ekkert álag hafi verið lagt á skuld hans.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. apríl 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta á árunum 2013 til 2015 skv. 36. gr., sbr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar. Áður en vikið verður að ákvörðun Vinnumálastofnunar er rétt að víkja að athugasemdum kæranda er varða málsmeðferð stofnunarinnar. Kærandi byggir á því að stofnunin hafi ekki gætt að andmælarétti áður en ákvörðun um endurgreiðslu var tekin. Úrskurðarnefndin telur að stofnuninni hafi borið að gefa kæranda kost á að andmæla áður en ákvörðun var tekin um að skuldajafna ofgreiddum bótum á móti síðar tilkomnum bótum kæranda. Jafnframt telur úrskurðarnefndin að stofnuninni hafi borið að leiðbeina kæranda um rétt hans til að kæra ákvörðunina. Í ljósi þess að kærandi kærði engu að síður ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar og tjáði afstöðu sína fyrir nefndinni telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að ógilda ákvörðun stofnunarinnar.

Ef vikið er að skuldamyndun kæranda þá liggur fyrir að skuld kæranda á að meginstefnu rætur sínar að rekja til þess annars vegar að kærandi tilkynnti ekki um tekjur sínar fyrr en 13. desember 2013 og 8. janúar 2014 en hafði þegið atvinnuleysisbætur frá 2. september 2013. Hins vegar má einnig rekja skuldina til þess að tekjur kæranda voru fyrir mistök Vinnumálastofnunar færðar inn sem eingreiðslur en ekki mánaðarlegar greiðslur.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða höfuðstól skuldar sinnar við Vinnumálastofnun. Þá er stofnuninni heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum greiðslum, sbr. 3. mgr. 39. gr. laganna. Vinnumálastofnun lagði ekki 15% álag á skuld kæranda og því kemur varakrafa kæranda ekki til skoðunar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, þess efnis að hann endurgreiði stofnuninni höfuðstól skuldar sinnar, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum