Hoppa yfir valmynd
20. júní 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 119/2013

Úrskurður


Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 20. júní 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 119/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 7. október 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem hún hafði tekjur frá eigin rekstri vegna fyrirtækisins B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna slíkt til Vinnumálastofnunar. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. október 2013 til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 23. október 2013. Kærandi fer fram á að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir ágústmánuð 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilunum 31. desember 2008 til 3. apríl 2009, 15. mars 2010 til 31. mars 2011, 29. september 2011 til 6. október 2011 og 20. október 2011 til 20. febrúar 2012.

Þann 22. desember 2011 var umsókn kæranda um þátttöku í verkefninu þróun eigin viðskiptahugmyndar samþykkt og var henni veitt heimild til að vinna að eigin rekstri, B, í sex mánuði frá undirritun samnings. Kærandi tilkynnti um tekjur frá B fyrir desember 2011 til mars 2012.

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn 14. febrúar 2013. Þann 21. ágúst 2013 var kæranda sent bréf þar sem henni var tilkynnt að samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hjá Vinnumálastofnun væri hún eigandi að fyrirtækinu B án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Ekki væri ljóst hvernig rekstri fyrirtækisins væri háttað, hvert væri umfang starfseminnar eða hvert vinnuframlag hennar væri hjá fyrirtækinu. Af þeim sökum var óskað eftir skriflegri afstöðu frá kæranda.

Þann 4. september 2013 barst Vinnumálstofnun skýringarbréf frá kæranda. Í bréfinu er meðal annars greint frá því að hún eigi hlut í fyrirtækinu B en fyrirtækið hafi ekki haft neina burði til að greiða út laun. Fram kom að fyrirtækið ætti von á styrkgreiðslu frá C og að því gefnu að styrkurinn yrði veittur myndi hún byrja að greiða sér lágmarkslaun um mánaðamótin september/október.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi stofnunarinnar 12. september 2013. Þá kom í ljós að kærandi hafði haft tekjur frá B í júní, júlí og ágúst 2013 án þess að tilkynna um það til Vinnumálastofnunar. Af þeim sökum var kæranda sent bréf, dags. 12. september 2013, þar sem óskað var eftir því að hún myndi fylla út tilkynningu um tekjur.

Þann 20. september 2013 barst Vinnumálastofnun skýringarbréf frá kæranda þar sem hún greindi frá því að hún hafi ekki áttað sig á því að hún hafi þurft að tilkynna um tekjur sínar til stofnunarinnar þar sem hún hafi fengið þær upplýsingar að hún mætti greiða sér þetta lág laun þó hún fengi greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi tók fram að hún væri ekki að óska eftir áframhaldandi greiðslum atvinnuleysisbóta en hins vegar yrði hún að fá útborgað fyrir septembermánuð svo hlutirnir gætu gengið upp. Með bréfi kæranda fylgdu launaseðlar fyrir júní, júlí og ágúst 2013. Þá gaf kærandi upp að hún væri með 45.000 kr. í tekjur þessa þrjá mánuði.

Í kæru, dags. 23. október 2013, greinir kærandi frá því að ákveðið hafi verið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta þar sem hún hafi haft tekjur af eigin rekstri sem hafi gleymst að tilkynna. Þetta hafi verið þrír mánuðir, júní–ágúst 2013 að fjárhæð 45.000 kr. á mánuði. Kærandi sendi í kjölfarið inn öll gögn og skráði á vefnum.

Kröfur kæranda eru að greiddar verði atvinnuleysisbætur fyrir ágústmánuð. Fyrsta bréfið frá Vinnumálastofnun hafi verið dagsett 21. ágúst (stimplað 28. ágúst á D) og kærandi fengið það í hendurnar 30. ágúst 2014. Þá hafi komið í ljós með þessum stutta fyrirvara að greiðslur til kæranda hafi verið stöðvaðar. Þarna hafi kærandi verið tekjulaus í einn mánuð og það hafi riðlað högum hennar.

Kærandi skráði sig í kjölfarið af bótum eins og alltaf hafi staðið til að gera því hún hafi séð fram á tekjumöguleika í fyrirtækinu með haustinu og þar af leiðandi möguleika á að greiða út lágmarkslaun, um það bil 215.000 kr.

Frá upphafi hafi kærandi fyllt út umsókn vegna atvinnuleysisbóta í fullu samráði við starfsmenn Vinnumálastofnunar á E sem viti allt um hagi hennar.

Ekki hafi verið hægt að sjá fram á síðastliðið vor þegar kærandi skráði sig á bætur að fyrirtækið B myndi geta greitt út laun næsta árið og sýni ársreikningur taprekstur. Kærandi hafi því farið í umsóknarferli annars staðar og sótt á þessu tímabili um vinnu hjá C, F og G. Þetta hafi verið einu störfin fyrir austan sem samræmdust menntun og reynslu kæranda.

Meðan enga vinnu hafi verið að fá hafi kærandi aðeins unnið í fyrirtækinu sumarið 2013 meðan ferðamenn hafi verið sýnilegir með þá von að skapa fleiri verkefni. Þá hafi orðið til möguleiki á að greiða kæranda einni út lágmarkslaun meðfram atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi fengið upplýsingar frá Vinnumálastofnun á E hver fjárhæðin væri en hreinlega ekki gert sér grein fyrir að hún ætti að láta skrá það sérstaklega inn í kerfið. Kærandi hafi svo gert það þegar hún hafi fengið bréf frá stofnuninni þess efnis að þetta vantaði.

Til hafi staðið að skrá sig af bótum í september þar sem það eina sem kom út úr umsóknarferli annars staðar hafi verið að fyrirtæki hafi gefið í skyn að möguleiki væri á að úthýsa á B verkefnum um haustið. Kærandi hafi því séð tekjumöguleika í fyrirtækinu frá og með haustinu og möguleika að geta greitt út lágmarkslaun.

Með engum fyrirvara, eða 30. ágúst, hafi kærandi gert sér grein fyrir að fá jafnvel ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir ágústmánuð. Þessari tekjuleið sem kærandi hafði gert ráð fyrir að hafa í ágúst hafi þannig verið kippt út og riðlað fyrirkomulagi heimilisins í kjölfarið. Kærandi vonar því að hér sé um einhvern misskilning að ræða.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tína og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 10. eða 35. gr. a laganna.

Með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. eða 35. gr. a laganna.

Þá sé í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir liggi að kærandi hafi verið við störf fyrir B í júní, júlí og ágúst 2013 sem hún fékk greidd laun fyrir. Kærandi hafi ekki tilkynnt um vinnu sína hjá B til Vinnumálastofnunar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hafi kærandi tekið meðal annars fram að hún hafi fyllt út umsókn um atvinnuleysisbætur í fullu samráði við starfsmenn Vinnumálastofnunar á E sem viti allt um hagi hennar. Hún hafi unnið fyrir B sumarið 2013 meðan ferðamenn hafi verið sýnilegir með þá von að skapa fleiri verkefni. Þá hafi orðið mögulegt að greiða henni lágmarkslaun samhliða atvinnuleysisbótum. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún ætti að tilkynna sérstaklega um tekjur sínar.

Vinnumálastofnun geti ekki fallist á þær skýringar kæranda að starfsmenn stofnunarinnar hafi vitað allt um hennar hagi og þar með talin störf hennar fyrir B. Það liggi fyrir að kærandi hafi ekki með neinum leiðum tilkynnt um vinnu sína eða tekjur fyrir júní, júlí og ágúst 2013. Þá bendir Vinnumálastofnun á að kæranda hafði, með samþykki stofnunarinnar á umsókn hennar um þátttöku í verkefninu þróun eigin viðskiptahugmyndar, verið veitt heimild til að starfa við eigin rekstur samhliða atvinnuleysisbótum og á því tímabili hafði kærandi tilkynnt stofnuninni um tilfallandi tekjur. Bar kæranda því að vita að henni væri ekki heimilt að starfa fyrir eigið fyrirtæki samhliða atvinnuleysisbótum og án þess að tilkynna um það til stofnunarinnar.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvílir á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. og 35. gr. a laganna, verður að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 29. janúar 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Fyrri málsliðurinn á við í máli þessu.

Kærandi tók fram í kæru að hún óskaði ekki eftir áframhaldandi greiðslum heldur eftir greiðslu fyrir ágústmánuð því fyrirkomulag heimilisins hafði riðlast við niðurfellingu greiðslna atvinnuleysisbóta. Það liggur hins vegar fyrir að kærandi starfaði fyrir eigið fyrirtæki, B, á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Hún tilkynnti ekki Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku eða tekjur í samræmi við 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eins og henni bar.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

Kærandi kveðst ekki hafa áttað sig á því að hún ætti að láta skrá sérstaklega inn í kerfið þegar hún greiddi sér lágmarkslaun. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Ítarlegar upplýsingar er að fá á kynningarfundum Vinnumálastofnunar, en samkvæmt samskiptasögu Vinnumálastofnunar sat kærandi slíkan fund 4. febrúar 2009. Kærendur fá afhenta bæklinga þegar þeir staðfesta rafræna skráningu og á heimasíðu Vinnumálastofnunar eru auk þess allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir atvinnuleitendur.

Með vísan til framangreinds og rökstuðnings Vinnumálastofnunar fyrir hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar ber að staðfesta hana.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. október 2013 í máli A þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum