Hoppa yfir valmynd
1. ágúst 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 141/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. ágúst 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 141/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 15. október 2013 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Fyrir lá afstaða kæranda til námsloka. Vinnumálastofnun tók ákvörðun um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta með vísan til námsloka hans hjá Tækniskóla Íslands í þrjá mánuði, með vísan til 1. mgr. 55. gr., sbr. 56. gr., laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, en kærandi hafði áður sætt niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði vegna námsloka. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 27. nóvember 2013. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði leiðrétt. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 9. ágúst 2013. Við afgreiðslu á umsókn hans kom í ljós að hann hafði verið skráður í nám í Tækniskóla Íslands á vorönn 2013 en ekki haldið námi sínu áfram. Vinnumálastofnun óskaði skýringa á ástæðum námsloka. Kærandi kvaðst í tölvupósti hafa átt í erfiðleikum með námið og að hann væri óviss um val sitt á námsleið og starfsferil því tengdu til framtíðar. Kærandi hafði áður sætt biðtíma á grundvelli 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar í júní 2010. Sú ákvörðun leiddi því til ítrekunaráhrifa skv. 56. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun 18. nóvember 2013 og sagðist hafa þurft að hætta námi vegna veikinda. Var honum ráðlagt að leggja fram læknisvottorð og tjáð að bærist staðfesting á því að hann hafi þurft að segja sig úr námi vegna veikinda myndi Vinnumálastofnun taka málið fyrir að nýju.

Í kæru kæranda kemur fram að hann hafi skráð sig í skóla sökum óvinnufærni vegna vinnuslyss sem hann hafi lent í og vegna þess að sálfræðingur hafi ráðlagt honum það. Kærandi lenti í alvarlegu bílslysi í desember 2011. Hann brotnaði illa á hendi og þurfti ítrekað að gangast undir aðgerðir vegna þess. Hann náði á tímabilinu vinnufærni en brotnaði að nýju 25. janúar 2013. Fram kemur að hann hafi ekki ætlað að halda áfram námi á næstu skólaönn heldur hafi hann ætlað að vinna, en þar sem hann hafi verið orðinn óvinnufær að nýju hafi honum snúist hugur og hafi hann fengið undanþágu til þess að skrá sig í Tækniskóla Íslands eftir að umsóknartímabilið hafi verið liðið vegna aðstæðna sinna. Áður en skólaönnin hafi verið hálfnuð hafi kærandi gefist upp á náminu sökum þunglyndis vegna aðstæðna sinna og hafi hann einnig farið að efast um að vélstjóranámið hentaði honum vegna brothættu handarinnar. Kærandi var í júlí 2013 metinn vinnufær að nýju af bæklunarlækni. Hann hafi hvergi fundið vinnu og því neyðst til þess að skrá sig atvinnulausan.

Í vottorði B heimilislæknis, dags. 8. október 2013, sé gerð grein fyrir umferðarslysinu sem kærandi lenti í, afleiðingum þess og meðferðum. Enn fremur komi þar fram að kærandi hafi glímt við þunglyndi og kvíða og hafi verið saga um slíkt hjá honum fyrir bílslysið, en það hafi aukist eftir slysið. Einnig segi í framangreindu vottorði að kærandi hafi hlotið erfitt framhandleggsbrot vegna umferðarslyssins í desember 2011 sem hafi gróið illa og hafi hann þurft að fara í endurteknar bæklunarskurðaðgerðir í kjölfarið. Hafi þetta valdið kæranda langvinnum óþægindum og skert vinnufærni verulega. Áverkinn og slysið hafi einnig haft veruleg sálræn áhrif á kæranda.

Í öðru læknisvottorði B heimilislæknis, dags. 21. nóvember 2013, segi að námið hafi ekki gengið hjá kæranda vegna þunglyndis. Hann hafi hlotið skaða á vinstra handlegg í vinnuslysi í desember 2011. Brotið hafi brotnað upp og gróið illa og hafi kærandi þurft að fara í þrjár aðgerðir. Hafi síðasta aðgerðin verið í febrúar 2013. Verið geti að hann þurfi að fara í viðbótaraðgerð. Kærandi sé viðkvæmur í olnboga og framhandlegg á vinstri hendi og ekki með fulla hreyfigetu og eigi erfitt með að vinna erfið áreynslustörf með vinstri hendinni.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnunin hafi ekki fjallað um þær nýju upplýsingar og gögn sem kærandi lagði fyrir úrskurðarnefndina með kæru sinni. Hafi Vinnumálastofnun því ekki tekið afstöðu til þeirra gagna.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. janúar 2014, kemur fram að mál þetta lúti að 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í greinargerð við frumvarp það er varð síðar að lögunum sé í umfjöllun um 1. mgr. 55. gr. vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins um hvaða ástæður geti talist gildar ástæður fyrir því að hætta störfum. Í greinargerðinni segi við 1. mgr. 54. gr. að erfitt geti reynst að telja með tæmandi hætti hvaða ástæður séu gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laganna. Sé lagareglan því matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur fellur að umræddri reglu. Stofnunin skuli líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Jafnframt beri að líta til þess að orðalagið „gildar ástæður“ beri að túlka þröngt í þessu samhengi og þar af leiðandi falli færri tilvik en ella þar undir. Í dæmaskyni sem gildar ástæður í skilningi laganna séu til dæmis nefnd þau tilvik þegar fjölskylda umsækjanda flytur búferlum vegna starfa maka eða vegna heilsufarsástæðna atvinnuleitanda.

Kærandi hafi verið skráður í nám við Tækniskólann í Reykjavík á vorönn 2013. Hann hafi ekki lokið námi í skólanum. Í skýringarbréfi kæranda, mótteknu 7. október 2013, komi fram að hann hafi hætt námi vegna þess að hann hafi átt í erfiðleikum með það vegna þess að hann hafi ekki verið viss um að hann væri á réttri braut. Hafi hann séð fram á að hann myndi ekki njóta sín í starfi ef hann stæði ekki heilshugar á bak við val sitt.

Að mati Vinnumálastofnunar verði ekki séð að framangreindar ástæður fyrir að hætta námi geti talist gildar í skilningi 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi athugasemda við 55. og 54. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar geti áhugaleysi eða óánægja með val sitt á starfi eða námi ekki talist gild ástæða í skilningi laganna enda verði ekki séð að breyttar forsendur hafi verið fyrir áframhaldandi námsþátttöku kæranda. Það hafi því verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi sæta biðtíma á grundvelli 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru hafi komið fram nýjar ástæður fyrir námslokum kæranda. Segi þar að hann hafi skráð sig úr skóla sökum óvinnufærni í kjölfar vinnuslyss. Í læknisvottorði sem hafi borist úrskurðarnefndinni komi fram að sökum þunglyndis hafi nám kæranda ekki gengið upp.

Fram kemur að Vinnumálastofnun hafi ekki fjallað um þær upplýsingar og þau gögn í máli kæranda sem hafi borist úrskurðarnefndarinni með kærunni. Kærandi hafi haft samband við Vinnumálastofnun 18. nóvember 2013 í kjölfar ákvörðunar stofnunarinnar. Hafi honum verið tjáð að ef Vinnumálastofnun fengi staðfestingu á því að kærandi hefði þurft að segja sig úr námi vegna veikinda myndi stofnunin taka mál hans fyrir að nýju. Í stað þess að óska endurupptöku hjá Vinnumálastofnun hafi kærandi kosið að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar. Hafi Vinnumálastofnun því ekki tekið afstöðu til þeirra gagna sem nú liggi fyrir í málinu.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 19. febrúar 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur hætt námi, sbr. c-lið 3. gr., án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Staðfesting frá viðkomandi skóla um að námi hafi verið hætt skal fylgja umsókninni.

Í athugasemdum við 55. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar segir að eðlilegra þyki að þeir sem hætta í námi án þess að hafa til þess gildar ástæður þurfi að sæta sams konar biðtíma og þeir sem hætti störfum án gildra ástæðna, sbr. 54. gr. frumvarpsins. Skiptir þá ekki hvenær á námsönn hlutaðeigandi hættir námi. Gert er ráð fyrir að vottorð frá hlutaðeigandi skóla um að hann hafi hætt námi fylgi umsókninni.

Jafnframt er vísað til athugasemda við 54. gr. frumvarpsins. Þar segir að nefnd er fjallaði um efni laganna hafi tekið afstöðu til þess hvað gætu talist gildar ástæður og komist að þeirri niðurstöðu að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega slíkar ástæður í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagaregla þessi verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun sé þar með falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni beri því að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í frumvarpinu kemur fram að sem gildar ástæður í skilningi laganna geti til dæmis verið þegar fjölskylda umsækjanda flytur búferlum vegna starfa maka eða vegna heilsufarsástæðna atvinnuleitanda.

Kærandi slasaðist alvarlega á framhandlegg í bílslysi í desember 2011 eins og rakið er í gögnum málsins, meðal annars í vottorði B heimilislæknis, dags. 8. október 2013, en þar kemur fram að kærandi hafi ítrekað þurft að fara í aðgerðir vegna afleiðinga slyssins og hafi síðasta aðgerðin verið í febrúar 2013. Hann gæti þurft að fara í fleiri aðgerðir. Í öðru vottorði sama læknis, dags. 21. nóvember 2013, segir síðan að nám kæranda hafi ekki gengið upp vegna þunglyndis sem hann glímdi við, hann hafi ekki getað einbeitt sér að náminu og ekki treyst sér til þess að ljúka því.

Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 7. október 2013, í tilefni af fyrirhugaðri ákvörðun stofnunarinnar um að láta kæranda sæta biðtíma skv. 1. mgr. 55. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, kom meðal annars fram að hann hafi átt í erfiðleikum með nám sitt og væri ekki viss um að hann vildi gera námið að framtíðarstarfi. Síðari skýringar á því að kærandi hætti námi byggja á áðurnefndum vottorðum heimilislæknis kæranda, dags. 8. október 2013 og 21. nóvember 2013. Á grundvelli þessara tveggja vottorða, sem og annarra sem lögð hafa verið fram í málinu, má ætla að líkur séu á að hafna eigi umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur sökum heilsuleysis hans, sbr. b-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með stoð í sömu gögnum má jafnframt efast um að hann sé fær til flestra almennra starfa, sbr. a-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þess ósamræmis sem er á milli upphaflegu skýringa kæranda á námslokum sínum og þeirra upplýsinga sem koma fram í tveimur síðari læknisvottorðum er full ástæða til að kanna hvort kærandi hafi, á umsóknardegi, uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um virka atvinnuleit. Sú ákvörðun, að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur, er meira íþyngjandi en sú ákvörðun sem er hér til endurskoðunar. Jafnframt verður til þess að líta að Vinnumálastofnun gafst ekki kostur á að endurskoða hina kærðu ákvörðun með hliðsjón af þeim vottorðum sem kærandi lagði fram samhliða kæru til úrskurðarnefndarinnar. Rétt þykir því að gefa Vinnumálastofnun kost á að endurskoða málið frá grunni og taka nýja ákvörðun um afdrif umsóknar kæranda frá því í ágúst 2013.

Með vísan til framanritaðs er hin kærða ákvörðun ómerkt og Vinnumálastofnun gert að taka málið fyrir að nýju.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. október 2013 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í þrjá mánuði er ómerkt og skal Vinnumálastofnun taka mál hans fyrir að nýju.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum