Hoppa yfir valmynd
14. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 10/2014

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 14. október 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 10/2014.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 17. október 2013, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A að hann greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Fram kom í bréfinu að skuldin væri tilkomin vegna þess að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 20. mars 2011 til 19. apríl 2012 og uppfyllti því ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Skuldin nam 287.238 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 43.086 kr. eða samtals 330.324 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, mótteknu 4. febrúar 2014. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 2. desember 2008. Kærandi reiknaðist með 100% bótarétt.

Kærandi fékk greiddan lífeyri frá Greiðslustofu lífeyrissjóða samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á tímabilinu desember 2009 til apríl 2012. Mánaðarleg lífeyrissjóðsgreiðsla kæranda nam hærri fjárhæð en frítekjumarki atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Aðeins lá fyrir tekjuáætlun frá kæranda vegna tímabilsins frá desember 2011 til apríl 2012.

Þegar lífeyrisgreiðslur kæranda námu hærri fjárhæð en frítekjumark atvinnuleysisbóta kom til skerðingar bótanna skv. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þegar engin tekjuáætlun lá fyrir hjá Vinnumálastofnun fékk kærandi ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Voru þær leiðréttar afturvirkt í samræmi við þær upplýsingar sem fengust við mánaðarlega samkeyrslu gagnagrunna ríkisskattstjóra og Vinnumálastofnunar. Þar sem leiðréttingin var afturvirk safnaðist skuld hjá kæranda sem honum var jafnóðum tilkynnt um með greiðsluseðli í hverjum mánuði. Ofgreiddum atvinnuleysisbótum var skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum þann tíma sem kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Skuldajafnað var samtals 415.828 kr.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi Vinnumálastofnunar vegna ákvörðunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 4. nóvember 2013.

Í kæru kæranda kveðst hann vera ósáttur við niðurstöðu Vinnumálastofnunar. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi sent beiðni til Greiðslustofu fyrir hans hönd 13. apríl 2013 þess efnis að málið yrði skoðað betur, en kæranda hafi ekki borist svar við erindinu. Hann hafi síðan fengið innheimtubréfið 17. október 2013. Kærandi hafi þá beðið ráðgjafa Vinnumálastofnunar um aðstoð og hafi ráðgjafinn sent stofnuninni bréf 29. nóvember 2013 og hafi borist svar við því 2. desember 2013. Kærandi segir að ástæður þess að hann hafi ekki tilkynnt um tekjur frá lífeyrissjóðum hafi verið þær að hann hafi misst konu sína á þessum tíma og hafi það verið honum afar þungbært. Hann hafi einnig talið að stofnanir innan ríkisgeirans fengju nauðsynlegar upplýsingar sem bærust sjálfkrafa á milli. Hann hafi verið bugaður á þessum tíma og varla sinnt sjálfum sér hvað þá öðru um nokkuð langan tíma.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. mars 2014, bendir Vinnumálastofnun á að málið varði þá ákvörðun stofnunarinnar að skerða afturvirkt atvinnuleysisbætur kæranda á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem hafi leitt til skuldamyndunar. Kærandi hafi fengið lífeyrisgreiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna á tímabilinu desember 2009 til apríl 2012 samhliða því sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Á þeim tíma hafi ekki verið til staðar tekjuáætlun vegna tekna kæranda fyrr en frá nóvember 2011 vegna greiðslna hans frá Lífeyrissjóðum að Bankastræti 7 og frá desember 2011 vegna greiðslna hans frá Greiðslustofu lífeyrissjóða.

Meginreglan um skerðingu atvinnuleysisbóta vegna tekna sé í 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segi að gert sé ráð fyrir því að hvers konar tekjur eða greiðslur úr öðrum tryggingakerfum komi til frádráttar atvinnuleysisbótum hins tryggða. Sé tekið fram að miðað skuli við óskertan rétt umsækjanda til atvinnuleysisbóta.

Skerðing vegna tekna sé síðan framkvæmd þannig að óskertur réttur atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki sé dreginn frá samanlögðum tekjum hans og þeim atvinnuleysisbótum sem hann eigi rétt á. Helmingur þeirrar fjárhæðar sem nái umfram fullar atvinnuleysisbætur ásamt frítekjumarki myndi skerðingu atvinnuleitanda. Staðið hafi verið að skerðingu í máli þessu með þessum hætti. Vegna þess að á löngu tímabili hafi ekki verið til staðar tekjuáætlun frá kæranda hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 746.152 kr. ásamt 15% álagi. Kærandi hafi þegar endurgreitt 415.828 kr. með skuldajöfnun skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Innheimta ofgreiddra atvinnuleysisbóta byggist á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt því lagaákvæði sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta atvinnuleysisbætur og innheimta þær atvinnuleysisbætur sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er orðið hafi að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum þeim tilvikum þegar atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi þannig ekki áhrif á skyldu hans til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 8. apríl 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar vegna tímabilsins nóvember 2010 til desember 2011 að fjárhæð 287.238 kr. auk 15% álags sem nemur 43.086 kr., eða samtals að fjárhæð 330.324 kr. Samkvæmt Vinnumálastofnun á skuld kæranda rætur sínar að rekja til þess að hann lagði ekki fram tekjuáætlun á umræddu tímabili vegna tekna frá Greiðslustofu lífeyrissjóðanna og frá Lífeyrissjóðum að Bankastræti 7 með þeim hætti að kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur eins og rakið hefur verið.

Kærandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 746.152 kr. ásamt 15% álagi. Kærandi hefur endurgreitt af þeirri fjárhæð með skuldajöfnun samtals 415.828 kr. Eftirstöðvar skuldarinnar nema samtals 330.324 kr. með 15% álagi inniföldu. Kæranda var tilkynnt um skuld sína við Vinnumálastofnun með birtingu greiðsluseðla.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistrygginga segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða skuld sína við Vinnumálastofnun að fjárhæð samtals 330.324 kr.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, samkvæmt innheimtubréfi frá 17. október 2013, þess efnis að hann endurgreiði stofnuninni 287.328 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 43.086 kr. eða samtals að fjárhæð 330.324 kr. er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum