Hoppa yfir valmynd
29. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 157/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 29. október 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 157/2013.

 1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 4. desember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 27. nóvember 2013 fjallað um ótilkynntar tekjur í ágúst 2013. Tekin hafi verið sú ákvörðun, vegna ótilkynntra tekna í ágúst 2013 frá Tryggingastofnun ríkisins, að fella niður greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda frá og með 27. nóvember 2013 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una ákvörðuninni og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 20. desember 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar 14. nóvember 2012. Honum var með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins í ágústmánuði 2013, samtals að fjárhæð 76.188 kr. Óskað var skriflegra skýringa kæranda og í kjölfarið barst Vinnumálastofnun útfyllt eyðublað með tilkynningu tekjur, dags. 12. nóvember 2013.

Kærandi óskaði eftir endurupptöku á ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. nóvember 2013 með bréfi, dags. 4. desember 2013. Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að í erindi kæranda komi fram að í kjölfar lagabreytinga hafi hann fengið tvöfalda greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins í ágúst 2013. Hann hafi ekki haft hugmynd um að von væri á þessari greiðslu og hafi því ekki getað tilkynnt um hana til Vinnumálastofnunar fyrirfram. Vinnumálastofnun tók málið fyrir að nýju og staðfesti fyrri ákvörðun og var kæranda tilkynnt um það með bréfi dags. 6. desember 2013.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi 12. desember 2013 og var hann birtur með bréfi, dags. 17. desember 2013. Þar kemur meðal annars fram að Vinnumálastofnun fallist á að í þeim tilfellum þar sem lögum er breytt og þeim komið í framkvæmd á þann hátt sem Tryggingastofnun ríkisins hafi gert sumarið 2013 réttlæti það að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar geti ekki fyrirfram tilkynnt um fyrirhugaða greiðslu ellilífeyris. Hins vegar hafi kæranda borið skylda til, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að tilkynna Vinnumálastofnun strax og honum hafi borist greiðsla ellilífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins. Honum hafi borið skylda til að gera það svo Vinnumálastofnun gæti yfirfarið greiðslu atvinnuleysisbóta til hans og leiðrétt þá greiðslu ef þörf væri á. Þeirri upplýsingaskyldu hafi kærandi ekki sinnt fyrr en eftir að stofnunin hafi komist að því við hefðbundið eftirlit sitt að hann hefði fengið greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í rökstuðningi Vinnumálastofnunar kemur einnig fram að það sé mat stofnunarinnar að kærandi hafi í umrætt sinn látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um atvik er haft hafi bein áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta. Atvinnuleitendur beri ábyrgð á því að nauðsynlegar upplýsingar berist stofnuninni.

Í ódagsettu bréfi B sem fylgdi kæru kemur fram að kærandi hafi fengið óvænta greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins sem hann hafi ekki áttað sig á. Kærandi segist ekki hafa sótt um greiðslur til Tryggingastofnunar þannig að bréfritari hafi haft samband við stofnunina og fengið þær upplýsingar að allir sem hafi einhvern tímann sótt um greiðslur til Tryggingastofnunar, jafnvel fyrir löngu síðan, hafi fengið greiðslu þegar lögum um lífeyrisgreiðslur hafi verið breytt 27. júní 2013. Kærandi hafi þá fengið tvöfalda greiðslu frá Tryggingastofnun í ágúst 2013 fyrir júlí- og ágústmánuð. Hann hafi ekki áttað sig á þessari greiðslu og ekki vitað af henni fyrr en hann hafi fengið samkeyrslubréfið frá Vinnumálastofnun 11. nóvember 2013. Næsta dag hafi hann mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til þess að skila inn gögnum.

Þá segir í nefndu bréfi að þar sem um hreint óviljaverk hafi verið að ræða og kærandi hafi ekki haft hugmynd um þessa greiðslu þá er óskað eftir því að viðurlögunum verði aflétt. Um opinberar greiðslur sé að ræða og því hafi það ekki verið vilji kæranda að fela þær.

Í öðru óundirrituðu bréfi B sem einnig fylgdi kæru kemur meðal annars fram að Tryggingastofnun hafi ákveðið að greiða kæranda fyrir júlí- og ágústmánuð í einni greiðslu en ef hann hefði fengið greiðslu fyrir stakan mánuð þá hefði greiðslan verið undir frítekjumarki.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kallaði eftir upplýsingum í máli þessu hjá Tryggingastofnun ríkisins 28. október 2014. Þar kom fram að kærandi hafi sótt um ellilífeyri með bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 8. ágúst 2013. Það hafi verið samþykkt 13. ágúst 2013 og honum sent bréf þar að lútandi þar sem gerð hafi verið grein fyrir greiðslum til kæranda fyrir júlí- og ágústmánuð. Þá hafi kæranda verið sent annað bréf um sama leyti um greiðsluáætlun út árið.

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. febrúar 2014, vísar Vinnumálastofnun til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir.

Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Á þeim sem fái atvinnuleysisbætur hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysisbóta. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt tekið fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans.

Í 2. mgr. 14. gr. laganna sé einnig mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um atvinnuleysisbætur. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“.

Af framangreindum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrirfram um tekjur til stofnunarinnar. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um tekjur og að auki sé farið ítarlega yfir þær reglur á svokölluðum starfsleitarfundum stofnunarinnar.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að stofnunin fallist á að í þeim tilfellum þar sem lögum sé breytt og þeim komið í framkvæmd á þann hátt sem Tryggingastofnun ríkisins hafi gert sumarið 2013 réttlæti það að atvinnuleitandi hafi ekki getað fyrirfram tilkynnt stofnuninni um fyrirhugaða greiðslu ellilífeyris. Hins vegar hafi kæranda borið skylda til, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að tilkynna til Vinnumálastofnunar um greiðsluna eins fljótt og auðið væri. Þeirri upplýsingaskyldu hafi kærandi ekki sinnt fyrr en eftir að Vinnumálastofnun hafi óskað eftir upplýsingum um greiðsluna með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, í kjölfar samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra. Þar sem kærandi hafi ekki sinnt þeirri skyldu sem hvíli á honum að tilkynna til stofnunarinnar um það sem áhrif hafi haft á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar beri honum að sæta viðurlögum í formi tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, sbr. 59. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. ágúst 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. september 2014. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Eins og fram kemur í bréfi úrskurðarnefndarinnar barst nefndinni greinargerð Vinnumálastofnunar vegna mistaka ekki fyrr en 25. ágúst 2014.

 2.      Niðurstaða

Kærandi fékk í ágústmánuði 2013 greiddar frá Tryggingastofnun ríkisins samtals 76.188 kr. fyrir júlí- og ágústmánuð. Hann tilkynnti ekki um þessa greiðslu fyrr en eftir að Vinnumálastofnun innti hann eftir upplýsingum um ótilkynntar tekjur frá Tryggingastofnun en það gerði Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 11. nóvember 2013.

Í 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar látið er hjá líða að veita upplýsingar eða látið hjá líða að tilkynna um breytingar á högum. Samkvæmt 1. mgr. 59. gr. laganna skal sá, sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann færi greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr.

Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur aflað hjá Tryggingastofnun ríkisins sótti kærandi um ellilífeyri 8. ágúst 2013 og fékk umsóknina samþykkta 13. ágúst 2013 og var sent bréf þar að lútandi þar sem gerð var grein fyrir greiðslum til hans fyrir júlí- og ágústmánuð 2013. Enn fremur sendi Tryggingastofnun honum annað bréf á sama tíma sem var greiðsluáætlun hans út árið. Úrskurðarnefndin getur því ekki fallist á þau rök kæranda að honum hafi verið alls ókunnugt um greiðslur þær sem hann fékk frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi gætti í kjölfar greiðslnanna ekki að þeirri ríku skyldu sinni skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að láta Vinnumálastofnun vita um ellilífeyrinn frá Tryggingastofnun. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.


  Úrskurðarorð

 Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. nóvember 2013 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í tvo mánuði frá og með 27. nóvember 2013 er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum