Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. febrúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 7/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli A, 11. nóvember 2014. Með úrskurðinum var staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og að gera henni að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 690.204 kr. með 15% álagi. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi hafið rekstur og verði atvinnuleysisbætur ekki greiddar fyrir þann tíma sem hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 15. febrúar til 31. ágúst 2013, samtals með inniföldu 15% álagi 690.204 kr. sem verði innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 8. janúar 2014, og óskaði þess að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Vinnumálastofnun taldi að staðfesta bæri ákvörðun stofnunarinnar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar var staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. nóvember 2014.

Með bréfi B lögfræðings til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 26. nóvember 2014, var þess óskað, fyrir hönd kæranda, að málið yrði endurupptekið á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Fram kemur í bréfinu að niðurstaða nefndarinnar í málinu byggist á því að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá á tímabilinu 15. febrúar til 31. ágúst 2013 og sé slíkt ekki heimilt skv. f- og g-liðum 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það hafi verið fyrir misskilning sem kærandi hafi verið skráð á launagreiðendaskrá á umræddu tímabili og hafi sá misskilningur verið lagfærður eins og sjá megi í fylgiskjölum frá ríkisskattstjóra. Kærandi hafi því ekki, samkvæmt gögnunum, verið á launagreiðendaskrá á tímabilinu 1. janúar til 1. desember 2013.

Í bréfi lögfræðingsins segir síðan að með vísan til þess að niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sé byggð á röngum upplýsingum, þar sem kærandi hafi sannanlega ekki verið á launagreiðendaskrá á tímabilinu 15. febrúar til 31. ágúst 2013, sé þess óskað að úrskurðarnefndin endurupptaki máli og taki nýja ákvörðun í ljósi hinna réttu upplýsinga.

Meðal gagna málsins er tölvupóstur frá ríkisskattstjóra til lögfræðings kæranda og Greiðslustofu Vinnumálastofnunar, dags. 20. nóvember 2014. Þar er staðfest að kærandi hafi verið með reiknað endurgjald af eigin starfsemi rekstrarárið 2013 að fjárhæð 332.500 kr. og hafi hún greitt af þeirri fjárhæð með skilagrein í desember 2013. Þar sem reiknað endurgjald ársins 2013 hafi verið undir 450.000 kr. hafi kæranda verið heimilt að gera upp staðgreiðslu og tryggingagjald með skattframtali 2014 við álagninguna í lok júlí 2014. Kærandi hafi þó kosið að gera upp tryggingagjaldið í einu lagi fyrir rekstrarárið 2013 tímanlega og hafi hún greitt það strax í stað þess að bíða eftir álagningu í júlí 2014.

Í öðru bréfi B lögfræðings kæranda, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. janúar 2015, er það ítrekað að mistök hafi verið gerð þegar kærandi hafi verið skráð á launagreiðendaskrá frá 15. febrúar til 31. ágúst 2013. Þegar mistökin hafi komið í ljós hafi verið farið rakleiðis í það að fá þau leiðrétt og hafi ríkisskattstjóri þegar gert það.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til framangreindra krafna kæranda í máli þessu og í svarbréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. febrúar 2015, kemur fram að upprunaleg ákvörðun Vinnumálastofnunar í málinu varði tímabilið frá 15. febrúar til 31. ágúst 2013, en þá hafi kærandi verið með opna launagreiðendaskrá hjá ríkisskattstjóra. Vinnumálastofnun hafi því gert kröfu um að kærandi endurgreiddi stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysibætur fyrir þann tíma sem hún hafi verið með opinn rekstur. Í erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar komi fram nýjar upplýsingar í málinu. Það sé ljóst að ef þær skýringar sem birtist í bréfi lögfræðings kæranda séu í samræmi við staðreyndir málsins séu ekki lengur forsendur fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Fram kemur í bréfi Vinnumálastofnunar að stofnunin hafi haft samband við ríkisskattstjóra í kjölfar beiðni úrskurðarnefndarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi embættið leiðrétt skráningu á launagreiðendaskrá kæranda, afturvirkt, á því tímabili sem um ræði. Þótt það sé óvanalegt að embætti ríkisskattstjóra leiðrétti skráningu á launagreiðendaskrá einstaklinga afturvirkt sé ljóst að embættið hafi séð ástæðu til að breyta svo til í þessu máli. Hafi Vinnumálastofnun ekki forsendur til að meta þá ákvörðun ríkisskattstjóra. Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggi fyrir í málinu telji Vinnumálastofnun að úrskurðarnefndinni beri að fallast á kröfur kæranda og fella úr gildi ákvörðun Vinnumálastofnunar.

2.      Niðurstaða

Greiðslur atvinnuleysisbóta voru stöðvaðar til kæranda með ákvörðun Vinnumálastofnunar 9. október 2013 þar sem kærandi var ekki talin hafa uppfyllt skilyrði f- og g-liða 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með því að hafa verið með opna launagreiðendaskrá sem verktaki á tímabilinu 15. febrúar til 31. ágúst 2013. Var henni enn fremur gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir sama tímabil að fjárhæð samtals 690.204 kr. með 15% álagi. Þessi ákvörðun Vinnumálastofnunar var staðfest með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. nóvember 2014.

Kærandi hefur farið fram á endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem niðurstaða úrskurðarnefndarinnar hafi verið byggð á röngum upplýsingum og hafi kærandi ekki verið á launagreiðendaskrá á tímabilinu 15. febrúar til 31. ágúst 2013. Í 24. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um endurupptöku máls og hljóðar 1. mgr. lagagreinarinnar svona:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1.      ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2.      íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.“

Í athugasemdum við 24. gr. lagafrumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, segir meðal annars að skv. 2. tölul. 1. mgr. eigi aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því ákvörðun hafi verið tekin. Ef atvik þau, sem talið sé að hafi réttlætt slíka ákvörðun, hafi breyst verulega sé eðlilegt að aðili eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunin niður eða milda hana. Ákvæði þetta hafi náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr. stjórnsýslulaga.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða var úrskurðarnefndinni rétt að staðfesta hin kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar með úrskurði sínum frá 11. nóvember 2014 í ljósi málavaxta og þeirra aðstæðna sem þá voru uppi í málinu. Nú hefur ríkisskattstjóri hins vegar leiðrétt skráningu á launagreiðendaskrá kæranda afturvirkt á því tímabili sem um ræðir þannig að kærandi telst ekki lengur hafa verið með opna launagreiðendaskrá á umræddu tímabili. Lögð hafa verið fram gögn málinu til stuðnings. Forsendur fyrir niðurstöðu Vinnumálastofnunar og úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli kæranda eru því brostnar og þykir rétt, með vísan til 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, að endurupptaka málið. Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. október 2014 um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 15. febrúar til 31. ágúst 2013 að fjárhæð samtals með 15% álagi 690.204 kr. er felld úr gildi.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 9. október 2014 um að stöðvar greiðslur atvinnuleysisbóta til A og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 15. febrúar til 31. ágúst 2013 að fjárhæð samtals með 15% álagi 690.204 kr. er felld úr gildi.

 Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum