Hoppa yfir valmynd
27. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 109/2013

 Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 109/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. júlí 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún væri eigandi að B.is og B.com samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Í bréfinu segir að ákveðið hafi verið að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur segir að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 1. febrúar til 30. apríl 2013 sem næmi með 15% álagi samtals 458.206 kr. sem verði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 9. október 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 7. júní 2013, var henni tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún væri eigandi að fyrirtækinu B ehf. án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna þessa. Þá var óskað eftir upplýsingum um það hvernig rekstri fyrirtækisins væri háttað og hvert vinnuframlag kæranda væri. Kærandi svaraði með bréfi, dags. 14. júní 2013, og kvaðst hafa stofnað fyrirtækið á árinu 2011 og að lítil velta væri hjá fyrirtækinu. Kæranda séu greidd laun að fjárhæð 100.000 kr. á ári og að vinna hennar fari eingöngu fram á kvöldin og um helgar. Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 11. júlí 2013, kemur fram að stofnunin hafi ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, þar sem hún væri eigandi að B.is og B.com samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var enn fremur gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. febrúar til 30. apríl 2013 samtals með 15% álagi að fjárhæð 458.206 kr. sem yrði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi óskaði rökstuðnings fyrir ákvörðun Vinnumálastofnunar og var hann sendur kæranda með bréfi, dags. 23. júlí 2013. Í rökstuðningnum kemur meðal annars fram að vegna mistaka hafi kæranda ranglega verið tilkynnt í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 11. júlí 2013, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Ákvörðun stofnunarinnar hafi hins vegar falið í sér að réttur hennar til biðstyrks yrði felldur niður sökum þess að hún uppfyllti ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013. Beðist var velvirðingar á mistökunum.

Kærandi óskaði þess að málið yrði tekið upp að nýju 19. ágúst 2013. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 17. september 2013, er þeirri beiðni synjað með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Fram kemur að Vinnumálastofnun telji að beiðni kæranda gefi ekki tilefni til endurupptöku enda hafi ekki komið fram upplýsingar sem þýðingu geti haft í málinu. Verði ekki séð að ákvörðun stofnunarinnar hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og komi því ekki til endurupptöku skv. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í greinargerð C hdl., f.h. kæranda, dags. 9. október 2013, kemur fram að kærandi krefjist þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðvar greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og krefja hana um ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, samtals að fjárhæð 458.205 kr., verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að viðurkenndur verði réttur hennar til að njóta biðstyrks í samræmi við ákvæði reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“, nr. 47/2013. Fram kemur að afgreiðsla máls þessa hjá Vinnumálastofnun hafi verið ruglingsleg og illa unnin. Í ákvörðun Vinnumálastofnunar segi að stofnunin hafi ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún væri eigandi að B.is og B.com samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur með vísan til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í umbeðnum rökstuðningi Vinnumálastofnunar breytist grundvöllur ákvörðunarinnar, en þar komi fram að kærandi sé eigandi að fyrirtækinu B ehf. og hafi stofnunin tekið þá ákvörðun að stöðva greiðslur biðstyrks til kæranda með vísan til 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013. Það sæti furðu að ákvörðun stjórnvalds geti sætt svona grundvallarbreytingum eftir að hún hafi verið tekin, sem Vinnumálastofnun ætlist til að hún geti leiðrétt með breyttum rökstuðningi.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 15. janúar 2014, kemur meðal annars fram að mál kæranda hafi verið tekið fyrir á fundi stofnunarinnar 10. júlí 2013 og sú ákvörðun tekin að fella niður rétt hennar til biðstyrks á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013. Enn fremur hafi kæranda verið gert að endurgreiða stofnuninni ofgreidda styrkfjárhæð vegna tímabilsins 1. febrúar til 30. apríl 2013. Fram kemur að Vinnumálastofnun hafi talið að fremur ætti að taka ákvörðun í máli kæranda á grundvelli 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013 en á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi þegið biðstyrksgreiðslur á þeim tíma sem mál hennar hafi verið tekið fyrir. Það sé þó ljóst að atvik í máli hennar hafi átt sér stað þegar hún hafi þegið atvinnuleysisbætur. Vegna mistaka hafi kæranda ranglega verið tilkynnt í bréfi stofnunarinnar, dags. 11. júlí 2013, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi hins vegar falið í sér að réttur kæranda til biðstyrks skyldi felldur niður sökum þess að hún uppfyllti ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar segir einnig að í kæru til úrskurðarnefndarinnar krefjist kærandi þess að ákvörðun á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði felld úr gildi. Það sé hins vegar ljóst að ákvörðun í máli kæranda byggi á vægari lagagrundvelli en 60. gr. laganna, þ.e. 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013. Þurfi kærandi ekki að starfa í tólf mánuði áður en hún geti sótt aftur um atvinnuleysistryggingar líkt og 60. gr. laganna áskilji og þá taki krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu ofgreiddra bóta einungis mið af þeim tíma sem hún hafi þegið greiðslur biðstyrks. Þó svo að málsatvik í máli kæranda ættu almennt að leiða til ákvörðunar á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi ný vægari ákvörðun verið tekin í málinu með samhliða rökstuðningi 23. júlí 2013.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. janúar 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. febrúar 2014. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 11. júlí 2013, kemur fram að stofnunin hafi tekið ákvörðun á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda. Henni var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í rökstuðningi sem kærandi óskaði eftir og var veittur í bréfi, dags. 23. júlí 2013, kemur hins vegar fram að henni hafi ranglega verið tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar. Ákvörðun stofnunarinnar hafi falið í sér að réttur kæranda til biðstyrks yrði felldur niður sökum þess að hún uppfyllti ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013.

 Hin kærða ákvörðun var því ekki í samræmi við gögn máls kæranda heldur benti Vinnumálastofnun á mistökin í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða var ekki unnt að bæta úr þeim annmörkum sem voru á hinni kærðu ákvörðun í síðar tilkomnum rökstuðningi með ákvörðuninni með þeim hætti sem Vinnumálastofnun gerir. Það hefði þurft og verið í betra samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti ef Vinnumálastofnun hefði tekið mál kæranda fyrir að nýju þegar mistök stofnunarinnar urðu ljós. Af framangreindum ástæðum er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

  Úrskurðarorð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 10. júlí 2013 í máli A er felld úr gildi.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum