Hoppa yfir valmynd
16. desember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. desember 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 34/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 17. október 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 1. júní til 30. júní 2011 en á þeim tíma hafi kærandi ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 þar sem hann hafi fengið skráninguna: ofgr. vegna tekna. Skuldin sem næmi 122.417 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 18.363 kr. eða samtals 140.780 kr. yrði því innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 21. mars 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu Vinnumálastofnunar til málsins með bréfi, dags. 24. mars 2014. Svarbréf stofnunarinnar er dagsett 12. maí 2014. Þar kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar verið tilkynnt með bréfi dagsettu 17. október 2013. Fyrir liggi að kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun 3. desember 2013 vegna bréfs stofnunarinnar, dags. 17. október 2013, og farið fram á að skuld hans við Vinnumálastofnun yrði felld niður. Hafi beiðni kæranda verið svarað með tölvupósti sem sendur hafi verið á skráð netfang hans hjá stofnuninni 16. desember 2013 og honum greint frá því að ekki væru forsendur fyrir niðurfellingu skuldarinnar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kæra kæranda, dags. 21. mars 2014, sé of seint fram komin þar sem þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn, skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var sent framangreint bréf Vinnumálastofnunar, dags. 12. maí 2014, með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. maí 2014, og honum gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri fyrir 30. maí 2014. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

2.      Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 17. október 2013. Í bréfinu var kæranda tilkynnt um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og um kærufrest til nefndarinnar. Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. mars 2014. Fyrir liggur að kæranda var kunnugt um hina kærðu ákvörðun frá 17. október 2013 þar sem hann hafði samband við Vinnumálastofnun vegna hennar 3. desember 2013. Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru í máli A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum