Hoppa yfir valmynd
15. nóvember 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 15. nóvember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli, nr. 42/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 5. apríl 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 26. mars 2013 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysisbóta. Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur var samþykkt en með vísan til starfsloka hennar hjá B var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir frá móttöku umsóknarinnar 6. febrúar 2013. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 23. apríl 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 6. febrúar 2013.

 

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 7. mars 2013, var óskað eftir skriflegri afstöðu hennar á ástæðum uppsagnar hennar hjá B skv. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, til þess að hægt væri að meta rétt hennar til atvinnuleysisbóta.

 


 

Samkvæmt vottorði vinnuveitenda starfaði kærandi hjá B frá 17. febrúar 2012 til 31. janúar 2013 í 100% starfi. Kærandi sagði sjálf starfi sínu lausu hjá B. Hún hafnar því að hafa sagt upp starfi án gildra ástæðna. Í kæru kemur fram að hún hafi sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara vegna fjölskylduástæðna og flutninga á milli sveitarfélaga. Það hafi ekki verið tilgangur hennar að segja starfi sínu lausu til þess að sækja sér framfærslu til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Tilgangur hennar hafi verið að sameina fjölskylduna, þ.e. byggja upp heimili fyrir son sinn, verðandi eiginmann og stjúpdóttur í sama sveitarfélagi, þ.e. í Reykjavík þar sem unnusti hennar búi og starfi.

 

Kærandi kveðst hafi þurft að ferðast á milli C og Reykjavíkur að lágmarki fjórar ferðir í viku og hafi hún ekki ráðið við kaup á bensíni vegna ferðanna. Hún hafi haldið heimili á C en unnusti hennar hafi leigt með vini sínum í Reykjavík. Þau hafi langað til þess að halda eitt sameiginlegt heimili. Til þess að hagræða hafi verið tekið sú ákvörðun í ágúst 2012 að hún segði starfi sínu á C lausu og hæfi leit að nýju starfi í Reykjavík. Sonur hennar búi í bænum og dóttir unnusta hennar einnig, þannig að það hafi verið réttast að hún flytti til Reykjavíkur og þau leituðu sér að sameiginlegu heimili fyrir þau fjögur þegar hún væri komin með starf í Reykjavík.

 

Formleg starfsleit kæranda hafi hafist í september 2012 og til þess að vera heiðarleg gagnvart vinnuveitanda sínum hafi hún sagt formlega upp starfi sínu 15. október 2012 með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Hún hafi sótt um allar lausar stöður sem auglýstar hafi verið á netmiðlum, í blöðum og hjá ráðningarskrifstofum. Umsóknarferlin séu löng en hún hafi haft trú á því að hún yrði komin með starf í janúar 2013 enda vel menntuð kona með góða starfsreynslu og meðmæli frá öllum stöðum sem hún hafi unnið á. Hún hafi hætt störfum formlega sem verkefnastjóri á kennslusviði hjá B 15. janúar 2013. Hún hafi ekki verið komin með nýtt starf 6. febrúar 2013 og hafi hún þá ákveðið að brjóta odd af oflæti sínu og sótt um atvinnuleysisbætur. Það hafi verið gert í neyð og hafi henni fundist það mjög niðurlægjandi. Kærandi telur að sér skuli veitast undanþága og ekki vera sett á biðtíma því hún telji ástæður sínar fyrir uppsögn á starfi vera gildar.

 


 

Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar 4. apríl 2013 óskaði hún eftir endurskoðun á afgreiðslu stofnunarinnar á máli hennar og veitti skýringa á starfslokum sínum. Niðurstaða úthlutunarnefndar á fundi 12. apríl 2013 var sú að skýringar kæranda á ástæðum starfsloka væru ekki gildar og var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinumarkaðsaðgerða, dags. 14. maí 2013, er vísað til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar sé vísað til þágildandi reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, þar sem talin séu upp tvenns konar tilvik er heyri til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annað þessara tilvika sé þegar maki hins tryggða hefur hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytjast búferlum. Enn fremur segi í greinargerðinni að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan yrði matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

 

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir eru og misst hafa fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Veiti lögin þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum, um að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Það sé ljóst að kærandi hafi sagt starfi sínu lausu. Ágreiningurinn snúist um það hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn á starfi sínu teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis. Orðalagið „gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og hafi fá tilvik verið talin falla þar undir.

 

Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar segist kærandi hafa sagt starfi sínu lausu sökum þess að hún hafi flust búferlum til Reykjavíkur til þess að geta búið með unnusta sínum og búið í sama sveitarfélagi og 19 ára sonur hennar. Af hálfu stofnunarinnar hafi verið talið að þegar ástæða fyrir uppsögn á starfi sé rakin til búferlaflutninga sé hún gild þegar um það sé að ræða að maka atvinnuleitanda hafi boðist starf í öðrum landshluta. Hér liggi fyrir að maki kærandi hafi ekki flust búferlum vegna atvinnutilboðs.

 

Það sé mat Vinnumálastofnunar að sú ástæða sem kærandi hafi fært fram í máli sínu geti ekki talist gild í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli ákvæðisins. Sé sú niðurstaða í samræmi við úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða frá 2013 í máli nr. 68/2012.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. maí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. júní 2013. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var henni kynnt að afgreiðsla máls hennar mundi tefjast vegna mikils málafjölda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 17. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

 

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

 


 

 

Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar er vísað til þágildandi reglugerðar nr. 545/1997, um greiðslu atvinnuleysisbóta, þar sem talin eru upp tvenns konar tilvik er heyra til gildra ástæðna fyrir starfslokum. Annað þessara tilvika er þegar maki hins tryggða hefur hafið störf í öðrum landshluta og fjölskyldan hefur af þeim sökum þurft að flytjast búferlum.             Í máli þessu eru aðstæður ekki með þessum hætti heldur segir kærandi starfi sínu lausu til þess að flytja til unnusta síns og barna þeirra beggja til þess að stofna fjölskyldu. Unnusti kæranda bjó í Reykjavík og kærandi sagði starfi sínu lausu og flutti til Reykjavíkur án þess að hafa tryggt sér annað starf. Orðalagið „gildar ástæður“ hefur verið túlkað þröngt og fá tilvik verið talin falla þar undir. Vinnumálastofnun og úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hafa litið svo á að þegar ástæða fyrir uppsögn á starfi er rakin til búferlaflutninga sé hún gild þegar um það er að ræða að maka atvinnuleitanda hafi boðist starf í öðrum landshluta. Hér er ekki um slíkt að ræða.

 

Ekki er unnt að fallast á þau sjónarmið kæranda að ástæður hennar fyrir uppsögn hjá B hafi verið gildar. Hin kærða ákvörðun var að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða rétt og í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Ber því að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar í tvo mánuði.

 

 


 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. mars 2013 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

 

            Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum