Hoppa yfir valmynd
3. september 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 190/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 190/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 9. október 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 8. október 2012 tekið ákvörðun um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur skv. c-lið 3. gr. og 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hann var í námi. Samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar var kæranda synjað um námssamning. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laganna telst hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., ekki tryggður á sama tíma og greiðslur atvinnuleysisbóta eiga sér stað enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 3. ágúst 2012. Á umsókn sinni tók kærandi fram að hann stundaði nám við Háskólann í Reykjavík og fyllti því einnig út eyðublað um staðfestingu vegna náms og merkti þar við að hann hefði ekki lokið námi við Háskólann í Reykjavík og að hann væri skráður í nám á næstu námsönn. Í kjölfarið sendi Vinnumálastofnun kæranda bréf, dags. 4. september 2012, þar sem óskað var eftir staðfestu skólavottorði þar sem meðal annars kæmi fram námshlutfall. Kærandi skilaði inn vottorði frá Háskólanum í Reykjavík þann 11. september 2012 þar sem fram kemur að hann sé skráður í 24 ECTS einingar á tímabilinu 16. ágúst til 31. desember 2012.

 


 

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 19. september 2012 og afgreiðslu umsóknar hans frestað þar sem hann væri skráður í nám við Háskólann í Reykjavík án þess að vera með námssamning við Vinnumálastofnun vegna þess. Var kæranda sent bréf, dags. 19. september 2012, þar sem honum var leiðbeint um að hafa samband við ráðgjafa Vinnumálastofnunar innan sjö virkra daga til að athuga hvort hann uppfyllti skilyrði um gerð námssamnings við stofnunina. Kærandi mætti þann 25. september 2012 á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að athuga með hugsanlegan námssamning. Þar sem kærandi stundar nám umfram 20 ECTS einingar var umsókn hans um námssamning hafnað, enda Vinnumálastofnun ekki heimilt samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar að gera námssamning umfram 20 ECTS einingar, sbr. 3. mgr. 52. gr. laganna. Var kæranda tilkynnt þetta með bréfi, dags. 25. september 2012.

 

Umsókn kæranda var í kjölfarið tekin fyrir á fundi Vinnumálastofnunar þann 8. október 2012 og var umsókn hans synjað þar sem hann var í námi og uppfyllti ekki skilyrði námssamnings. Var kæranda tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar með bréfi, dags. 9. október 2012.

 

Í kæru, dags. 18. desember 2012, greinir kærandi frá því að hann hafi hafið nám til meistaraprófs í verkefnastjórnun (MPM) við Háskólann í Reykjavík haustið 2011. Bendir kærandi á að námið sé sérsniðið fyrir og ætlað fólki á vinnumarkaði í fullu starfi. Þeir sem stunda námið séu enda nær allir í fullri vinnu. Það hafi einnig gilt um kæranda þegar hann hóf námið.

 

Námið sé ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN), þ.e. ekki sé unnt að fá framfærslulán á þeirri forsendu að námið sé sniðið að þeim sem stundi atvinnu samhliða náminu. Lánasjóðurinn veiti þó lán fyrir hluta námsgjalda sem séu nú samtals 2.420.000 kr. fyrir bæði námsárin. Hér sé því reiknað með því af hálfu LÍN, sem sé opinber lánasjóður og starfar samkvæmt lögum, að nemendur sjái sér farborða með atvinnu meðan á náminu standi.

 


 

Þegar kærandi hóf námið hafi hann verið í vinnu og þá allt fyrra námsárið. Sumarið 2012 hafi kærandi misst vinnuna og þá fyrst orðið atvinnuleitandi. Þá hóf kærandi strax að sækja um störf, enda með fulla starfsorku og starfsgetu, en því miður enn án árangurs.

 

Við þessar aðstæður hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur en verið synjað á þeim grundvelli að atvinnuleitendur væru ekki tryggðir á meðan þeir stunda nám og jafnframt að ákvæði 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar stæðu þar í vegi.

 

Kærandi telur sig uppfylla öll skilyrði 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um skilyrði fyrir atvinnuleysisbætur launamanna, þ.e. hann er atvinnulaus, búsettur og staddur á Íslandi, virkur í atvinnuleit, vinnufær, reiðubúinn að ráða sig til almennra starfa og hefur stundað að minnsta kosti 25% starf í þrjá mánuði á síðustu tólf mánuðum.

 

Jafnframt vísar kærandi til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og bendir á að ekki sé unnt að ráða annað af orðalagi lagagreinarinnar en að með samfelldu námi sé átt við hefðbundið nám sem sé stundað með þeim hætti að það komi í veg fyrir að full atvinna sé stunduð samhliða, ella væri það merkingarlaust í þessu samhengi. Gildi það til dæmis um hefðbundið háskólanám í öllum fögum þar sem kennsla fer fram að degi til alla virka daga vikunnar.

 

Eins og fram kom sé MPM námið beinlínis skipulagt þannig að fólk í fullu starfi geti sótt kennslustundir. Að vísu þurfi viðkomandi að taka út leyfi frá störfum tvo föstudaga í mánuði að jafnaði. Flestir semji um að taka það af áunnu orlofi. Þess megi geta að kærandi hafi mætt í nokkur starfsviðtöl og verið tjáð að námið og sú fjarvera sem hún krefjist muni ekki ráða úrslitum um ráðningu.

 

Ákvæði laganna um að námsmenn séu ekki tryggðir sé eðlilegt þegar hefðbundið háskólanám á í hlut og námsmenn eigi þess kost að afla sér framfærslueyris með lánum frá LÍN. Eins og komið hafi fram sé því ekki þannig varið með MPM námið. Það sé ekki lánshæft hjá LÍN einmitt vegna þess að gert sé ráð fyrir að þeir sem það stundi geti stundað atvinnu samhliða. Þegar af þeirri ástæðu komi ekki til álita að MPM námið sé þess eðlis að ástundun þess fyrirgeri rétti til atvinnuleysisbóta.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. janúar 2013, bendir stofnunin á að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði gildi þegar þeir verði atvinnulausir. Jafnframt bendir stofnunin á að í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna skilgreiningu á hugtakinu „námi“ sem og á 52. gr. laganna, en þar er mælt fyrir um nám. Samkvæmt lagagreinunum sé meginreglan sú að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta meðan þeir leggja stund á nám sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerð sem samþykkt sé af hálfu Vinnumálastofnunar, sbr. 52. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar. Í kæru sinni til úrskurðarnefndar hafi kærandi sett fram eldri útgáfu af 52. gr. laganna þar sem Vinnumálastofnun hafði rýmri heimildir til að gera námssamning en stofnunin hafi í dag, en 2. og 3. mgr. 52. gr. var breytt með 16. gr. laga nr. 134/2009 um breytingu meðal annars á lögum um atvinnuleysistryggingar. Sú lagabreyting hafi tekið gildi 1. janúar 2010.

 

Í 1. mgr. 52. gr. laganna sé mælt fyrir um þá meginreglu að hver sá sem stundi nám sé ekki tryggður samkvæmt lögunum meðan nám sé stundað. Mælt sé fyrir um undanþágur frá þessari meginreglu í 2. og 3. mgr. sömu greinar. Ljóst sé af skólavottorði kæranda að hann uppfyllti ekki skilyrði þessara tveggja málsgreina enda leggi hann stund á 24 ECTS einingar en Vinnumálastofnun sé að hámarki heimilt að samþykkja undanþágu fyrir námi upp að 20 ECTS einingum. Sú undanþága sé þó háð því meðal annars að námshlutfallið sé svo lágt að það sé ekki lánshæft hjá LÍN.

 

Í c-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um skilgreininguna á námi. Það sé skýrlega tekið fram að til náms samkvæmt lögunum teljist nám á háskólastigi. Líkt og kærandi hafi tekið fram í kæru sinni þá stundi hann nám til meistaraprófs í verkefnastjórnun (MPM), en um sé að ræða tveggja ára 90 ECTS eininga háskólanám. Jafnframt sé um að ræða samfellt nám til tveggja ára, enda fari kennsla fram aðra hverja viku á föstudegi og laugardegi og einn fimmtudag í mánuði. Af þessu sé ljóst að nám kæranda falli undir skilgreininguna á námi skv. c-lið 3. gr. laganna.

 

 

Það sé því mat Vinnumálastofnunar að reglur 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar um nám samhliða töku atvinnuleysisbóta eigi við í máli kæranda. Þar sem kærandi uppfylli ekki skilyrði undanþágureglna 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna, enda leggi kærandi stund á 24 ECTS eininga nám á haustönn 2012, þá eigi meginregla 1. mgr. 52. gr. laganna við í máli hans. Teljist því kærandi ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar á sama tímabili og hann stundi nám sitt.

 

Það að nám sé skipulagt sem nám með vinnu breyti ekki því að Vinnumálastofnun sé bundin af þeim reglum sem henni séu settar með lögum um atvinnuleysistryggingar. Í þeim lögum sé ekki mælt fyrir um nein frávik frá banni við að stunda nám samhliða töku atvinnuleysisbóta þegar námið sé svokallað „nám með vinnu“. Líkt og kærandi hafi tekið fram í kæru sinni sé námið hans ekki lánshæft hjá LÍN. Það stafi af því að skipulagi námsins sé þannig háttað að það sé 90 ECTS eininga nám sem standi yfir í tvö ár, en samkvæmt reglum LÍN sé einungis veitt lán fyrir nám sem skipulagt sé sem fullt nám, 60 ECTS einingar á skólaári eða að minnsta kosti 30 ECTS einingar á hverju misseri. Skipulag MPM náms, sem kærandi stundi, uppfylli ekki þetta skilyrði LÍN. Það að nám hans uppfylli ekki skilyrði LÍN geti þó ekki leitt til þess að Vinnumálastofnun geti farið út fyrir þær valdheimildir sem stofnuninni séu veittar í lögum um atvinnuleysistryggingar og veitt kæranda undanþágu frá meginreglu 1. mgr. 52. gr. laganna.

 

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum meðan hann var skráður í nám.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 23. janúar 2013. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða til kæranda, dags. 12. ágúst 2013, er honum tilkynnt að afgreiðsla máls hans muni tefjast vegna gríðarlegs málafjölda hjá úrskurðarnefndinni.

 

 


 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, með þeim breytingum sem gerðar voru á málsgreininni með 21. gr. laga nr. 37/2009, en hún er nú svohljóðandi:

Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Þá eru 2. og 3. mgr. sömu greinar svohljóðandi, sbr. 16. gr. laga nr. 134/2009, en þær veita undanþágu frá 1. mgr. 52. gr.:

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.


 

Þá segir í c-lið 3. gr. laga sömu laga:

Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 er meginregla laganna að sá sem stundar nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar telst ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins á sama tímabili enda teljist námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna. Ekki hefur verið gerður námssamningur við kæranda þar sem hann stundar nám umfram 20 ECTS einingar.

Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. á við um kæranda, þ.e. hann stundar nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna koma til skoðunar þegar nám er ekki lánshæft samkvæmt reglum um LÍN. Nám kæranda var 24 ECTS einingar og telst því ekki lánshæft samkvæmt reglum LÍN. Undanþáguheimildirnar koma því til skoðunar í máli hans. Í ljósi þess að kærandi stundaði 24 ECTS eininga nám fellur hann hvorki undir 2. né 3. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en undanþáguheimildirnar geta aðeins átt við ef nám er undir 20 ECTS einingum. Því ber að staðfesta niðurstöðu Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta.


 

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 8. október 2012 í máli A um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum