Hoppa yfir valmynd
13. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 111/2013

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 13. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 111/2013.

 

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. maí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hafi verið við vinnu sem leigubílstjóri samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir eftirfarandi tímabil: 23.7.2011‒7.8.2011, 13.8.2011‒28.8.2011, 29.8.2011‒2.9.2011, 3.9.2011‒25.9.2011, 26.9.2011‒30.9.2011, 3.10.2011‒9.10.2011, 10.10.2011‒10.11.2011, 12.11.2011‒27.11.2011 og 28.11.2011‒2.12.2011. Um var að ræða alls 118 daga og nam fjárhæðin samtals 898.388 kr.

Mál kæranda var tekið til meðferðar á ný og með bréfi, dags. 4. mars 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að vegna mistaka við útreikning hafi fyrri innheimta verið röng en rétt sé að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir eftirfarandi tímabil: 23.7.2011‒7.8.2011, 13.8.2011‒28.8.2011, 26.9.2011‒30.9.2011, 3.10.2011‒9.10.2011, 10.10.2011‒10.11.2011, 12.11.2011‒27.11.2011 og 28.11.2011‒2.12.2011, eða alls í 102 daga. Fjárhæðin nemi samtals 822.596 kr. með inniföldu 15% álagi sem verði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var sendur tölvupóstur, 27. september 2013, með hinni kærðu ákvörðun frá 4. mars 2013, þar sem fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar hafði ekki skilað sér til hans. Í tölvupóstinum er það harmað að afgreiðsla málsins hjá stofnuninni hafi ekki verið önnur og betri. Var kæranda veittur 14 daga frestur til þess að óska rökstuðnings. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. mars 2013 til úrskurðarnefndarinnar með kæru dagsettri 10. október 2013. Kærandi fer fram á að ákvörðunin verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 1. janúar 2010.

Við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og Vegagerðarinnar sem fram fór í apríl 2012 kom upp að kærandi hefði starfað við akstur leigubifreiða á árinu 2011 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í kjölfarið óskaði Vinnumálastofnun með bréfi, dags. 16. apríl 2012, skýringa vegna þessara upplýsinga. Bréfið barst endursent 24. apríl 2012 og var málið tekið fyrir hjá Vinnumálastofnun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með bréfi, dags. 11. maí 2012, var kæranda tilkynnt um ákvörðun stofnunarinnar. Ákvörðunarbréfið kom endursent. Þá var kæranda sent innheimtubréf vegna ógreiddrar skuldar sinnar 22. ágúst 2012, en það kom einnig endursent. Skuld kæranda var sent til innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi 16. janúar 2013. Innheimtumiðstöðin sendi kæranda bréf og í kjölfar þess hafði eiginkona kæranda samband við Vinnumálastofnun og var honum sent afrit af innheimtubréfi og ákvörðunarbréfi Vinnumálastofnunar með tölvupósti. Mál kæranda var síðan endurupptekið með hliðsjón af orlofsskráningum hans á árinu 2011. Kæranda var tilkynnt um endurskoðaða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. mars 2013 með tölvupósti á skráð netfang hans hjá Vinnumálastofnun. Með tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar, 26. september 2013, tók hann fram að hann hefði aldrei fengið ákvörðunarbréf stofnunarinnar vegna endurupptöku máls hans í upphafi ársins 2013. Kæranda var þá sent afrit af ákvörðunarbréfum Vinnumálastofnunar ásamt því sem kæranda var tilkynnt að þar sem hann hefði ekki áður haft vitneskju um ákvörðun stofnunarinnar myndi frestur til rökstuðnings byrja að líða frá þeim tíma. Jafnframt tók starfsmaður Vinnumálastofnunar fram að afstaða stofnunarinnar til þess að fresturinn til að kæra ákvörðun stofnunarinnar skyldi miðast við fyrrgreint tímamark.

Í kæru kæranda kemur fram að hann telji sig ekki hafa fengið ofgreiddar bætur þar sem honum hafi verið tjáð af starfsmanni Vinnumálastofnunar að hann mætti vinna sér inn tæpar 60.000 kr. án þess að bætur myndu skerðast. Í þeim samtölum hafi ekki verið minnst á að hann þyrfti að láta vita um þá fjárhæð sem hann fengi greidda mánaðarlega ef hún væri undir mörkunum. Hann hafi ekki vitað þá það sem hann vissi nú að það þurfi að láta vita af öllu sem inn komi, það hafi aldrei verið ætlun hans að svíkja þá sem hafi aðstoðað hann á erfiðum tímum. Fjárhæðin sem hann hafi unnið sér inn hafi aldrei verið hærri en 55.000 kr. því um hafi verið að ræða íhlaupastarf af og til um helgar. Kærandi bendir á að hans sök í máli þessu sé sú að hafa ekki vitað betur, um mistök sé að ræða af hans hálfu og þyki honum það afar leitt.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 3. janúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á 60. gr. laganna og nefnir að annar málsliður 60. gr. laganna taki á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín.

Vinnumálastofnun bendir á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni hafi kærandi verið við störf sem leigubílstjóri á árinu 2011 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að hafa tilkynnt um störf sín til Vinnumálastofnunar. Í skýringum kæranda, bæði í tölvupósti frá 26. september 2013 og í kæru til úrskurðarnefndar, taki kærandi fram að laun hans vegna aksturs leigubifreiðar hafi verið undir 55.000 kr. og því hafi kærandi ekki talið sig þurfa að tilkynna um tekjurnar eða vinnuna til Vinnumálastofnunar.

Vinnumálastofnun vekur athygli á því að á kynningarfundum hjá stofnuninni, í bæklingi sem allir umsækjendur fá afhentan þegar þeir staðfesta rafræna skráningu sína og á heimasíðu stofnunarinnar séu veittar upplýsingar um það að tilkynna þurfi allar þær tekjur eða aðrar breytingar sem verði á högum atvinnuleitanda er tengist vinnufærni og möguleikum þeirra á að taka starfi. Fyrir liggi að kærandi hafi sótt kynningarfund á vegum stofnunarinnar 21. október 2010.

Kæranda beri að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 822.596 kr. með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 30. janúar 2014 Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

 

2.      Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Í meðförum úrskurðarnefndarinnar hefur ákvæði þetta verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Þessi síðari málsliður á við í máli þessu.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sinnti leigubílaakstri á sama tíma og hann þáði greiðslu atvinnuleysistrygginga. Hann veitti Vinnumálastofnun ekki upplýsingar um þessa atvinnuþátttöku. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

Kærandi mótmælir því ekki að honum hafi orðið á mistök en bendir á að starfsmaður Vinnumálastofnunar hafði tjáð honum að hann mætti vinna sér inn 60.000 kr. á mánuði án þess að bætur skertust. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Ítarlegar upplýsingar er að fá á kynningarfundum Vinnumálastofnunar, en fyrir liggur að kærandi sat slíkan fund. Kærendur fá afhenta bæklinga þegar þeir staðfesta rafræna skráningu og á heimasíðu Vinnumálastofnunar eru auk þess allar nauðsynlegar upplýsingar fyrir atvinnuleitendur.

Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þau tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og nemur sú fjárhæð samtals 822.596 kr. en innifalið í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. mars 2013 í máli A þess efnis að synja skuli kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þann tíma sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar og hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kærandi skal endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 822.596 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum