Hoppa yfir valmynd
17. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 88/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 88/2013.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. ágúst 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hún hafi haft tekjur í maí 2013 frá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hafi starfað að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að viðbættu 15% álagi að fjárhæð samtals 1.053 kr. Kærandi vildi ekki una hinni kærðu ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 4. september 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 8. ágúst 2011. Með bréfi, dags. 7. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt að við samkeyrslu á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á kæranda í maí 2013 vegna vinnu hjá B Óskað var skriflegra skýringa kæranda á þessum tekjum. Kærandi mætti á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar 12. ágúst 2013 og fékk aðstoð við að fylla út tilkynningu um tekjur og í kjölfarið barst tilkynning frá kæranda um tekjur í maí 2013 að fjárhæð 62.129 kr.

Á fundi Vinnumálastofnunar 29. ágúst 2013 var tekin sú ákvörðun að kæranda skyldi gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hún hafði ekki tilkynnt stofnuninni um vinnu sína í maí 2013. Þá var henni einnig gert að endurgreiða vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 1.053 kr. með inniföldu 15% álagi.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. september 2013, greinir kærandi frá því að hún hafi fengið símtal frá gamla vinnustaðnum sínum í maí 2013 og verið beðin að vinna í fjóra daga í afleysingum. Ekki hafi verið um meiri vinnu að ræða. Hún hafi fengið greitt fyrir þessa vinnu innan við 40.000 kr. Hún hafi vitað að ef hún fengi vinnu yrði hún að láta Vinnumálastofnun vita en hún hafi einnig vitað að tekjur undir 59.000 kr. skiptu ekki máli. Þar sem hún hafi verið langt undir því marki hafi hún ekki gert sér grein fyrir því að hún yrði samt að láta vita af því, enda væru liðin tvö ár síðan hún fór á kynningarfund. Það hafi ekki verið ætlun hennar að afla bóta með sviksamlegum hætti. Kærandi kveðst gera sér grein fyrir því að hún hafi gert mistök og taki hún fulla ábyrgð á því en henni finnist refsingin vera í hróplegu ósamræmi við glæpinn.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. október 2013, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og hafi kæranda einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin bendir á að 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði til lengri eða skemmri tíma samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín.

Þá segi jafnframt í 13. gr. laganna að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Það sé ljóst að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með tekjur frá B í maí 2013. Kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um vinnu sína eða tekjur. Í rökstuðningi fyrir kæru greini kærandi frá því að hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að hún yrði að gera stofnuninni grein fyrir tekjum sem væru undir frítekjumarki.

Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi geti ekki borið fyrir sig vankunnáttu á lögunum þar sem víðtækar og ítarlegar upplýsingar um réttindi og skyldur komi fram á starfsleitarfundum stofnunarinnar og liggi meðal annars fyrir á heimasíðu hennar. Kærandi hafi ekki tilkynnt stofnuninni fyrirfram um störf sín fyrir B Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

Þá beri kæranda að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hún uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 1.053 kr. með inniföldu 15% álagi skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. október 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 17. október 2013. Ekki hafa borist frekari athugasemdir frá kæranda.

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, eins og því ákvæði var breytt með 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011 en helsti tilgangur ákvæðisins er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“. Frá 3. september 2011 hefur ákvæðið verið svohljóðandi:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Ofangreint ákvæði var í gildi þegar samkeyrsla á gagnagrunnum Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra fór fram sem veitti Vinnumálastofnun upplýsingar um störf kæranda hjá B í maí 2013.

60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var síðast breytt með 4. gr. laga nr. 103/2011. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 103/2011 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að líta skuli svo á að atvinnuleysisbóta sé aflað með sviksamlegum hætti ef hinn tryggði lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar er kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Samkvæmt ákvæðinu hefur það því sömu afleiðingar og að gefa Vinnumálastofnun rangar upplýsingar.

Samkvæmt 35. gr. a og 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hvílir sú skylda á kæranda að upplýsa Vinnumálastofnun um allar tilfallandi tekjur. Kærandi tiltekur að hún hafi ekki vitað að hún þyrfti að láta Vinnumálastofnun vita um tekjur sínar enda hafi þær verið undir 59.000 kr. og hafi hún talið að tekjur undir þeirri fjárhæð skiptu ekki máli.

Með vísan til gagna þessa máls er ljóst að kærandi starfaði á vinnumarkaði á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Verður að telja í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber kæranda að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hún hefur starfað að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að standa skil á ofgreiddum atvinnuleysisbótum ásamt 15% álagi að fjárhæð samtals 1.053 kr.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. ágúst 2013 í máli A staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. ágúst 2013 í máli A þess efnis að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

Kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 1.053 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum