Hoppa yfir valmynd
3. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 41/2013

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 41/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda, A, kt. 131053-2829, Bræðraborgarstíg 13, Reykjavík, með tölvupósti 16. nóvember 2012 að samkvæmt 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 hæfist nýtt bótatímabil skv. 29. gr. laganna þegar hinn tryggði sækir um atvinnuleysisbætur að nýju eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þar sem vinna kæranda næði ekki samfelldum 24 mánuðum ætti hún ekki rétt til nýs bótatímabils þegar hún lagði inn umsókn um atvinnuleysisbætur til stofnunarinnar 1. júní 2012. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 17. apríl 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 16. janúar 2008 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 7. nóvember 2008. Hún sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 18. desember 2008 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 30. júní 2010. Kærandi sótti síðan um atvinnuleysisbætur að nýju 1. júní 2012 og fékk þær greiddar til 26. nóvember 2012 eða þar til bótaréttur hennar skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar leið undir lok.

 

Meðal gagna máls þessa eru tvö vinnuveitendavottorð, annars vegar frá B. vegna starfstímabilsins 6. júlí 2010 til 11. desember 2011 og hins vegar frá C vegna starfstímabilsins 1. janúar 2012 til 30. maí 2012. Er kærandi samkvæmt þeim vottorðum með samtals 22 mánaða vinnusögu. Kærandi bendir á í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að hún hafi einnig verið í vinnu í maí og júní 2010 hjá D og hafi að því loknu gengið inn í starf hjá B, þar sem D hafi starfað. Kærandi telur ekki réttmætt að taka ekki tillit til þessarar vinnu. Einar hafi staðfest skriflega þetta vinnuframlag hennar. Laun hennar fyrir maí 2010 hafi verið 11.000 kr. og laun fyrir júní 2010 hafi verið 23.000 kr. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða óskaði eftir vinnuveitendavottorði vegna þessarar vinnu með tölvupósti 12. nóvember 2013, en ekki barst svar við þeim pósti.

 

Vinnumálastofnun barst erindi frá kæranda 15. nóvember 2012 þar sem hún óskar að tekið verði til skoðunar hvort hún hafi átt rétt á nýju bótatímabili þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur 1. júní 2012, en hún hafi þá talið sig hafa samfelldra 24 mánaða vinnusögu. Í svari til kæranda 16. nóvember 2012 var vísað til þess að skv. 31. gr. laga um atvinnuleysisbætur hefjist nýtt bótatímabil skv. 29. gr. þegar hinn tryggði sækir um atvinnuleysisbætur að nýju eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þar sem vinna kæranda hafi ekki náð samfelldum 24 mánuðum hafi hún ekki átt rétt til nýs bótatímabils þegar hún lagði inn umsókn um atvinnuleysisbætur 1. júní 2012. Kærandi sótti um endurskoðun á þessari ákvörðun 21. nóvember 2012. Með bréfi Vinnumálastofnunar 7. janúar 2013 var henni tilkynnt að ekki yrði séð að fyrri ákvörðun stofnunarinnar hafi verið byggð á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum og var fyrri ákvörðun staðfest. Kærandi óskaði aftur eftir endurskoðun Vinnumálastofnunar með bréfi dags. 15. janúar 2013. Beiðni kæranda um nýtt bótatímabil var hafnað á fundi Vinnumálastofnunar 18. janúar 2013 þar sem hún væri aðeins með 22 mánaða vinnusögu samkvæmt framlögðum gögnum.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 25. júní 2013, bendir stofnunin á að samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti nýtt tímabil skv. 29. gr. laganna hafist þegar hinn tryggði sæki að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Samkvæmt framlögðum gögnum hafi kærandi ekki unnið samfellda vinnu í 24 mánuði frá því hún hafi verið afskráð af bótaskrá 30. júní 2010 og þar til hún sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta 1. júní 2012. Af þeim sökum hafi kærandi farið inn á eldra bótatímabil sem hafi liðið undir lok 26. nóvember 2012.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. júlí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefin kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. júlí 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnti nefndin kæranda að mál hennar myndi tefjast sökum mikils málafjölda hjá nefndinni.

 

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 16. janúar 2008 og fékk þær greiddar til 7. nóvember 2008. Hún sótti um að nýju 18. desember 2008 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 30. júní 2010. Kærandi sótti um að nýju 1. júní 2012 og fékk greiddar atvinnuleysisbætur til 26. nóvember 2012 eða þar til bótaréttur hennar var uppurinn. Kærandi hafði óskað eftir því að fara á nýtt bótatímabil þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur 12. júní 2012 og leit svo á að hún hefði starfað samfellt á vinnumarkaði í 24 mánuði. Samkvæmt vinnuveitendavottorði frá B. starfaði hún þar frá 6. júlí 2010 til 11. desember 2011 og samkvæmt vinnuveitendavottorði frá C starfaði hún þar frá 1. janúar 2012 til 30. maí 2012. Kærandi starfaði því samtals í 22 mánuði samkvæmt framangreindum vinnuveitendavottorðum sem liggja fyrir í máli hennar. Kærandi kveðst í kæru hafa fengið í laun í maí 2010 11.000 kr. og í júní 2010 23.000 kr. Hún lagði ekki fram vinnuveitendavottorð vegna þessara launa. Á þessum tíma þáði hún greiðslu atvinnuleysisbóta.

 

Samkvæmt 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar getur nýtt tímabil skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæðið er svohljóðandi:

 

,,Nýtt tímabil skv. 29. gr. hefst þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Að öðru leyti gilda ákvæði III. og IV. kafla um skilyrði atvinnuleysistryggingar hins tryggða eftir því sem við getur átt.“

 

Samkvæmt framanskráðu hafði kærandi ekki unnið samfellt í 24 mánuði frá því hún var afskráð af bótaskrá 30. júní 2010 og þar til hún sótti um atvinnuleysisbætur 1. júní 2012. Hún fór því inn á eldra bótatímabil sem leið undir lok 26. nóvember 2012.

 

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja A um greiðslur atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

 

            Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum