Hoppa yfir valmynd
2. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 19/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 2. júní 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 19/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. október 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda A, að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða. Þann 9. október 2014 barst Vinnumálstofnun skýringabréf frá kæranda þar sem segir að hún hafi misst mann sinn í x og fengi greiddan makalífeyri frá þremur lífeyrissjóðum. Hún hafi gert grein fyrir greiðslunum þegar hún skráði sig atvinnulausa sumarið 2014, en hafi ekki áttað sig á því að hún þyrfti að gera það mánaðarlega. Í kjölfarið ákvað Vinnumálastofnum á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að skerða greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda vegna makalífeyrisgreiðslna. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 28. febrúar 2015. Kærandi telur umræddan frádrátt ólögmætan og krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið að skerða greiðslur atvinnuleysistrygginga til handa kæranda vegna makalífeyrisgreiðslna á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en beinir því að úrskurðarnefndinni að endurskoða sérstaklega hvort slík skerðing sé réttmæt.

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun þann 24. júní 2014. Meðfylgjandi skýringarbréfi kæranda var tilkynning um tekjur, dags. 9. september 2014, þar sem kærandi áætlaði að hún fengi mánaðarlega greiddar 240.000 krónur í makalífeyri frá Greiðslustofu lífeyrissjóða.

 Í erindi kæranda kemur fram að hún hafi skráð sig atvinnulausa í júní 2014, enda án atvinnu á þeim tíma og tekjulaus. Hún hafi hins vegar fengið greiddan makalífeyri eftir sambýlismann sem lést árið x. Hún hafi gefið upp makalífeyrinn þegar hún skráði sig og taldi sig ekki þurfa að gefa hann upp mánaðarlega, enda sé það fjarstæðukennt að slíkar greiðslur komi til frádráttar greiðslu atvinnuleysisbóta þar sem makalífeyrir er fenginn frá lífeyrissjóði sambýlismanns hennar og því ekki tekjur í þeim skilningi að hún hafi unnið fyrir þeim.

Atvinnuleysisbætur séu ætlaðar til framfærslu einstaklinga sem séu án atvinnu og eiga rétt til atvinnuleysisbóta. Ákvæði sem feli í sér að skerða bæturnar beri því að túlka þröngt. Hvergi í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé tiltekið að makalífeyrir eigi að koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Þar sé talað um að tilfallandi vinna, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur viðkomandi komi til frádráttar, ekki makalífeyrir enda séu slíkar greiðslur fengnar frá öðrum aðila.

Samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar hafi tekjur maka, sem sé í starfi, ekki áhrif á atvinnuleysisbætur maka sem sé án atvinnu. Sömu rök hljóti að gilda fyrir einstakling sem fái greiddan makalífeyri eftir sinn maka sem falli frá. Þetta séu ekki laun sem viðkomandi aðili hefur unnið sér inn og eigi því ekki að koma til frádráttar greiðslu atvinnuleysisbóta. Ef svo er, sé verið að mismuna fólki gróflega eftir þeirra stöðu.

Kærandi hafi fengið bréf frá Greiðslustofu Vinnumálastofnunar 7. október 2014 þar sem fram komi að hún hafi haft tekjur í júlí 2014 sem hún hafi ekki gefið upp og hún krafin skýringa vegna þessa. Í kjölfarið hafi hún sent inn upplýsingar þar sem hún hafi gert grein fyrir sínum málum, þ.e. að hún hafi gefið upp makalífeyrinn þegar hún hafi skráð sig atvinnulausa en ekki talið ástæðu til að gera það mánaðarlega. Þá hafi henni verið tjáð munnlega að makalífeyrir kæmi til frádráttar greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar, án þess að vísað hafi verið í lagarök eða önnur rök. Þessum skýringum mótmæli hún harðlega á þeim forsendum sem áður hafi komið fram. Það segi hvergi í lögum um atvinnuleysistryggingar að draga eigi makalífeyri frá rétti fólks til greiðslu atvinnuleysisbóta. Krefst hún þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og henni verði greiddar þær atvinnuleysisbætur sem hafi verið dregnar af sér vegna makalífeyris.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. júní 2012, er bent á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Ákvörðun um skerðingu atvinnuleysisbóta kæranda vegna makalífeyrisgreiðslna hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laganna.

Í málsgreininni séu taldir upp einstakir tekjuliðir sem skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum og séu makalífeyrisgreiðslur ekki þar á meðal. Af efni 1. mgr. 36. gr. laganna megi þó ráða að þrátt fyrir upptalningu einstakra tekjuliða sem komi til frádráttar greiðslu atvinnuleysistrygginga, þá sé ákvæðinu einnig ætlað að ná til annarra greiðslna sem hinn tryggði kunni að fá frá öðrum aðilum. Í 2. mgr. 36. gr. laganna sé sérstaklega gerð grein fyrir þeim greiðslum sem ekki komi til frádráttar greiðslum atvinnuleysistrygginga.

Samkvæmt þeirri málsgrein skuli Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort greiðsla sem ekki er sérstaklega talin upp í ákvæðinu og sé ekki ætluð til framfærslu hins tryggða, skuli koma til frádráttar skv. 1. mgr. 36. gr. Þar sem makalífeyrir sé ætlaður til framfærslu eftirlifandi maka verði ekki séð að slíkar greiðslur geti fallið undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna. Vinnumálastofnun bendi hér á að barnalífeyrisgreiðslur hafi ekki komið til skerðingar á atvinnuleysisbótum skv. 36. gr. laganna, enda séu slíkar greiðslur ekki ætlaðar til framfærslu hins tryggða, heldur barna hans.

Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að makalífeyrisgreiðslur skuli koma til frádráttar á atvinnuleysisbótum skv. 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem um sé að ræða aðrar greiðslur sem ætlaðar séu til framfærslu hins tryggða. Hins vegar sé það nú mat stofnunarinnar að endurskoða beri framangreinda túlkun á 36. gr. laganna. Makalífeyrir sé greiðslur sérstaks eðlis og réttlætanlegt sé að þær komi ekki til skerðingar á greiðslum atvinnuleysistrygginga. Þá fallist Vinnumálastofnun á þær röksemdir kæranda að þar sem atvinnuleysisbætur séu ætlaðar til framfærslu þá beri að túlka skerðingarákvæði á borð við 36. gr. laganna þröngt. Vinnumálastofnun geti ekki breytt núverandi framkvæmd einhliða þar sem úrskurðarnefndin hafi, í sambærilegum málum, komist að þeirri niðurstöðu að makalífeyrir skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum, til dæmis í máli nr. 77/2012. Vinnumálastofnun telur rétt að úrskurðarnefndin endurskoði hvort rétt sé að skerða atvinnuleysisbætur vegna makalífeyrisgreiðslna á grundvelli 36. gr. laganna.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. apríl 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. maí 2015. Þann 12. maí 2015 barst úrskurðarnefndinni bréf frá kæranda þar sem hún ítrekar fyrri athugasemdir sínar.

2. Niðurstaða

Í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um frádrátt af atvinnuleysisbótum vegna tekna og hljóðar málsgreinin svona:

Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er gerð grein fyrir þeim greiðslum sem ekki koma til frádráttar greiðslum atvinnuleysistrygginga og er lagagreinin svohljóðandi:

Umönnunargreiðslur sem ætlaðar eru til að mæta útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barns, styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki eru ætlaðir til framfærslu hins tryggða og styrkir úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem hinn tryggði fær til þróunar eigin viðskiptahugmyndar skulu ekki koma til frádráttar greiðslum samkvæmt lögum þessum. Þegar um er að ræða aðrar áður ótaldar greiðslur sem ekki eru ætlaðar til framfærslu hins tryggða skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort þær skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 1. mgr.

Kærandi fékk greiddan makalífeyri á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt tilvitnaðri 2. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort greiðsla sem ekki er sérstaklega talin upp í ákvæðinu og er ekki ætluð til framfærslu hins tryggða, skuli koma til frádráttar skv. 1. mgr. lagagreinarinnar, en makalífeyrisgreiðslur eru ekki taldar upp í 2. mgr. Í ljósi þess að makalífeyrir er ætlaður til framfærslu eftirlifandi maka telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ljóst að slíkar greiðslur falli ekki undir undanþáguákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna, heldur falli undir hugtakið aðrar greiðslur í 1. mgr. 36. gr. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru ekki efni til breyttrar túlkunar á 36. gr., en úrskurðarnefndin hefur í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að makalífeyrir skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 9. apríl 2013 í máli nr. 77/2012. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, um að skerða bótarétt hennar vegna makalífeyrisgreiðslna er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum