Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. ágúst 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 13/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 14. janúar 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda A, að hún hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysistryggingar fyrir tímabilið 1. júlí til 31. október 2013, samtals með 15% álagi að fjárhæð 281.235 kr., sem yrðu innheimtar í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Farið var þess á leit að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins ella yrði málið sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 28. janúar 2015. Kærandi fer fram á að skuldin verði látin niður falla. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 25. júlí 2011 og reiknaðist með 96% bótarétt. Fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur til 31. október 2013.

Samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta fékk kærandi greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins. Samkvæmt tekjuáætlun sem lá fyrir hjá Vinnumálastofnun námu mánaðarlegar greiðslur hennar frá Tryggingastofnun ríkisins 15.399 kr. Raungreiðslur til hennar námu mun hærri fjárhæð, líkt og kemur fram í tekjuskráningu frá Vinnumálastofnun sem er meðal gagna málsins. Þar sem tekjuáætlun var mun lægri þá myndaðist skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar sem var innheimt með bréfi, dags. 14. janúar 2015.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að Vinnumálastofnun hafi verið með skattkort hennar og hafi haft fullan aðgang að upplýsingum um tekjur sem hún hafi fengið samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Hún hafi lagst inn á spítala þann 24. október 2013 og verið óvinnufær út árið 2013, eins og sjá megi í læknisvottorði sem fylgdi með kæru. Kærandi fullyrði að Vinnumálastofnun hafi haft fullan aðgang að upplýsingum varðandi tekjur hennar árið 2013 og hafi því geta hagað greiðslum samkvæmt því.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. mars 2015, kemur fram að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur sökum þess að tekjuáætlun hennar vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins hafi verið mun lægri en rauntekjur hennar. Í janúar 2015 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og með bréfi, dags. 14. janúar 2015, hafi kæranda verið tilkynnt að hún skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem innheimtar yrðu skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt því ákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Bendir Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í málum nr. 49/2011, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 þessu til stuðnings.

Í málinu liggi fyrir að tekjuáætlun kæranda vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins hafi verið lægri en rauntekjur hennar samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra. Hafi kærandi af þeim sökum fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í janúar 2015 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og hafi henni verið sent bréf þess efnis þann 14. janúar 2015 þar sem farið hafi verið þess á leit að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins.

Þar sem skuld kæranda að fjárhæð 281.235 kr. sé enn ógreidd telji Vinnumálastofnun að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja innheimtuaðgerðir skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið rétt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. mars 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. mars 2015. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins 1. júlí til 31. október 2013 með 15% álagi samtals að fjárhæð 281.235 kr. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að hún hafi fengið greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Samkvæmt tekjuáætlun sem lá fyrir hjá Vinnumálastofnun námu mánaðarlegar greiðslur hennar frá Tryggingastofnun ríkisins 15.399 kr. en raungreiðslur til hennar voru mun hærri. Af þessum sökum myndaðist skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar og fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 244.552 kr.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt gögnum málsins skilaði kærandi inn tekjuáætlun fyrir árið 2011 til Vinnumálastofnunar 16. ágúst 2011. Náði sú áætlun einungis út árið 2011. Þar sem ný tekjuáætlun barst ekki frá kæranda var sú eldri látin gilda og því voru áætlaðar sömu tekjur og áður hafði verið fyrir árin 2012 og 2013. Eru því ekki efni til að fella niður 15% álagið á skuld kæranda.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða höfuðstól skuldar sinnar við Vinnumálastofnun að fjárhæð 244.552 kr. ásamt 15% álagi, eða samtals að fjárhæð 281.235 kr.


Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 14. janúar 2015, þess efnis að hún endurgreiði stofnuninni höfuðstól skuldar ásamt 15% álagi samtals að fjárhæð 281.235 kr. er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum