Hoppa yfir valmynd
13. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 87/2013

Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 13. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 87/2013.

 

1.      Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. júní 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 11. júní 2013 hafnað umsókn hennar um atvinnuleysisbætur á grundvelli 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem látið var hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan sjö virkra daga frá því að atvinnuleit hennar erlendis lauk skv. 43. gr. sömu laga eða heimkomudegi hafi hún komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Samkvæmt 2. mgr. 46. gr. laganna falli greiðslur atvinnuleysisbóta niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. ljúki eða hinn tryggði hætti atvinnuleit í öðru aðildarríki hafi hann sannanlega hætt leitinni áður en tímabilinu lauk. Skuli hinn tryggði þá sækja um atvinnuleysisbætur að nýju skv. 9. gr. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 2. desember 2011 í kjölfar þess að hún missti starf sitt hjá B upplýsingaveitum vegna samdráttar 30. nóvember 2011. Kærandi sótti um leyfi til að fara til útlanda í atvinnuleit, sbr. VIII. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, og fór til Noregs 22. febrúar 2012. Samkvæmt E-303 vottorði sem Vinnumálastofnun gaf út var kæranda heimilt að vera erlendis í atvinnuleit til 21. maí 2012. Kærandi flutti aftur til Íslands í desember 2012 og 21. desember 2012 mætti hún á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á C til að fá upplýsingar um rétt sinn til atvinnuleysisbóta eftir heimkomu að því er segir í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2013.

Kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 15. apríl 2013 og með bréfi, dags. 7. maí 2013, óskaði Vinnumálastofnun eftir því að kærandi færði fram U1 vottorð sem staðfesti áunnið starfstímabil og tryggingatímabil erlendis.

Vinnumálastofnun barst bréf kæranda 6. maí 2013, dags. 18. apríl 2013, þar sem kvartað var yfir þjónustu Vinnumálastofnunar frá því að hún flutti til Íslands í desember 2012. Málið var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 11. júní 2013. Þar sem umbeðið U1 vottorð hafði ekki borist var ákveðið að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur skv. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi lét hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan sjö virkra daga frá því að atvinnuleit hennar erlendis lauk skv. 43. gr. laganna.

Vinnumálastofnun barst U1 vottorð kæranda, 4. júlí 2013, sem staðfestir að hún hafi unnið í Noregi á tímabilinu 1. júní til 31. júlí 2012 í samtals 26,08 tíma. Fram kemur í gögnum málsins að fyrir mistök stofnunarinnar hafi málið ekki verið tekið formlega fyrir að nýju eftir að U1 vottorðið hafi borist í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, mótteknu 25. október 2013, kemur fram að hún hafi fengið þær upplýsingar hjá Vinnumálastofnun, áður en hún fór til Noregs, að ef hún flytti aftur til Íslands innan eins árs ætti hún að skrá sig hjá Vinnumálastofnun innan sjö daga frá heimkomu og það hafi hún gert.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. október 2013, kemur fram að E-303 vottorðið feli í sér staðfestingu Vinnumálastofnunar á bótarétti atvinnuleitanda í íslenska atvinnuleysistryggingakerfinu og gefi umsækjendum kost á því að fá greiddar atvinnuleysisbætur meðan þeir eru í atvinnuleit í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, sbr. 1. og 4. mgr. 42. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 46. gr. laganna sé síðan kveðið á um tilkynningu um heimkomu. Fram kemur að kærandi hafi farið til útlanda 22. febrúar 2012. Tímabilinu skv. 1. mgr. 43. gr. laganna hafi lokið 21. maí 2012. Sú dagsetning sé skráð á vottorð kæranda. Tími til að tilkynna heimkomu séu sjö virkir dagar skv. 1. mgr. 46. gr. laganna. Fyrir liggi að kærandi snéri aftur til Íslands í desember 2012 og hún hafi ekki tilkynnt um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan þess frests sem kveðið er á um í 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafi ekki gert það hafi greiðslur atvinnuleysisbóta fallið niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. laganna lauk og hafi kæranda því borið að leggja inn nýja umsókn til Vinnumálastofnunar óskaði hún eftir atvinnuleysisbótum á ný. Hefði kærandi tilkynnt um áframhaldandi atvinnuleit á Íslandi innan þeirra tímamarka er 1. mgr. 46. gr. laganna kveði á um hefði atvinnuleysistrygging kæranda haldist sú sama og hún hafi verið áður en kærandi fór utan í atvinnuleit.

Kærandi lagði fram nýja umsókn um atvinnuleysisbætur 15. apríl 2013 og var í kjölfarið óskað eftir því að hún legði fram U1 vottorð sem staðfesti áunnið starfs- og tryggingatímabil hennar í Noregi enda hafi ekki verið unnt að líta til geymds bótaréttar hennar, sbr. 4. mgr. 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé veitt heimild til að geyma áunnar atvinnuleysistryggingar í allt að 24 mánuði frá þeim degi er hann sannanlega hætti störfum. Í 5. gr. 23. gr. laganna komi fram að ákvæðið eigi ekki við um þá sem fái greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laganna fyrir sama tímabil.

Til að kærandi gæti talist tryggð að nýju beri henni að ávinna sér rétt að nýju í samræmi við 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 47. gr. laganna sé Vinnumálastofnun veitt heimild til að líta til starfstímabils umsækjanda í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum við mat á rétti hans til atvinnuleysistryggingar. Er það skilyrði að störf umsækjanda hafi veitt honum rétt samkvæmt lögum aðildarríkisins um atvinnuleysistryggingar. Þarf umsækjandi að færa sönnur á því að hann teljist tryggður samkvæmt lögum aðildarríkis með þar til gerðu vottorði um áunnin starfstímabil og tryggingatímabil, U1 vottorð.

Fram kemur að við afgreiðslu umsóknar kærandi hafi legið fyrir að hún hafði starfað í Noregi og því hafi verið óskað eftir U1 vottorði með bréfi, dags. 7. maí 2013. Þegar umbeðið UI vottorð hafði ekki borist 11. júní 2013 hafi verið tekin ákvörðun um að hafna umsókn kæranda á grundvelli 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hún hafði ekki tilkynnt um heimkomu innan þess frests sem ákvæðið setji.

Vinnumálastofnun barst 4. júlí U1 vottorð frá kæranda sem staðfestir að hún hafi unnið í Noregi á tímabilinu 1. júní til 31. júlí 2013 í samtals 26,08 tíma. Fyrir mistök Vinnumálastofnunar hafi málið ekki verið tekið fyrir að nýju í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, á grundvelli nýrra upplýsinga. Af framlögðu U1 vottorði kæranda leiði hins vegar að skilyrði 2. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um þriggja mánaða vinnusögu sé ekki uppfyllt. Hefði stofnunin tekið mál kæranda fyrir að nýju líkt og henni hafi borið að gera eftir að umbeðið U1 vottorð barst sé einsýnt að niðurstaðan hefði orðið sú sama að hafna ætti umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. október 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og frekari gögnum og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 24. október 2013. Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 25. október 2013.

 

2.      Niðurstaða.

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar lýtur að 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en þar segir:

Hinn tryggði sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. og snýr aftur til landsins til að halda áfram atvinnuleit sinni á innlendum vinnumarkaði skal tilkynna um það skriflega til Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga frá því að tímabili skv. 43. gr. lauk eða komudegi hafi hinn tryggði komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Atvinnuleysistrygging hans er þá sú sama og hún var áður en hann fót utan í atvinnuleit nema annað leiði af lögum þessum.“

Kærandi fór 22. febrúar 2012 til Noregs í atvinnuleit. Hún flutti að nýju til Íslands í desember 2012. Tímabilinu skv. 1. mgr. 43. gr. laga um atvinnuleysistryggingar lauk 21. maí 2012 en í lagagreininni kemur fram að Vinnumálastofnun sé heimilt að greiða atvinnuleysisbætur skv. 42. gr. samfellt í allt að þrjá mánuði frá brottfarardegi hins tryggða. Kærandi tilkynnti þ.a.l. ekki um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi innan þeirra tímamarka sem fram kom í 1. mgr. 43. gr. laganna þar sem hún kom ekki til landsins fyrr en í desember 2012. Réttur kæranda til greiðslna atvinnuleysisbóta féll því niður frá og með þeim degi er tímabili skv. 43. gr. laganna lauk.

Kærandi lagði fram nýja umsókn um atvinnuleysisbætur 15. apríl 2013. Við mat á rétti kæranda á þeim tíma til atvinnuleysisbóta var ekki unnt að líta til geymds bótaréttar hennar skv. 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um geymdan bótarétt og það þegar þátttöku á vinnumarkaði er hætt tímabundið. Í 5. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að ákvæðið eigi ekki við um þá sem fái greiddar atvinnuleysisbætur í öðrum ríkjum eða samkvæmt ákvæðum VIII. kafla laganna fyrir sama tímabil, en í VIII. kaflanum er fjallað um atvinnuleit eða atvinnu í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Til þess að kærandi gæti talist tryggð á ný samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar bar henni því nauðsyn á að ávinna sér rétt að nýju skv. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögum um atvinnuleysistryggingar þar sem ítarlegar upplýsingar er að finna á heimasíðu Vinnumálastofnunar fyrir þá atvinnuleitendur sem hyggjast afla sér atvinnu í öðrum EES-ríkjum og bæklingar eru gefnir út, meðal annars fyrir þá sem hyggjast fara til annarra slíkra ríkja í atvinnuleit, ásamt því að fram kom í E-303 vottorði, sem Vinnumálastofnun gaf út, að kæranda hafi verið heimilt að vera erlendis í atvinnuleit til 21. maí 2012, án þess að missa rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga á Íslandi.

Á hinn bóginn athugast að frá því að kærandi leitaði til starfsstöðvar Vinnumálastofnunar á C 21. desember 2012 og þar til að hin kærða ákvörðun var tekin í júní 2013 voru kæranda veittar misvísandi leiðbeiningar af hálfu starfsmanna Vinnumálastofnunar um framvindu máls hennar og hver réttarstaða hennar væri. Aðfinnsluvert er að starfsmönnum Vinnumálastofnunar láðist að upplýsa kæranda strax í desember 2012 að tilkynning hennar um að halda áfram atvinnuleit sinni á íslenskum vinnumarkaði bærist augsýnilega að löngu liðnum lögbundnum fresti, sbr. 1. mgr. 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 43. gr. sömu laga.

Einnig er aðfinnsluvert að Vinnumálastofnun skyldi ekki taka mál kæranda upp eftir að hin kærða ákvörðun hafði verið tekin en að fengnu svokölluðu U1 vottorði sem barst stofnuninni 4. júlí 2013. Til þess verður þó að líta að upplýsingar sem frá vottorðinu stöfuðu, hefðu ekki breytt hinni efnislegri niðurstöðu, eins og rakið er hér að framan og í greinargerð Vinnumálastofnunar.

Kjarni efnishliðar málsins er tvíþættur. Annars vegar sá að kærandi tilkynnti um endurkomu atvinnuleitar sinnar á íslenskum vinnumarkaði að liðnum lögbundnum fresti, sbr. áðurrakin ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar. Hins vegar sá að eftir að kærandi kom til Íslands í desember 2012 bar að miða ávinnslutímabil hennar til atvinnuleysistrygginga á Íslandi eins og hún væri nýr atvinnuleitandi. Af meginreglum þeim sem um þetta gilda ber til þess að líta að kæranda var útilokað að geyma þegar áunnar atvinnuleysistryggingar, sbr. lokamálsgrein 23. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því varð að rýna í vinnuframlag hennar á ávinnslutímabili þar sem hún var búsett í öðru EES-ríki, sbr. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 15. gr. sömu laga. Með hliðsjón af þessum lagaákvæðum og gögnum málsins er auðsýnt að kærandi vann of lítið á ávinnslutímabilinu (alls 26,08 tíma) til þess að eiga rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga hér á landi.

Hvað formhlið málsins varðar verður ekki fallist á það með kæranda að aðfinnsluverð vinnubrögð starfsmanna Vinnumálastofnunar frá desember 2012 til og með júlí 2013 leiði í þessu tilviki til þess að hún öðlist aukinn efnislegan rétt.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. júní 2013 um að A um atvinnuleysisbætur er staðfest.


Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum