Hoppa yfir valmynd
11. október 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 159/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 159/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi verið að starfa sem knattspyrnuþjálfari hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 10. september 2012. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 18. júní 2012.

 

Vinnumálastofnun bárust upplýsingar um að kærandi starfaði sem knattspyrnuþjálfari hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt um það til stofnunarinnar. Kæranda var sent bréf 14. ágúst 2012 þar sem óskað var eftir skriflegum skýringum á þessu innan sjö daga. Skýringar kæranda bárust í tölvupósti, dags. 17. ágúst 2012, þar sem fram kemur að hann hafi ekki fengið greitt frá knattspyrnufélaginu frá 1. júní en hann myndi þiggja laun frá 1. september og þá um 60.000 kr. á mánuði. Þá greinir kærandi frá því að hann hafi ekki vitað að hann þyrfti að tilkynna um launin fyrr en 15. ágúst 2012. Enn fremur líti hann á starfið sem áhugamál þar sem hann væri að þjálfa dóttur sína.

 


 

Með bréfi til kæranda, dags. 27. ágúst 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun um hina kærðu ákvörðun en með tölvupósti, dags. 3. september 2012, óskaði kærandi eftir því að Vinnumálastofnun tæki mál hans upp aftur.

 

Vinnumálastofnun tók mál kæranda fyrir að nýju og með bréfi, dags. 19. september 2012, var kæranda tilkynnt að fyrri ákvörðun í máli hans hafi verið staðfest.

 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru, dags. 27. september 2012, að hann hafi ekki vitað að sér væri skylt að tilkynna um ólaunaða vinnu enda komi ekkert fram um það hvorki á heimasíðu Vinnumálastofnunar né í lögum um atvinnuleysistryggingar varðandi tilkynningarskyldu. Kærandi greinir frá því að hann hafi að jafnaði haft um 60.000 kr. fyrir vinnu sína en sökum bágrar fjárhagsstöðu knattspyrnufélagsins hafi ekki verið hægt að greiða þjálfurum í yngri flokkum laun fyrir sumarmánuðina. Kærandi telur að hann hafi ekki þurft að tilkynna um starfið þar sem það hafi verið launalaust og fram komi í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að atvinnuleitandi skuli tilkynna um allar breytingar sem verði á högum og kunni að hafa áhrif á rétt hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi bendir á að í tilfelli hans hafi ekki verið um neina breytingu á högum að ræða þar sem hann hafi ekki þegið laun fyrir vinnuna. Enn fremur bendir kærandi á að hann hafi fengið þær upplýsingar á kynningarfundi Vinnumálastofnunar 15. ágúst 2012 að tilkynna þyrfti um alla vinnu óháð launum og hlutfalli.

 

Í bréfi C, íþróttastjóra B, mótteknu hjá Vinnumálastofnun 4. september 2012, kemur fram að kærandi hafi verið að þjálfa hjá félaginu. Vegna fjárhagsvanda hafi verið ákveðið að semja við þjálfara um að greiða þeim launin fyrir sumarið þegar fari að glæðast hjá þeim. Þeim málum væri ekki lokið og hafi kærandi því ekki fengið greidd laun fyrir júní–ágúst.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 15. október 2012, bendir Vinnumálastofnun á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Vinnumálastofnun vísar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Jafnframt er vísað til laga nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, en með þeim lögum hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Vinnumálastofnun bendir á að verknaðarlýsing ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar geri grein fyrir því hvaða atvik geta leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Segi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009 að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefur stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiði til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna.

 

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 13. gr. laganna segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað telst til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, hvort sem hann þiggi laun fyrir eða ekki.

 

Vinnumálastofnun bendir á að í málinu liggi fyrir að kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 18. júní 2012. Fram komi í skýringum kæranda að hann hafi starfað fyrir B í tæplega tvö ár og fengið greiddar 50.000 kr. á mánuði en launin hafi hækkað í 60.000 kr. í febrúar 2012. Kærandi hafi þó ekki fengið greitt yfir sumarmánuðina vegna bágrar fjárhagsstöðu félagsins og hafi verið óvíst hvort hann fengi þá greidda seinna meir. Kærandi hafi hvorki tilkynnt um hlutastörf né tilfallandi vinnu áður en stofnunin tók mál hans til skoðunar. Kærandi hafi fyrst skilað inn tilkynningu til Vinnumálastofnunar um vinnu hjá knattspyrnufélaginu, eftir að stofnunin hafði sent honum bréf þess efnis að það hefði upplýsingar undir höndum um að hann ynni hjá knattspyrnufélaginu B. Það ætti öllum að vera ljóst að atvinnuleitandi sem þiggi greiðslu atvinnuleysistrygginga beri skylda til þess að tilkynna tilfallandi vinnu til Vinnumálastofnunar um leið og hann hefur störf. Í tilfelli kæranda hafi honum borið að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín, strax í júnímánuði 2012.

 

Vinnumálastofnun leggur áherslu á að á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysistrygginga hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi, sér í lagi þá sem geti ákvarðað rétt aðila til atvinnuleysistrygginga. Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé að finna ákvæði þar sem þessi skylda sé ítrekuð. Stofnunin bendir á að í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem meðal annars segi mjög skýrlega að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysistryggingar eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum.

 

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og ekki verði séð að skiljanlegar ástæður séu fyrir því að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna stofnuninni um vinnu sína.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. október 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. nóvember 2012. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. nóvember 2012 og 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni sökum gríðarlegs málafjölda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hliðsjón af mikilvægi ákvæðisins við framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins þykir réttlætanlegt að varpa ítarlegu ljósi á forsögu þess og tilgang. Markmiðið með þessu er að setja fram skýr viðmið um hvernig beri að túlka ákvæðið.

 

Þegar lög um atvinnuleysistryggingar voru upphaflega sett var kveðið á um þá meginreglu í fyrstu málsgrein 60. gr. laganna að sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum með svikum getur misst rétt sinn í allt að tvö ár og þurft að sæta sektum. Það var hvergi skýrlega skilgreint hvað væru svik í skilningi ákvæðisins og er sú ályktun nærtæk að ákvæðinu hafi sjaldan verið beitt fram til þess tíma sem því var breytt með setningu 23. gr. laga nr. 134/2009. Þessi nýja regla tók gildi 1. janúar 2010 og veigamesti tilgangur hennar var að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

 

Í athugasemdum greinargerðar við 23. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 134/2009 kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

 

Með setningu 4. gr. laga nr. 103/2011 var orðalagi fyrsta málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar breytt. Frá og með 3. september 2011 hefur ákvæðið verið svohljóðandi:

 

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

 


 

Þegar þessi texti er skýrður er óhjákvæmilegt að horfa til þeirra athugasemda sem vitnað var hér til að framan um 23. gr. laga nr. 134/2009. Þannig er ljóst að fyrsti málsliður ákvæðisins á við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku.

 

Sérstök ástæða er til að taka fram að orðalagið „[h]ið sama gildir“ í upphafi annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vísar einvörðungu til viðurlaganna sem upp eru talin í fyrsta málslið ákvæðisins en ekki til þeirra huglægu skilyrða sem þar þurfa að vera uppfyllt. Þessi túlkun byggir meðal annars á því að greiðsla atvinnuleysisbóta er ekki ætluð þeim sem sinna störfum á vinnumarkaði og því teljast það svik í skilningi annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef atvinnuleitandi sinnir starfi á vinnumarkaði án þess að láta Vinnumálastofnun vita af því með þeim hætti sem kveðið er á um í 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Þessi skilningur er í samræmi við orðalag annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og fær einnig stoð í athugasemdum greinargerðar við 23. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 134/2009.

 

Hvort sem háttsemi fellur undir fyrsta eða annan málslið 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru viðurlög við bótasvikum ströng en þau fela í sér að atvinnuleitanda ber ekki að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Jafnframt ber atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna, sbr. lokamálslið 60. gr. laganna.

 

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi starfaði sem knattspyrnuþjálfari hjá B samhliða töku atvinnuleysisbóta. Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 18. júní 2012. Í umsókninni er þess ekki getið að kærandi starfi sem knattspyrnuþjálfari. Kærandi hefur greint frá því að hann hafi ekki vitað af skyldu sinni til að tilkynna um ólaunaða vinnu þar sem hann telji að það komi ekkert fram um þá skyldu hvorki í lögum um atvinnuleysistryggingar né á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Kærandi greinir frá því að hann hafi fyrst komist að þessari skyldu sinni 15. ágúst 2012 þegar hann fór á námskeið hjá Vinnumálastofnun. Að mati úrskurðarnefndarinnar getur kærandi ekki borið fyrir sig vankunnáttu í lögunum og víðtækar upplýsingar um stöðu atvinnuleitenda liggja fyrir, meðal annars á heimasíðu Vinnumálastofnunarinnar. Þar kemur skýrt fram að atvinnuleitanda ber að veita nákvæmar upplýsingar um hagi sína, meðal annars vegna tilfallandi tekna.

 

Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Þá er þeim sem telst tryggður skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar gert að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit.

 

Í 36. gr. laga um atvinnuleysisbætur er fjallað um frádrátt vegna tekna bótaþega, meðal annars vegna tilfallandi vinnu. Í 4. mgr. ákvæðisins segir að frítekjumark tekna sé 59.047 kr. á mánuði, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1219/2008 um breytingu á reglugerð nr. 548/2006, um fjárhæð atvinnuleysisbóta. Þessi ákvæði hafa engin áhrif á þær reglur er gilda um tilfallandi vinnu. Ekki er því unnt að túlka reglur um frítekjumark á þann veg að ekki þurfi að tilkynna um tilfallandi vinnu nema laun fyrir hana fari upp fyrir áðurnefnt frítekjumark.

 

Háttsemi kæranda hefur réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

 

Með vísan til ofangreinds, og þeirra röksemda sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, þá verður hún staðfest.

 


 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. ágúst 2012 í máli A þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

            Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum