Hoppa yfir valmynd
11. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 169/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 169/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 12. desember 2011, var kæranda, A, tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hann skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann hefði verið staðinn að því að starfa sem nuddari samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna um starfið til stofnunarinnar. Kæranda var jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 13. október til 19. nóvember 2011 að fjárhæð 108.625 kr. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 4. nóvember 2012. Þess er krafist af hálfu kæranda að að skuld hans við Vinnumálastofnun verði felld niður. Vinnumálastofnun telur að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og því beri að vísa málinu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 8. febrúar 2011. Með bréfi, dags. 18. nóvember 2011, óskaði Vinnumálastofnun eftir skýringum frá kæranda vegna vinnu hans sem nuddari samhliða því að hafa þegið atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt um starfið til stofnunarinnar. Þann 24. nóvember 2011 bárust Vinnumálastofnun skýringar frá kæranda þar sem hann greinir frá því að honum hafi verið ókunnugt um að óheimilt væri að stofna til atvinnurekstrar á atvinnuleysisbótum. Með bréfi, dags. 12. desember 2011, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hann skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 13. október til 19. nóvember 2011 að fjárhæð 108.625 kr. Þann 27. desember 2011 barst Vinnumálastofnun beiðni frá kæranda um endurupptöku á máli sínu. Með bréfi, dags. 18. janúar 2012, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun stofnunarinnar um að beiðni hans hefði verið synjað þar sem ekki var talið að ákvörðun stofnunarinnar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. desember 2011, hafi byggst á fullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Skuld kæranda við Vinnumálastofnun var enn ógreidd í október 2012 og með bréfi, dags. 24. október 2012, var kæranda veittur 90 daga frestur til að greiða skuldina að fjárhæð 108.627 kr. að meðtöldu 15% álagi, að öðrum kosti yrði mál hans sent til frekari innheimtu. Þá var kæranda með bréfi þessu gefið færi á að semja um tilhögun endurgreiðslu með því að hafa samband við Greiðslustofu Vinnumálastofnunar.

Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. nóvember 2012, greinir kærandi frá því að á meðan hann hafi verið á hálfum atvinnuleysisbótum hafi hann ákveðið að reyna að koma upp eigin rekstri. Í framhaldinu hafi Vinnumálastofnun ákveðið að svipta hann atvinnuleysisbótum og krefjast endurgreiðslu að fjárhæð 94.458 kr. ásamt álagi. Kærandi greinir frá því að verulegum fjármunum sé varið af almannafé til að styrkja fólk á atvinnuleysisbótum til að komast út á vinnumarkaðinn. Kærandi telur að það sé brot á jafnræðisreglu að hann sé sviptur bótum fyrir að reyna að koma á fót eigin rekstri með aðstoð ættmenna meðan aðrir atvinnuleitendur fá styrki til að komast í vinnu. Kærandi telur að mat hefði átt að leggja á það hvort hreinar tekjur hefðu orðið til í rekstrinum á tímabilinu og því sé ákvörðunin brot á meðalhófsreglu. Kærandi gerir að auki athugasemd við að Vinnumálastofnun hafi ekki svarað athugasemdum þeim sem hann sendi stofnuninni með tölvupóstum.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. janúar 2013, vísar stofnunin til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir.

Vinnumálastofnun greinir frá því að mál þetta varði í fyrsta lagi þá ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 12. desember 2011, þar sem kærandi skyldi sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Var kæranda einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Með bréfi, dags. 4. nóvember 2012, var ákvörðun Vinnumálastofnunar kærð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefndinni innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Með beiðni um endurupptöku, dags. 27. desember 2011, rauf kærandi kærufrest, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 18. janúar 2012, var kæranda tilkynnt um höfnun stofnunarinnar á að taka málið til meðferðar á ný og hélt kærufrestur áfram að líða frá þeim degi. Mat Vinnumálastofnunar er því að kærufrestur vegna ákvörðunar frá desember 2011 sé nú liðinn.

Í öðru lagi varði málið innheimtubréf stofnunarinnar, dags. 24. október 2012, þar sem stofnunin hafi ítrekað kröfu sína um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta. Var kæranda leiðbeint um að hafa samband við stofnunina til að greiða eða semja um greiðslu skuldarinnar en að öðrum kosti yrði mál hans sent til frekari innheimtu hjá Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi. Mat Vinnumálastofnunar er að ítrekun á innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði ekki talin til stjórnvaldsákvörðunar sem unnt sé að kæra. Efnisákvörðun í málinu hafi verið tekin í desember 2011. Að mati Vinnumálastofnunar verður ekki séð að ítrekun á innheimtu kunni að hafa áhrif á kærufrest til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar hafi þar af leiðandi verið sú að vísa beri kærunni frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. janúar 2013. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, var honum tilkynnt að afgreiðsla máls hans mundi tefjast vegna gríðarlegs málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.

 


 

 

2.
Niðurstaða

Stjórnsýslukæra skal berast úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæra telst nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra kæranda, dags. 4. nóvember 2012, barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 6. nóvember 2012. Ákvörðun Vinnumálastofnunar og krafa um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta var tilkynnt með bréfi, dags. 12. desember 2011. Með beiðni um endurupptöku, dags. 27. desember 2011, rauf kærandi kærufrest, sbr. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Vinnumálastofnun synjaði beiðni kæranda um endurupptöku og var sú ákvörðun tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 18. janúar 2012, og hélt kærufrestur áfram að líða frá þeim degi.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða bera gögn málsins með sér að kæranda hafi verið ljóst að hann hafi með bréfi, dags. 12. desember 2011, verið krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra bóta en hafi látið hjá líða að kæra þá endurkröfu til úrskurðarnefndarinnar þar til honum barst innheimtubréf Vinnumálastofnunar tæpu ári síðar, þann 24. október 2012.

Ekkert í gögnum máls þessa gefur til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufrestum og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.


 

Úrskurðarorð

Kæru A til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum