Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 69/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 69/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 28. júní 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin synjaði beiðni um endurupptöku máls hennar um útreikning á bótarétti á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, mótteknu 9. júlí 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði feld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 20. september 2012 en hún hafði áður sótt um atvinnuleysisbætur 31. október 2011.

Bótaréttur kæranda var metinn 66% er hún sótti um atvinnuleysisbætur 31. október 2011 eftir að upplýsingar úr vinnuveitendavottorði hennar um starfshlutfall voru staðreyndar hjá ríkisskattstjóra en þar kom í ljós að kærandi hafði einungis staðið skil á staðgreiðslu vegna mánaðanna desember 2010 til maí 2011 og september og október 2011 en ekki verið í 100% starfi frá 1. október 2010 til 31. október 2010.

Kærandi fór í fæðingarorlof á tímabilinu 7. maí til 6. september 2012 og sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 20. september 2012. Þar sem kærandi hafði ekki starfað í 24 mánuði frá því hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur hélt sama tryggingatímabil áfram þar sem bótarétturinn hennar var 66%.

Kærandi óskaði eftir endurútreikningi 8. maí 2013 á bótarétti sínum. Meðfylgjandi var eyðublað ríkisskattstjóra nr. 5.15 um umsókn um skráningu á afdreginni staðgreiðslu og sótti kærandi um nóvember 2010 til október 2011.

Mál kæranda var tekið upp hjá Vinnumálastofnun 24. maí 2013 og bótaréttur hennar leiðréttur frá 20. september 2012 úr 66% í 83%. Ástæða hækkunarinnar var sú að samkvæmt upplýsingum úr gagnagrunni ríkisskattstjóra komu mánuðirnir nóvember og desember 2011 til 100% ávinnslu við mat á bótarétti kæranda þrátt fyrir að kærandi hafi einnig þegið atvinnuleysisbætur þá mánuði. Þar sem hækkun á bótarétti kæranda var vegna vinnu sem hún innti af hendi eftir að umsókn hennar frá 31. október 2011 barst gat Vinnumálastofnun ekki hækkað bótaréttar hennar frá því tímamarki og miðaði stofnunin við tímamark umsóknar hennar frá 20. september 2012.

Kærandi óskaði eftir því 11. júní 2013 að hækkaður bótaréttur hennar myndi vera látinn gilda frá og með umsókn hennar 31. október 2011. Vinnumálastofnun synjaði beiðni kæranda með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga og var kæranda send hin kærða ákvörðun í bréfi, dags. 28. júní 2013.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hún krefjist þess að leiðrétting á bótarétti hennar sé einnig gerð frá 1. nóvember 2011 til 7. maí 2012.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. ágúst 2013, greinir stofnunin frá því að eftir að kæra kæranda barst stofnuninni hafi hún aflað frekari upplýsinga um umsókn kæranda hjá ríkisskattstjóra samkvæmt eyðublaði ríkisskattstjóra nr. 5.15. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi beiðni kæranda um breytingu á afdreginni staðgreiðslu ekki verið samþykkt þar sem engin frekari gögn fylgdu umsókninni sem studdu upplýsingarnar í henni og jafnframt voru staðgreiðsluskil Eignaumsjá ehf. í samræmi við þá launaseðla sem útgefnir höfðu verið til kæranda. Því hafi aldrei verið framkvæmd nein endurskoðun á staðgreiðslu vegna kæranda fyrir tímabilið nóvember 2010 til desember 2011. Jafnframt hafi komið í ljós að ástæða þess að nóvember og desember 2011 séu skráðir sem 100% vinna kæranda hjá ríkisskattstjóra sé sú að þegar fyrirtækið Eignaumsjá ehf. skilaði inn staðgreiðsluupplýsingum vegna kæranda til ríkisskattstjóra fylgdi með að kærandi væri í 100% starfi en ekki í hlutastarfi. Kærandi hafi því verið í 100% starfi í nóvember og desember 2011 samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun greinir frá því að kærandi hafi því ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir þá mánuði, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr., sbr. 14. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun greinir jafnframt frá því að við vinnslu greinargerðarinnar hafi komið í ljós að ekki hefði átt að láta mánuðina nóvember og desember 2011 leiða til hækkunar á bótarétti kæranda þar sem sú vinna hafi verið innt af hendi eftir að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur barst. Samkvæmt 38. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þurfi atvinnuleitandi að starfa samfellt í þrjá mánuði eða lengur til þess að vinna sem innt er af hendi eftir að tryggingatímabil byrjar að líða geti komi til skoðunar við endurmat á atvinnuleysistryggingu viðkomandi. Hafi bótaréttur kæranda því verið ranglega hækkaður úr 66% í 83% í maí 2013.

Vinnumálastofnun vísar til þess að málið varði 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um ávinnslutímabil og vísar til 2. mgr. ákvæðisins.

Stofnunin bendir á að fyrir liggi vottorð vinnuveitanda frá B ehf. þar sem tiltekið sé að kærandi hafi unnið í 100% starfi frá 1. október 2010 til 31. október 2011. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi einungis verið staðið skil á staðgreiðslu vegna kæranda mánuðina desember 2010 til maí 2011 og september til desember 2011. Við meðferð á umsókn kæranda sem móttekin hafi verið 31. október 2011 hafi bótaréttur kæranda verið metinn 66% á grundvelli þess að hún hafði starfað í átta mánuði á tólf mánaða ávinnslutímabili sínu.

Kærandi hafi sótt aftur um atvinnuleysisbætur 20. september 2012. Þá hafi hún ekki verið búin að starfa í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði og því hafi tryggingatímabil hennar frá 31. október 2011 haldið áfram að líða, sbr. 4. mgr. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bótaréttur kæranda hafi því verið áfram 66%.

Vinnumálastofnun ítrekar að við meðferð á beiðni kæranda um endurútreikning á bótarétti hennar hafi verið gerð þau mistök hjá stofnuninni að vinna hennar í nóvember og desember 2011 hafi verið metin til hækkunar á bótarétti hennar. Samkvæmt 38. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi sá sem hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur rétt á endurmati á rétti til atvinnuleysistrygginga þegar hann hefur starfað samfellt í þrjá mánuði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur og tímabil skv. 29. gr. heldur áfram að líða. Fyrir mistök Vinnumálastofnunar hafi tveggja mánaða starfstími kæranda verið metinn til hækkunar þrátt fyrir skilyrði 38. gr. laganna um þriggja mánaða starfstíma.

 

Ljóst sé að hækkun á bótarétti kæranda sé vegna starfa hennar í nóvember og desember 2011. Krafa kæranda sé sú að fá greiddar atvinnuleysisbætur miðað við hærri bótarétt sinn, þ.e. 83% bótarétt en ekki 66%, 31. október 2011. Vinnumálastofnun greinir frá því að ef fallist yrði á beiðni kæranda væri stofnunin að hækka bótarétt kæranda afturvirkt á grundvelli vinnu sem innt hafi verið af hendi eftir það tímamark sem kærandi óskar eftir að miðað sé við. Hvergi í lögum um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um heimild stofnunarinnar til að láta síðar tilkomna vinnu, það er vinnu sem eftir á að inna af hendi, hafa áhrif á mat á bótarétti atvinnuleitanda. Þar að auki hafi stofnunin þegar komist að því að bótaréttur kæranda hafi verið ranglega hækkaður úr 66% upp í 83%.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. ágúst 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. október 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hennar myndi tefjast hjá nefndinni sökum mikils málafjölda þar.

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að synja beiðni kæranda um endurupptöku máls hennar um útreikning á bótarétti á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga.

Líkt og fram hefur komið var bótarétti kæranda breytt 24. maí 2013 eftir beiðni hennar um endurupptöku á bótarétti 8. maí 2013 úr 66% í 83% frá 20. september 2012 en kærandi fer fram á að fá umrædda hækkun lengra aftur í tímann eða frá 31. október 2011. Kærandi óskaði því aftur eftir endurupptöku á bótaútreikningi sínum hjá Vinnumálastofnun 11. júní 2013. Er það mat Vinnumálastofnunar að sú beiðni kæranda uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem engin ný gögn hafi legið fyrir þegar kærandi óskaði eftir endurupptöku á máli sínu.


 

Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga lýtur að rétti aðila til endurupptöku á máli sínu hjá stjórnvaldi og er 1. mgr. svohljóðandi:

Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

   1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
   2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram í greinargerð að stofnunin hafi gert mistök við endurupptöku á máli kæranda 24. maí 2013 þegar bótaréttur hennar var hækkaður og að það sé nú mat stofnunarinnar að kærandi hafi hvorki átt tilkall til þeirrar hækkunar sem stofnunin leiðrétti né rétt til atvinnuleysisbóta mánuðina nóvember og desember 2011. Þá segir jafnframt í greinargerð stofnunarinnar að við meðferð á kæru kæranda hjá Vinnumálastofnun hafi stofnunin haft samband við ríkisskattstjóra og aflað frekari upplýsinga um umsókn kæranda samkvæmt eyðublaði ríkisskattstjóra nr. 5.15. Þau gögn er Vinnumálastofnun aflaði eftir að kærandi kærði synjun um endurupptöku til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða lágu ekki fyrir er Vinnumálstofnun tók ákvörðun um að synja beiðni kæranda um endurupptöku. Af þeirri ástæðu getur mál kæranda ekki hafa talist nægilega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga áður en stofnunin tók ákvörðun um að synja beiðni hennar um endurupptöku. Í ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga er fjallað um rannsóknarskyldu stjórnvalda en í ákvæðinu felst að stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en endanleg ákvörðun er tekin í því. Af þessum sökum er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kærandi eigi að eiga þess kost að fá mál sitt endurupptekið á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 28. júní 2013 um að synja A um að taka mál hennar upp aftur, er felld úr gildi.

Vinnumálastofnun er gert að taka mál A fyrir að nýju.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

                        Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum