Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 60/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 7. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 60/2013.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur var samþykkt hjá Vinnumálastofnun 27. mars 2013 en bótaréttur kæranda var metinn 65% þar sem hún var stjórnarmaður í stjórn, eigandi, framkvæmdastjóri, handhafi prókúruumboðs og stofnandi fyrirtækisins B ehf. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 13. júní 2013, og krefst þess að ákvörðun um hlutfall bótaréttar hennar verði felld úr gildi og henni verði greiddar fullar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 26. febrúar 2013. Með umsókn kæranda fylgdi vottorð vinnuveitanda frá fyrirtækinu B ehf. Vottorðið er gefið út og undirritað af C og segir þar að kærandi hafi starfað sem geðhjúkrunarfræðingur í 100% starfshlutfalli frá 1. júní 2010 til 28. febrúar 2013.

Við vinnslu umsóknar kæranda kom í ljós að kærandi var stjórnarmaður í stjórn, eigandi, framkvæmdastjóri, handhafi prókúruumboðs og stofnandi fyrirtækisins. Í samræmi við viðmiðunarfjárhæðir sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs reiknaði Vinnumálastofnun út bótarétt kæranda sem 65%, sbr. starfaflokk C6.

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hún geri þær kröfur að fá fullar atvinnuleysisbætur auk lögmannskostnaðar vegna kæru hennar til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi greinir frá því að hún hafi unnið við heimaþjónustu í geðhjúkrun hjá B ehf. Umrædd þjónusta hafi verið greidd af Sjúkratryggingum Íslands eftir gjaldskrá þeirra. Eftir að greiðsluþátttöku þeirra hafi verið hætt hafi kærandi misst vinnuna af þeim sökum. Kærandi greinir frá því að laun hennar hafi grundvallast á gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands en ekki af gjaldskrá B ehf. Greitt hafi verið í takt við beiðnafjölda sem fyrirtækinu hafi borist og hafi laun hennar verið mishá í hvert sinn. Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt 10.660 kr. fyrir hverja beiðni og hafi allur rekstrarkostnaður verið innifalinn í því gjaldi. Kærandi hafi fengið að meðaltali 209.000 kr. í laun á mánuði ásamt ökutækjastyrk.

Kærandi kveðst hafa verið launþegi hjá B ehf. og hafi tryggingagjald verið greitt af launum hennar í hverjum mánuði. Ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, kveði á um það að þegar launamaður starfar hjá eigin félagi skuli miða við reglur ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr. sömu laga. Þar sem laun kæranda hafi verið háð gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands sé ekki hægt að krefjast þess að kærandi fari eftir reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein þar sem kærandi hafi ekki getað ákveðið laun sín nema í samræmi við greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands. Sé því ekki hægt að ætlast til þess að kærandi fari eftir reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein þar sem kærandi gat ekki ákveðið laun sín nema í samræmi við greiðslur frá Sjúkratryggingum Íslands. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum 142/2012 segi í athugasemdum við 4. gr. laganna að: „Þegar staðreyna skal upplýsingar um starfshlutfall [...] hinn tryggði gegndi þar sem tryggingahlutfall hans getur aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili.“ Þar sem greitt var tryggingagjald af launum kæranda í samræmi við útborguð laun leiði af þessari athugasemd að kærandi eigi rétt til atvinnuleysisbóta í samræmi við greitt tryggingahlutfall.

Kærandi bendir á að Vinnumálastofnun miði við ávinnslutímabil frá júní 2012 til og með nóvember 2012. Umrætt ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi ekki tekið gildi fyrr en 1. janúar 2013. Við ákvörðun um bætur fyrir kæranda ætti að fara eftir gildandi lögum á ávinnslutímabilinu. Gildandi ákvæði 3. málsl. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eigi því ekki við í þessu tilviki. Með því að beita ákvæðinu sé verið að beita lögum afturvirkt með íþyngjandi hætti fyrir kæranda. Lög sem sett eru eftir að tilvik á sér stað en gildi samt sem áður um það teljist vera afturvirk. Af þessum sökum beri að meta rétt kæranda eftir þeim reglum sem giltu þegar hann stofnaðist, þ.e. umrætt ávinnslutímabil sem réttur kæranda sé byggður á. Þar sem ávinnslutímabilið hafi farið fram í gildistíð eldri laga hafi borið að fara eftir þeim nema að ný lög hafi geyma betri rétt.

 Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 5. júlí 2013, bendir stofnunin á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

Vinnumálastofnun vísar til 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hugtakið launamaður er skilgreint. Samkvæmt því teljist þeir sem starfi hjá eigin einkahlutafélögum launamenn í skilningi laganna og ákvarðist réttur þeirra til greiðslna atvinnuleysistrygginga á ákvæðum laganna er lúta að réttindum launafólks en ekki þeim ákvæðum er varða réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga með rekstur á eigin kennitölu.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar teljist launamaður, sbr. a-lið 3. gr. laganna, að fullu tryggður, eftir að hafa starfað samfellt síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um greiðslur atvinnuleysistrygginga til Vinnumálastofnunar. Í 1. mgr. 16. gr. sömu laga sé einnig mælt fyrir um að launamaður skuli leggja fram vottorð frá fyrrverandi vinnuveitanda er hann sækir um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir frekari upplýsingum frá vinnuveitanda og skattyfirvöldum til að staðreyna þær upplýsingar er fram koma í framangreindu vottorði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun greinir frá því að samkvæmt framangreindu beri stofnuninni að miða við reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald við útreikning á bótarétti einstaklinga sem störfuðu hjá eigin félagi á viðmiðunartímabilinu. Við mat á réttindum launamanns sem starfað hefur hjá eigin hlutafélagi beri stofnuninni því að beita sömu aðferð og á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. b-lið 3. gr. og 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skal endurgjald fyrir vinnu manns sem reiknar sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna, eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Gildi ákvæðið um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann er ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Af gögnum frá Creditinfo megi sjá að kærandi var stofnandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Vinnumálastofnun bendir á að við frekari athugun á því hvort laun kæranda séu í samræmi við uppgefið starfshlutfall á ávinnslutímabilinu sé Vinnumálastofnun gert að líta til viðmiðunarfjárhæðar sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt. Starfsemi kæranda falli undir tekjuflokk C6 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt. Til flokks C teljist meðal annars háskólamenntaðar heilbrigðisstéttir, svo sem hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfar og sjúkranuddarar. Undir sjötta undirflokk C-flokks heyri svo þeir sem starfa einir og án annarra starfsmanna eða aðkeypts vinnuframlags.

Að öllu framangreindu virtu telur Vinnumálastofnun ljóst að starf kæranda falli undir tekjuflokk C6 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald. Við útreikning á bótarétti kæranda sé litið til þeirra tólf mánaða sem hún starfaði á innlendum vinnumarkaði í hæsta starfshlutfalli á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra námu meðallaun kæranda á ofangreindu viðmiðunartímabili 65% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í tekjuflokki C6.

Með hliðsjón af því sem að ofan greinir telur Vinnumálastofnun að bótaréttur kæranda sé rétt reiknaður 65%.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi greini frá því í kæru hvernig hún telji að eigi að framkvæma útreikning á greiðslu atvinnuleysistrygginga í máli sínu með vísan í gjaldskrá frá Sjúkratryggingum Íslands. Í ljósi tilvitnaðra lagaákvæða er lúti að útreikningi á bótarétti einstaklinga sem starfi hjá eigin fyrirtækjum verði ekki séð hvernig gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands kunni að hafa áhrif á útreikning á bótarétti einstaklinga sem sækja um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Telur Vinnumálastofnun það engu breyta um þá niðurstöðu að kærandi telji að umrædd gjaldskrá sé óréttlát eða að viðmiðunarfjárhæðir ríkisskattstjóra séu ósanngjarnar.

Vinnumálastofnun bendir jafnframt á að í kæru sé einnig vísað til hluta af ummælum með 4. gr. frumvarps því er varð að lögum nr. 142/2012 og að kærandi telji að sú athugasemd eigi að leiða til þess að kærandi eigi rétt til atvinnuleysisbóta í samræmi við tryggingarhlutfall. Þó ekki sé ljóst hvað átt sé við með orðunum tryggingahlutfall í nefndri setningu í kæru telur Vinnumálastofnun rétt að benda á að með tilvitnuðum ummælum úr frumvarpi sé tekið af allan vafa um það hvaða viðmið skuli liggja að baki útreikningi á bótarétti þeirra einstaklinga sem vinna hjá eigin félögum.

Vinnumálastofnun greinir frá því að séu ummælin skoðuð í heild án úrfellingar sé ómögulegt að fallast á þá skýringu sem komi fram í kæru til úrskurðarnefndar enda sé í tilvitnuðum orðum verið að fjalla um mikilvægi þess að tekjuviðmið séu skýr þegar komi að málum sem þessum.

Vinnumálastofnun greinir einnig frá því að kærandi byggi á því að breyting á 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi tekið gildi 1. janúar 2013. Þar sem kærandi hafi verið við vinnu á árinu 2012 eigi ekki að miða við nýju lögin heldur taka mið af þeim lögum sem voru í gildi þegar kærandi var við störf.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 26. febrúar 2013. Það sé því ljóst að umsókn kæranda barst stofnuninni fyrst eftir að breyting á 16. gr. laganna tók gildi. Það sé almenn meginregla íslensk réttar þegar um viðvarandi lögsambönd sé að ræða sem nái fram yfir lagabreytingar að réttaráhrif slíkra lögsambanda ráðist af nýjum lögum eftir gildistöku þeirra. Þó kærandi hafi starfað í tíð eldri lagaákvæðis verði ekki séð að hún geti byggt rétt á eldri löggjöf enda hafi fyrst komið til greina að beita umræddu lagaákvæði þegar hún sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 2013. Að sama skapi myndi 17 ára einstaklingur ekki eiga rétt til atvinnuleysistrygginga eftir gildistöku umræddra laga nr. 142/2012 þar sem ákvæði um lágmarksaldur umsækjenda var einnig breytt, enda þó svo að hann hefði áunnið sér rétt í tíð eldri laga.

Vinnumálastofnun greinir einnig frá því að ljóst sé af athugasemdum með 4. gr. frumvarps því er varð að lögum nr. 142/2012 að umræddar breytingar hafi verið gerðar í þeim tilgangi að skýra betur þær reglur sem þegar voru í gildi þar sem ekki þótti nægilega skýrt í framkvæmd hvernig standa ætti að útreikningi bótaréttar í umræddum tilvikum. Segi berum orðum að þegar hafi verið kveðið á um ofangreint fyrirkomulag með breytingalögum nr. 37/2009 og sé sérstaklega vísað í nefndarálit meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar Alþingis frá 20. mars 2009 þar sem fram komi að miða skuli við að þeir sem starfi hjá eigin einkahlutafélögum hafi fengið greidd laun í samræmi við viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.


 

Vinnumálastofnun fellst því hvorki á að lögum hafi verið beitt með afturvirkum hætti í tilviki kæranda né að umrædd breyting á 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi falið í sér efnisbreytingu á rétti atvinnuleitenda til atvinnuleysisbóta. Breytingin hafi einungis verið gerð til að skýra þegar lögleidda framkvæmd á útreikningi bótaréttar þeirra sem höfðu starfað hjá eigin félagi.

Vinnumálastofnun telur ekki ástæðu til að fjalla um þá kröfu er lúti að kostnaði vegna lögfræðiþjónustu Lexistu ehf. enda sé ekki fyrir hendi lagaheimild til að úrskurða um slíkar kröfur í 11. eða 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. júlí 2013, og var henni veittur frestur til 22. júlí 2013 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.

Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. október 2013, var kæranda tilkynnt að mál hennar myndi tefjast hjá nefndinni sökum mikils málafjölda.

 

2.
Niðurstaða

Kærandi var eigandi einkahlutafélagsins B ehf., stjórnarmaður í stjórn, framkvæmdastjóri, handhafi prókúruumboðs og stofnandi fyrirtækisins.

Samkvæmt 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald fyrir vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald launamaður. Þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum teljast því launamenn í skilningi laganna og ákvarðast réttur þeirra til greiðslna atvinnuleysistrygginga af ákvæðum laganna er lúta að réttindum launafólks.


 

Í III. kafla laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í ákvæði 2. mgr. 16. gr. i.f. laganna er að finna nýmæli sem kom inn með 4. gr. laga nr. 142/2012 og tók gildi 1. janúar 2013, þar sem segir: „Þegar um er að ræða launamann sem starfar hjá eigin félagi, svo sem einkahlutafélagi eða samlagsfélagi, skal miða við reglur ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein.“ Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 26. febrúar 2013 eftir að fyrrgreint ákvæði tók gildi og tekur það því til tilviks kæranda. Ekki verður fallist á þá málsástæðu kæranda að fara eigi eftir lögum sem voru í gildi á ávinnslutímabili kæranda enda er ekki kveðið á um það í lögunum að eldri lög eigi að gilda um tilvik eins og kæranda og ganga á þann hátt gegn gildandi lögum.

Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 142/2012 segir við 16. gr.:

Þegar staðreyna skal upplýsingar um starfshlutfall þannig að komið sé í veg fyrir að tilgreint sé hærra starfshlutfall í vottorði vinnuveitanda en hinn tryggði gegndi þar sem tryggingahlutfall hans getur aldrei orðið hærra en sem nemur starfshlutfalli á ávinnslutímabili þykir mikilvægt að skýrt sé við hvaða tekjuviðmið skuli miða þegar um er að ræða þá sem starfa hjá eigin félögum, svo sem einkahlutafélögum eða samlagsfélögum. Í því skyni að skýra framangreint var 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar breytt með lögum nr. 37/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, og er tekið fram í nefndaráliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar Alþingis vegna þess frumvarps sem varð að þeim lögum að miða skuli við að þeir sem starfi hjá eigin einkahlutafélögum „séu í fullu starfi og hafi fengið greidd laun í samræmi við viðmiðunarfjárhæð fjármálaráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein, eins og skattyfirvöld gera ráð fyrir. Er með þessu leitast við að gæta betra jafnvægis milli inn- og útstreymis Atvinnuleysistryggingasjóðs og þá ekki síst á því tímabili þegar tekjutengdar atvinnuleysisbætur eru greiddar.“ Þetta hefur hins vegar ekki þótt nægilega skýrt í framkvæmd. Þykir því mikilvægt að í lögum um atvinnuleysistryggingar verði kveðið skýrar á um að þegar um er að ræða umsækjendur um atvinnuleysisbætur sem hafa starfað hjá eigin félagi, svo sem einkahlutafélagi eða samlagsfélagi á ávinnslutímabilinu, skuli miða við reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein og eru í því skyni lagðar til viðeigandi breytingar á ákvæði þessu.


 

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber að miða við reglur ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald við útreikning á bótarétti einstaklinga sem störfuðu hjá eigin félagi á viðmiðunartímabilinu. Við mat á réttindum launamanns sem starfað hefur hjá eigin hlutafélagi ber því að beita sömu aðferð og á við um sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. b-lið 3. gr. og 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skal endurgjald fyrir vinnu manns sem reiknar sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Fjármálaráðherra gefur út viðmiðunarfjárhæðir fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. B ehf. fellur undir flokk C6 en í þeim flokki eru menn sem starfa einir og án annarra starfsmanna eða aðkeypts vinnuframlags. Mánaðarlaun eru 320.000 kr. og árslaun 3.840.000 kr.

Fallist er á það mat Vinnumálastofnunar að starf kæranda hafi fallið undir starfaflokk C6 samkvæmt reglum ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald. Á ávinnslutímabilinu nam reiknað endurgjald kæranda 65% af þeim lágmarksviðmiðunum sem koma fram í reglum ríkisskattstjóra um starfaflokk C6. Þegar af þessum ástæðum verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Hvað varðar útlagðan lögmannskostnað þá er meginregla íslensks réttar að borgararnir bera sjálfir þann kostnað sem þeir hafa af erindum til stjórnvalda og málarekstri fyrir þeim, þessu til stuðnings má benda á niðurstöðu dóms Hæstaréttar frá 30. október 2008 í máli nr. 70/2008. Af þessum sökum er kröfu kæranda um greiðslu útlagðs lögmannskostnaðar vegna málsins hjá úrskurðarnefndinni hafnað.

 

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun Vinnumálstofnunar staðfest.


 

 

Úr­skurðar­orð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A, er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum