Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 4/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. ágúst 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 4/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. nóvember 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 14. nóvember 2014 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Umsóknin var samþykkt en með vísan til starfsloka kæranda hjá B var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknarinnar 14. október 2014. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í bréfinu var einnig tekið fram að ef umsögn stéttarfélags kæranda bærist Vinnumálastofnun yrði umsóknin tekin til endurumfjöllunar, en Vinnumálastofnun bárust engar slíkar skýringar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. janúar 2015. Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og málið verði tekið til efnislegrar meðferðar að nýju. Vinnumálastofnun telur að staðfesta eigi hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur þann 7. janúar 2015. Með umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 14. október 2014 fylgdi vinnuveitendavottorð frá B. Samkvæmt því vottorði var ástæða starfsloka kæranda sú að starfssamningi hafi verið rift.

Vinnumálastofnun óskaði eftir því með bréfi, dags. 22. október 2014, að kærandi færði fram skriflega afstöðu sína á uppsögninni. Vinnumálastofnun barst greinargerð frá móðurafa kæranda vegna starfsloka kæranda þann 24. október 2014 ásamt afriti af bréfi frá B dags. 20. október 2014, þar sem starfsamningi kæranda var rift. Í riftunarbréfi B kemur fram að starfssamningi hafi verið rift án frekari fyrirvara og uppsagnarfrests sökum þess að kærandi hafi beitt 17 ára starfsmann ofbeldi á vinnustað. Í greinargerð móðurafa kæranda kemur fram að kærandi hafi verið að störfum ásamt 17 ára frænda sínum og hafi slegið til hans í þeim tilgangi að ná sambandi við hann þar sem hann hafi ekki heyrt til hans. Segir hann þá frændur hafa sæst fljótlega eftir umrætt atvik og kveður andmælarétt kæranda hafa verið brotinn með því að hann hafi ekki fengið tækifæri til að leggja fram málsbætur og kalla til vitnis þann vinnufélaga sem best hafi getað vitnað um atburðinn. Kveður hann jafnframt missagnir og ósannindi vera í atvikalýsingu vegna atburðarins. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 14. nóvember 2014, eins og fram hefur komið, og var það mat stofnunarinnar að skýringar kæranda á ástæðum starfsloka teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru kæranda, sem móttekin var 9. janúar 2015, kemur fram að kærandi byggi kröfu sína á því að skilyrði 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu ekki uppfyllt að því leyti sem sú atburðarás sem leitt hafi til fyrirvaralausrar uppsagnar kæranda geti vart talist réttlæta það að honum sé gert að sæta biðtíma í tvo mánuði og að hann verði á þeim tíma bótalaus.

Þá geri kærandi athugasemdir við lýsingu Vinnumálastofnunar á málavöxtum. Í sjálfu sér sé það rétt að kærandi hafi slegið til eða danglað í átt að samstarfsfélaga sínum. Það skuli þó tekið fram að umræddur samstarfsfélagi og kærandi séu frændur og ekki hafi nokkur alvara verið fólgin í þessu. Þeir frændur hafi verið og séu bestu vinir og hafi þetta atvik ekki orðið til þess að breyta því. Túlkun vinnuveitanda hafi verið sú að þarna hafi verið um líkamlegt ofbeldi að ræða og málið strax tekið þeim tökum. Áðurnefndum samstarfsfélaga hafi þannig verið stillt upp við vegg og boðaður á fund yfirmanna og hann látinn skrifa undir „einhverskonar atvikalýsingu“ sem síðan hafi verið notuð til þess að meðal annars rökstyðja fyrirvaralausa uppsögn kæranda. Kærandi hafi síðan verið boðaður á fund ásamt starfsmanni sem kveðst hafa orðið vitni að atburðinum og hafði miklar skoðanir á alvarleika atburðarins. Eðlilega hafi hvorki kærandi né frændi hans getað borið hönd fyrir höfuð sér og áður en þeir hafi vitað af hafi kæranda verið sagt upp störfum fyrirvaralaust sem báðum hafi þótt mjög leitt.

Eðlilegast hefði verið að málið yrði tekið öðrum og vægari tökum enda alvarleiki málsins hvorki slíkur að það réttlæti hin ofsafengnu viðbrögð vinnuveitanda né heldur þá ráðstöfun að segja kæranda upp störfum fyrirvaralaust. Þá skuli það tekið fram að engin vandamál tengd kæranda hafi komið upp og ekki annað sem liggi fyrir en að ánægja hafi verið með störf hans þann tíma sem hann hafi starfað hjá B.

Hvernig sem á það sé litið verði að telja að um sé að ræða atvik sem tekið hafi verið röngum tökum af hálfu B og að þær ráðstafanir sem gripið hafi verið til hafi ekki verið í nokkru samræmi við tilefnið. Þá verði að telja að sú leið að kalla kæranda og frænda hans til fundar yfirmanna nánast strax eftir atburðinn hafi ekki verið til þess fallin að veita þeim tækifæri til þess að koma á framfæri sinni hlið málsins, sem hefði hugsanlega getað breytt því hvernig tekið hefði verið á málinu.

Með vísan til þess að kærandi geti vart talist bera fulla ábyrgð á því að honum hafi verið sagt upp störfum og að þeir atburðir sem til þess hafi leitt hafi að hans mati ekki verið eins alvarlegir og raun ber vitni, er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og málið tekið efnislega fyrir að nýju.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 16. febrúar 2015, kemur fram að tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir eru og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum, um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á.

Vinnumálastofnun vísar í 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan sé matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ljóst sé að starfsamningi kæranda við B hafi verið rift. Ágreiningur snúist um það hvort skýringar kæranda vegna starfsloka hans teljist gildar í skilningi 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir.

Óumdeilt sé að kærandi hafi slegið til vinnufélaga síns. Í greinargerð sem hafi borist Vinnumálastofnun vegna starfsloka kæranda komi fram að málið snúist um kæranda og frænda hans og hafi þeir sæst fljótlega eftir umrætt atvik. Jafnframt hafi þetta ekki orðið þeim til vinslita. Enn fremur sé því haldið fram að atburðarás hins umdeilda atviks sé stórlega ýkt. Bendir Vinnumálastofnun á að stofnuninni hafi ekki borist umsögn stéttarfélags kæranda vegna atviksins.

Án frekari gagna og í ljósi framangreindra sjónarmiða sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda vegna starfsloka sinna hjá B sem snúi að miklu leyti að huglægri afstöðu aðila málsins, geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 54. gr. laganna. Verði að telja að starfsmaður geti gert sér grein fyrir því að honum verði sagt upp störfum ef hann ráðist með ofbeldi á samstarfsmann sinn á vinnutíma.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. febrúar 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 6. mars 2015. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

Úrskurðarnefndinni barst þann 24. mars 2015 umsögn stéttarfélagsins C vegna máls kæranda, dags. 20. mars 2015. Þar kemur fram að vegna þeirra atvika sem rakin hafa verið hafi kæranda verið sagt upp störfum fyrirvaralaust. Atburðarásin eftir atvikið hafi ekki verið á þann veg að aðilum væri gert kleift að segja frá málinu eins og það sneri að þeim. Stéttarfélagið telur að huglæg afstaða aðila skipti máli í þessu tilfelli, þar sem atvikið hafi ekki verið þess eðlis að aðilar væru einungis samstarfsmenn, heldur hafi þeir þekkst vel utan vinnu og ljóst hafi verið að ekki hafi verið ásetningur hjá kæranda um að valda frænda sínum tjóni. Þá liggi fyrir eins og segi í kæru að það hafi hvorki áður komið upp vandamál tengd kæranda né hafi verið óánægja með störf hans hjá B.

Stéttarfélagið telur að skýringar kæranda vegna starfsloka hans hjá B teljist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009 og 9. gr. laga nr. 142/2012, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Ágreiningur málsins snýst um það hvort kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur átti sök á. Við mat á því ber að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða, sbr. athugasemdir um ofangreint ákvæði í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt verður að hafa í huga að ákvörðun um frestun greiðslu í tvo mánuði er íþyngjandi í garð umsækjanda um atvinnuleysisbætur.

Með hugtakinu sök í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna er átt við tilvik sem eru þess eðlis að leggja megi þau að jöfnu við uppsögn af hálfu starfsmannsins, þ.e. að starfsmaður hafi mátt segja sér að hegðunin gat leitt til uppsagnar. Ein frumskylda launþega er að sinna starfi sínu og vinna störfin vel í samræmi við það sem almennt má gera kröfu til. Úrræði þau sem atvinnurekendur geta gripið til vegna vanefnda starfsmanna á ráðningarsamningi fara eftir umfangi og eðli vanefndanna. Alvarlegustu viðbrögð atvinnurekanda eru að reka starfsmann fyrirvara- og bótalaust úr starfi. Sök launamanns á starfsmissi sínum í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnutryggingar verður þó ekki metin út frá því hversu hörð viðbrögð atvinnurekandans eru í hverju tilviki enda er tiltekið í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar að lagareglan sé matskennd og Vinnumálastofnun þurfi því að meta hvort atvik og aðstæður hverju sinni falla að umræddri reglu.

Við mat á því hvort umsækjandi atvinnuleysisbóta hafi sjálfur átt sök á uppsögn í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geta uppsagnarbréf eða önnur gögn sem til urðu þegar til ráðningarslita kom verið mikilvæg.

Starfssamningi kæranda var rift án frekari fyrirvara og uppsagnarfrests sökum þess, eins og fram kemur í riftunarbréfi B, að kærandi hafi beitt 17 ára starfsmann ofbeldi á vinnustað. Starfsmaður sá er frændi og vinur kæranda, eins og fram kemur í gögnum málsins. Háttsemi kæranda sem var orsök riftunar starfssamnings hans hjá B getur ekki, að mati úrskurðarnefndarinnar, talist svo alvarleg að hún falli undir hugtakið sök í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þótt háttsemi kæranda hafi verið óviðeigandi á vinnustað, þá réttlætir hún ekki að litið sé svo á, í því samhengi sem háttsemi átti sér stað, að kærandi hafi átt sök á að hafa verið sagt upp störfum. Er það því mat úrskurðarnefndarinnar að skilyrði 2. málsl. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi ekki við um kæranda. Kærandi á því rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta frá 14. október 2014 að telja. Ákvörðun Vinnumálastofnunar er því felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. nóvember 2014 um niðurfellingu bótaréttar A, í tvo mánuði er felld úr gildi. Kærandi skal eiga rétt á atvinnuleysisbótum frá umsóknardegi um atvinnuleysisbætur, 14. október 2014.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum