Hoppa yfir valmynd
27. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 114/2013

 Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 27. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 114/2013.

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. september 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem skilyrði fyrir 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr., voru ekki uppfyllt þar sem kærandi var með gildan ráðningarsamning við B. Kærandi óskaði með símtali 9. september 2013 eftir endurupptöku málsins hjá Vinnumálastofnun en stofnunin synjaði beiðni hans um endurupptöku með bréfi, dags. 16. september 2013, þar sem ekki var talið að beiðnin gæfi tilefni til endurupptöku enda hefðu ekki komið fram upplýsingar sem þýðingu gætu haft í málinu. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. september 2013 til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 20. október 2013. Kærandi krefst þess að ákvörðunin verði ómerkt og að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann var skráður atvinnulaus. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 29. júní 2013. Meðal umbeðinna gagna með umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur fylgdi vinnuveitendavottorð frá B þar sem uppgefin ástæða starfsloka var tilgreind sem tímabundin rekstrarstöðvun.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. ágúst 2013, var óskað eftir því að kærandi legði fram afrit af ráðningarsamningi sínum við B. Þann 19. ágúst 2013 sendi kærandi tölvupóst til Vinnumálastofnunar ásamt ráðningarsamningi. Það var mat Vinnumálastofnunar að kærandi væri í ráðningarsambandi við B og því væru skilyrði 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, ekki uppfyllt. Var umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta hafnað með vísan til ofangreinds.

Í kæru bendir kærandi á að Vinnumálastofnun hafi hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur þann 2. september 2013 og hafi talið að þegar kærandi fór fram á endurupptöku að sú beiðni byði ekki upp á endurupptöku. Kærandi hafni því alfarið að það hafi átt við rök að styðjast og sé brot á réttindum sem hann sem launþegi hafi átt rétt á.

Kærandi greinir frá því að hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur í framhaldi af því að skip sem hann hafi verið ráðinn á hafi verið stoppað vegna kvótaleysis og þrátt fyrir að kærandi bæri sig eftir því að komast á önnur skip hafi hvorki gengið né rekið, enda mörg skip kvótalítil og stopp og erfitt að komast á mörg uppsjávar- og vinnsluskip. Kærandi hafi sent öll tilskilin gögn sem krafist hafi verið varðandi umsókn um atvinnuleysisbætur, þar á meðal vottorð vinnuveitanda þar sem fram komi að um tímabundna rekstrarstöðvun væri að ræða vegna kvótaleysis. Í framhaldi af því hafi Vinnumálastofnun sent kæranda bréf þar sem farið hafi verið fram á að fá ráðningarsamning við útgerðina og sem kærandi hafi sent stofnuninni. Síðan hafi Vinnumálastofnun byggt niðurstöðu sína á því kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum vegna þess að hann sé með svokallaðan ráðningarsamning þrátt fyrir að skipið sé stopp í fjóra mánuði og það komi skýrt fram í vottorði vinnuveitanda að það sé vegna kvótaleysis.

Nú sé það svo að tryggingagjald er dregið af/greitt fyrir alla launþega og allir launþegar eigi skilyrðislaust rétt á atvinnuleysisbótum er þeir eru án atvinnu og tekna til að framfleyta sér. Þetta sé hreint og klárt mannréttindamál og sennilega brot á jafnræðisreglu laga að sjómenn hafi ekki rétt á atvinnuleysisbótum þegar skip sem þeir róa stoppa jafnvel í einhverja mánuði og viðkomandi gengur illa að komast í aðra vinnu til jafns við aðra launþega í landinu.

Kærandi viti jafnframt til þess að Vinnumálastofnun hafi haft samband við útgerðarfyrirtæki og farið fram á að þau skrifuðu ekki upp á vottorð vinnuveitanda fyrir sjómenn. Kærandi telur að nú sé Vinnumálastofnun komin út á afar grátt svæði í lagalegum skilningi og starfsmenn stofnunarinnar nánast farnir að starfa gegn þeim sem þeir eiga að þjónusta.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 6. janúar 2014, er bent á að í máli þessu sé deilt um höfnun Vinnumálastofnunar á umsókn kæranda til atvinnuleysisbóta á þeim grundvelli að umsóknin uppfylli ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar var tekin á grundvelli 1. gr., sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. gr. laganna segi að lögin gildi um þá sem verða atvinnulausir og í 2. gr. laganna sé tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir séu að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Þá segi meðal annars í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að launamönnum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnuálastofnunar þegar þeir verði atvinnulausir.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé virk atvinnuleit skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta en með virkri atvinnuleit skv. 14. gr. sé meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa, frumkvæði að starfsleit, vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, og að atvinnuleitandi sé reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða. Sá sem á í ráðningarsambandi við vinnuveitanda geti því ekki talist í virkri atvinnuleit. Vinnumálastofnun bendir einnig á að gert sé ráð fyrir því í f-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að umsækjandi leggi fram vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, sbr. 16. gr. laganna, og þar skuli jafnframt tilgreina ástæður starfsloka. Ekki sé unnt að telja B sem hér á í hlut, fyrrverandi vinnuveitanda í skilningi laganna.

Til frekari rökstuðnings vísar Vinnumálastofnun til niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 51/2010, 100/2009 og 95/2009 þar sem deiluefni sneri að sambærilegum málsatvikum.

Við yfirferð á máli kæranda í kjölfar kæru hans til úrskurðarnefndarinnar hafi Vinnumálastofnun haft samband við B. og fengið staðfestingu frá starfsmanni fyrirtækisins að ráðningarsamningar skipverja hjá fyrirtækinu væri í gildi meðan skip á vegum þess væru stopp vegna orlofstöku skipverja, þ.e. júní fram í ágúst ár hvert. Sé það mat Vinnumálastofnunar að umræddar upplýsingar styðji enn frekar við að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda hafi verið rétt.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 24. janúar 2014. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

2.      Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um þá sem verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna er tekið fram að markmið þeirra sé að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan atvinnulausir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geta þeir launamenn sem misst hafa starf sitt sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta.

Samkvæmt gögnum málsins, meðal annars vottorði vinnuveitanda, ráðningarsamningi og tölvupósti B var kærandi í ráðningarsambandi við fyrirtækið þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur og var því ekki atvinnulaus í skilningi laganna. Þegar af þeirri ástæðu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. september 2013 í máli A er staðfest.


Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum