Hoppa yfir valmynd
19. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 19. maí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 56/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur 2. júní, 2011, 1. október 2012 og síðast 4. janúar 2014. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 24. febrúar 2014 og var umsóknin um atvinnuleysisbætur samþykkt en kæranda jafnframt tilkynnt að hún ætti eftir að sæta viðurlögum og væru eftirstöðvar viðurlaga 2,2 mánuðir. Greiðslur atvinnuleysisbóta myndu hefjast að loknu því tímabili. Þegar kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur átti hún eftir að taka út biðtíma eftir atvinnuleysisbótum og voru 2,2 mánuðir eftir af óteknum biðtíma. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 25. maí 2014. Hún krefst þess að biðtíminn verði felldur úr gildi. Til vara gerir hún þá kröfu að tekið verði mið af því að hún hafi verið á 60% atvinnuleysisbótum þegar ákvörðunin um biðtíma hafi verið tekin og að hún verði þar af leiðandi aðeins svipt bótum í samræmi við það hlutfall. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi áður sætt biðtíma á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, 31. janúar 2012 og á grundvelli 58. gr. og 1. mgr. 61. gr. laganna 12. desember 2012. Þegar kærandi hafi verið afskráð 13. janúar 2013 hafi hún ekki lokið við að taka út biðtíma sinn.

Þegar kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 4. janúar 2014 hafði hún ekki unnið samfellt í 24 mánuði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur og hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils. Þar af leiðandi þurfti hún að sæta biðtíma áður en greiðslur atvinnuleysisbóta gætu hafist að nýju.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á hinni kærðu ákvörðun og var hann veittur með bréfi, dags. 11. mars 2014.

 Í kæru sinni gerir kærandi grein fyrir afstöðu sinni til ákvarðana Vinnumálastofnunar frá 31. janúar 2012 og 7. desember 2012. Þar sem kærufrestur vegna þeirra viðurlagaákvarðana er liðinn skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistrygginga er hér einungis til umfjöllunar hvort kærandi hafi átt að sæta eftirstöðvum biðtíma þegar hún sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta 4. janúar 2014.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. júlí 2014, kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju 4. janúar 2014. Sökum þess að hún hafi ekki unnið samfellt í a.m.k. 24 mánuði frá því að hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur hafi hún ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils skv. 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ákvörðunarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 24. febrúar 2014, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hafi verið samþykkt en að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar gætu fyrst hafist þegar biðtími samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar frá 7. desember 2012 væri liðinn. Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. desember 2012 hafi verið tekin á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þar sem um væri að ræða seinni viðurlagaákvörðun vegna kæranda á sama bótatímabili hafi komið til ítrekunaráhrifa skv. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hafi henni því verið gert að sæta þriggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Í 5. mgr. 61. gr. laganna sé fjallað um hvenær biðtími samkvæmt ákvæðinu geti fallið niður og komi þar fram að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil hefjist skv. 29. gr. laganna, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Þar sem kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils þurfi hún að sæta biðtíma, sbr. ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. desember 2012, áður en greiðslur atvinnuleysisbóta geti hafist til hennar að nýju samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júlí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 25. júlí 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 4. janúar 2014 en hún hafði áður verið skráð atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun. Með ákvörðun stofnunarinnar frá 7. janúar 2012 hafði bótaréttur hennar verið felldur niður frá og með 15. desember 2012 í þrjá mánuði skv. 1. mgr. 58. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 Í 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um að nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna hefjist áður en fyrra tímabili ljúki að fullu og er lagagreinin svohljóðandi:

Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“

Kærandi hafði ekki, þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur að nýju, áunnið sér rétt til nýs bótatímabils. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um biðtíma kæranda sem tekin var 7. desember 2012 var skv. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þar sem um var að ræða seinni viðurlagaákvörðun vegna kæranda á sama bótatímabili kom til ítrekunaráhrifa skv. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eins og fram hefur komið. Henni var því gert að sæta þriggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta. Ítrekunaráhrif samkvæmt framangreindu ákvæði falla niður þegar nýtt tímabil hefst skv. 29. gr., sbr. 30. eða 31. gr. laganna.

Samkvæmt framanskráðu átti kærandi ekki rétt á nýju bótatímabili skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þegar hún sótti aftur um atvinnuleysisbætur 4. janúar 2014. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.

Kærandi krefst þess til vara að tekið verði mið af því að hún hafi verið á 60% atvinnuleysisbótum þegar ákvörðun um biðtíma hafi verið tekin. Hún telji því rétt að hún verði aðeins svipt bótum í samræmi við það hlutfall. Samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á bótaþegi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta meðan á biðtíma stendur. Af þessu ákvæði má ráða að ekki verði greiddar atvinnuleysisbætur að hluta á biðtíma. Varakröfu kæranda er því hafnað.

  

Úr­skurðar­orð

 Sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 24. febrúar 2014 að samþykkja að greiða A fyrst atvinnuleysisbætur eftir að hún hefði sætt viðurlögum í 2,2 mánuði er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Laufey Jóhannsdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum