Hoppa yfir valmynd
3. desember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 40/2013.

 

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. desember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 40/2013.

 

1. Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. apríl 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði fjallað um rétt hennar til biðstyrks á grundvelli reglugerðar nr. 47/2013 um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðstyrkur“. Tekin hafi verið sú ákvörðun, vegna höfnunar hennar á atvinnutilboði 28. febrúar 2013, hjá B, að fella niður rétt hennar til greiðslu biðstyrks frá og með þeim degi. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 2. gr. reglugerðarinnar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, ódagsettu en mótteknu 12. apríl  2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um „Liðstyrk“ hjá Vinnumálastofnun 21. janúar 2013 og var umsókn hennar samþykkt á fundi hjá stofnuninni 31. janúar 2013. Með umsókn um „Liðstyrk“ sótti kærandi jafnframt um „Biðstyrk“ sem greiddur er á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XI. við lög um atvinnuleysistryggingar nr. 54/2006 og reglugerðar nr. 47/2013.

 

Vinnumálastofnun barst 1. mars 2013 tilkynning frá B þess efnis að kærandi hefði hafnað atvinnutilboði þar. Tengiliður fyrirtækisins tók fram að kærandi hafi einungis viljað 50 – 60% starf og hafi henni verið boðnar 125.000 kr. fyrir 50% starf. Í bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 11. mars 2013, kemur fram að biðstyrkur sé greiddur til atvinnuleitenda á grundvelli reglugerðar nr. 47/2013 um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem séu þátttakendur í verkefninu ,,Liðsstyrkur“. Samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar falli réttur til styrks niður ef atvinnuleitanda bjóðist sannanlegt tilboð um starf sem og tilboð um þátttöku í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Kæranda var ennfremur í bréfi þessu gefið færi á að skila inn skriflegri afstöðu sinni til höfnunar á atvinnutilboði. Tekið var fram að afleiðingar þess að hún hafnaði atvinnutilboðinu gætu verið þær að réttur hennar til greiðslu „biðstyrks“ á grundvelli reglugerðar nr. 47/2013 myndi falla niður.

 

Vinnumálastofnun barst skýringarbréf frá kæranda, dags. 22. mars 2013, þar sem meðal annars kom fram að henni hafi verið boðið starf sem viðskiptafræðingur við bókhald og fleira hjá B. Hafi fyrirtækið viljað fá háskólamenntaða manneskju í starfið, þ.e. viðskiptafræðing. Fyrir fullt starf hafi henni verið boðnar 225.000 kr. sem sé langt undir því sem viðskiptafræðingar fái í byrjunarlaun eða hvaða starfsmaður sem er. Kæranda hafi fundist launin of lág, sérstaklega fyrir menntaða manneskju, þannig að hún hafi afþakkað starfið.

 

Mál kæranda var tekið upp á fundi Vinnumálastofnunar og með bréfi, dags. 3. apríl 2013, var kæranda send hin kærða ákvörðun þess efnis að vegna höfnunar hennar á atvinnutilboði hjá B  væri réttur hennar til greiðslu biðstyrks felldur niður frá og með 28. febrúar 2013.

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hún hafi verið boðuð í atvinnuviðtal ásamt fleiri viðskiptafræðingum. Starfið felist í að vera bókari og hafi hún átt að sjá um bókhald fyrirtækja sem eigandi fyrirtækisins væri með. Hún hafi átt að vera eini starfsmaðurinn hjá honum. Henni hafi verið boðnar 225.000 kr. en það finnist henni niðurlægjandi fyrir viðskiptafræðing og til háborinnar skammar. Kærandi kveðst hafa haft samband við Teit Lárusson, kjaramálafulltrúa, hjá VR. Hann hafi kynnt henni nýjustu launakönnun VR. Samkvæmt henni séu meðal grunnlaun sérhæfðra bókhalds-, fjármála- og launafulltrúa 394.544 kr. og laun fyrir önnur almenn skrifstofustörf  séu 337.563 kr. Kærandi er ósátt við að skýringar hennar hafi ekki verið metnar gildar og hún telur að það séu gildar skýringar að vilja ekki vinna langt undir eðlilegum launum og láta nota sig. Laun verði að vera mannsæmandi en ekki niðurlægjandi og henni finnist ekki réttlátt að atvinnuleysisbætur séu teknar af henni þegar hún hafni svona fáránlegum launum.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. júní 2013, bendir stofnunin á bráðabirgðaákvæði XI við lög um atvinnuleysistryggingar. Stofnunin greinir frá því að nánari skilyrði fyrir greiðslu styrks samkvæmt ákvæðinu komi fram í reglugerð nr. 47/2013. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu styrks og tilfelli sem leiða til þess að heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðarinnar fellur niður.

 

Vinnumálstofnun bendir á að í málinu liggi fyrir að kæranda var boðið 100% starf hjá B en samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmanni B hafi kærandi aðeins viljað fá 50 til 60% starf en ekki 100%. Stofnunin bendir á að kærandi taki fram, hvort tveggja í skýringarbréfi sínu og kæru, að hún hafi hafnað starfinu þar sem launin hafi einungis verið 225.000 kr. á mánuði fyrir 100% starf. Forsvarsmaður B hafi tekið fram að hann hafi boðið 125.000 kr. fyrir 50% starf sem geri 250.000 kr. fyrir 100% starf. Til stuðnings fullyrðingu forsvarsmanns Aum að kærandi hafi aðeins viljað fá 50 til 60% starf hafi Vinnumálastofnun borist tilkynning frá öðrum atvinnurekanda 26. mars 2013 þar sem tekið hafi verið fram að kærandi hafi hafnað 100% starfi hjá C þar sem kæranda hafi viljað 50% starf. Sé það því mat Vinnumálastofnunar að kærandi hefði hafnað umræddu starfi hjá B og C.

 

Þar sem 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013 séu skýr um að ef atvinnuleitandi hafnar boði um starf eða starfstengt vinnumarkaðsúrræði falli niður réttur viðkomandi til greiðslu „biðstyrks“ samkvæmt bráðabirgðaákvæði XI. Kærandi hafi hafnað starfi þar sem hún hafi einungis viljað 50% starf þegar henni var boðið 100% starf. Vinnumálastofnun hafi ekki borist neinar upplýsingar frá kæranda um að hún væri einungis að leita eftir 50% starfi og greiðslur „biðstyrks“ til kæranda hafi miðað við að hún væri að leita að 100% starfi, enda hafi hún fengið greiddan 100% biðstyrk en ekki 50%.

 

Stofnunin vekur athygli á því að ekki sé um biðtímaákvörðun að ræða í skilningi X og XI kafla laga um atvinnuleysistryggingar heldur sé ákvörðun stofnunarinnar byggð á sérreglu 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI. Í því ákvæði sé ekki vikið að „gildum ástæðum“ fyrir höfnun á starfi eða starfstengdu vinnumarkaðsúrræði ólíkt því sem tiltekið er í ákvæðum í X. og XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar. Bráðabirgðaákvæði XI sé ætlað að vera síðasta tilraun til að koma atvinnuleitanda aftur á vinnumarkað enda hafi viðkomandi  þegar fullnýtt rétt sinn til greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Þar sem tekið sé fram í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI að réttur atvinnuleitanda skv. 1. mgr. falli niður þegar viðkomandi býðst meðal annars starfstengt vinnumarkaðsúrræði beri Vinnumálastofnun að miða við að réttaráhrif ákvörðunar stofnunarinnar, tilkynnt með bréfi, dags. 3. apríl 2013, séu frá 28. febrúar 2013 þegar forsvarsmaður Account hafi haft samband við kæranda og boðið henni starf.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júní 2013, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 1. júlí 2013. Engar athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, var kærandi látinn vita um tafir á afgreiðslu málsins vegna mikils fjölda kærumála hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði á árinu 2013 geti átt rétt á sérstökum styrk sem nemi fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði til viðbótar en þó aldrei til lengri tíma en að því tímamarki að viðkomandi býðst starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að þegar atvinnuleitanda býðst úrræði skv. 1. mgr. falli niður réttur hlutaðeigandi til styrks skv. 1. mgr.

 

Í reglugerð nr. 47/2013 eru tilgreind nánari skilyrði fyrir greiðslu styrks samkvæmt framangreindum ákvæðum bráðabirgðaákvæðis XI. Í 2. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu styrks og tilfelli sem leiða til þess að heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðarinnar fellur niður. Eftirfarandi kemur fram í a. lið 2. gr. reglugerðarinnar:

 

,,Viðkomandi atvinnuleitandi sé þátttakandi í verkefninu Liðsstyrkur og sé þar með reiðubúinn að taka tilboði um starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða atvinnutengda starfsendurhæfingu í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III og IV við reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, með síðari breytingum.“

 

Í ákvæði til bráðabirgða III við reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, með síðari breytingum kemur m.a. fram að á árinu 2013 sé Vinnumálastofnun heimilt að gera samning við fyrirtæki eða stofnun um greiðslu styrks úr Atvinnuleysistryggingasjóði til handa hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun vegna ráðningar atvinnuleitanda, sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hefur fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur, til starfa hjá fyrirtækinu eða stofnuninni enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði. Hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun skal á móti greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings.

 

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi viðskiptafræðingur að mennt. Fyrirtækið B bauð henni 250.000 kr. í mánaðarlaun fyrir fullt starf.  Í kjarasamningi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga við Samtök atvinnulífsins segir að laun og önnur starfskjör félagsmanna séu ákvörðuð í ráðningarsamningi sem gerður er milli vinnuveitanda og starfsmanns. Þá segir að launakjör ráðist af því sem um semst á markaði.

 

Samkvæmt upplýsingum Halls Páls Jónssonar, framkvæmdastjóra kjarafélags viðskiptafræðinga og hagfræðinga, eru meðal dagvinnulaun viðskiptafræðinga hjá ríkinu tæplega 500.000 kr. og meðal dagvinnulaun þeirra á almennum vinnumarkaði eru nokkru hærri.  Þau kjör sem kæranda voru boðin voru því langt undir almennum launakjörum viðskiptafræðinga.

 

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að til þess beri að líta að í máli þessu ber mikið á milli þeirra launa sem kæranda voru boðin hjá B og launa sem jafna má til þess sem fram kemur í ákvæði til bráðabirgða III við reglugerð nr. 12/2009 þess efnis að hlutaðeigandi fyrirtæki skuli greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Úrskurðarnefndin telur, með vísan til framanritaðs, að sú niðurstaða Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til greiðslu biðstyrks frá 28. febrúar 2013 vegna höfnunar á atvinnutilboði hafi gengið gegn framangreindu ákvæði til bráðabirgða III við reglugerð nr. 12/2009 og verið ómálefnaleg. Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar er því hrundið.

 

 


 

 

 

Úrskurðarorð

 

Hinni kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. apríl 2013 í máli A þess efnis að fella niður rétt hennar til greiðslu biðstyrks er hrundið og skal Vinnumálastofnun taka mál kæranda aftur fyrir.

 

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum