Hoppa yfir valmynd
16. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 53/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. júní 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 53/2014.

 

1. Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 30. janúar 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans sökum þess að hann hefði þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga án þess að eiga rétt til þeirra. Þá var hann upplýstur um að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kæranda gert að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 496.584 kr. með 15% álagi, vegna tímabilsins frá 28. ágúst 2013 til 31. desember 2013. Með tölvupósti til Vinnumálastofnunar þann 3. febrúar 2014 mótmælti kærandi niðurstöðunni og óskaði eftir rökstuðningi stofnunarinnar. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 21. febrúar 2014. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerð þann 19. maí 2014. Kærandi krefst þess að endurgreiðslukrafan verði látin falla niður. Vinnumálastofnun telur að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 28. ágúst 2013. Með bréfi, dags. 15. janúar 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að kærandi hefði starfað hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu er kæranda veittur kostur á að skila inn skýringum og athugasemdum samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skýringar bárust með tölvupósti þann 21. janúar 2014 þar sem fram kemur að kærandi hafi unnið sem sjálfboðaliði hjá B. Félagið greiði engin laun og hafi engar tekjur. Með bréfi, dags. 30. janúar 2014, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar.

 Í kæru kemur fram það sé rangt að kærandi hafi verið að vinna fyrir B á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Hann hafi stofnað félagið B vorið 2013 […] Um sumarið hafi þau svo unnið hörðum höndum við að taka hugmyndina eins langt og mögulegt hafi verið en hugmyndin hafi verið að setja upp C hjá D. Sumarið 2013 hafi hann unnið að þessu verkefni launalaust því B hafi aldrei haft neinar tekjur og aldrei haft neinn á launagreiðendaskrá. […] í byrjun ágúst 2013 hafi hann farið að leita sér að vinnu. Hann hafi mætt í nokkur starfsviðtöl en það hafi gengið hægt. Flestir atvinnurekendur sem hann hafi talað við hafi beðið hann um að hafa samband eftir nokkra mánuði. Það hafi verið ljóst að hann þyrfti að byrja að borga heim og því hafi hann mætt á fund með ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Ráðgjafinn hafi sagt honum að skrá sig á atvinnuleysisbætur á meðan hann væri að leita að vinnu og hann hafi gert það. Það sé ekki rétt sem komi fram í frétt hjá DV eða á „visir.is“ að hann ásamt tveimur öðrum væru í fullu starfi hjá B.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. júlí 2014, kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysistryggingar, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt samkvæmt 35. gr. a eða 10. gr. laganna.  

Í verknaðarlýsingu 60. gr. laganna sé gerð grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er hafi orðið að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt samkvæmt 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda megi ráða að hann hafi verið við störf hjá fyrirtækinu B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Af samskiptasögu kæranda megi ekki ráða að kærandi hafi tilkynnt um starf sitt til stofnunarinnar þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 28. ágúst 2013. Kærandi hafi haldið því fram að hann hafi einungis starfað sem sjálfboðaliði hjá fyrirtækinu yfir sumartímann og hafi þar af leiðandi ekki þegið laun fyrir vinnu sína.

Að mati Vinnumálastofnunar sé ekki unnt að fallast á skýringar kæranda. Samkvæmt útprentunum af Facebook-síðu kæranda og netsíðum fréttamiðla megi ráða að kærandi hafi verið í fullu starfi hjá fyrirtækinu B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Það sé mat stofnunarinnar að kæranda hafi borið að tilkynna stofnuninni um vinnu sína. Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um starf sitt til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysistrygginga að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Þá er vísað til rökstuðnings stofnunarinnar í bréfi, dags. 21. febrúar 2014, þar sem fram komi að kærandi hafi verið skráður einn af eigendum fyrirtækisins B og starfandi framkvæmdastjóri þess. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið að sinna verkefni sem fól í sér þátttöku á vinnumarkaði þar sem hann hafi getað vænst þess að eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum fyrir, enda beri þeim sem starfi fyrir sitt eigið einkahlutafélag að reikna sér endurgjald samkvæmt 58. gr. laga nr. 90/2007 um tekjuskatt og reglum skattyfirvalda um reiknað endurgjald á tekjuárinu 2013. Ljóst sé að ef atvinnuleitanda væri frjálst að ráða sig til starfa sem sjálfboðaliði samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta væri óþarft að mæla fyrir um sérstaka undanþáguheimild líkt og í 10. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, þar sem stofnuninni sé veitt heimild til að gera sérstakan samning við frjáls félagasamtök um að atvinnuleitandi taki þátt í sjálfboðastarfi enda sé um að ræða vinnumarkaðsúrræði samkvæmt b-lið 12. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

2. Niðurstaða

 Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá kemur fram í 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að sá sem er tryggður skuli tilkynna Vinnumálastofnun án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og í 35. gr. a laganna er fjallað um það að tilkynna skuli án tafar um tilfallandi vinnu.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu B frá 28. ágúst 2013 til 31. desember 2013, þ.e. á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Kærandi kveðst einungis hafa starfað hjá fyrirtækinu um sumarið 2013 í sjálfboðavinnu. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er kærandi framkvæmdastjóri þess. Í X fékk fyrirtækið X kr. styrk frá Ð. Í tilefni þess var tekið viðtal við kæranda sem var birt í grein á heimasíðu dagblaðsins E þann X 2013. Í greininni er m.a. haft orðrétt eftir kæranda […]. Þá er greint frá því í fundargerð vegna fundar skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar G þann X, sem birt er á heimasíðu sveitarfélagsins, að borist hafi umsókn frá B til Vegagerðarinnar um gatnamót á H til að komast að svæði sem byggja eigi upp fyrir starfsemina. Fram kemur að C muni opna X og bæjarstjórn G hafi lýst yfir stuðningi við verkefnið. Einnig birtist viðtal við kæranda og aðra starfsmenn fyrirtækisins í sjónvarpsþættinum „J“ þann X þar sem starfsmennirnir greina frá framangreindum áætlunum fyrirtækisins.  

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að ráða megi af framangreindu að kærandi hafi verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi upplýst Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku sína, sbr. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Þá telur úrskurðarnefndin að ekki verði ráðið af orðalagi 60. gr. laganna að sjálfboðavinna sé undanþegin tilkynningarskyldu. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að rétt hafi verið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda. Þá skuli kærandi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber því kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar eða tímabilið frá 28. ágúst 2013 til 31. desember 2013 auk 15% álags eða samtals 496.584 kr.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. janúar 2014 í máli A, þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, samtals að fjárhæð 496.584 krónur, er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum