Hoppa yfir valmynd
25. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 56/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 25. mars 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 56/2013.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með greiðsluáskorun, dags. 15. júlí 2011, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hann greiddi skuld við stofnunina. Fram kom í bréfinu að ofgreiddar atvinnuleysisbætur væru innheimtar skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Hluti skuldarinnar hefði þegar verið innheimtur en eftirstöðvar væru með 15% álagi alls 419.132 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. júní 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur 16. mars 2009 og var skráður atvinnulaus til 4. júní 2009. Hann sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 2. nóvember 2009 og var þá skráður til 25. janúar 2011.

Kæranda var tilkynnt með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 22. nóvember 2010, að ákveðið hefði verið að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hafði ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um ferð sína til útlanda. Honum var einnig tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á því tímabili sem hann var staddur erlendis, samtals 451.047 kr. sem yrðu innheimtar skv. 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysisbætur. Kæranda var í bréfinu leiðbeint um rétt sinn til rökstuðnings, rétt til að óska eftir endurupptöku á máli sínu og rétti til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Kærandi sendi inn frekari skýringar á máli sínu og var málið því endurupptekið 19. janúar 2011. Honum var tilkynnt með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. janúar 2011, að skýringar hans væru ekki metnar gildar og honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 451.047 kr. Í bréfi þessu var kæranda leiðbeint um rétt sinn til rökstuðnings, rétt til að óska eftir endurupptöku á máli sínu og rétt til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Skuld kæranda var ógreidd 15. júlí 2011 og var honum því sent innheimtubréf, dags. 15. júlí 2011, þar sem skorað var á hann að greiða skuld sína, en eftirstöðvar hennar voru með inniföldu 15% álagi 419.132 kr. Kærandi brást ekki við þessu og var skuldin því send til innheimtu hjá sýslumanninum á B 15. ágúst 2011. Í bréfi þessu var kæranda ekki leiðbeint um rétt sinn til rökstuðnings, rétt til að óska endurupptöku eða rétt til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga.

Kærandi kveðst í kæru hafa verið í atvinnuleit í C sumarið 2010. Hann fullyrðir að Vinnumálastofnun hafi týnt eyðublaðinu hans og vilji ekki kannast við að hafa fengið það. Þá sé hann látinn borga skatt af þeim bótum sem hann hafi fengið og þurfi að borga til baka hærri fjárhæð en hann hafi fengið.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. febrúar 2014, bendir Vinnumálastofnun á að skuld kæranda megi rekja til þess að hann hafi verið staddur erlendis samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á árinu 2010. Í kjölfar endurupptöku á málinu hafi honum verið tilkynnt með bréfi, dags. 26. janúar 2011, að skýringar hans á ótilkynntri för erlendis hafi ekki verið metnar gildar og að honum bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 451.047 kr. á grundvelli 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hafi kæranda einnig verið tilkynnt um rétt sinn til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða innan þriggja mánaða skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærufrestur vegna synjunar Vinnumálastofnunar á ákvörðun stofnunarinnar hafi því runnið út 26. apríl 2011. Kærandi hafi kært ákvörðun Vinnumálastofnunar með erindi, dags. 7. júní 2013. Hafi kæran borist utan þriggja mánaða frests skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri að vísa þeim þætti málsins er varði réttmæti skuldamyndunarinnar frá úrskurðarnefndinni, þar sem kæru skuli aldrei sinna ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun hafi verið tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2011, hafi kæranda verið tilkynnt að eftirstöðvar skuldar hans væru, með 15% álagi, 419.132 kr. Krafa Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu kæranda á ofgreiddum atvinnuleysisbótum sé byggð á 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt því ákvæði sé mælt fyrir um heimild Vinnumálastofnunar til að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. febrúar 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 28. febrúar 2014. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Hin ofgreidda skuld kæranda myndaðist þegar hann var staddur erlendis í atvinnuleit á tímabilinu 22. maí til 31. ágúst 2010 á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur á Íslandi. Vinnumálastofnun ákvað vegna þess á fundi sínum 19. janúar 2011 að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysisbætur og enn fremur var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þann tíma sem hann var erlendis að fjárhæð samtals 451.047 kr. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 26. janúar 2011, var kæranda leiðbeint um rétt sinn til rökstuðnings, rétt til að óska endurupptöku og rétt til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga.

Kærandi hafði ekki greitt skuld sína 15. júlí 2011 og var honum því sent innheimtubréf frá Vinnumálastofnun, dags. 15. júlí 2011, þar sem skorað var á hann að greiða skuld sína. Í innheimtubréfinu var kæranda ekki leiðbeint um rétt sinn til rökstuðnings, rétt til að óska endurupptöku eða rétt til að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga.

Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal stjórnsýslukæra berast til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða ef veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Ljóst er af framangreindu ákvæði að kæra kæranda, dags. 7. júní 2013, vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar samkvæmt bréfi, dags. 26. janúar 2011, um að endurkrefja hann um ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 22. maí til 31. ágúst 2010 er of seint fram komin og ekkert í gögnum málsins bendir til að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran vegna þeirrar ákvörðunar verði tekin til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Ákvörðun Vinnumálastofnunar samkvæmt bréfi, dags. 26. janúar 2011, er því vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, segir að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Kæru kæranda, dags. 7. júní 2013, vegna greiðsluáskorunar Vinnumálastofnunar, dags. 15. júlí 2011, verður því samkvæmt framangreindu ekki sinnt. Kæru kæranda vegna greiðsluáskorunar Vinnumálastofnunar, dags. 15. júlí 2011, er einnig vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Úrskurðarorð

Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum