Hoppa yfir valmynd
16. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 154/2013

 Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 16. september 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 154/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 12. desember 2012 og reiknaðist bótaréttur hennar 100%. Gerður var tvískiptur starfsþjálfunarsamningur milli kæranda, leikskólans B og Vinnumálastofnunar frá 16. maí til 30. júní 2013 og frá 1. ágúst til 16. desember 2013. Ráðningarsamningurinn var tvískiptur vegna sumarlokunar leikskólans í júlí. Kærandi var því afskráð af atvinnuleysisskrá frá og með 16. maí 2013 þegar hún hóf störf hjá leikskólanum B. Kæranda var ekki ljóst að hún þyrfti að sækja að nýju um atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuð 2013 en taldi að það dygði að staðfesta atvinnuleit rafrænt í kringum 20. júlí 2013. Beiðni kæranda um að rafræn staðfesting atvinnuleitar, sbr. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, yrði samþykkt og atvinnuleysisbætur greiddar afturvirkt fyrir júlímánuð var hafnað á fundi Vinnumálastofnunar 15. október 2013. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 19. desember 2013 og krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði hrundið og umsókn hennar samþykkt. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar 30. júlí 2013 til þess að fá aðstoð við að staðfesta atvinnuleit. Þar sem kærandi hafði verið afskráð af atvinnuleysisskrá frá þeim tíma sem starfsþjálfunarsamningurinn gilti hafði tilraun hennar til þess að staðfesta atvinnuleit með rafrænum hætti ekki borið árangur. Beiðni hennar um endurkomu á greiðsluskrá var skráð frá og með 30. júlí 2013 fyrir þann mánuð og henni ráðlagt að senda skýringabréf til Greiðslustofu vegna beiðni hennar um greiðslu fyrir júlímánuð. Í bréfi kæranda til Greiðslustofu, dags. 1. ágúst 2013, segir hún að hún hafi fengið þær leiðbeiningar að hún þyrfti að staðfesta atvinnuleit sína á mínum síðum á staðfestingartímabilinu í júlí svo hún yrði ekki launalaus þann mánuðinn. Þegar hún hafi ætlað að staðfesta atvinnuleit sína hafi það ekki gengið og í ljós hafi komið að hún hefði þurft að sækja um atvinnuleysisbætur á ný 1. júlí 2013.

Í kjölfar beiðni Vinnumálastofnunar um vinnuveitendavottorð lagði kærandi fram slíkt vottorð frá leikskólanum B 20. ágúst 2013. Samkvæmt því sagði kærandi upp störfum í júlí 2013 og mætti ekki til vinnu eftir sumarfrí. Óskað var eftir skriflegri afstöðu kæranda í bréfi, dags. 27. ágúst 2013, á ástæðum uppsagnar hennar hjá leikskólanum B. Í bréfi kæranda sem barst Vinnumálastofnun 30. ágúst 2013 greindi hún frá ástæðu þess að hún hafi sagt starfi sínu á B lausu. Henni hefði boðist önnur vinna í júlí sem hún hafi ákveðið að þiggja og að störf hafi hafist eftir verslunarmannahelgi. Hún hafi haldið að hún ætti að staðfesta atvinnuleit í kringum 20. júlí en í ljós hafi komið að það hafi gleymst að láta hana vita við gerð starfsþjálfunarsamningsins að hún ætti að endurskrá sig fyrsta daginn í sumarfríinu. Af erindi hennar hafi mátt ráða að hún færi fram á greiðslur atvinnuleysisbóta fyrir júlímánuð 2013.

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar 10. september 2013 en þar sem hún sagði starfi sínu lausu hjá leikskólanum B án gildra ástæðna var henni úrskurðaður þriggja mánaða biðtíma á grundvelli 54. gr., sbr. 1. mgr. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun barst erindi frá kæranda 25. september 2013 þar sem hún fór fram á að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuð 2013. Beiðni kæranda var tekin fyrir á fundi 15. október 2013 og var kæranda synjað um greiðslur atvinnuleysisbóta fyrir júlímánuð. Vinnumálastofnun barst bréf frá kæranda 18. október 2013 þar sem hún greindi frá því að þegar starfsþjálfunarsamningurinn hafi verið gerður hafi henni verið sagt að hún myndi fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuð frá stofnuninni. Hún hafi spurt hvernig hún ætti að bera sig að og hafi henni verið sagt að það eina sem hún þyrfti að gera væri að staðfesta atvinnuleit á tímabilinu 20. til 25. júlí 2013. Kærandi óskaði endurskoðunar á máli sínu. Kæranda var endursent bréf, dags. 16. október 2013, með nýrri dagsetningu, 21. október 2013, sökum þess að röng kennitala var gefin upp í fyrra bréfinu. Það var mat stofnunarinnar að bréf kæranda, dags. 18. október 2013, gæfi ekki tilefni til að kanna hvort endurskoða ætti ákvörðun stofnunarinnar í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, enda hafi mátt leiða líkum að því að beiðni hennar væri ítrekun á erindi hennar frá 25. september 2013 og að henni hafi ekki borist bréf stofnunarinnar þar sem henni hafi verið tilkynnt að beiðni hennar um greiðslu fyrir júlímánuð væri hafnað.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi og var hann birtur 31. október 2013.

 Með bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 5. nóvember 2013, óskaði hún eftir því að mál hennar yrði tekið til meðferðar á ný á þeim forsendum að rökstuðningur stofnunarinnar væri ekki réttur og hann væri ófullnægjandi. Kærandi tók fram að hún hafi ekki fengið upplýsingar um að skrá sig aftur hjá Vinnumálastofnun í sumarfríinu. Hún hafi spurt þegar starfsþjálfunarsamningurinn hafi verið gerður hvernig hún ætti að bera sig að til þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuði og hafi henni verið sagt að staðfesta atvinnuleit á staðfestingartímabilinu. Þá benti kærandi á að ekki væru leiðbeiningar á síðu Vinnumálastofnunar vegna sambærilegra atvika.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi Vinnumálastofnunar 21. nóvember 2013 í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og var fyrri úrskurður frá 15. október 2013 staðfestur. Fram kemur að sökum mistaka hafi það farist fyrir hjá Vinnumálastofnun að tilkynna kæranda um efni ákvörðunarinnar.

Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar kemur meðal annars fram 14. september 2013 hjá C að fyrirfram hafi verið vitað að starfsþjálfun hjá B væri með tvískiptu ráðningartímabili en kærandi hafi misskilið ferlið og ekki skráð sig strax þegar leikskólinn hafi farið í frí.

Kærandi krefst þess að sér verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuð 2013 afturvirkt. Hún hafi fengið ónógar og misvísandi upplýsingar. Í maí 2013 hafi hún gert starfsþjálfunarsamning við leikskólann B í gegnum Vinnumálastofnun. Þar sem leikskólinn hafi verið lokaður í júlí hafi verið samið um það að hún fengi bætur á þeim tíma frá Vinnumálastofnun og hafi samningurinn við leikskólann verið tvískiptur. Henni hafi verið sagt að stimpla sig inn rafrænt á tímabilinu 20. til 25. júlí inni á mínum síðum. Hún hafi spurt til öryggis hvort þetta væri það eina sem hún þyrfti að gera og hafi svarið verið já. Þegar að því hafi komið að hún stimplaði sig inn hafi staðfestingin ekki farið í gegn og komið hafi í ljós að kærandi væri ekki á skrá hjá Vinnumálastofnun. Hafi henni þá verið bent á að hafa samband við Greiðslustofu og biðja um afturvirka stimplun en því hafi verið hafnað.

Kærandi kveðst hafa látið vita um miðjan júlí og sagt upp samningnum frá og með 1. ágúst 2013 og ráðið sig í aðra vinnu. Greiðslustofa hafi afgreitt málið vitlaust í byrjun og hafi sett hana á bið. Hún geti ekki séð að samningurinn sem hún hafi sagt upp frá 1. ágúst geti haft áhrif á bætur í júlí. Greiðslustofa hafi gleymt málinu tvisvar sinnum. Hún hafi beðið um endurupptöku málsins en verið vísað annað og þaðan annað og þaðan enn annað. Hún hafi ekki fengið sendar upplýsingar um allar ákvarðanir Greiðslustofu. Þá hafi hún leitað á síðu Vinnumálastofnunar eftir leiðbeiningum um sambærileg mál en ekki fundið.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. febrúar 2014, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna beiðni kæranda um að fá greiddar atvinnuleysisbætur aftur fyrir dagsetningu umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur, en kærandi krefjist þess að frá greiddar bætur afturvirkt fyrir júlímánuð 2013. Vinnumálastofnun bendir á 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og segir að samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði sé það meginregla varðandi greiðslu atvinnuleysisbóta að umsækjandi um atvinnuleysisbætur fái ekki greitt fyrr en frá umsóknardegi. Hinn tryggði geti fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum frá þeim degi sem Vinnumálastofnun taki við umsókn hans. Í þeim tilvikum sem atvinnuleitendur sæki um atvinnuleysisbætur innan þriggja mánaða frá því að þeir fengu síðast greitt hjá stofnuninni sé ekki gerð krafa um að þeir fylli út nýja umsókn á heimasíðu stofnunarinnar. Sé nóg að viðkomandi komi á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar og óski eftir endurkomu á greiðsluskrá. Sé þá greitt frá og með þeim degi sem viðkomandi komi á þjónustuskrifstofuna.

Eðli málsins samkvæmt sé það grundvallarskilyrði til að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta að hinn tryggði sæki um slíkt til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi verið afskráð af greiðsluskrá Vinnumálastofnunar þegar hún hóf störf fyrir leikskólann B enda hafi hún þá ekki lengur verið án atvinnu. Það sé ljóst af gögnum málsins að kærandi hafi komið á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar 30. júlí 2013 og óskað eftir aðstoð við að staðfesta atvinnuleit sína á heimasíðu stofnunarinnar. Þar sem hún hafi ekki sótt um bætur og hafi ekki verið skráð atvinnulaus hafi umsókn hennar verið stofnuð frá og með þeim degi. Kærandi hafi því ekki sótt um atvinnuleysisbætur fyrr en 30. júlí 2013.

Kærandi haldi því fram í kæru sinni að henni hafi verið tjáð að nóg væri fyrir hana að staðfesta atvinnuleit sína þegar vinnu hennar væri lokið. Hún hafi spurt hvort það væri það sem henni bæri að gera og að fulltrúi stofnunarinnar hafi svarað því játandi. Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að hún fallist ekki á skýringar kæranda. Vinnumálastofnun sé ómögulegt að greiða atvinnuleysisbætur til einstaklinga sem ekki séu skráðir atvinnulausir hjá stofnuninni. Hafi stofnunin ekki forsendur til að greiða bætur til atvinnuleitanda nema fyrir liggi samþykkt umsókn um slíkar bætur. Ekki séu fyrir hendi nein gögn sem styðji fullyrðingar kæranda um að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi tjáð henni að nægilegt væri að staðfesta atvinnuleit á heimasíðu stofnunarinnar til að fá aftur greiddar atvinnuleysisbætur. Þvert á móti komi skýrt fram í gögnum málsins að kæranda hafi verið gert ljóst að hún hafi þurft að sækja aftur um atvinnuleysisbætur til að fá greiddar bætur ef ekki yrði af áframhaldandi ráðningu. Vinnumálastofnun bendir á að í samningi um starfsþjálfun hjá leikskólanum B sem kærandi hafi undirritað 13. maí 2013 sé sérstaklega áréttað að kærandi þurfi að skrá sig aftur hjá Vinnumálastofnun. Segi í feitletraðri 2. gr. samningsins að verði ekki af áframhaldandi ráðningu þurfi atvinnuleitandi að koma á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og skrá sig. Þá sé einnig tekið fram í samningi að atvinnuleitendur í starfstengdu vinnumarkaðsátaki séu afskráðir meðan á vinnu standi. Kærandi hafi því ekki getað gert ráð fyrir því að staðfesting á atvinnuleit, næstum mánuði eftir að störfum hennar hafi lokið hjá fyrirtækinu, myndi nægja sem umsókn um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur sér ekki heimilt að greiða kæranda atvinnuleysisbætur fyrir júlímánuð 2013 þar sem hún hafi ekki verið skráð atvinnulaus hjá stofnuninni á þeim tíma.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 13. mars 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir júlímánuð 2013 en hún sótti fyrst um atvinnuleysisbætur fyrir þann mánuð 30. júlí 2013. Gerður hafði verið starfsþjálfunarsamningur milli kæranda, leikskólans B og Vinnumálastofnunar með tvískiptum ráðningartíma vegna sumarlokunar leikskólans í júlí, þ.e. frá 16. maí til 30. júní 2013 og frá 1. ágúst til 16. desember 2013. Kærandi fullyrðir að sér hafi verið sagt að stimpla sig inn á tímabilinu 20. til 25. júlí 2013 vegna greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir júlímánuð en Vinnumálastofnun segir að um sé að ræða misskilning kæranda.

Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur og er 1. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

Launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir. Umsóknin skal vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skal meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar er varða vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum.“

Í 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í þrjú ár frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps þess sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að miðað sé við að það tímabil sem atvinnuleysisbætur eru greiddar hefjist þegar Vinnumálastofnun móttekur umsókn um atvinnuleysisbætur.

Í samningi þeim sem gerður var við kæranda um starfsþjálfun á leikskólanum B 13. maí 2013 kemur fram að allir þeir sem eru í vinnumarkaðsúrræðum af því tagi séu afskráðir og þurfi ekki að stimpla sig á meðan þeir eru í vinnu. Enn fremur segir í 2. gr. samningsins að verði ekki af áframhaldandi ráðningu þurfi atvinnuleitandi að koma á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og skrá sig og skila vottorði vinnuveitanda fyrsta daginn sem hann sé í atvinnuleit á ný. Með vísan til þessa og skv. 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gat kærandi fyrst átt rétt á atvinnuleysisbótum frá og með þeim tíma sem umsókn um atvinnuleysisbætur barst frá henni enda er það í valdi atvinnuleitanda sjálfs að sækja um atvinnuleysisbætur.

Hin kærða ákvörðun er staðfest.

 Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. október 2013 um að synja beiðni A um greiðslu atvinnuleysisbóta afturvirkt fyrir júlímánuð 2013 er staðfest.

 Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum