Hoppa yfir valmynd
10. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 57/2013

.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 10. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 57/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 8. apríl 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum sama dag tekið ákvörðun um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Ástæðan var sú að kærandi skilaði ekki inn staðfestu skólavottorði um stöðu náms sem stofnunin hafði óskað eftir 8. mars 2013. Ekki hafi verið ljóst hvort ákvæði 1. mgr. 9. gr. og a. liðar 1. mgr. 13. gr., sbr. 14. gr. laga nr. 54/2006 hafi verið uppfyllt. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana með bréfi, dags. 6. júní 2013, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 2. janúar 2013.

 

Vinnumálastofnun óskaði eftir nýju skólavottorði frá Háskólanum á Bifröst þar sem fram kæmi námshlutfall kæranda eða hvort námi væri hætt eða því lokið með prófgráðu. Afgreiðslu umsóknar kæranda var frestað þar sem fyrirliggjandi gögn bentu til að kærandi stundaði ennþá nám við háskólann. Kærandi varð ekki við beiðni Vinnumálastofnunar um að skila inn umbeðnum gögnum og í kjölfarið tók Vinnumálastofnun hina kærðu ákvörðun 8. apríl 2013.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. apríl 2013, segi að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir desember 2012 og janúar 2013 þar sem hann hafi verið í námi við Háskólann á Bifröst. Fram hafi komið að þeir sem væru að skrifa ritgerðir ættu ekki rétt á atvinnuleysisbótum væru þeir í meira en 10 til 12 námseiningum. Kærandi telur að þarna hafi verið misskilningur um að hann væri í fullu námi á þessum tíma en ekki að vinna lítilsháttar lagfæringar á lokaritgerð upp á 2 ECTS einingar. Kærandi greinir jafnframt frá því að hann hafi nýlega áttað sig á rétti sínum og að hann fari fram á að fá greiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið frá 10. desember 2012 til 31. janúar 2013 í ljósi upplýsinganna.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 2. júlí 2013, vísar stofnunin til 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en í ákvæðinu sé kveðið á um að umsókn um atvinnuleysisbætur skuli fylgja nauðsynleg gögn að mati stofnunarinnar. Með ákvæðinu sé Vinnumálastofnun falið að meta hvaða gögn séu nauðsynleg hverju sinni svo hægt sé að afgreiða umsóknir um atvinnuleysisbætur og þá meðal  annars í þeim tilgangi að stofnunin geti metið á grundvelli þeirra gagna sem liggi fyrir hvort skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar séu uppfyllt eða ekki.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í tilfelli kæranda hafi honum verið sent bréf og hann beðinn um að skila inn frekari gögnum sem útskýrðu stöðu náms hans við Háskólann á Bifröst frekar. Kærandi sinnti ekki tilmælum stofnunarinnar og var því mál hans tekið fyrir á grundvelli þeirra gagna sem stofnuninni hafði þá borist. Á grundvelli þeirra gagna, einkum vottorði frá Háskólanum á Bifröst, hafi ekki verið hægt að meta hver raunveruleg stað á námi kæranda hafi verið, hvort hann væri í námi í skilningi c-liðar 1. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þá hvort synja skyldi umsókn hans á grundvelli meginreglunnar í 1. mgr. 52. gr. laganna eða hvort einhver undanþáguheimild 2. mgr. 52. gr. ætti við. Jafnframt væri ekki hægt að meta hvort kærandi uppfyllti ekki skilyrði um að vera í virkri atvinnuleit í skilningi a-liðar 1. mgr. 13. gr., sbr. 14. gr. laganna enda sé ekki ljóst hvert umfang náms hans var eða hver staðan var á námi hans.

 

Það hafi því verið niðurstaða Vinnumálastofnunar að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur, enda hafi ekki verið fyrir hendi fullnægjandi gögn til að meta rétt hans til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og kærandi hafði ekki sinnt tilmælum stofnunarinnar um að færa fram umrædd gögn um stöðu náms hans við Háskólann á Bifröst. Kærandi hafi heldur ekki, eftir að honum barst ákvörðunarbréf Vinnumálastofnunar, skilað inn umbeðnum gögnum og óskaði í kjölfarið eftir endurupptöku á máli sínu heldur hafi kærandi kosið að kæra ákvörðunina og skila inn nýju vottorði frá Háskólanum á Bifröst, dags. 15. maí 2013, með kærunni.

 

Í fyrrgreindu vottorði kemur fram að kærandi hafi á vorönn 2013 einungis verið skráður í tvær ECTS einingar þrátt fyrir að standa fyrir vörn á meistararitgerð sinni á tímabilinu. Þrátt fyrir umleitanir hafði Vinnumálastofnun ekki borist umbeðið vottorð og bárust ný gögn í máli kæranda fyrst stofnuninni þegar hann kærði ákvörðun  um synjun til úrskurðarnefndarinnar.

 

Fyrir liggi að kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 2. janúar 2013. Var umsókn hans synjað 8. apríl 2013. Af kæru til úrskurðarnefndarinnar að dæma geri kærandi ekki einungis kröfu um að fá greiddar atvinnuleysisbætur frá umsóknardegi heldur einnig að honum verði greiddar atvinnuleysisbætur frá 10. desember 2012. Vinnumálastofnun bendir á að atvinnuleysisbætur séu greiddar frá þeim degi er stofnunin tekur við umsóknum um atvinnuleysisbætur. Með vísan til 9. gr. og 1. mgr. 29. gr. laga  um atvinnuleysistryggingar og að  umsókn kæranda barst Vinnumálstofnun fyrst 2. janúar 2013 felst stofnunin ekki á að kærandi geti átt rétt á atvinnuleysisbótum frá 10. desember 2012.

 

Vinnumálastofnun bendir enn fremur á að stofnunin geti heldur ekki fallist á kröfu kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga frá þeim tíma sem hann sótti um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni í janúar 2013. Kærandi hafi ekki fært fram ástæður fyrir því að það liðu rúmlega tveir mánuðir frá því að Vinnumálastofnun synjaði umsókn hans um atvinnuleysisbætur og þar til umbeðið skólavottorð barst fyrst úrskurðarnefndinni. Vottorðið hafi borist úrskurðarnefndinni u.þ.b. hálfu ári eftir að hann sótti um atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun hafi þegar hafnað umsókn hans og telur að kærandi skuli sækja um að nýju til að öðlast rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga.

 

Enn fremur bendir stofnunin á að kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit sína á tímabilinu en stofnuninni hafi einungis borist ein rafræn staðfesting á atvinnuleit kæranda, dagsett 31. janúar 2013. Atvinnuleitendum sé gert að staðfesta mánaðarlega hjá stofnuninni að þeir séu virkir í atvinnuleit. Umsækjendur geti hringt í þjónustufulltrúa, skráð sig rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar eða mætt á þjónustuskrifstofu til að staðfesta atvinnuleit sína. Þar sem kærandi hafi ekki staðfest atvinnuleit sína líkt og honum er skylt að gera skv. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verði ekki séð að kærandi eigi tilkall til atvinnuleysisbóta á tímabilinu.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júlí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. júlí  2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. október 2013, var kæranda tilkynnt að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, segir að hver sá sem stundar nám, sbr. c–lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Í 2. mgr. sama ákvæðis er kveðið á um að þrátt fyrir 1. mgr. sé hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemi að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þá segir að hinn tryggði skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

 

Í 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum sé heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þegar þeir verða atvinnulausir og umsóknin skuli vera skrifleg á þar til gerðum eyðublöðum og henni skuli meðal annars fylgja vottorð fyrrverandi vinnuveitanda, staðfesting um stöðvun rekstrar og önnur nauðsynleg gögn að mati Vinnumálastofnunar. Jafnframt er mælt fyrir í 4. mgr. sama ákvæðis að ýmsar stofnanir samfélagsins, m.a. skólar á háskólastigi, skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Það liggur fyrir í máli þessu að kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta 2. janúar 2013 og að Vinnumálastofnun hafi borist vottorð frá Háskólanum á Bifröst 23. sama mánaðar þar sem fram hafi komið að kærandi hafi skilað inn „MA. Ritgerð 10.12.2012 og vörn [færi] fram 21. janúar 2013, áætluð útskrift [væri] 2. febrúar 2013 við Háskólann á Bifröst“. Kærandi staðfesti atvinnuleit 31. janúar 2013 en ekki eftir það tímamark. Samkvæmt færslu í samskiptasögu Vinnumálastofnunar var hann skráður af atvinnuleysisskrá 5. mars 2013. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 8. mars 2013, var óskað eftir nýju staðfestu skólavottorði þar sem fram kæmi hvort kærandi væri enn í „námi við Háskólann á Bifröst og námshlutfall eða hvort námi hafi verið hætt eða því lokið með prófgráðu“. Kærandi svaraði ekki þessari beiðni Vinnumálastofnunar og með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 8. apríl 2013, var honum tilkynnt um hina kærðu ákvörðun. Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi lagt fram vottorð frá Háskólanum á Bifröst, dags. 15. maí 2013, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið skráður í lokaverkefni á meistarastigi á haustönn og þann 10. desember 2012 hafi ritgerðin verið metin til 22 ECTS en kærandi hafi svo varið ritgerðina fyrir prófdómurum 6. maí 2013 og þannig lokið síðustu tveim ECTS einingum sínum í náminu.

 

Kærandi lagði fram umsókn um atvinnuleysisbætur í byrjun janúar 2013, sem hann fylgdi eftir með framlagningu vottorðs frá Háskólanum á Bifröst ásamt því að skrá sig í virkri atvinnuleit 31. janúar 2013. Með hliðsjón af því verður að telja að kærandi hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um framlagningu umsóknar um atvinnuleysisbætur. Á hinn bóginn verður að fallast á að vottorðið hafi ekki verið nægilega skýrt, það gaf til kynna að námi kæranda væri nánast lokið en var þó ekki afdráttarlaust. Það má því fallast á að tilefni hafi verið til að kalla eftir nánari skýringum á efni vottorðsins.

 

Vinnumálastofnun ber að rannsaka mál áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður að túlka þá skyldu með hliðsjón af þeim möguleikum stofnunarinnar að afla gagna frá ýmsum stofnunum samfélagsins, m.a. skólum á háskólastigi, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefndin telur að í þessu máli hafi verið tilefni fyrir Vinnumálastofnun til að kalla sjálf eftir nánari skýringum á efni þess vottorðs er kærandi lagði fram samhliða umsókn sinni. Að þessu leyti hafi stofnunin brugðist rannsóknarskyldu sinni.

 

 

 

Með hliðsjón af því verður ekki fallist á þau rök stofnunarinnar að kærandi hafi lagt gögn of seint fram til að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli umsóknar sinnar í byrjun janúar 2013.

 

Með vísan til fyrrnefnds vottorðs frá Háskólanum á Bifröst, dags. 15. maí 2013, verður að telja að kærandi hafi uppfyllt skilyrði þau sem koma fram í 2. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar til að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Þessi réttur kæranda gat ekki stofnast fyrr en með framlagningu umsóknar hans um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Upphafstími greiðslna atvinnuleysisbóta til kæranda er því 2. janúar 2013.

 

Þar sem kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína í febrúar 2013 og gerði engan reka að því að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um sína hagi í kjölfar bréfs stofnunarinnar til hans, dags. 8. mars 2013, verða lok réttinda kæranda í atvinnuleysistryggingakerfinu að miðast við þann dag sem hann staðfesti síðast atvinnuleit sína. Niðurstaðan er því sú að kærandi hafi ekki átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta eftir 31. janúar 2013.

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. apríl 2013 um að synja umsókn kæranda, A um greiðslur atvinnuleysisbóta, er felld úr gildi. Kærandi, A, á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 2. janúar til og með 31. janúar 2013.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

 

            Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum