Hoppa yfir valmynd
16. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 43/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. desember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 43/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 5. febrúar 2014, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hún greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. júlí til 19. ágúst 2011, en á þeim tíma hafi hún ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafi fengið skráninguna:  Ofgr. vegna tekna, sem yrðu innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuldin næmi 68.528 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 10.279 kr. eða samtals 78.807 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 23. apríl 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 6. maí 2011 og var skráð með 63% bótarétt.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta hafi kærandi verið í tilfallandi vinnu hjá B í júlí til ágúst 2011. Kærandi hafi tilkynnt stofnuninni 23. júní 2011 að hún væri í tilfallandi vinnu hjá fyrirtækinu. Þá hafi hún tilkynnt um tekjur sínar með því að fylla út tilkynningu um tekjur í gegnum ,,Mínar síður“ á vefsvæði Vinnumálastofnunar. Vegna mistaka hafi kærandi ekki ýtt á hnappinn ,,senda tilkynningu“ þegar hún hafði fyllt út tilkynningu um tekjur. Vinnumálastofnun hafi því ekki borist tilkynningar um tekjur kæranda og stofnunin því ekki getað greitt henni réttar atvinnuleysisbætur að teknu tilliti til tekna hennar frá fyrirtækinu fyrr en við síðari leiðréttingar. Kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi, dags. 6. febrúar 2014, að þar sem skuld hennar að fjárhæð 68.528 kr. eða 78.807 að viðbættu 15% álagi vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta væri enn ógreidd og yrði hún innheimt í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Fram kemur að kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun með tölvupósti 10. febrúar 2014 og óskað eftir því að skuld hennar yrði felld niður þar sem hún hefði hagað sínum málum í samráði við leiðbeiningar Vinnumálastofnunar og vegna þess að hún væri í fæðingarorlofi. Vinnumálastofnun hafi svarað erindi kæranda með tölvupósti 13. febrúar 2014 og hafi fallist á að fella niður 15% álag á skuld kæranda en ekki að fella niður skuld hennar í held sinni, enda hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tekna hennar frá B.

Í kæru kæranda, dags. 23. apríl 2014, kemur fram að í samráði við Vinnumálastofnun hafi hún látið stofnunina vita hvað hún hafi fengið útborgað í hverjum mánuði, en á þeim tíma hafi hún verið í hlutastarfi og því ekki í fullri vinnu. Vinnumálastofnun hafi greitt henni upp í 100% vinnu. Hún hafi alltaf skráð inn þau laun sem hún hafi fengið greidd en svo virðist vera sem hún hafi gleymt í eitt skiptið að ýta á senda, þrátt fyrir að hafa skráð fjárhæðina inn. Vinnumálastonun geti þrátt fyrir það séð hversu mikið hún hafi fengið útborgað. Kærandi kveðst vera að klára fæðingarorlofið sitt og verði atvinnulaus að því loknu, þar sem búðinni þar sem hún hafi unnið hafi verið lokað. Þar sem hún muni ekki fá nein laun að fæðingarorlofi loknu muni hún ekki geta greitt þessa skuld. Hún geti ekki farið á atvinnuleysisbætur þar sem hún hafi ekki fengið pláss hjá dagmömmum fyrir drenginn sinn svo hún hafi ákveðið að vera heimavinnandi. Þar af leiðandi séu ekki miklar tekjur sem komi inn á heimilið og því enginn afgangur til þess að greiða umrædda skuld.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. júní 2014, kemur fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins júlí og ágúst 2011. Í febrúar 2014 hafi skuldin enn verið ógreidd og með bréfi, dags. 6. febrúar 2014, hafi kæranda verið tilkynnt að hún skuldaði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem innheimtar yrðu samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt því lagaákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum við 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Bendir Vinnumálastofnun á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011 og 43/2012 þessu til stuðnings.

Fyrir liggi að kærandi hafi fengið greidd laun frá B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 20. júlí til 31. ágúst 2011. Hún hafi tilkynnt um tekjur sínar til Vinnumálastofnunar með því að fylla út tilkynningu um tekjur í gegnum heimasíðu stofnunarinnar en hafi láðst að ýta á senda hnappinn. Greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda hafi því verið leiðréttar afturvirkt.

Fram kemur í greinargerðinni að tekjur umfram frítekjumark skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sökum þess að greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi verið leiðréttar afturvirkt í samræmi við áðurnefnda 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi hún fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og skuld myndast í greiðslukerfi stofnunarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. júní 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 11. júlí 2014. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.  

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins 1. júlí til 19. ágúst 2011 að fjárhæð 68.528 kr. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að hún fékk greidd laun frá B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu 20. júlí til 31. ágúst 2011. Kærandi tilkynnti um tekjur sínar til Vinnumálastofnunar með því að fylla út tilkynningu um tekjur í gegnum heimasíðu stofnunarinnar en henni láðist að ýta á senda hnappinn. Af þessum sökum myndaðist skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. 

Kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 68.528 kr.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða höfuðstól skuldar sinnar við Vinnumálastofnun að fjárhæð 68.528 kr. Vinnumálastofnun hafði fallist á að fella niður 15% álagið á skuld kæranda og lýtur mál þetta ekki að þeim þætti.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 5. febrúar 2014, þess efnis að hún endurgreiði stofnuninni höfuðstól skuldar að fjárhæð 68.528 kr. er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum