Hoppa yfir valmynd
28. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2014

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. október 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 9/2014.

 1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 13. nóvember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A að stofnunin hefði á fundi sínum 11. nóvember 2013 fjallað um greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá sem gerð var skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, hafi komið í ljós að kærandi væri skráð í nám jafnhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina. Í ljósi þess hafi greiðslum atvinnuleysisbóta til hennar verið hætt með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistrygginga. Jafnframt taldi Vinnumálastofnun að kærandi hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 1. september til 30. október 2013 samtals að fjárhæð 271.547 kr. að meðtöldu 15% álagi sem henni bæri að endurgreiða skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 28. janúar 2014. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 7. ágúst 2013.

Kærandi kom á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar 1. október 2013 og greindi frá því að hún væri í níu eininga framhaldsskólanámi. Hún hafði þá ekki óskað eftir gerð námssamnings vegna námsins. Var henni leiðbeint um að senda staðfestingu á skólavist og sækja um námsstyrk. Umbeðin staðfesting á skólavist barst ekki Vinnumálastofnun. Kæranda var sent bréf 23. október 2013 þess efnis að við samkeyrslu atvinnuleysisskrár Vinnumálastofnunar við nemendaskrár viðurkenndra menntastofnana og skóla á háskólastigi hafi komið í ljós að kærandi var við nám samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur og án þess að fyrir lægi námssamningur við stofnunina og að slíkt gengi í berhögg við 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Tekið var fram að kærandi uppfyllti ekki skilyrði laganna til greiðslu atvinnuleysisbóta og það kynni að leiða til þess að hún myndi missa rétt sinn til þeirra. Var henni bent á að hafa samband við ráðgjafa á næstu þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og jafnframt skila inn staðfestingu á einingafjölda frá viðkomandi skóla. Vinnumálastofnun barst skýringabréf frá kæranda 29. október 2013. Þar greindi kærandi frá því að hún væri skráð í 11 einingar við Borgarholtsskóla. Hún hafi talið að hún þyrfti ekki að tilkynna um nám sitt þar sem hún væri í fjarnámi sem stangaðist ekki á við vinnutíma.

Af hálfu kæranda kemur fram að hún hafi verið í atvinnuleit síðan í júlí 2013. Hún hafi starfað á leikskólanum B frá ágúst 2012 til júní 2013 og hafi verið samhliða því í fjarnámi í C á námsbraut leik- og skólaliða. Starfið hafi verið tímabundin afleysing, fyrst 100% og síðan í minna starfshlutfalli. Þegar ráðningunni hafi lokið í júní 2013 hafi hún sótt um atvinnuleysisbætur og fengið 62% bætur frá ágúst 2013 út október 2013. Þar sem hún hafi verið í námi sínu samhliða starfinu á B, hafi henni ekki dottið annað í hug en að hún gæti haldið því áfram, sérstaklega þar sem bótarétturinn hafði aðeins verið 62%. Námið stangist ekki á við vinnutíma og fari fram í frítíma kæranda á kvöldin og um helgar. Á haustönn 2013 hafi hún verið í 11 einingum og nú á vorönn 2014 sé hún í þremur einingum og muni útskrifast í maí.

Kærandi segir að sér sé kunnugt um það að þeir sem séu með 100% bótarétt megi stunda níu eininga nám í dagskóla samhliða atvinnuleit. Það sé henni því hulin ráðgáta hvers vegna hún, með 62% bótarétt, megi ekki stunda 11 eininga nám sem fari aðeins fram utan reglulegs vinnutíma. Þetta geti ekki staðist nokkra skoðun. Að auki sé henni kunnugt um ákveðinn einstakling sem sé á 100% atvinnuleysisbótum en sæki jafnframt Skrifstofuskólann, sem sé 18 eininga nám á önn og sé engin athugasemd gerð við það af hálfu Vinnumálastofnunar.

Sér til málsbóta tekur kærandi fram að hún sé í afar virkri atvinnuleit og sæki að meðaltali um fjögur störf á mánuði. Þegar henni bjóðist starf muni nám hennar ekki standa í vegi fyrir því að hún geti sinnt því og muni námið reyndar gera hana að enn öflugri starfskrafti, þar sem námið hafi eflt mjög færni hennar og bætt sjálfstraustið.

Það hafi verið yfirsjón af hennar hálfu að tilkynna ekki um námið þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur. Þá hefði hún að öllum líkindum getað gert námssamning (eins og sá sem sæki Skrifstofuskólann hafi gert), fækkað einingum úr 11 í 9 á haustönn 2013 og bætt þeim við á vorönn 2014, svo þetta hefði ekki verið vandamál. Henni hafi láðst að gera þetta og raunar ekki dottið í hug að það væri nauðsynlegt þar sem nám hennar hafi aldrei truflað atvinnu hennar og hafi heldur aldrei truflað atvinnuleitina eða komið í veg fyrir að hún gæti tekið starfi hefði það boðist henni á þessum tíma.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. mars 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vísar stofnunin í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um skilgreiningu á hugtakinu námi. Vinnumálastofnun vísar einnig til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en þar er skilgreining á hugtakinu námi. Fram kemur að mál þetta lúti að 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segi að hver sá sem stundi nám teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 2. og. 3. mgr. 52. gr. laganna segi að þrátt fyrir framangreint ákvæði geti atvinnuleitendur í háskólanámi átt rétt til atvinnuleysisbóta að nánari uppfylltum skilyrðum. Í máli kæranda sé ekki um að ræða nám á háskólastigi og eigi undanþágur í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna því ekki við. Kærandi hafi verið skráð í 11 eininga nám á framhaldsskólastigi. Verði því að álykta að meginregla sú er fram komi í 1. mgr. 52. gr. eigi við um atvik í máli kæranda.

 Vinnumálastofnun telur ljóst af tilvitnuðum ákvæðum að það sé ekki tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé í umfjöllun um 52. gr. frumvarpsins því haldið fram að það sé meginregla að námsfólk eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum hvort sem um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Auk þess sé eitt af almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt undanþáguheimild 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti sá sem stundar nám talist tryggður sé námið hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 5. gr. reglugerðar um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, nr. 12/2009, sé fjallað um námssamninga. Sé Vinnumálastofnun með 5. gr. reglugerðarinnar veitt heimild til að gera námssamning við atvinnuleitendur. Samkvæmt framangreindu sé það skilyrði fyrir því að geta sótt nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta að hinn tryggði hafi sótt um gerð námssamnings hjá Vinnumálastofnun. Kæranda hafi verið bent á það 1. október 2013 að skila inn staðfestingu á skólavist og óska eftir námssamningi við stofnunina. Kærandi hafi ekki framfylgt þeim leiðbeiningum og hafi Vinnumálastofnun því engan námssamning við kæranda gert vegna náms hennar við C.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laganna beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Beri kæranda því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 30. október 2013 að fjárhæð 271.547 kr. að 15% álagi meðtöldu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. mars 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. mars 2014. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

 2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þá segir í c-lið 3. gr. sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Í athugasemdum við 52. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám.

Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hún var skráð í ellefu eininga nám við C á haustönn 2013. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma eingöngu til skoðunar þegar nám er á háskólastigi og eiga þær því ekki við í máli kæranda.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og forsendna Vinnumálastofnunar er hin kærða ákvörðun staðfest.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfyllir ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Því er staðfest sú ákvörðun að kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að fjárhæð 236.128 kr. með viðbættu 15% álagi eða samtals að fjárhæð 271.547 kr.


Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. nóvember 2013 í máli A um stöðvun á greiðslum atvinnuleysistrygginga er staðfest. Kærandi skal endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 236.128 kr. með viðbættu 15% álagi eða samtals að fjárhæð 271.547 kr.

 Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum