Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 166/2012.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 166/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að Vinnumálastofnun barst tölvupóstur, dags. 21. ágúst 2012, frá kæranda, A, þess efnis að hún hefði tekið að sér sjálfboðavinnu dagana 6.‒14. ágúst 2012. Með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, óskaði Vinnumálastofnun eftir því að hún skilaði inn undirritaðri yfirlýsingu um að hún myndi ekki starfa við eigin rekstur eða taka að sér verktakavinnu án undanfarandi tilkynningar til Vinnumálastofnunar og afskráningar á meðan verkefninu stendur. Í bréfinu greinir að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum stofnunarinnar uppfylli hún ekki skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún starfi við eigin rekstur. Jafnframt er bent á g-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem fram kemur að atvinnuleitandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit. Þá segir að til þess að hægt sé að taka afstöðu til réttar kæranda þurfi umbeðin gögn að berast stofnuninni innan sjö virkra daga. Kærandi skilaði inn undirritaðri yfirlýsingu 31. ágúst 2012. Í kjölfar tilkynningar kæranda var hún afskráð þá daga sem hún starfaði sem sjálfboðaliði. Kærandi fékk því ekki greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 6.‒14. ágúst 2012. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 22. október 2012. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

Kærandi sendi fyrirspurn til Vinnumálastofnunar í tölvupósti, dags. 2. ágúst 2012, þess efnis hvernig dagpeningar vegna sjálfboðastarfs hjá frjálsu félagasamtökunum B geti haft áhrif á atvinnuleysisbætur viðkomandi sjálfboðaliða, hvort tilkynningarskylda sé um slíkt og hvort þeir yrðu dregnir frá atvinnuleysisbótum. Í tölvubréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. ágúst 2012, kemur fram að kærandi skuli tilkynna greiðsluna til stofnunarinnar með eyðublaði og ef um sé að ræða greiðslu sem komi á móti kostnaði skerði hún ekki. Að öðru leyti gildi sömu reglur um greiðslurnar eins og aðrar greiðslur, þ.e. að bæturnar byrji að skerðast um hálfa krónu á móti krónu eftir svonefnt frítekjumark.

Kærandi tilkynnti um greiðslur dagpeninga og aksturskostnaðar fyrir sjálfboðastarf sitt í tölvupósti, dags. 21. ágúst 2012, vegna daganna 6.‒14. ágúst 2012.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að um sé að ræða níu daga og þar af tvo daga sem voru helgi en Vinnumálastofnun telji að um verktakavinnu hafi verið að ræða. Kærandi greinir frá því að áður, eða í kringum 7. október 2012, hefði fulltrúi Greiðslustofu útskýrt fyrir henni símleiðis að skerðingin væri vegna þess að á meðan hún sinnti sjálfboðastarfinu gæti hún ekki tekið að sér vinnu sem byðist á þeim tíma. Kærandi hafi greint frá því að hún hafi tekið starfinu með það að skilyrði að hún gæti farið úr því með litlum sem engum fyrirvara ef Vinnumálastofnun kallaði eftir því eða ef annað starf byðist. Það myndi að sjálfsögðu ganga fyrir. Kærandi greinir frá því að þá hefði fulltrúi sagt að staðfesting þyrfti að berast frá samtökunum B án þess að hún hafi viljað lofa að það myndi hafa áhrif á ákvörðunina. Staðfesting hefði síðan borist frá B og hafi ákvörðun verið tekin 15. október 2012 í kjölfarið, þrátt fyrir útskýringar þess bréfs og staðfestingu á þeim skilyrðum sem kærandi hefði sett og B hefði samþykkt. Fari það svo að úrskurðarnefndin meti sjálfboðastarf hennar sem verktakavinnu þá krefst kærandi þess að Vinnumálastofnun verði gert að setja skýrar upplýsingar á heimasíðu sína þess efnis að bótaþegum sé óheimilt að stunda sjálfboðavinnu og að hún muni koma til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Kærandi bendir á að sjálfboðastarfið sé ekki launað og dagpeningar einungis greiddir ef óskað er eftir því af sjálfboðaliða. Sjálfboðaliði hafi ekki fengið dagpeninga greidda hvorki til framfærslu né vegna kostnaðar sem hafi fallið á hann en hafi þegið að dagpeningarnir gangi upp í verð á skjólfatnaði sem nauðsynlegur sé til að sinna sjálfboðastarfinu en um þetta sé hefð hjá samtökunum, þ.e. að með dagpeningunum sé komið til móts við kostnað sjálfboðaliða af starfinu. Annar kostnaður sé fæði sem kærandi hafi lagt út fyrir sjálf og ekki sótt um að fá greitt og ferðakostnaður sem samtökin hafi greitt henni eftir framlagðri eldsneytisnótu.

  

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. nóvember 2012, greinir stofnunin frá því að mál þetta snúist um hvort kærandi hafi átt tilkall til atvinnuleysisbóta dagana 6.‒14. ágúst 2012 á sama tíma og hún starfaði í sjálfboðavinnu sem skálavörður. Vinnumálastofnun leggur áherslu á að á þeim sem fá greiðslur atvinnuleysisbóta frá stofnuninni hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þær upplýsingar sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysisbóta. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Í 3. mgr. 9. gr. þeirra laga segi mjög skýrlega að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem um tilfallandi vinnu, hversu lengi vinnan standi yfir og tekjur fyrir umrædda vinnu.

Stofnunin bendir á að í 2. mgr. 14. gr. laganna sé einnig mælt fyrir um þessa upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysisbóta. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna“. Í c-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um að atvinnuleitandi sýni frumkvæði í atvinnuleit. Í g-lið 14. gr. laganna komi fram það skilyrði fyrir því að teljast tryggður á grundvelli laganna að atvinnuleitandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. nóvember 2012, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 6. desember 2012. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 5. desember 2012.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að greiðsla dagpeninga hafi ekki farið fram í peningum líkt og haldið sé fram í greinargerð Vinnumálastofnunar. Dagpeningarnir hafi að hluta verið teknir út í hlífðarfatnaði að verðmæti 79.989 kr. og fararstjórn frá fyrri árum komi á móti því sem á vantar en með fararstjórn frá fyrri árum eigi kærandi við ólaunað sjálfboðastarf. Vinnumálastofnun þurfi því ekki að meta kostnað og laun heldur geti hún kallað eftir greiðslukvittunum fyrir fæði, eldsneyti og hlífðarfatnað.

Kærandi kveðst hafa verið í virkri atvinnuleit þá daga sem hún starfaði í sjálfboðavinnunni en til þess hafi hún notið aðstoðar fjarskiptamiðla á borð við farsíma og netsambands. Ágætt símasamband sé á Fimmvörðuhálsi og hún hafi farið einn dag til Hvolsvallar í netsamband til að sinna atvinnuleit. Þá ítrekar hún að hún hafi alla dagana verið tilbúin að yfirgefa skálann ef vinna hefði boðist.

Kærandi bendir á að sjálfboðastörf séu ekki á meðal þess sem tilgreint er að valdi því að bótaréttur falli niður á heimasíðu Vinnumálastofnunnar og upplýsingar um það sé ekki að finna á heimasíðunni. Það hafi meðal annars verið ástæðan fyrir því að kærandi hafi haldið að heimilt væri að sinna sjálfboðastörfum. Þá bendir hún á að hún hafi einnig byggt á því að hún hafi verið búin að senda Vinnumálastofnun fyrirspurn 2. ágúst 2012 um hvaða reglur giltu um móttöku dagpeninga og hvaða áhrif það gæti haft á rétt til atvinnuleysisbóta. Í svari stofnunarinnar 3. ágúst 2012 hafi komið fram að tilkynna ætti um dagpeninga á eyðublaði sem kærandi hafi gert 21. ágúst 2012 sem hafi verið vel tímanlega áður en næsta greiðsla atvinnuleysisbóta hafi verið innt af hendi. Kærandi kveðst því aldrei hafa átt von á öðru en að áhrifin af því að þiggja dagpeninga gætu í mesta lagi skert atvinnuleysisbætur til hennar eftir þeim reglum sem gildi um það.

Kærandi bendir á að fjallað sé um sjálfboðastarf sem vinnumarkaðsúrræði á heimasíðu Vinnumálastofnunar og þar segi að greiddar séu atvinnuleysisbætur á sama tíma. Þá bendir kærandi á að sjálfboðastörf séu ekki launuð og þar af leiðandi sé munur á þeim og verktakavinnu en Vinnumálastofnun jafni þessu tvennu saman.

 

2.

Niðurstaða

Í máli þessu er til endurskoðunar sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki tilkall til greiðslna atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 6.‒14. ágúst 2012 á meðan hún starfaði í sjálfboðavinnu sem skálavörður hjá B.

Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að atvinnuleitandi skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir. Í 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar kemur skýrlega fram að tilkynna skuli með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu.

Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í a-lið 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eitt af skilyrðunum sé að atvinnuleitandi verði að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. laganna. Í g-lið 1. mgr. 14. gr. kemur svo fram það skilyrði að atvinnuleitandi megi ekki eiga rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit.

Kærandi fékk greidda svonefnda dagpeninga fyrir sjálfboðaliðastarf sitt, alls 8.000 kr. á dag og samtals 72.000 kr. fyrir níu daga. Í 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, kemur meðal annars fram að meðal þess sem teljist til skattskyldra tekna sé endurgjald fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu án tillits til viðmiðunar, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Þar með talið fatnaður, fæði, húsnæði og ökutækjastyrkir.

Með vísan til þessa verður að telja ljóst að þeir dagpeningar sem kærandi fékk greidda falla undir g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá greinir í 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar.

Fjallað er um heimild Vinnumálastofnunar til úthlutunar á sérstökum styrkjum úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum í reglugerð nr. 12/2009. Í 10. gr. reglugerðarinnar er sérstaklega fjallað um sjálfboðaliðastörf. Fram kemur að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera sérstakan samning við frjáls félagasamtök um að atvinnuleitandi taki þátt í sjálfboðaliðastarfi enda um að ræða vinnumarkaðsúrræði skv. b-lið 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Það væri óþarfi að mæla fyrir um undanþáguheimild reglugerðarinnar ef atvinnuleitendum væri almennt heimilt að ráða sig til starfa við sjálfboðaliðastörf samhliða því að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Vinnumálastofnun barst fyrst tilkynning um starf kæranda 21. ágúst 2012 og var því ekki unnt að upplýsa hana um hugsanlegan rétt sinn til styrks á grundvelli 10. gr. reglugerðar nr. 12/2009.

Á heimasíðu Vinnumálastofnunar eru veittar upplýsingar um sjálfboðaliðastörf samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þar er enn fremur rafrænt umsóknareyðublað um sjálfboðaliðastarf og vísun í framangreinda reglugerð.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið er hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.

  

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að A eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 6.‒14. ágúst 2012, er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum