Hoppa yfir valmynd
29. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 34/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 29. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 34/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 25. mars 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði fjallað um rétt hans til biðstyrks á grundvelli reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“, nr. 47/2013. Vegna höfnunar kæranda á atvinnuviðtali hjá C þann 7. mars 2013 var tekin sú ákvörðun að fella niður rétt kæranda til greiðslu biðstyrks frá og með þeim degi á grundvelli framangreindrar reglugerðar. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 30. mars 2013. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

 

Kærandi sótti um „Liðsstyrk“ 2. janúar 2013 hjá Vinnumálastofnun og var umsókn hans samþykkt á fundi hjá stofnuninni 31. janúar 2013. Með umsókn sinni um „Liðsstyrk“ sótti kærandi jafnframt um „Biðstyrk“. Biðstyrkur er greiddur á grundvelli bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar og reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“, nr. 47/2013.

 

Vinnumálastofnun barst tilkynning frá B 7. mars 2013 vegna C um að kærandi hefði hafnað atvinnutilboði þar. Tók tengiliður B fram að ekki hefði verið unnt að ná í kæranda þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 11. mars 2013, var honum gefið færi á að skila inn skriflegri afstöðu sinni til höfnunar á atvinnutilboði frá B. Tekið var fram í bréfinu að afleiðingar þess að hann hafi hafnað atvinnutilboðinu gætu verið þær að réttur hans til greiðslu „biðstyrks“ á grundvelli reglugerðar nr. 47/2013 myndu falla niður. Engar skýringar bárust frá kæranda og var mál hans tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar og honum tilkynnt með bréfi, dags. 25. mars 2013, að vegna höfnunar hans á atvinnutilboði hjá B vegna C væri réttur hans til greiðslu biðstyrks felldur niður frá og með 7. mars 2013 eins og fram hefur komið. Í kjölfar þessa hringdi kærandi í Vinnumálastofnun og sagði að hann hefði verið búinn að tilkynna að hann væri hugsanlega að fara að hefja störf hjá fyrirtækinu D ehf. Var hann beðinn um að skila inn skriflegri staðfestingu frá fyrirtækinu þess efnis. Þann 16. apríl 2013 hafði forsvarsmaður D ehf. samband við Vinnumálastofnun og óskaði eftir því að ráða kæranda í gegnum átaksverkefnið „Liðsstyrk“. Í gögnum málsins kemur fram að við skoðun Vinnumálastofnunar á máli kæranda og fyrirtækisins D ehf. hafi komið í ljós að kærandi hafi verið skráður á heimasíðu fyrirtækisins og nafn hans og símanúmer gefið þar upp sem tengiliður fyrirtækisins. Jafnframt væri farsímanúmer kæranda gefið upp hjá www.ja.is sem símanúmer fyrirtækisins. Af þessum sökum hafi Vinnumálastofnun ekki talið efni standa til að samþykkja umsókn fyrirtækisins um að ráða kæranda í gegnum átakið „Liðstyrk“.

 

Í kæru kæranda kemur fram að hann hafi hringt í Vinnumálstofnun 5. mars 2013 og látið vita að hann væri að fá vinnu annars staðar og hann færi því ekki í áðurnefnt viðtal hjá B. Búið hafi verið að bjóða honum starf hjá D ehf. þar sem hann hafi unnið árið 2009 og hafi hann langað að taka því atvinnutilboði. Rætt hafi verið um liðstyrk í sambandi við það starf, hann hafi átt að byrja í síðustu viku en allt hafi stoppað vegna þess að hann hafi dottið út af biðstyrk og hafi því engan möguleika á að fá þessa vinnu. Kærandi kveðst hafa veitt Vinnumálastofnun nefndar upplýsingar tímanlega og þykir honum leitt að svona hafi farið.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. júní 2013, er vísað í bráðabirgðaákvæði XI við lög um atvinnuleysistryggingar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að þegar atvinnuleitanda bjóðist úrræði, sbr. 1. mgr., falli niður réttur hlutaðeigandi til styrks skv. 1. mgr.

 


 

Fram kemur að nánari skilyrði fyrir greiðslu styrks samkvæmt ákvæðinu sé að finna í reglugerð nr. 47/2013. Í 2. gr. reglugerðarinnar sé kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu styrks og tilfelli sem leiði til þess að heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðarinnar falli niður. Í málinu liggi fyrir að kæranda hafi verið boðið starf hjá B við C en ekki hafi náðst í kæranda vegna starfsins. Kærandi hafi haft samband og talið sig hafa tilkynnt til Vinnumálastofnunar að hann væri að fara að hefja starf hjá D ehf. en þrátt fyrir beiðni Vinnumálastofnunar hafi ekki borist skrifleg staðfesting á því að sú ráðning muni fara fram. Við meðferð á máli kæranda hjá Vinnumálastofnun hafi stofnunin komist að því að kærandi hafi verið gefinn upp sem tengiliður fyrirtækisins D ehf., bæði á heimasíðu fyrirtækisins, á www.ja.is og á E. Sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi nú þegar hafið störf hjá fyrirtækinu áður en umsókn um að fá að ráða hann í gegnum „Liðstyrk“ hafi borist stofnuninni. Af þeim sökum hafi stofnunin hafnað því að D ehf. væri heimilt að ráða kæranda til starfa í gegnum átaksverkefnið.

 

Vinnumálastofnun bendir á að þar sem 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 47/2013 séu skýr um það að ef atvinnuleitandi hafnar boði um starf eða starfstengt vinnumarkaðsúrræði falli niður réttur viðkomandi til greiðslu „biðstyrks“ samkvæmt bráðabirgðaákvæði XI. Kærandi hafi hafnað starfi þar sem ekki hafi náðst í hann þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

 

Vinnumálastofnun vekur athygli á því að ekki sé um biðtímaákvörðun að ræða í skilningi X. og XI. kafla laga um atvinnuleysistryggingar heldur sé ákvörðun stofnunarinnar byggð á sérreglu 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI. Í því ákvæði sé ekkert vikið að „gildum ástæðum“ fyrir höfnun á starfi eða starfstengdu vinnumarkaðsúrræði ólíkt því sem tiltekið sé í ákvæðum í X. og XI. kafla laganna. Bráðabirgðaákvæði XI sé ætlað að vera síðasta tilraun til að koma atvinnuleitanda aftur á vinnumarkað enda hafi viðkomandi þegar fullnýtt rétt sinn til greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Þar sem tekið sé fram í 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI að réttur atvinnuleitanda skv. 1. mgr. falli niður þegar viðkomandi bjóðist meðal annars starfstengt vinnumarkaðsúrræði beri Vinnumálastofnun að miða við að réttaráhrif ákvörðunar stofnunarinnar, tilkynnt með bréfi dags. 25. mars 2013, séu frá 7. mars 2013 þegar forsvarsmaður Hafnafjarðarbæjar hafi reynt að hafa samband við kæranda og bjóða honum starf.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. júní 2013, send greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 1. júlí sama ár. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var honum tilkynnt að afgreiðsla málsins myndi tefjast vegna mikils málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XI við lög um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem hefur verið tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 36 mánuði eða lengur en þó skemur en 42 mánuði á árinu 2013 geti átt rétt á sérstökum styrk sem nemi fyrri rétti hlutaðeigandi innan atvinnuleysistryggingakerfisins í allt að sex mánuði til viðbótar. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að þegar atvinnuleitanda býðst úrræði skv. 1. mgr. falli niður réttur hlutaðeigandi til styrks skv. 1. mgr. Í reglugerð nr. 47/2013 eru tilgreind nánari skilyrði fyrir greiðslu styrks samkvæmt framangreindum ákvæðum bráðabirgðaákvæðis XI. Í 2. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu styrks og tilfelli sem leiða til þess að heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðarinnar fellur niður. Er 2. gr. reglugerðarinnar er svohljóðandi:

 

 

Eftirfarandi skilyrði þurfa að vera uppfyllt fyrir greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar:

a.      Viðkomandi atvinnuleitandi sé þátttakandi í verkefninu Liðsstyrkur og sé þar með reiðubúinn að taka tilboði um starfstengt vinnumarkaðsúrræði eða atvinnutengda starfsendurhæfingu í samræmi við ákvæði til bráðabirgða III og IV við reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, með síðari breytingum.

b.      Viðkomandi atvinnuleitandi hafi fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins, sbr. einnig 1. gr.

c.       Viðkomandi atvinnuleitandi hafi sótt um styrk samkvæmt reglugerð þessari áður en honum barst síðasta greiðsla atvinnuleysisbóta innan kerfisins skv. VII. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum eða áður en því tímabili lauk sem viðkomandi sætti biðtíma eða viðurlögum.

d.      Viðkomandi atvinnuleitandi sé búsettur og staddur hér á landi.

e.       Viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í atvinnuleit á því tímabili sem hann hefur fengið greiddan styrk á grundvelli reglugerðar þessara í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar, þar með talið staðfest atvinnuleit sína í hverjum mánuði með sama hætti og meðan hann taldist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins.

 

Heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks á grundvelli reglugerðar þessarar fellur niður ef skilyrði 1. mgr. fyrir greiðslu styrks eru ekki lengur uppfyllt að mati Vinnumálastofnunar. Hið sama á við hafni viðkomandi atvinnuleitandi sannanlegu tilboði um starf sem og tilboði um þátttöku í tilteknu starfstengdu vinnumarkaðsúrræði eða úrræði á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar.“

 

Umsókn kæranda um „Liðstyrk“ og „Biðstyrk“ var samþykkt á fundi Vinnumálastofnunar 31. janúar 2013. Honum bauðst atvinnutilboð frá B vegna C samkvæmt tilkynningu frá B til Vinnumálastofnunar 7. mars 2013. Ekki náðist í kæranda þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og var hann því talinn hafa hafnað tilboðinu. Kærandi ber því við að hann hafi látið vita 5. mars 2013 að hann væri að fá vinnu hjá D ehf. og færi þar af leiðandi ekki í viðtalið. Loks 16. apríl 2013 hafði forsvarsmaður D ehf. samband við Vinnumálastofnun og óskaði að ráða kæranda í gegnum átaksverkefnið „Liðsstyrk“. Ekki þótti ástæða til þess að verða við því þar sem í ljós hafði komið að kærandi var skráður á heimasíðu fyrirtækisins og nafn hans og símanúmer gefið upp sem tengiliður fyrirtækisins. Jafnframt er farsímanúmer kæranda gefið upp hjá www.ja.is sem símanúmer fyrirtækisins. Með vísan til framangreinds og skv. 2. mgr. XI. bráðabirgðaákvæðis laga um atvinnuleysisbætur og 2. mgr. 2. gr. reglugerðar um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði á árinu 2013 til atvinnuleitenda sem eru þátttakendur í verkefninu „Liðsstyrkur“ er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

 

 

 


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. mars 2013 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum