Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 36/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 36/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem fram komi í fyrirliggjandi gögnum að hann hafi þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra. Hann hafi starfað við járnabindingar frá 1. október 2013. Vinnumálastofnun taldi ljóst að kærandi hafi verið að vinna við járnabindingar frá 1. október 2013 og hafi hann í umrætt sinn, látið vísvitandi hjá líða að tilkynna stofnuninni um framangreind atvik. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. mars 2014. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. október 2013. Vinnumálastofnun bárust upplýsingar um það í október 2013 að kærandi hafi verið við störf við járnabindingar á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Honum var sent bréf þess efnis, dags. 11. október 2013, þar sem óskað var skýringa, en þessu bréfi var ekki svarað. Kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 22. október 2013, eins og fram hefur komið. Í kjölfarið barst tölvupóstur frá kæranda, 24. október 2013, þar sem fram kom að hann hefði aðeins verið að prófa að vinna við járnabindingar og að vinnan hefði einungis staðið yfir í um eina klukkustund. Málið var því tekið fyrir að nýju en niðurstaða Vinnumálastofnunar var sú sama þrátt fyrir athugasemdir kæranda. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi stofnunarinnar sem var veittur með bréfi, dags. 9. desember 2013.

Í kæru kæranda segir að á meðan umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafi verið í vinnslu hafi hann ákveðið að reyna fyrir sér í starfi við járnabindingar hjá B. Eins og sjá megi í bréfi frá vinnuveitanda kæranda hafi hann verið ráðinn til starfa til reynslu en hann hafi ekki ráðið við starfið og hafi því einungis unnið í eina klukkustund. Hann hafi ekki fengið greidd laun fyrir og hafi því talið að ekki væri þörf á að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Þar sem um prufu hafi verið að ræða sé ekki hægt að segja að hann hafi verið í starfi á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur frá Vinnumálastofnun. Vinnumálastofnun hafi byggt ákvörðun sína á myndum af fésbókarsíðu kæranda. Kærandi segi myndirnar vera þannig til komnar að hann hafi tekið þær á þeim tíma sem hann hafi verið í prufu og aftur nokkrum dögum síðar þegar hann hafi farið í heimsókn á staðinn þar sem hann hafi haft lítið að gera í atvinnuleysinu. Fram kemur í kærunni að kærandi hafi nú aftur hafið störf hjá fyrri vinnuveitanda, C, og fái þaðan laun. Hann óski því ekki eftir greiðslum fyrir þann tíma sem hann hafi verið atvinnulaus heldur sé farið fram á að ákvörðun um viðurlög skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði felld niður og honum sé ekki gert að vinna í tólf mánuði til að eiga kost á að sækja um atvinnuleysisbætur ef til þess komi að hann þurfi þess.

Í tölvupósti kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. maí 2014, segir hann að ekkert í gögnum málsins sýni að hann hafi verið að vinna og hann hafi ekki tekið umræddar myndir sjálfur. Hann hafi verið á staðnum um svipað leyti og félagi hans hafi tekið myndirnar og hafi félaginn sett þær á fésbókarsíðu kæranda. Kærandi hafi ekki búist við þessum afleiðingum. Hann hafi keyrt félaga sinn daglega í vinnu á morgnana og heim aftur þar sem hann hafi ekki verið með bílpróf. Kærandi hafi farið að vinna til prufu en hafi ekki getað það þar sem vinnan hafi verið honum of erfið því hann hafi aldrei unnið við svona vinnu áður.

Í bréfi D hjá B, dags. 17. nóvember 2013, kemur fram að hann hafi ráðið kæranda í vinnu til reynslu við járnabindingar B. Kærandi hafi verið við vinnu í eina klukkustund þar sem ekki hafi verið unnt að ráða hann vegna þess að hann hafi ekki ráðið við vinnuna. Vinna við járnabindingar krefjist mikillar líkamlegrar getu sem kærandi búi ekki yfir. Hann þurfi léttari vinnu en það. Kæranda hafi ekki verið greidd laun fyrir vinnuna.

 Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. maí 2014, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna það til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Í verknaðarlýsingu ákvæðisins sé gerð grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Fram komi í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Fram kemur að af fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda megi ráða að hann hafi verið við störf við járnabindingar frá 1. október 2013. Kærandi hafi ekki tilkynnt um starf sitt til stofnunarinnar þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur 1. október 2013. Hann hafi haldið því fram að hann hafi einungis verið í prufu í um það bil eina klukkustund og að hann hafi ekki þegið laun fyrir vinnu sína.

Að mati Vinnumálastofnunar sé ekki unnt að fallast á skýringar kæranda. Samkvæmt útprentunum af fésbókarsíðu kæranda hafi umrædd vinna varað mun lengur en í eina klukkustund. Sjá megi af færslum kæranda að hann hafi verið í vinnu við járnabindingar í að minnsta kosti níu daga. Segi kærandi meðal annars á síðu sinni 1. október 2013: „Dagur eitt járna bindingum“, 2. október 2013: ,,dgur [svo] 3 í járna bindingum buffff sihtur#“ og 5. október 2013: ,,Dagur 5 í því sama og alla hinna 4 dagana allt í járnum hehe geðveigt [svo]“. Þær yfirlýsingar sem kærandi hafi sjálfur skráð á síðu sína sé í engu samræmi við þær skýringar sem hann hafi fært fram í málinu. Það sé mat stofnunarinnar að kæranda hafi borið að tilkynna stofnuninni um vinnu sína. Hann hafi ekki tilkynnt fyrirfram um breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóti greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. maí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 2. júní 2014. Úrskurðarnefndinni barst tölvupóstur frá kæranda, dags. 24. maí 2014, eins og rakið hefur verið.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var síðast breytt með 4. gr. laga nr. 103/2011. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 103/2011 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að líta skuli svo á að atvinnuleysisbóta sé aflað með sviksamlegum hætti ef hinn tryggði lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna vinnumálastofnun um þær breytingar er kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Samkvæmt ákvæðinu hefur það því sömu afleiðingar og að gefa Vinnumálastofnun rangar upplýsingar.

Af færslum á fésbókarsíðu kæranda má ráða að hann hafi verið í vinnu við járnabindingar frá 30. september 2013 og hafi starfað við þá vinnu í að minnsta kosti níu daga. Kærandi mótmælir því að hafa starfað svo lengi við járnabindingarnar og kveðst aðeins hafa verið þar í eina klukkustund til prufu og hafi það verið launalaust. Kærandi hafi ekki ráðið við vinnuna þar sem hann hafi ekki haft neina reynslu af vinnu sem þessari. Sú staðhæfing hans að hann hafi aðeins verið á vinnustaðnum í eina klukkustund án launa fær stuðning í bréfi D hjá B sem kærandi starfaði hjá, en þar kemur meðal annars fram að vinna við járnabindingar krefjist mikillar líkamlegrar vinnu sem kærandi búi ekki yfir. Kærandi mótmælir því að af fésbókarfærslum hans megi draga þær ályktanir að um frekari vinnu hafi verið að ræða með þeim hætti sem Vinnumálastofnun geri.

Með vísan til framangreinds, sérstaklega yfirlýsingar D hjá
B, telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ekki sé unnt að fallast á það með Vinnumálastofnun að kærandi hafi verið starfandi á vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Að mati úrskurðarnefndarinnar varðar umrædd háttsemi kæranda ekki við 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og er hinum kærða úrskurði því hrundið.

 

Úrskurðarorð


Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. október 2013 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er hrundið.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum