Hoppa yfir valmynd
25. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 118/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 118/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að í bréfi, dags. 4. október 2011, kom fram að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, A, þar sem hún hafi verið staðin að vinnu hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Kæranda var enn fremur gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 8. júlí til 19. ágúst 2011 samtals að fjárhæð með 15% álagi 155.827 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. október 2013, mótteknu 24. október 2013. Vinnumálastofnun telur að vísa beri kærunni frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur hafi verið liðinn.

Samkvæmt bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. október 2011, ákvað stofnunin á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, þar sem hún hafði verið staðin að vinnu hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Hún var enn fremur talin hafa fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 8. júlí til 19. ágúst 2011 að fjárhæð með 15% álagi samtals 155.827 kr. sem henni var tjáð að yrði innheimt skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í bréfi þessu var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og kærufrest.

Kærandi óskaði eftir því að málið yrði tekið til meðferðar á ný og var það gert í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eins og fram kemur í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 26. október 2011. Fyrri ákvörðun Vinnumálastofnunar í málinu var staðfest. Í bréfi þessu var kæranda enn fremur leiðbeint um kæruheimild og kærufrest til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Í samskiptasögu Vinnumálastofnunar kemur fram, 23. september 2013, að skuld kæranda við stofnunina hafi verið send Innheimtumiðstöðinni á C til frekari innheimtu. Þá er meðal gagna málsins bréf til kæranda frá sýslumanninum á C – Innheimtumiðstöð, dags. 25. september 2013, þar sem þess er farið á leit við kæranda að hún greiði eða semji um kröfu Vinnumálastofnunar. Af kæru kæranda, dags. 22. október 2014, má ráða að hún sé að kæra ákvörðun sýslumannsins á C samkvæmt framangreindu bréfi, dags. 25. september 2013.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. janúar 2014, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 10. febrúar 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda, dags. 22. október 2013, barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 24. október 2013. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta skuld kæranda við stofnunina kemur fyrst fram í bréfi dags. 4. október 2011 og í seinna bréfi dags. 26. október 2011 var fyrri ákvörðunin staðfest.

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Ekki verður litið svo á að innheimtubréf sýslumannsins á C til kæranda, dags. 25. september 2013, falli undir framangreinda skilgreiningu og telst það því ekki kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til framanritaðs barst kæran að liðnum kærufresti.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Úrskurðarorð

Kæru B til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum