Hoppa yfir valmynd
28. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 82/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 82/2013.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. janúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 6.–24. júní 2010, en á þeim tíma hafi hann ekki talist uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hafi fengið skráninguna: Ekki atvinnulaus. Var kæranda gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 165.842 kr. að viðbættu 15% álagi að fjárhæð 24.876 kr. samtals 190.718 kr. Fyrir mistök Vinnumálastofnunar var beiðni kæranda um rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar, dags. 31. janúar 2013, ekki tekin til meðferðar hjá Vinnumálastofnun og var kæranda fyrst veittur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni í bréfi, dags. 23. maí 2013. Þá tók Vinnumálastofnun ákvörðun 25. maí 2013 um að fella niður fyrrgreint 15% álag á skuld kæranda þar sem ekki var unnt að kenna kæranda um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar stofnunarinnar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru móttekinni 23. ágúst 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta 18. febrúar 2009. Hann taldist vera sjálfstætt starfandi í samræmi við 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og fékk greitt á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI sem veitti sjálfstætt starfandi einstaklingum undanþágu frá f- og g-liðum 1. mgr. 18. gr. laganna, sbr. 20. og 21. gr. laganna. Kærandi var reiknaður með 100% bótarétt og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 23. október 2009.

Kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 6. apríl 2010 og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. júní 2010, var umsókn hans samþykkt á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 4. mgr. þess ákvæðis átti kærandi rétt til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá umsóknardegi að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, þ.m.t. þau skilyrði sem fram koma í 20. og 21. gr. laganna um skyldu sjálfstætt starfandi einstaklinga til að stöðva rekstur og skila inn staðfestingu þess efnis til Vinnumálastofnunar. Í tilviki kæranda var sá dagur 6. júní 2010. Staðfesting skv. 20. og 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar barst Vinnumálastofnun fyrst 26. ágúst 2010 og kom þar fram að kærandi hefði lokað launagreiðandaskrá 1. ágúst 2010. Fyrir mistök Vinnumálastofnunar voru greiðslur til kæranda ekki stöðvaðar eftir 6. júní 2010 og fékk hann því greiddar bætur á tímabilinu 6. júní til 30. júlí 2010.

Kæranda var send hin kærða ákvörðun líkt og fyrr greinir með bréfi, dags. 29. janúar 2013.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. september 2013, bendir stofnunin á að í hinni kærðu ákvörðun, dags. 29. janúar 2013, sé ranglega farið með tímabil ofgreiddra atvinnuleysisbóta en hið rétta sé að kærandi hafi fengið ofgreitt á tímabilinu 6. júní til 31. júlí 2010. Þá tekur stofnunin sérstaklega fram að sökum þess að rökstuðningur í máli kæranda hafi fyrst verið birtur með bréfi, dags. 23. maí 2013, vegna mistaka Vinnumálastofnunar, sé það mat stofnunarinnar að kærufrestur vegna ákvörðunarinnar sem tilgreindur sé í hinni kærðu ákvörðun hafi ekki verið liðinn er kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og ekki beri að vísa henni frá með vísan til 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 18. febrúar til 23. október 2009 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI með lögum um atvinnuleysistryggingar. Þar sem fram komi meðal annars að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist fullnægja skilyrðum f- og g-liða 1. mgr. 18. gr. laganna, sbr. einnig 20. og 21. gr., um stöðvun rekstrar hafi hann tilkynnt skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem leiði til tímabundins atvinnuleysis hans. Þá segir að gera skuli grein fyrir staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi mánaðarlega og skila virðisaukaskattskýrslu samkvæmt skráningu hans í grunnskrá virðisaukaskatts. Staðfestingu skattyfirvalda um að tilkynning hafi borist þeim skuli svo skila til Vinnumálastofnunar með umsókn um atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun greinir frá því að bráðabirgðaákvæðinu hafi verið ætlað að gilda til 31. desember 2009 en með lögum nr. 134/2009 hafi verið samþykkt breyting á ákvæðinu þar sem í 4. mgr. þess komi nú fram að sjálfstætt starfandi einstaklingur eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins samfellt í allt að þrjá mánuði. Þeir sem þegar hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli þess á tímabilinu frá 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 eigi rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli þess í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.

 

Vinnumálastofnun bendir á að þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbætur á ný 6. apríl 2010 hafi hann átt rétt til greiðslna í tvo mánuði á grundvelli 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI. Eftir 6. júní 2010 hafi kæranda borið að uppfylla skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar er varða stöðvun reksturs og leggi fram stöðvun reksturs, sbr. 21. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í samræmi við 21. gr. laganna telur Vinnumálastofnun nægilegt að umsækjendur skili staðfestingu á lokun launagreiðendaskrár frá ríkisskattstjóra.

Vinnumálastofnun barst 26. ágúst 2010 eyðublað RSK 5.04 um tilkynningu kæranda um afskráningu af launagreiðendaskrá staðgreiðslu og/eða virðisaukaskattskrá þar sem fram kom að kærandi var með opna launagreiðendaskrá fram til 31. júlí 2010.


Kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta á tímabilinu 6. apríl til 24. ágúst 2010. Á tímabilinu 6. apríl til 6. júní 2010 hafi honum verið heimilt að opna launagreiðendaskrá samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli 4. mgr. bráðabirgðaákvæðis VI. Fyrir mistök Vinnumálastofnunar hafi greiðslur til kæranda ekki verið stöðvaðar að tveimur mánuðum liðnum. Fyrir liggi að kærandi hafi verið með opna launagreiðendaskrá fram til 31. júlí 2010. Kærandi hafi því fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 6. júní til 31. júlí 2010 og hann hafi fyrst getað átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta frá 1. ágúst 2010.

Af framangreindu telur Vinnumálastofnun að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 165.842 kr. sem honum beri að endurgreiða í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt ákvæðinu sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og innheimta þær sem ofgreiddar hafi verið. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum þegar atvinnuleitandi hefur fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Hver sé ástæða þess að atvinnuleitandi fékk ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi m.ö.o. ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var. Vinnumálastofnun bendir á úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010 og 21/2011 máli sínu til stuðnings.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. september 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. október 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. 

 

2.

Niðurstaða

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 18. febrúar til 23. október 2009 á grundvelli bráðabirgðabirgðaákvæðis VI við lög um atvinnuleysistryggingar. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 6. apríl 2010. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 2. júní 2010, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt útfrá fyrirliggjandi gögnum á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI við lög um atvinnuleysistryggingar með áorðnum breytingum og samþykktin gæfi honum rétt til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði til viðbótar. Vinnumálastofnun vísar í bréfinu til 4. mgr. bráðabirgðaákvæðisins og bent er á að að aðlögunartímanum loknum taki við almenn ákvæði IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar, meðal annars um skilyrðið um stöðvun rekstrar ellegar verði gerð krafa um að umsækjandi hafi sagt sig úr stjórn fyrirtækisins eða selt hlut sinn í því. Í bréfinu er tilgreint að kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða séu þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistrygginga, en í ákvæðinu segir nánar tiltekið að kæran skuli vera skrifleg og berast innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um hana. Kæra teljist nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Kæra kæranda barst úrskurðarnefndinni 23. ágúst 2013. Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hjá Vinnumálastofnun hafi misfarist að senda honum ákvörðun í bréfi, dags. 2. júní 2010. Framangreind fullyrðing kæranda styðst ekki við nein gögn í málsinu. Á hinn bóginn kemur skýrlega fram 2. júní 2010 í samskiptaskrá kæranda við Vinnumálastofnun að kæranda hafi verið send umrædd ákvörðun stofnunarinnar.

Ekkert í gögnum málsins gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að sá hluti kærunnar er snýr að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. júní 2010, þess efnis að kærandi hafi einungis átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta í tvo mánuði til viðbótar eftir að umsókn hans 6. apríl 2010 barst, þ.e. til 6. júní 2010, hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að taka þennan hluta kærunnar til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum er þeim hluta kæru kærunnar er snýr að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. júní 2010, vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Stendur þá eftir sá hluti kæru er snýr að þeim mistökum Vinnumálastofnunar er fólust í að greiða kæranda atvinnuleysisbætur eftir 6. júní 2010 og fram til 31. júlí 2010. Af hálfu kæranda er því haldið fram að hann hafi átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu þar sem hann hafi skilað inn öllum gögnum til Vinnumálastofnunar á sínum tíma og stofnunin hafi ekki útskýrt af hverju hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistrygginga þrátt fyrir að hann hafi stöðvað rekstur.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi með opna launagreiðendaskrá til 31. júlí 2010. Í IV. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga og er þar í 18. gr. fjallað um almenn skilyrði. Í f- og g-liðum 1. mgr. 18. gr. koma fram þau skilyrði að hinn sjálfstætt starfandi hafi stöðvað rekstur, sbr. 20. gr., og að hann leggi fram staðfestingu um stöðvun rekstrar, sbr. 21. gr., en Vinnumálastofnun hefur talið nægilegt að umsækjendur skili staðfestingu um lokun á launagreiðendaskrá ríkisskattstjóra í samræmi við 21. gr. laganna. Ljóst er af gögnum málsins að kærandi uppfyllti ekki umrædd skilyrði f- og g-liða 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 6. júní 2010 er rétti hans til atvinnuleysisbóta á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VI við lög um atvinnuleysistryggingar lauk þar til 31. júlí 2010 er kærandi lokaði launagreiðendaskrá. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð með ákvæðinu er áréttað að Vinnumálastofnun hafi heimildir samkvæmt því til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Sérstaklega er tekið fram að það eigi við í öllum tilvikum sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið hærri greiðslur en honum bar. Það er því tekið fram að ekki skipti máli hver ástæða þess er að hinn tryggði hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með vísan til þessa er engin heimild til þess að fella niður skyldu kæranda til endurgreiðslu ofgreiddra bóta þrátt fyrir að um mistök Vinnumálastofnunar hafi verið að ræða.

 

Úr­skurðar­orð

Þeim hluta kæru er snýr að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 2. júní 2010 í máli A er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A sem tilkynnt var honum í bréfi, dags. 29. janúar 2013, um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest. Kærandi skal greiða 165.842 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum