Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 39/2014

Úrskurður


 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. janúar 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 39/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 17. febrúar 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 13. febrúar 2014 fjallað um rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Þar sem hún hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um dvöl sína erlendis séu greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar stöðvaðar. Geti hún fyrst átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta eftir að hún hafi starfað samfellt í 24 mánuði frá því að hún hafi fengið síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Ákvörðunin væri tekin á grundvelli 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr., laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi hafi áður sætt niðurfellingu bótaréttar á sama tímabili og væri því um að ræða ítrekaða niðurfellingu bótaréttar sem valdi ítrekunaráhrifum fyrri ákvörðunar skv. 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 9. apríl 2014. Hún krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 27. júlí 2012.

Samkvæmt flugfarseðlum sem fyrir liggja í máli þessu var kærandi erlendis tímabilið 3. september til 2. desember 2013. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun símleiðis 24. september 2013 til að staðfesta atvinnuleit sína. Í samskiptasögu kæranda er skráð 3., 6. og 16. desember 2013 að hún hafi óskað eftir leiðréttingu á bótum afturvirkt fyrir október og nóvember 2013 þar sem stimplanir virðist ekki hafa skilað sér og hún hafi átt í erfiðleikum með Íslykilinn. Beiðninni var synjað á fundi Vinnumálastofnunar 16. desember 2013. Vinnumálastofnun bárust upplýsingar um það í desember 2013 að kærandi hafi verið í útlöndum september til desember 2013. Kæranda var sent bréfi þar að lútandi 10. desember 2013 og henni gefinn kostur á að koma skýringum sínum á framfæri. Kærandi og eiginmaður hennar höfðu samband við Vinnumálastofnun 17. desember 2013 og var þeim tjáð að kærandi yrði að skila inn skýringum vegna ferðar sinnar til útlanda og afriti af flugfarseðlum. Kærandi skilaði ekki inn skýringum og var málið tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 10. janúar 2014 og var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur hafnað og greiðslur til hennar stöðvaðar þar sem hún hafði ekki orðið við beiðni stofnunarinnar um að skila inn skýringum og upplýsingum um ferð sína. Eiginmaður kæranda sendi þær skýringar 21. janúar 2014 að kærandi hafi orðið að fara til B vegna veikinda aldraðrar móður hennar og hafi henni ekki verið kunnugt um að hún þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun um það. Flugfarseðlar bárust 5. febrúar 2014.

Í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða kemur fram að hún sé C og eigi hún hvorki gott með að tjá sig á íslensku né skilja hvernig íslenska kerfið virki. Öldruð móðir kæranda í B hafi veikst skyndilega og hafi kærandi orðið að fara þangað í miklum flýti til þess að annast móður sína. Vegna takmarkaðrar tungumálakunnáttu hafi kærandi ekki verið meðvituð um að hún þyrfti að tilkynna þetta sérstaklega til Vinnumálastofnunar. Hún hafi síðan stimplað sig eftir að hún kom aftur til landsins án þess að gera sé grein fyrir því að hún hefði gert nokkuð athugavert.

Kærandi telur að ekki geti talist eðlilegt að gera þá kröfu til fólks þegar foreldrar þess liggi alvarlega veikir að það hafi vinnulag Vinnumálastofnunar efst í huga á þeim tímapunkti. Kærandi bendir á að það sé auðsótt mál að leggja fram sannanir þess að móðir hennar hafi verið alvarlega veik, sé þess óskað.

Vinnumálastofnun hafi ekki tekið þetta gilt, en það sé augljóst að verið sé að mismuna kæranda á grundvelli tungumálakunnáttu og vanþekkingar á íslenskri stjórnsýslu. Verði niðurstaðan sú sem nú liggi fyrir sé það áfellisdómur yfir íslenska kerfinu, ósveigjanleika þess og innbyggðri mismunun á þeim íslensku þegnum sem eigi uppruna sinn að rekja erlendis frá. Kærandi treysti á að mannúð, sanngirni og réttlæti verði haft til hliðsjónar við meðferð máls þessa.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. maí 2014, vísar Vinnumálastofnun til c-liðar 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um að umsækjandi um greiðslur atvinnuleysistrygginga þurfi að vera búsettur og staddur hér á landi til að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Vinnumálastofnun vísar einnig til 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem mælt er fyrir um upplýsingaskyldu umsækjanda til Vinnumálastofnunar, en atvinnuleitanda ber skylda til þess að upplýsa Vinnumálstofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans eða annað sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin bendir á að í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009, til breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar, komi meðal annars fram að láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálstofnun nauðsynlegar upplýsingar eða veiti rangar upplýsingar, komi til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun áréttar að einnig sé mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Þar segir að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum.

Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á upplýsingaskyldu hins tryggða.

Vinnumálastofnun bendir jafnframt á að kærandi hafi verið stödd erlendis tímabilið 3. september til 2. desember 2013. Stofnunin áréttar að í 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um þá skyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta að vera í virkri atvinnuleit. Sé það jafnframt gert að skilyrði að umsækjandi sé staddur hér á landi, sbr. c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Kærandi hafi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun fyrirfram um þessa utanlandsferð sína, líkt og henni hafi borið skv. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Stofnunin bendir á að á kynningarfundum hjá stofnuninni sé vakin athygli á því að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi og að ótilkynntar ferðir til útlanda séu óheimilar meðfram töku atvinnuleysistrygginga. Þessar upplýsingar séu einnig að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi farið til útlanda 3. september 2013 og komið til baka til Íslands 2. desember 2013. Kærandi hafi haft samband símleiðis 24. september 2013 og staðfest atvinnuleit sína þrátt fyrir það að hún hafi verið erlendis. Kærandi hafi því fengið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. til 30. september 2013. Enn fremur hafi kærandi borið fyrir sig þegar hún hafi beðið um afturvirkar stimplanir vegna október- og nóvembermánaða að hún hefði átt í vandræðum með „Íslykilinn“ og því ekki getað staðfest atvinnuleit sína, sbr. færslu frá 3. desember 2013 í samskiptasögu kæranda.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er haft hafi bein áhrif á rétt hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta og beri kæranda að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það að móðir kæranda hafi orðið alvarlega veik veiti Vinnumálastofnun ekki heimild til að greiða atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem kærandi hafi verið erlendis. Enn fremur telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi ekki verið samsaga í málatilbúnaði sínum um ástæður þess að hafa ekki getað staðfest atvinnuleit sína í október og nóvember. Veikindi kunni að koma í veg fyrir að atvinnuleitanda sé fært að sinna tilkynningarskyldu sinni en slíkir atburðir og vankunnátta kæranda á íslensku leiði ekki til þess að hún sé undanþegin þeim reglum sem gildi um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Ekki sé að sjá að aðstæður kæranda hafi verið með þeim hætti að henni hafi verið ómögulegt að tilkynna um breytingar á högum sínum líkt og henni sé skylt samkvæmt lögunum.

Þar sem um sé að ræða viðurlagaákvörðun í þriðja skipti á sama bótatímabili hafi fyrri viðurlagákvarðanir ítrekunaráhrif á ákvörðun Vinnumálastofnunar í málinu, sbr. 4. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. maí 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. júní 2014. Kærandi sendi frekari athugasemdir með bréfi dags. 25. maí 2014. Þar er farið yfir fyrri rök kæranda og þau ítrekuð. Kærandi gerir enn fremur athugasemdir vegna fyrri ákvarðana Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í máli hennar.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 22. gr. laga nr. 134/2009 og 3. gr. laga nr. 153/2010, en hún er svohljóðandi:

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þetta ákvæði þarf meðal annars að túlka með hliðsjón af því að skv. c-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 4. gr. laga nr. 134/2009, er eitt af skilyrðum þess að geta haldið rétti sínum í atvinnuleysistryggingakerfinu að vera búsettur og staddur hér á landi.

Þar sem um er að ræða ítrekaða niðurfellingu bótaréttar kæranda veldur hin kærða ákvörðun ítrekunaráhrifum fyrri ákvarðana skv. 4. mgr. 61. laga um atvinnuleysistryggingar, en hún er svohljóðandi:

Endurtaki atvik sig sem lýst er í 1. málsl. 1. mgr. á sama tímabili skv. 29. gr. skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi stödd erlendis á tímabilinu frá 3. september til 2. desember 2013, en hún tilkynnti ekki Vinnumálastofnun fyrir fram að hún yrði ekki stödd á landinu á umræddu tímabili. Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi þurft að sinna aldraðri móður sinni erlendis og hún hafi ekki vitað að hún þyrfti að tilkynna um för sína eða haft forsendur til þess að vita það.

 Fram hefur komið í máli Vinnumálastofnunar að veittar séu upplýsingar um að eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi á kynningarfundum stofnunarinnar. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður einnig til þess að líta að tíðkanlegt er að launþegar upplýsi vinnuveitendur sína um fjarvistir vegna dvalar erlendis en réttarsamband atvinnuleitanda og Vinnumálastofnunar er um sumt eðlislíkt því sem er á milli launþega og vinnuveitanda. Þessu til viðbótar hafa um nokkurt skeið verið veittar upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitenda á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Á það skal enn fremur bent að allir þeir sem þiggja atvinnuleysisbætur á Íslandi samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar ber sjálfsögð skylda til að fara að þeim lögum og reglum sem um það gilda og þeim er skylt að kynna sér.

Í ljósi þeirrar upplýsingaskyldu atvinnuleitenda sem kveðið er á um í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. gr. laga nr. 134/2009, verður fallist á að kærandi hafi brotið gegn trúnaðarskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun í umrætt sinn, er hún hélt af landi brott án þess að láta vita af því fyrir fram. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum skv. 1. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 61. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

 Úrskurðarorð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 13. febrúar 2014 í máli A um að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum