Hoppa yfir valmynd
5. maí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 55/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. maí  2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 55/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 14. maí 2014, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 19. desember 2010 til 31. maí 2011 sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuldin næmi 49.290 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 7.394 kr. eða samtals 56.584 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, mótteknu 22. maí 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 29. ágúst 2011 og reiknaðist með 50% bótarétt.

Kæranda var sent innheimtubréf 14. maí 2014 vegna þess að hann hafði lokið töku atvinnuleysisbóta en skuldaði 49.290 kr. fyrir tímabilið 19. desember 2010 til 31. maí 2011 vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Við samkeyrslu gagnagrunns Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra vegna mars 2011 kom í ljós að kærandi hafði haft tekjur frá B að upphæð 11.004 kr. án þess að gera grein fyrir því. Óskað var skýringa kæranda með bréfi, dags. 10. júní 2011, og í skýringabréfi hans, 14. júní, kvaðst hann hafa tekið að sér blaðburð. Tekjuáætlun kæranda vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins var enn fremur nokkuð lægri en rauntekjur hans vegna tímabilsins desember 2010 til og með mars 2011 samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. Kærandi fékk þar af leiðandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Skuldamyndunin kom fram á greiðsluseðlum Vinnumálastofnunar til hans, dags. 20. júní og 1. júlí 2011.

Kæranda var sent bréf 11. janúar 2013 þar sem honum var tilkynnt að skuld hans vegna tekna í hlutastarfi fyrir árin 2009 og 2010 hafi verið felld niður að hluta. Heildarniðurfellingin hafi numið 71.438 kr. Honum var einnig tilkynnt að eftirstöðvar skuldar hans væru 49.290 kr. Kærandi sendi Vinnumálastofnun tölvupóst 15. janúar 2013 þar sem hann spurðist fyrir um það hvernig hann gæti skipt greiðslunni. Honum var ráðlagt að hafa samband við Vinnumálastofnun að nýju þegar innheimtubréf bærist honum vegna skuldarinnar.

Kæranda var tilkynnt með bréfi, dags. 14. maí 2014, að þar sem skuld hans að fjárhæð 56.684 kr. að viðbættu 15% álagi vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta væri enn ógreidd yrði hún innheimt samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Farið var fram á að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins ella yrði málið sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu.

Kærandi óskaði að skipta greiðslu skuldarinnar í tölvupósti 15. maí 2014 á 12 mánaða tímabil. Honum var tilkynnt 23. maí 2014 með tölvupósti að þar sem skuldamyndunin væri að hluta sökum þess að tekjuáætlun vegna tekna frá Tryggingastofnun ríkisins hafi ekki uppfærst, verði 15% álagningin á skuld kæranda felld niður og eftirstöðvar skuldarinnar því 49.290 kr.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að fyrirliggjandi krafa sem hljóðar uppá 56.684 kr. og hafi að sögn Vinnumálastofnunar myndast vegna of hárra tekna á því tímabili sem honum hafi verið greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi fer fram á að krafan verði látin niður falla sökum þess að Vinnumálastofnun hafi haft allar upplýsingar frá skattinum beint þannig að svona krafa eigi ekki að geta myndast. Hafi hún hins vegar myndast hafi það ekki verið vegna viljaskorts kæranda heldur vegna þess að Vinnumálastofnun hafi ekki skoðað þær upplýsingar sem hún hafi aðgang að og því eigi sá sem bæturnar þiggi ekki að hljóta refsingu fyrir heldur eigi hann að njóta vafans. Auk þess hafi kæranda verið tjáð á sínum tíma að skuldin hefði verið rituð á greiðsluseðil en hann hafi aldrei séð þann greiðsluseðil.

Kærandi bendir á að allan tímann sem hann hafi þegið atvinnuleysisbætur hafi hann gert Vinnumálastofnun grein fyrir öllum breytum sem kynnu að hafa haft áhrif á greiðslur. Hann hafi aldrei ætlað að fara á þessar bætur en hafi verið bent á að hann ætti ef til vill rétt á þeim af fulltrúa á skrifstofu um málefni fatlaðra. Þessi meðferð Vinnumálastofnunar á kæranda hafi auk þess nú þegar haft áhrif á hann andlega og líkamlega.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. júlí 2014, kemur fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna ótilkynntra tekna í mars 2011. Tekjuáætlun kæranda hafi einnig verið nokkuð lægri en rauntekjur hans fyrir tímabilið desember 2010 til með mars 2011. Kæranda hafi verið tilkynnt að skuldin væri enn ógreidd með bréfi, dags. 14. maí 2014, og yrði hún innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Fram kemur að í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.

Í málinu liggi fyrir að tekjuáætlun kæranda vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins hafi verið nokkuð lægri en rauntekjur hans samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra. Hafi kærandi fengið af þeim sökum ofgreiddar atvinnuleysisbætur á ofangreindu tímabili. Kærandi hafi enn fremur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur í mars 2011 vegna tekna hans frá B. Þar sem skuldamyndun kæranda hafi að hluta verið vegna mistaka Vinnumálastofnunar telji stofnunin sér ekki heimilt að leggja á 15% álag líkt og heimilt sé skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 22. ágúst 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins 19. desember 2010 til 31. maí 2011 að fjárhæð 49.290 kr. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að hann fékk á umræddu tímabili greiddar tekjur frá B að fjárhæð 11.004 kr. án þess að gera grein fyrir þeim. Tekjuáætlun kæranda vegna greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins var einnig nokkuð lægri en rauntekjur hans vegna tímabilsins desember 2010 til og með mars 2011 samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Kæranda ber því, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að endurgreiða umrædda skuld að fjárhæð 49.290 kr. Kæranda verður ekki gert að greiða 15% álag á fjárhæðina þar sem skuldamyndun kæranda var að hluta vegna mistaka Vinnumálastofnunar.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 14. maí 2014, þess efnis að hann endurgreiði stofnuninni skuld að fjárhæð 49.290 kr. en án viðbætts 15% álags, er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum