Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 138/2013

Úrskurður


Kæranda bar enn fremur að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. júlí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 138/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að í bréfi, dags. 7. október 2013, var fjallað um mál kæranda, A. Tekin var ákvörðun um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hefði verið að vinna hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kæranda var með sama bréfi gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 21. mars til 30. september 2013 samtals með 15% álagi að fjárhæð 892.735 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. nóvember 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 12. febrúar 2013.

Vinnumálastofnun barst ábending þess efnis að kærandi væri við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 12. febrúar 2014, segir að við athugun eftirlitsdeildar stofnunarinnar hafi komið í ljós að kærandi hafi verið við störf á auglýsingaskrifstofunni B. Meðal gagna í málinu voru skjámyndir af fésbókarsíðu B., ásamt skjámyndum af síðu kæranda. Vinnumálastofnun óskaði skýringa hjá kæranda á því hvers vegna hann hefði ekki tilkynnt stofnuninni um vinnu sína. Í bréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 1. október 2013, sagðist hann ekki hafa starfað hjá neinu félagi né fengið greidd laun frá því að hann hafi skráð sig atvinnulausan.

Kærandi óskaði eftir rökstuðningi á grundvelli 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar dags. 25. október 2013.

Í kæru kæranda kemur fram að hann sé ekki í vinnu og fái hvergi laun. Hann hafi átt aðild að fyrirtækinu B en hafi gengið út úr félaginu í janúar 2013 vegna þess að félagið hafi verið komið í söluferli. Síðar hafi þó verið hætt við söluna og hafi stefnt í að félagið færi í þrot og kærandi hafi ákveðið að segja skilið við það. Fyrrverandi samstarfsmenn hans hafi haldið rekstrinum áfram og séu enn að reyna að bjarga því. Ástæða fyrir því að kærandi sé enn skráður fyrir ýmsu í félaginu sé vegna skulda sem ekki sé hægt að losna við vegna bankaábyrgða og fleira sem hafi verið skráð á hann.

Eftir þetta hafi kærandi þurft að ljúka örfáum málum og hafi hann því komið á vinnustaðinn í nokkur skipti til þess að gera það. Hann sé einnig í vinasambandi við starfsmenn auglýsingastofunnar og hafi því stundum komið í heimsókn, það hafi hjálpað honum við atvinnuleitina að fá fréttir af markaðnum. Hann viðurkennir að hann hefði getað verið virkari í atvinnuleit á þessum tíma, en því miður hafi hann þurft að vinna í sínum málum og hafi þessi tími verið gífurlega erfiður fyrir hann.

Kærandi kveðst ekki hafa fengið nein laun á þessu ári og hann skuldi töluverðar fjárhæðir og sé úrræðalaus. Hann hafi ekki verið að misnota Atvinnuleysistryggingasjóð og ef ákvörðun Vinnumálastofnunar standi þá sé hann gjaldþrota.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. febrúar 2014, segir Vinnumálastofnun að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé gerð grein fyrir því hvaða atvik skuli leiða til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum við 23. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Fram kemur hjá Vinnumálastofnun að samkvæmt gögnum í máli kæranda hafi hann starfað hjá B eftir að hann hafi skráð sig atvinnulausan. Stofnuninni hafi ekki borist tilkynningar um störf hans. Á skjámyndum af fésbókarsíðu B sem og á skjámyndum af síðu kæranda verði séð að starfsemi hafi verið hjá félaginu þegar hann þáði atvinnuleysisbætur. Af gögnunum megi einnig ráða að kærandi hafi verið við störf á B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur, eða a.m.k. frá 21. mars 2013.

Þá liggi fyrir yfirlit yfir hlutafélagaþátttöku kæranda frá C og af yfirlitinu megi sjá að kærandi sé skráður stjórnarmaður fyrirtækisins B og eini prókúruhafi og stofnandi þess. Áframhaldandi stjórnunartengsl kæranda bendi ekki til þess að hann hafi yfirgefið fyrirtækið líkt og hann haldi fram í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar enda hafi hann áfram verið skráður stjórnarmaður hjá fyrirtækinu og eini prókúruhafi þess. Í ljósi fyrirliggjandi gagna verði ekki fallist á þær skýringar kæranda að hann hafi ekki verið við störf hjá fyrirtækinu. Vinnumálastofnun vekur einnig athygli á því að umrætt fyrirtæki hafi óskað eftir forritara í maí 2013 á meðan stjórnarmaður, stofnandi og prókúruhafi fyrirtækisins hafi þegið atvinnuleysisbætur.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna að atvinnuleit sé hætt eða tilkynna um tekjur skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við Vinnumálastofnun og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Það er enn fremur niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð samtals 892.735 kr. með 15% álagi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. mars 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Þessi síðari málsliður á við í máli þessu.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 12. febrúar 2013 en Vinnumálastofnun stöðvaði bótagreiðslur til hans 2. október 2013 vegna þess að hann var talinn hafa verið við vinnu hjá B. Kærandi mótmælir þessu í kæru sinni og kveðst hafa gengið út úr félaginu í janúar 2013. Hann hafi þó þurft að ljúka örfáum málum þar auk þess sem starfsmenn fyrirtækisins séu vinir hans. Þá hafi félagið verið í söluferli sem hafi mistekist og ástæðan fyrir því að hann sé ennþá skráður fyrir ýmsu í félaginu sé vegna skulda sem ekki sé hægt að losna við og bankaábyrgða. Svo hafi virst að fyrirtækið væri á leið í þrot. Fyrrverandi samstarfsmenn kæranda hafi haldið rekstrinum áfram og séu að reyna að bjarga fyrirtækinu.

Meðal gagna málsins eru skjámyndir af fésbókarsíðu B ásamt skjámyndum af síðu kæranda. Af þeim síðum má ráða að starfsemi hafi verið hjá B og að kærandi hafi verið þar við störf eftir að hann hóf að þiggja atvinnuleysisbætur. Þá kemur fram í gögnum málsins að B óskaði eftir forritara í maí 2013, en það bendir ekki til þess að fyrirtækið hafi verið við það að fara í þrot svo sem kærandi fullyrðir í kæru.

Í málinu liggur fyrir yfirlit yfir hlutafélagaþátttöku kæranda frá C sem sýnir að hann sé skráður stjórnarmaður fyrirtækisins B eini prókúruhafi og stofnandi þess.

Samkvæmt framanskráðu var kærandi í vinnu samhliða töku atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna Vinnumálastofnun að atvinnuleit væri hætt. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að kærandi hafi með þessu brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun og beri að sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda ber enn fremur að endurgreiða atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 892.735 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. október 2013 í máli A þess efnis að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til hans er staðfest. Enn fremur er staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 892.735 kr. með inniföldu 15% álagi.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum