Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál 180/2012.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 180/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 5. nóvember 2012. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 14. nóvember 2012, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði þann sama dag samþykkt umsóknin hans og væri útreiknaður bótaréttur hans 92%. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann ætti eftir að sæta viðurlögum vegna höfnunar á þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu Vinnandi vegur og vegna ótilkynntra tekna sem honum hafi verið tilkynnt 26. júlí og 30. júlí 2012. Eftirstöðvar viðurlaganna væru fjórir mánuðir og tvær vikur og myndu greiðslur hefjast að þeim tíma liðnum. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 19. nóvember 2012. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 27. október 2010. Hann var afskráður hjá Vinnumálastofnun 29. júní 2012 sökum þess að hann var skráður í fæðingarorlof frá 1. júlí 2012. Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur að nýju 5. nóvember 2012.

 

Með tölvupósti 5. mars 2012 var kærandi boðaður á Atvinnumessu sem halda átti 8. mars 2012 í Laugardalshöllinni og var liður í vinnumarkaðsátakinu „Vinnandi vegur“. Kæranda var sendur annar tölvupóstur 15. mars 2012, og honum tilkynnt um næstu skref í „Vinnandi vegi“. Jafnframt var kærandi beðinn um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum fyrir 1. apríl 2012. Kæranda voru einnig send textaskilaboð í farsíma 28. mars 2012 og hann spurður hvort hann væri búinn að skrá sig á ráðningarstofu og athygli vakin á því að um skylduskráningu væri að ræða og hann þyrfti að skrá sig fyrir 1. apríl 2012. Kærandi sinnti ekki þessari boðun Vinnumálastofnunar um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum sem stofnunin hafði gert samning við.

 

Með bréfi, dags. 30. júlí 2012, var kæranda tjáð að með því að hafa ekki sinnt tilmælum Vinnumálastofnunar um að skrá sig hjá að minnsta kosti einni ráðningarskrifstofu gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga skv. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þar sem engar skýringar hafi borist frá kæranda hafi honum verið tilkynnt með bréfi, dags. 14. júní 2012, um ákvörðun stofnunarinnar þess efnis að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði frá dagsetningu bréfsins. Vegna upplýsinga sem bárust í kjölfarið frá kæranda var mál hans tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en kæranda var tilkynnt um það með bréfi, dags. 26. júlí 2012, að fyrri ákvörðun frá 14. júní 2012 væri staðfest.

 

Með bréfi, dags. 6. júlí 2012, var kæranda tilkynnt að við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi komið fram upplýsingar um ótilkynntar tekjur á kæranda vegna vinnu hjá B. Vinnumálastofnun bárust skýringar frá kæranda 20. júlí 2012 þar sem hann greinir frá því að hann hefði í apríl 2012 sent inn tilkynningu um tilfallandi tekjur og að honum hafi verið leiðbeint um það símleiðis að slík tilkynning væri fullnægjandi. Umrædd tilkynning fannst ekki hjá Vinnumálastofnun. Á fundi Vinnumálastofnunar 27. júlí 2012 var tekin ákvörðun í máli kæranda um að fella niður bótarétt hans í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi látið hjá líða að tilkynna um vinnu hjá B. Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsúrræða, dags. 30. janúar 2013, greinir stofnunin frá því að kæranda hafi þarna verið ranglega tilkynnt um að hann skyldi sæta tveggja mánaða biðtíma í stað þriggja mánaða.

 

 

Kærandi greinir frá því í kæru að hann hafi verið skráður hjá HH ráðgjöf og hann hafi ekki vitað betur en að það væri fullnægjandi. Hann hafi ekki vitað að hann þyrfti að skrá sig sérstaklega í það verkefni. Kærandi kveðst hafa farið í fæðingarorlof og verið bjartsýnn á að fá vinnu strax eftir það hjá C. Hann hafi fengið rúman hálfan mánuð hjá þeim í vinnu í október meira af góðmennsku en að mikið væri að gera þar sem hann hafi átt að vera bótalaus til mánaðamóta október-nóvember 2012. Hann hafi svo fengið að vita að tími án bótaréttar telji ekki nema hann hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun. Varðandi ótilkynnta vinnu vilji hann koma því á framfæri að hann hafi látið vita fyrirfram að hann myndi fá tekjur en ekki gefið upp eftir á þar sem hann hafi vitað af samkeyrslu við skrár ríkisskattstjóra.

 

 

Í fyrrgreindri greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kemur fram að mál þetta varði ákvörðun stofnunarinnar sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 14. nóvember 2012, þess efnis að kæranda skyldi gert að sæta óúttekins biðtíma í kjölfar umsóknar hans um atvinnuleysisbætur 5. nóvember 2012. Vinnumálastofnun telur ljóst að kærufrestur viðurlagaákvarðana sem biðtími kæranda grundvallist á sé liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, og því muni hún ekki fjalla um rökstuðning fyrir viðurlagaákvörðunum.

 

Vinnumálastofnun bendir á að fyrri viðurlagaákvörðun í máli kæranda, dags. 14. júní 2012, hafi verið tekin á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi verið skráður af atvinnuleysisskrá 29. júní 2012 og þá hafi verið liðnir 0,36 mánuðir af biðtímanum. Þegar kærandi hafi sótt um að nýju 5. nóvember 2012 hafi biðtími skv. 14. júní 2012 haldið áfram að líða enda hafi hann ekki starfað í a.m.k. hálfan mánuð áður en hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. 3. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að seinni viðurlagaákvörðun kæranda, dags. 30. júlí 2012, hafi verið tekin á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þar sem kærandi hafi verið gert að sæta viðurlögum í annað sinn hafi komið til ítrekunar á fyrri ákvörðun, dags. 14. júní 2012, sbr. 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistrygginga.

 

Þá greinir stofnunin frá því að þegar kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta að nýju 5. nóvember 2012 hafi kæranda til viðbótar við biðtímann sem ákvarðaður hafi verið 14. júní 2012, verið gert að sæta þriggja mánaða óúttekins biðtíma en skv. 5. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geti ítrekunaráhrif aðeins fallið niður þegar nýtt bótatímabil skv. 29. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hefst, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Þá segi í 4. mgr. 29. gr. laganna að tímabil skv. 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa starfað skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Fyrir liggi að kærandi starfaði ekki á innlendum vinnumarkað frá því hann var afskráður hjá stofnuninni 29. júní 2012 þar til hann sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta að nýju 5. nóvember 2012.

 

Vinnumálastofnun greinir frá því að hin kærða ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. nóvember 2012, og lúti hún að 3. mgr. 58. gr. og 5. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Við meðferð kærumálsins hafi komið í ljós að kæranda hafi ranglega verið tilkynnt með bréfi, dags. 30. júlí 2012, að honum skyldi gert að sæta tveggja mánaða biðtíma í stað þriggja mánaða. Þar sem kærufrestur ákvörðunarinnar sé liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé það mat Vinnumálastofnunar að röng tilkynning fyrrgreindrar viðurlagaákvörðunar geti ekki haft áhrif á hina kærðu ákvörðun. Því sé það mat stofnunarinnar að kæranda skuli gert að sæta óúttekins biðtíma, alls fjóra mánuði og tvær vikur, í kjölfar umsóknar hans um atvinnuleysisbætur 5. nóvember 2012.

 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. febrúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. febrúar 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var honum tilkynnt að afgreiðsla máls hans myndi tefjast hjá úrskurðarnefndinni vegna gríðarlega mikils málafjölda.

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lítur að útreikningi Vinnumálastofnunar á biðtíma kæranda í kjölfar umsóknar hans um atvinnuleysisbætur 5. nóvember 2012. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. nóvember 2012. Í ákvörðun stofnunarinnar kemur fram að umsókn kæranda hafi verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur hans sé 92%. Jafnframt var kæranda tilkynnt að hann ætti eftir að sæta viðurlögum vegna höfnunar á þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu Vinnandi vegur og vegna ótilkynntra tekna sem honum hafi verið tilkynnt um 26. júlí 2012 og 30. júlí 2012 og að eftirstöðvar viðurlaga hans séu fjórir mánuðir og tvær vikur og greiðslur hefjist þegar því tímabili sé lokið.

 

Útreikningur Vinnumálastofnunar samkvæmt ákvörðun frá 14. nóvember 2012 byggir því á tveimur neðangreindum ákvörðunum Vinnumálastofnunar. Annars vegar vegna ákvörðunar frá fundi 12. júní 2012 sem tilkynnt var með bréfi, dags. 14. júní 2012, þar sem fram kemur að bótaréttur kæranda hafi verið felldur niður frá þeim degi í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sú ákvörðun var tekin til endurumfjöllunar hjá Vinnumálstofnun og var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 26. júlí 2012, að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest.

 

Í 1. mgr. 58. gr. segir:

 

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

 

Hins vegar er um að ræða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá fundi 27. júlí 2012 og tilkynnt var með bréfi, dags. 30. júlí 2012. Þar sem fram kemur að bótaréttur kæranda hafi verið felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr., sbr. 35. gr. a. Í 1. mgr. 59. gr. segir:

 

Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 

Þá segir í 35. gr. a:

 

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.

 

Í ákvörðun, dags. 14. nóvember 2012, kemur ekki fram á hvaða lagaákvæði Vinnumálastofnun byggir ákvörðun sína og heldur ekki á hverju stofnunin byggir þá ákvörðun að eftirstöðvar viðurlaga kæranda séu fjórir mánuðir og tvær vikur. Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að hin kærða ákvörðun frá 14. nóvember 2012 lúti að 3. mgr. 58. gr. og 5. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá greinir þar að á kærustigi hafi komið í ljós að kæranda hafi verið ranglega tilkynnt í bréfi, dags. 30. júlí 2012, að honum skyldi gert að sæta tveggja mánaða biðtíma í stað þriggja mánaða. Jafnframt greinir þar að þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sé það mat Vinnumálastofnunar að röng tilkynning í bréfi, dags. 30. júlí 2012, geti ekki haft áhrif á hina kærðu ákvörðun frá 14. nóvember 2012. Í greinargerðinni kemur fram að þegar kærandi var skráður af atvinnuleysisskrá 29. júní 2012 hafi hann lokið 0,36 mánuðum af biðtímanum, enda hafi hann ekki starfað í a.m.k. hálfan mánuð áður en hann sótti um að nýju 5. nóvember 2012. Jafnframt er greint frá því að óúttekinn biðtími kæranda séu alls fjórir mánuðir og tvær vikur.

 


 

Af framangreindu er ljóst að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 14. nóvember 2012, fól í sér efnislega nýja ákvörðun um lengd biðtíma kæranda úr fjórum mánuðum í fimm mánuði þar sem stofnuninni hafði yfirsést að setja í ákvörðun frá 27. júlí 2012 sem tilkynnt var með bréfi, dags. 30. júlí 2012, að kærandi ætti að sæta ítrekunaráhrifum, sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en í því felst að viðbótarviðurlagatími yrði þrír mánuðir í stað tveggja. Á þennan hátt afturkallaði Vinnumálastofnun ákvörðun sem var ívilnandi fyrir kæranda en tók í staðin ákvörðun sem var íþyngjandi fyrir kæranda.

 

Í 2. mgr. 23. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að stjórnvaldi er heimilt, eftir að aðila hefur verið tilkynnt um ákvörðun, að leiðrétta bersýnilegar villur í henni, enda tilkynni stjórnvaldið aðila um leiðréttinguna án tafar og láti þeim sem fengið hefur endurrit af ákvörðuninni nýtt endurrit í té. Samkvæmt orðanna hljóðan tekur ákvæðið til „bersýnilegra villna“ en með því er til dæmis átt við misritun á orði, tölu eða reiknisskekkju. Ákvæðið tekur ekki til leiðréttingar á efni ákvörðunar. Af framangreindu má leiða að Vinnumálastofnun var ekki heimilt að taka efnislega nýja ákvörðun í máli kæranda með ákvörðun, dags. 14. nóvember 2012.

 

Þá er Vinnumálastofnun ekki unnt að afturkalla fyrri ákvarðanir sínar, sem tilkynntar voru með bréfum, dags. 26. og 30. júlí 2012, en í 25. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að stjórnvaldi sé heimilt að afturkalla ákvarðanir sem eru tilkynntar aðila ef það er a, ekki til tjóns fyrir aðila eða b, ef ákvörðun er ógildanleg. Líkt og fyrr greinir var ákvörðun í bréfi, dags. 14. nóvember 2012, til tjóns fyrir aðila og er það jafnframt mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að ákvarðanir í bréfum, dags. 26. og 30. júlí 2012, séu ekki haldnar ógildingarannmarka.

 

Kærandi hefur greint frá því að hann hafi starfað í rúman hálfan mánuð hjá C í október 2012 en hann hafi ekki vitað að hann þyrfti að vera skráður hjá Vinnumálastofnun á sama tíma svo það myndi hafa áhrif á biðtímann. Í 3. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að atvinnuleitandi skuli uppfylla skilyrði laganna á viðurlagatíma skv. 1. mgr. ákvæðisins. Í 4. mgr. sama ákvæðis kemur meðal annars fram að taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. hálfan mánuð áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Þar sem kærandi var skráður í fæðingarorlof frá 1. júlí 2012 var kærandi afskráður hjá Vinnumálastofnun 29. júní 2012 og sótti ekki um atvinnuleysisbætur að nýju fyrr en 5. nóvember 2012 uppfyllti hann ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á viðurlagatíma skv. 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en af þeim sökum getur sú vinna sem kærandi segir að hann hafi innt af hendi í október 2012 fyrir C ekki komið til skoðunar, sbr. fyrrgreint ákvæði 4. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögum.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi verið skráður hjá HH ráðgjöf og ekki gert sér grein fyrir því að það væri ekki nægjanlegt þegar hann var beðinn af hálfu Vinnumálastofnunar um að skrá sig hjá einni af fjórum ráðningarskrifstofum sem stofnunin var búin að gera samning við. Þá segir kærandi varðandi ótilkynntar tekjur að hann hafi gert grein fyrir því fyrirfram að hann myndi fá tekjur en hann hafi ekki gefið það upp eftir á þar sem hann hafi vitað af samkeyrslu við skrár ríkisskattstjóra. Þessar málsástæður kæranda eru vegna ákvarðana sem Vinnumálastofnun tók annars vegar á fundi Vinnumálastofnunar 12. júní 2012 um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði þar sem hann hafi hafnað að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðinu Vinnandi vegur og var hún tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 14. júní 2012, og staðfest eftir endurupptöku og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 26. júlí 2012, og hins vegar vegna ákvörðunar Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt hans í tvo mánuði vegna þess að kærandi hafi látið hjá líða að tilkynna um tekjur sínar hjá B. og var sú ákvörðun tekin var á fundi Vinnumálastofnunar 27. júlí 2012 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 30. júlí 2012.

 

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra kæranda barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 19. nóvember 2012. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt kæranda annars vegar í tvo mánuði vegna höfnunar hans á þátttöku í vinnumarkaðsúrræðinu Vinnandi vegur og hins vegar í tvo mánuði þar sem hann hafi látið hjá líða að tilkynna um vinnu hjá B. voru eins og fyrr greinir kynntar kæranda í bréfum, dags. 27. júlí og 30. júlí 2012. Í báðum bréfunum kemur skýrlega fram að viðtakanda sé heimilt að kæra ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skv. 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og kærufrestur sé þrír mánuðir frá dagsetningu bréfsins, sbr. og 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Af framangreindu má ráða að kærufrestur hvað varðar þá þætti kærunnar er lúta annars vegar að ákvörðun í tilkynningu, dags. 26. júlí 2012, og ákvörðun í tilkynningu, dags. 30. júlí 2012, er liðinn. Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að koma þessum þáttum kærunnar að liðnum kærufrestum og engar veigamiklar ástæður mæla með því að þessir þættir kærunnar verði tekin til meðferðar, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa þessum hlutum kærunnar frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Af gögnum málsins er ljóst að samtals fjögurra mánaða biðtími, sbr. ákvarðanir Vinnumálastofnunar frá 26. og 27. júlí 2012, var ekki liðinn þegar kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur 5. nóvember 2012 og var Vinnumálastofnun því rétt að fresta bótagreiðslum til kæranda. Líkt og fyrr greinir tók Vinnumálastofnun nýja og mun meira íþyngjandi ákvörðun er stofnunin tilkynnti kæranda í bréfi, dags. 14. nóvember 2012, að hann hefði þegar uppfyllt 0,36 mánuð af biðtímanum en fresta ætti eftir bótagreiðslum til hans í fjóra og hálfan mánuð.

 

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. nóvember 2012 ómerkt en stofnuninni falið að reikna út biðtíma kæranda að nýju í samræmi við ákvarðanir stofnunarinnar frá 26. júlí 2012 og 27. júlí 2012 sem tilkynnt var kæranda í bréfi, dags. 30. júlí 2012.

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 14. nóvember 2012 í máli A er ómerkt. Vinnumálastofnun er falið að reikna út biðtíma kæranda að nýju í samræmi við ákvarðanir frá 26. júlí 2012 og 27. júlí 2012 sem tilkynnt var kæranda í bréfi, dags. 30. júlí 2012.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum