Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 101/2013

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 8. apríl 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 101/2013.

 

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar þar sem kærandi hefði verið staðin að vinnu hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Enn fremur var kærandi talin hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 94.744 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag sem verði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 12. september 2013. Kærandi krefst þess að viðurlög samkvæmt hinni kærðu ákvörðun verði látin falla niður. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 16. september 2011.

Vinnumálastofnun bárust þær upplýsingar frá aðilum vinnumarkaðarins að kærandi hafi verið við störf hjá B 15. júlí 2013 kl. 10:34. Samkvæmt samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun hafi hún síðar þann sama dag haft samband við þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar og látið vita að hún væri komin með vinnu hjá C til mánaðamóta, í u.þ.b. tvær klukkustundir á dag. Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. nóvember 2013, kemur fram að leiða megi að því líkum að kærandi hafi verið að tilkynna um vinnu sína hjá B í þessu tilviki, en ekki C.

 Kæranda var sent erindi 15. ágúst 2013 þar sem henni var tilkynnt að samkvæmt gögnum frá aðilum vinnumarkaðarins hafi hún verið við störf hjá fyrirtækinu B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar.  Óskað var skýringa á málinu. Skýringar bárust frá eiginmanni kæranda þar sem hann greinir frá því að vinnuveitandi hans og eigandi B séu vinir. Föstudaginn 12. ágúst 2013 hafi komið upp í samtali milli manna hugmynd að fá eiginkonu hans til prufu í afleysingar við ræstingar hjá B. Ákveðið hafi verið seint þann föstudag að hún kæmi mánudaginn þar á eftir, þann 15. ágúst 2013, til að athuga hvernig henni og þeim líkaði. Kærandi hafi mætt mánudaginn 15. ágúst 2013 og þann sama dag hafi eftirlitsmennirnir komið. Ekki hafi því gefist tími til þess að láta Vinnumálastofnun vita af vinnunni enda hafi þau hjónin ekki vitað til þess að það þyrfti að láta vita með dags fyrirvara ef af vinnu gæti orðið.

Vinnumálastofnun barst einnig 20. ágúst 2013 vinnuveitendavottorð frá B og launaseðill fyrir júlí mánuð. Hafði kærandi haft 42.966 kr. í laun fyrir júlí mánuð.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 22. ágúst 2013, var henni tilkynnt að ákveðið hefði verið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur til kæranda sökum þess að hún hafði ekki tilkynnt stofnuninni fyrirfram um vinnu sína hjá B.

Kærandi kveðst í kæru hafa fengið tilboð um að koma í prufu hjá B á föstudagskvöldi og hafi farið að vinna þar til prufu mánudaginn 15. júlí 2013. Hún hafi ætlað sér að fara á skrifstofu Vinnumálastofnunar eftir vinnu og láta vita af þessu. Hún hafi vitað að hún þyrfti að láta Vinnumálastofnun vita af allri vinnu sem hún fengi en hún hafi ekki vitað að það yrði að gerast áður en hún færi í vinnuna, heldur talið að nóg væri að láta vita við fyrsta hentugleika. Fram kemur hjá kæranda að hún hafi verið skráð á atvinnuleysisbætur í september 2011 og hafi starfsmaður Vinnumálastofnunar ákveðið að senda hana ekki á kynningarfund þar sem hún tali hvorki íslensku né ensku. Vinnumálastofnun hafi því ekki staðið við upplýsingaskyldu sína í þessu tilfelli.

Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar 10. september 2010 kemur fram að kærandi hafi verið bókuð á kynningarfund sem hún mætti ekki á í kjölfar þess að hún sótti fyrst um atvinnuleysisbætur. Hún var afskráð skömmu síðar eða 20. september 2010. Kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 16. september 2011 og í kjölfar þess sótti hún tvö íslenskunámskeið á vegum Vinnumálastofnunar. Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hafi ekki verið boðaður að nýju á kynningarfund þar sem það hafi verið mat starfsmanns Vinnumálastofnunar að gera það ekki vegna tungumálaerfiðleika hennar.

Greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er dagsett 15. nóvember 2013. Þar er vísað til þess að mál þetta varði viðurlögum vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Bent er á að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistrygginngar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Fyrir liggi að kærandi hafi verið við störf hjá B 15. júlí 2013 kl. 10:34 þegar aðilar vinnumarkaðarins hittu hana fyrir á vinnustað. Síðar þann sama dag var Vinnumálastofnun tilkynnt að kærandi væri komin með vinnu hjá gistiheimili til mánaðamóta, í u.þ.b. tvær klukkustundir á dag.

Vinnumálastofnun telur að tilkynning sem berist stofnuninni eftir að aðili hafi verið staðinn að því að sinna ótilkynntri vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur geti ekki leyst viðkomandi aðila undan þeim viðurlögum sem hann skuli sæta samkvæmt skýru orðalagi laga um atvinnuleysistryggingar. Þá geti kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögum þar sem allar upplýsingar séu aðgengilegar á heimasíðu Vinnumálastofnunar en einnig séu reglur kynntar á kynningarfundi Vinnumálastofnunar sem sé skyldumæting á. Í rökstuðningi fyrir kæru vísi kærandi til þess að brotið hafi verið á leiðbeiningarskyldu Vinnumálastofnunar gagnvart henni sökum þess að hún fór ekki á kynningarfund á vegum stofnunarinnar þar sem það hafi verið mat starfsmanns að senda hana ekki á slíkan fund þar sem hún hvorki tali íslensku né ensku. Það liggi fyrir að kærandi hafi verið bókuð á kynningarfund hjá stofnuninni 10. september 2010 þegar hún hafi fyrst sótt um atvinnuleysisbætur sem hún hafi ekki mætt á. Kærandi hafi verið afskráð skömmu síðar eða 20. september 2010 og hafi því ekki verið gerður reki að því að boða kæranda á nýjan fund. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 16. september 2011 hafi það verið mat starfsmanns Vinnumálastofnunar að senda kæranda ekki á kynningarfund sökum þess að hún hafi talað litla ensku og íslensku. Kynningarfundir stofnunarinnar séu haldnir á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku. Ef umsækjandi tali ekkert þessara þriggja tungumála sé hann bókaður í viðtal hjá ráðgjafa sem meti hvort hann geti útskýrt fyrir umsækjanda helstu reglur stofnunarinnar eða hvort kalla þurfi til túlk. Það hafi í umrætt sinn farist fyrir að boða kæranda í slíkt viðtal. Þrátt fyrir það geti Vinnumálastofnun ekki fallist á með kæranda að stofnunin hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, enda séu allar upplýsingar aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar.

Í skýringum kæranda til Vinnumálastofnunar komi fram að á föstudagskvöldinu 12. ágúst 2013 hafi verið ákveðið að kærandi skyldi fengin til prufu á B mánudaginn 15. ágúst 2013. Aðilar vinnumarkaðarins hafi hitt hana fyrir á vinnustað þann sama dag og ekki hafi gefist svigrúm til að tilkynna um störf kæranda til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun vekur athygli á að samskipti atvinnuleitanda við stofnunina fari gjarnan fram með rafrænum hætti, þ.e. með tölvupóstum. Kæranda hafi því verið í lófa lagið að tilkynna um vinnuna áður en störf hófust mánudaginn 15. júlí 2013 þrátt fyrir að þjónustuskrifstofur stofnunarinnar hafi verið lokaðar. Vinnumálastofnun bendir enn fremur á að í tilkynningu kæranda sem hafi borist eftir að umrædd eftirlitsferð hafi verið farin 15. júlí 2013 segi að kærandi sé komin með vinnu, í tvær klukkustundir á dag með möguleika á frekari vinnu. Í þeirri tilkynningu hafi ekki verið á það minnst að um starfsprufu hafi verið að ræða, heldur hafi verið um að ræða staðfestingu á því að kærandi væri komin með vinnu. Það sé því ljóst að misræmi sé á milli tilkynningar kæranda til stofnunarinnr 15. júlí 2013 og skýringa hennar til stofnunarinnar 20. ágúst 2013. Af þeim sökum hafi Vinnumálastofnun lagt það til grundvallar að leggja skuli minna vægi á skýringar hennar en ella.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. desember 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefin kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. desember 2013. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2. Niðurstaða

Vinnumálastofnun stöðvaði greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem stofnunin taldi hana hafa verið staðna að vinnu hjá B 15. júlí 2013 við eftirlit aðila vinnumarkaðarins samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Stofnunin féllst ekki á skýringar kæranda og taldi hana eiga að sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Ákvæði 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.“

Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Þá er þeim sem telst tryggður skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gert að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit. Ljóst er af framangreindum ákvæðum 3. mgr. 9. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að tilkynningar- og upplýsingaskylda atvinnuleitenda er mjög ströng.

 Kærandi var við störf hjá B við eftirlit aðila vinnumarkaðarins 15. júlí 2013. Af hálfu kæranda kemur fram í skýringarbréfi til Vinnumálastofnunar 20. ágúst 2013 og í kæru að enginn tími hafi verið til þess að láta vita um vinnuna þar sem hana hafi borið brátt að auk þess sem kæranda hafi ekki verið kunnugt að það þyrfti að láta vita með dags fyrirvara og haldið að nóg væri að gera það við fyrstu hentugleika. Kærandi kveður Vinnumálastofnun ekki hafa staðið við upplýsingaskyldu sína í máli þessu þar sem hún hafi ekki farið á kynningarfund á vegum stofnunarinnar samkvæmt ákvörðun starfsmanns hennar sökum tungumálaerfiðleika.

Að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum enda liggja fyrir víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi tekna. Úrskurðarnefndin telur að ekki geti skipt máli í því samhengi þó kærandi eigi við tungumálaerfiðleika að stríða enda ber hún skyldur sem atvinnuleitandi hér á landi samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda, sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hún starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

Kæranda ber einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur alls 94.744 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Úrskurðarorð

 Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. ágúst 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hún skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals að inniföldu 15% álagi 94.744 kr., er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 

                                               

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum