Hoppa yfir valmynd
22. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 19/2013.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 22. október 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 21. janúar 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á fundi sínum 21. janúar 2013 á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur þar sem hann hafi ekki starfað að minnsta kosti í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að ákvörðun um viðurlög skv. 60. gr. sömu laga var tekin 27. júní 2012. Kærandi mótmælir hinni kærðu ákvörðun. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hana.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 20. mars 2012.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. júní 2012, að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði starfað á skipinu B á sama tíma og hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Var honum veittur frestur til að koma að andmælum og hann var jafnframt upplýstur um að brot hans á upplýsingaskyldu sinni gæti varðað viðurlögum skv. 59. eða 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Engar athugasemdir bárust frá kæranda og með bréfi, dags. 28. júní 2012, var honum tilkynnt að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi sótti aftur um atvinnuleysisbætur 27. nóvember 2012 eða fimm mánuðum eftir að ákvörðun á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var tekin í máli hans. Með umsókninni fylgdi vottorð vinnuveitanda frá C ehf. þar sem fram kom að kærandi hafði starfað í tæpan mánuð frá því að ákvörðun um viðurlög var tekin í málinu. Þar sem kærandi hafði ekki starfað í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði var umsókn hans um greiðslu atvinnuleysisbóta synjað með vísan til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru sinni bendir kærandi á að fram hafi komið að hann hafi fengið bréf frá Vinnumálastofnun í júní 2012 sem eigi að hafa verið send í tvígang en þau bréf hafi aldrei borist honum og þar af leiðandi hafi hann ekki með nokkru móti getað komið með skýringar á þeim tíma. Hann telji líklegustu skýringuna fyrir því að bréfin hafi ekki borist honum vera þá að hann hafi flutt í annað húsnæði á þessum tíma.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. maí 2013, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Jafnframt bendir Vinnumálastofnun á 60. gr. laganna og að samkvæmt ákvæðinu sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögum samkvæmt ákvæðinu ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

Fyrir liggi í máli þessu að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 20. mars 2012. Samkvæmt upplýsingum um stöðuskráningu sjómanna frá Siglingastofnun Íslands hafi kærandi verið starfandi á skipinu B á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur.

Vinnumálastofnun bendir á að frestur til að kæra ákvörðun stofnunarinnar frá 27. júní 2012 um viðurlög á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða en í kæru sinni haldi kærandi fram nýjum málsástæðum sem lúti að hinni upprunalegu ákvörðun um viðurlög á grundvelli 60. gr. laganna. Segi kærandi að hann hafi verið ranglega skráður á umrætt skip og að honum hafi ekki verið gefið færi á að koma að skýringum sökum þess að bréf Vinnumálastofnunar hafi ekki borist honum.

Hvað varði fullyrðingar kæranda um að honum hafi ekki verið gefið færi á að koma að sjónarmiðum sínum og andmæla ákvörðun Vinnumálastofnunar bendir stofnunin á að fyrirliggjandi erindi er lúti að máli kæranda hafi öll verið send á skráð heimilisfang hans. Hafi það ekki verið fyrr en 21. ágúst 2012 sem kærandi hafi óskað eftir breytingu á heimilisfangi sínu hjá stofnuninni.

Vinnumálastofnun bendir á að með kærunni hafi borist staðfesting frá bókara útgerðarfélagsins D ehf. þar sem segir að kærandi hafi verið ranglega skráður á B. Umrædd staðfesting og mótbárur hafi fyrst komið fram fyrir úrskurðarnefndinni og við athugun Vinnumálastofnunar á framkomnum gögnum hafi verið óskað eftir upplýsingum frá Siglingastofnun. Samkvæmt upplýsingum þaðan hafi lögskráningu kæranda ekki verið breytt frá því að skráning hafi farið fram. Siglingastofnun hafi hvorki borist athugasemd vegna lögskráningar né beiðni um leiðréttingu á fyrri skráningu kæranda. Telji Vinnumálastofnun ekki efni til að breyta ákvörðun fyrr en stofnuninni berist staðfesting á því að lögskráning kæranda á skip hafi verið lagfærð. Sér í lagi í ljósi þess að sá tími sem kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði sé ekki einungis ástæða fyrir viðurlagaákvörðun stofnunarinnar heldur einnig grundvöllur fyrir réttindaávinnslu hans innan atvinnuleysiskerfisins.

Vinnumálastofnun vekur athygli á því að kærandi hafi verið lögskráður á línu- og handfærabát sem beri nafnið E frá 22. febrúar til 22. mars 2012 en kærandi hafi skráð sig atvinnulausan hjá Vinnumálastofnun 20. mars 2012. Vinnumálastofnun telur ljóst að kærandi hafi verið við vinnu á sama tíma og hann var skráður atvinnulaus, án þess að tilkynna það til stofnunarinnar.

Vinnumálastofnun telur að þriggja mánaða frestur til að kæra ákvörðun stofnunarinnar um viðurlög á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé liðinn. Eftir standi ákvörðun stofnunarinnar frá 21. janúar 2013 um að hafna nýrri umsókn kæranda, þar sem hann hafði ekki starfað í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að fyrri viðurlagaákvörðun var tekin. Fyrir liggi að kærandi hafi verið látinn sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar 27. júní 2012. Ekki verði séð að kærandi hafi sýnt fram á að sú ákvörðun hafi verið byggð á röngum eða villandi upplýsingum. Ný umsókn hafi borist Vinnumálastofnun 27. nóvember 2012 eða einungis fimm mánuðum frá dagsetningu viðurlagaákvörðunarinnar. Það sé því ljóst að kærandi uppfylli ekki þær kröfur sem 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geri til þeirra sem sætt hafi viðurlögum á grundvelli ákvæðisins. Þar sem kærandi hafi ekki starfað í að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að sú viðurlagaákvörðun var birt honum sé Vinnumálastofnun óheimilt að samþykkja umsókn hans þar til það skilyrði sé uppfyllt.


 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 28. maí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 11. júní 2013. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var honum tilkynnt að afgreiðsla málsins myndi tefjast vegna gríðarlegs málafjölda hjá nefndinni.

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

Eins og rakið hefur verið sótti kærandi um atvinnuleysisbætur 20. mars 2012. Hann var á þeim tíma, samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun, lögskráður á skipið E eða frá 22. febrúar til 22. mars 2012 og síðar á skipið B frá 3. apríl til 9. apríl 2012 og frá 14. apríl 2012. Kærandi svaraði í engu bréfum Vinnumálastofnunar sem send voru í kjölfarið vegna þessa, dags. 13. júní og 28. júní 2012. Í síðara bréfinu kom fram að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda vegna vinnu hans á skipinu B. Kærandi ber því við að hafa ekki fengið umrædd tvö bréf en þau voru send á skráð heimilisfang kæranda sem hann breytti ekki fyrr en 21. ágúst 2012. Kæra kæranda er dagsett 24. janúar 2013, en skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal kæra berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Frestur til að kæra framangreinda ákvörðun frá 28. júní 2012 var því liðinn þegar kæra kæranda barst úrskurðarnefndinni.

Kærandi sótti að nýju um atvinnuleysisbætur 27. nóvember 2012 eða fimm mánuðum eftir að ákvörðun á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar var tekin. Á því tímabili hafði hann starfað í tæpan mánuð hjá C ehf. samkvæmt vottorði vinnuveitanda. Kærandi hafði því ekki uppfyllt skilyrði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þegar hann sótti um atvinnuleysisbætur að nýju. Þess vegna hafnaði Vinnumálastofnun réttilega umsókn kæranda um greiðslu atvinnuleysisbóta á fundi stofnunarinnar 21. janúar 2013. Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 21. janúar 2013 í máli A, þess efnis að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur þar sem hann hefur ekki starfað í að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði frá 27. júní 2012, er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum